Bowen tækni, hvað er það?

Bowen tækni kom til Englands árið 1993 og er nú að verða vinsælasta grein óhefðbundinna lækninga þar í landi. Ótrúlegur árangur þess sýnir hvað meðferðin virkar vel. Tæknin sjálf lítur út fyrir að vera mjög einföld þegar horft er á meðferðaraðila gefa meðferð og sýnist hann gera mjög lítið, ef horft er á hendur hans. Fyrir marga meðferðaraðila sem eru vanir mikilli líkamlegri vinnu er þetta eins og ferskur vindur, vinnan er létt bæði fyrir hann og skjólstæðinginn. Meðferðin hefur engar frábendingar og getur verið notuð í neyðartilvikum.

Hægt er að vinna með lítil börn og aldraða eða frá vöggu til grafar eins og sumir kjósa að lýsa því. Tæknin er kennd við manninn sem fann hana upp, Thomas Bowen frá Geenlog í Suður -Ástralíu, hann hætti í skóla 14 ára gamall, til að fara að vinna svo fjölskyldan hefði nóg að bíta og brenna. Vann hann hina ýmsu verkamannavinnu, þar til að hann endaði í steypuskála einingarverksmiðju. Þar horfði hann upp á vinnufélaga sína þjást af álagsmeiðslum vegna vinnu sinnar. Fór hann því að fikra sig áfram til hjálpar þeim.

Árangurinn af þessu varð sá, að samverkamönnum hans leið mun betur og spurðist þetta út þannig að þegar Tom Bowen kom heim úr vinnu beið vanalega stór hópur fólks fyrir utan hjá honum til að fá hjálp við kvillum sínum. Í nokkur ár vann hann í fólki eftir venjulegan vinnudag og þá langt fram á kvöld. Fjöldinn óx og var orðin slíkur að hann varð að velja á milli vinnu sinnar í verksmiðjunni og að hjálpa fólki. Valið var auðvelt! Tom vann vanalega annan hvern laugardag í fötluðum börnum endurgjaldslaust til þess að reyna gera líf þeirra betra.

Einnig sem forfallin íþrótta áhugamaður hafði hann alltaf opið fyrir íþróttamenn bæjarins á leikdögum til að hjálpa þeim upp úr meiðslum. Um 1960 var hann með vinsælustu meðferðaraðilum í landinu meðhöndlaði á sinn hátt yfir 13000 sjúklinga á ári. Þótt ótrúlegt sé í sjálfu sér, þá er sagt að um 90 prósent af fólkinu hafi aðeins þurft eina til tvær meðferðir og er það enn ótrúlegri tölfræði. Þeir Bowen meðferðaraðilar sem mest hafa að gera í dag segja að meðaltali þurfi skjólstæðingar aðeins tvo til fjóra tíma. Meðferðin samanstendur af röð mjúkra hreyfinga sem gerð er með þumlum og fingrum yfir vöðva, sinar, liðbönd og húð.

Þrýstingurinn sem notaður er, er mjög lítill og er talað  um að hann sé eins og augasteinaþrýstingur, það er sá þrýstingur sem þú getur notað til að þrýsta á augað án þess að skapa sársauka eða skemmd á auga. Meðferðaraðilinn notar slaka húðarinnar til þess að ná bandvefnum, þrýstir og gerir svo rúllandi hreyfingu yfir svæðið, jafnvel þó að hreyfingin sé ekki hörð á vöðvann þá kveikir það á einskonar viðvörunarbjöllu í heila sem kemur af stað náttúrlegum viðbrögðum líkamans að laga það sem þarf. Það hafa verið miklar vangaveltur gegnum árin í sambandi við Bowen vinnu og það mun halda áfram að vera svo.

Ástæðan fyrir þessu er, að við höfum mjög takmarkaðan skilning á því hvernig heilinn vinnur og útkoman er sú að við vitum  ekki nákvæmlega hvernig kerfið okkar starfar. Svo eru þeir sem hafa ekki áhyggjur af því hvernig þetta vinnur svo framalega sem það vinnur. Bowen hreyfingarnar eru gerðar til að koma af stað truflun á boðskipti til heilans og koma eins konar lykkju á, þannig að boðin sendist til baka til líkamans aftur. Þetta er mjög náttúrulegt ferli til að trufla þessi sexhundruð þúsund boð sem heilinn sendir á hverri sekúndu.

Bowen meðferð truflar boð til heilans sem hann þarf að túlka, í því ferli túlkunarinnar  sendir heilinn blóð til taugaenda og á þau svæði sem hefur verið unnið á. Þá er heilinn að segja: Hvað er að gerast? Þegar ekki er gefið skynsamlegt svar þá reynir hann að finna fyrir höndunum á líkamanum.

Það er mjög algengt að skjólsstæðingurinn segi ,,mér fannst eins og hendur þínar væru enn á mér, eftir að þú fórst út úr herberginu.“ Eða ,,ég fann svona kitlandi tilfinningu eða hita á svæðinu“. Þetta er til marks um að líkaminn er að vakna, en sýnir líka aðra mikilvæga þætti innan Bowen. Eitt lykilatriði í Bowen tækni er að meðferðaraðilinn fer út úr herberginu á milli ákveðinna hreyfinga og aðgerða, til þess að leyfa vinnunni að verða áhrifaríkari. Vinnan eins mjúk og hún er verður að gefa heila og líkama tíma til að skoða hvað er að gerast og hvað þarf að gera til að ná fram breytingu.

Það að meðferðaraðilinn fer út úr herberginu leyfir því að gerast og heilunarferlinu að byrja, sem í raun vinnur í orku og líkamlegum breytingum hvers og eins. Hléin gera þannig meðferðina árangursríkari. Hver meðferðaraðili sem segist gera Bowen en hefur ekki þessi hlé inn í og fer út úr herb, er ekki Bowen. En stundum er það samt þannig að við sum skilyrði kemur meðferðaraðilinn til með að vera en ekki fara, það er undantekning.

Lykillinn að árangri Bowens var sá að það þarf lítið að gera til þess að fá líkamann til þess að laga sig sjálfur. Í dag er Bowen tækni notuð á hinum ýmsu stofnunum og endurhæfingardeildum sjúkrahúsa í Bretlandi. Hin ýmsu íþróttafélög hafa ráðið til sín Bowen tækna til að flýta fyrir bata hjá meiddum leikmönnum svo og sem fyrirbyggjandi meðferð gegn meiðslum, með mjög góðum árangri. Þegar Tom Bowen dó árið 1982, hefur hann varla ímyndað sér, að á næstu 20 árum yrði nafn hans og meðferð orðin þekkt fyrir árangur við að losa fólk við kvilla. Nafn verkamannsins er nú orðin stórt nafn í heimi heilbrigðisstétta því í dag er meðferð hans notuð á endurhæfingardeildum sjúkrahúsa og á meðferðarheimilum víðs vegar um heiminn. Sjúkraþjálfar, læknar og fleiri hafa tekið upp meðferð hans til að ná sem bestum árangri fyrir skjólstæðinga sína.

Hippocrates sagði: ,,Líkaminn læknar sig sjálfur, meðferðaraðilinn er aðeins verkfæri náttúrunnar til þess“. Það er það sem gert er með Bowen tækni og nú er hægt að læra þessa frábæru tækni á Íslandi.

Höfundur: Margeir Sigurðarson. Umboðsmaður European College of Bowen StudiesFlokkar:Kjörlækningar, Meðferðir

%d bloggers like this: