Barnapössunartæki

Það er vinsælt að setja upp hjá ungabörnum svokölluð barnapössunartæki eða ,,babysitter“. Þetta eru lítil senditæki sem senda radíóbylgjur til móttakara sem staddur er hjá foreldrum. Þá geta þeir heyrt ef barnið rumskar og kíkt á hann. Þetta tæki er eins og DECT síminn að senda radíóbylgjur frá sér og útvarpsbylgjusendirinn er oftast hafður rétt við höfuð barnsins! Sagnir eru á sveimi um það að þessi tæki geti truflað svefn barna og snýst þá virkni þess í einkennilega andhverfu. Ein móðir hafði samband við undirritaðan fyrir nokkru og sagði reynslu sína af slíku tæki. Þannig var að barnið hennar svaf illa á nóttunni. Hún fór eina helgi í sumarbústað og brá þá svo við að barnið svaf eins og engill.

Hún velti því fyrir sér hvað hefði verið öðruvísi hjá barninu í sumarbústaðnum. Fljótlega áttaði hún sig á því að hún hafði gleymt barnapíutækinu í sumarbústaðarferðinni. Hún greip því til þess ráðs að hætta notkun á barnapíutækinu. Og viti menn. Barnið svaf betur og eftir nokkra daga voru öll svefnvandamál úr sögunni. Saga þessi er sögð af móðurinni á vefslóðinni:  http://simnet.is/vgv/lesendasogur/barnapia.htm
Því má bæta við að fleiri hafa prófað þetta með góðum árangri. …………VGV

Þráðlausir innanhússímar sem vinna samkvæmt DECT staðli eru mjög vinsælir þessa dagana.
Þessir símar eru ótrúlega þægilegir og fyrirferðalitlir og gefa mjög skýran hljóm. Þeir eiga þó sínar skuggahliðar. Móðurstöðin er tengd við símalínu og sér síðan um þráðlaus samskipti við tólið. Stöðin er með innbyggðan útvarpssendi sem sendir stöðugt frá sér útvarpsbylgjur á tíðninni 1,9GHz eða á aðeins lægri tíðni en örbylgjuofnar. Þessi bylgja er send út í hryðjum sem endurtaka sig sennilega eitt hundrað þúsund sinnum á sekúndu. Þessar sendingar eru alltaf í gangi á meðan síminn hefur rafmagn. Það er algerlega óháð því hvort síminn er í notkun eða ekki. Íbúð sem hefur slíkan síma er því undirlögð af rafbylgjum og mælast þær glöggt hvar sem er í íbúðinni. Styrkurinn er ekki mikill en ef rafsegulöldur eru mældar nálæg slíkum síma þá mælast ansi há gildi eða nálægt 0,0024W á fermetra. Ef síminn er tekinn úr sambandi þá verða eftir þær útvarpsöldur sem berast inn á heimilið utanfrá. Þær gefa ekki nema brot af því afli sem er til staðar meðan síminn er virkur. Í einu tilfelli mældist útvarpsöldustyrkur falla niður í 0,00000038 W á fermetra.

Með öðrum orðum styrkur rafbylgna sem kom inn um glugga frá nálægum sendistöðvum var ekki nema einn sexþúsundasti af þeim styrk sem mældist þegar síminn var virkur. Um það leyti sem þetta kerfi var að fara á markað bárust viðvaranir frá áhugamönnum í Evrópu um að notkun á þessum símum gæti ýtt undir síþreytu, höfuðverk og vefjagigt. Útsending þessa síma er af sumum talin hættumikil vegna þess hve tíðnin er há, púlsandi sendingar og sendirinn er alltaf í gangi. Nú eru flestir háðir slíkum símum og ekki skrýtið því þetta er mjög þægilegt galdratæki eins og GSM síminn er. Hvað er þá hægt að gera til að minnka áreyti.

Jú, sennilega er heilladrýgst að hætta notkun slíkra síma og nota gamlan síma með snúru. Annar möguleiki er sá að slökkva á móðurstöðinni yfir nætur með t.d. rofafjöltengi en hafa einn gamlan snúrusíma einhverstaðar tengdan til öryggis. Það verður að teljast líklegt að við séum viðkvæmari á nóttunni fyrir geislun af þessu tagi og ef nóttinni er bjargað þá sé mikið gert. Tilraunir hjá nokkrum einstaklingum hafa sýnt að vöðvabólga og stífleiki í hálsi hvarf nánast á tveimur sólarhringum eftir að byrjað var að slökkva á sendistöðinni yfir nótt. Það sannar auðvitað ekkert en fyrir þá sem eru haldnir einhverjum ofangreindum einkennum væri reynandi að hætta notkun símans í um það bil viku tíma og sjá hvað gerist……..

Höfundur: Valdemar G. Valdemarsson skrifað árið 2004



Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

%d bloggers like this: