Ráð til að útrýma lesblindu

Hér fer á eftir grein eftir Axel Guðmundsson sérfræðing í Davis(r)kerfinu, árið 2003.

Hann er eini einstaklingurinn á Norðurlöndum sem hefur lært þetta enn sem komið er.(skrifað 2003) Markmið hans er að innleiða þessar aðferðir í almenna skólakerfið, sem hann telur að hægt sé með tiltölulega einföldum hætti. Sérstök útgáfa af Davis(r)kerfinu hefur verið notuð í sex ár í tveimur skólum í Kaliforníu þar sem námsörðugleikum hefur verið útrýmt. Þessir tveir skólar hafa skorið sig úr hvað varðar fjölda afburðanemenda, sem er í fullkomnu samræmi við kenningar Ron Davis upphafsmanns kerfisins. Ásamt náminu í Davis(r)kerfinu hefur Axel undanfarin 5 ár einnig lagt stund á mannúðar-sálþjálfun (humanistic psychotherapy) http://www.spectrumtherapy. co.ukvið Spectrum-stofnunina í London.

Ég kynntist Davis(r)-kerfinu í gegnum persónulega reynslu eins og svo margir þeirra sem leggja þetta fyrir sig. Eiginkona mín er lesblind og hún fór í gegnum Davis(r)-kerfið fyrir u.þ.b. 3 árum síðan. Það olli straumhvörfum í lífi hennar og hún bað mig að koma með sér á fyrirlestur þar sem Ron Davis útskýrði kerfið og hugmyndafræðina að baki. Hann lýsti einnig sínu eigin lífi sem lesblindur einstaklingur og ég varð strax hugfanginn af bæði kerfinu í heild og Ron Davis sjálfum. Sem barn var Ron Davis með einhverfu (Autism) á háu stigi, og lærði ekki fyllilega að tala fyrr en um tólf ára aldur. Hann er meðal örfárra eins taklinga í heiminum sem náð hafa að sigrast á þessu afbrigði einhverfu, sem í þá daga var kölluð Kanners- veiki. Nokkrum árum síðar uppgötvaðist að hann hafði afburða greind, og var mikill stærðfræðisnillingur. Það leiddi til þess að áður en hann náði tvítugsaldri, var hann ráðinn sem sérstakur stærðfræðikennari til virts verkfræðifyrirtækis.

Þrátt fyrir að hann kunni enn varla að lesa eða skrifa, kenndi hann þar hópi verkfræðinga sem voru að vinna að hönnun eldflaugahreyflanna fyrir bandarísku geimskutlurnar. Lesblinda hans var á mjög háu stigi, og hann átti jafnvel í miklum erfiðleikum með að lesa götunöfn og umferðaskilti. Það var ekki fyrr en hann var 38 ára árið 1980, að hann gerði þá grundvallaruppgötvun sem allt Davis(r)-kerfið er byggt á. Hann uppgötvaði hvernig hann gat slökkt á þeirri skynvillu (disorientation) sem fram að þessu hafði gert allan lestur og skrift að algjörri martröð.

Hann beið ekki boðanna heldur rauk út á bókasafn og las Ævintýraeyjuna spjaldanna á milli á einum degi. Þetta var fyrsta bókin sem hann hafði nokkru sinni lesið á ævinni og hann var sannfærður um að hann hefði fundið lykilinn að lesblindunni. Það liðu þó ekki nema nokkrir mánuðir áður en honum fór að hraka aftur.Það rann upp fyrir honum að hann hafði einungis leyst lítinn hluta af gátunni, en nú var hann ákveðinn í að finna varanlega lausn. Hann stofnaði The Reading Research Council og réð til sín fjölda sérfræðinga með það eitt markmið að finna lausn á lesblindugátunni. Og það leið ekki á löngu áður en lausnin var fundin og Davis(r)- kerfið leit dagsins ljós.

Ron skrifaði bókina The Gift of Dyslexia, þar sem hann lýsti kerfinu ítarlega í þeirri von að mæður lesblindra barna myndu lesa hana og leiða börn sín út úr lesblindu með því að fylgja kerfinu þrep fyrir þrep. Fjöldi lesblindra einstaklinga hafa náð bata með því að fara eftir bókinni einni saman, en fljótlega kom í ljós að mæður eru ekki endilega hentugustu kennarar barna sinna. Ýmsir tilfinninga þröskuldar geta verið til staðar milli náinna fjölskyldumeðlima sem geta valdið vandræðum við þessa vinnu. Þetta leiddi til þess að Ron fór að þjálfa fólk eins og mig til að bjóða upp á faglega hjálp til einstaklinga sem vilja sigrast á námsörðugleikum.

Hvað er lesblinda/ dyslexia?
Sérfræðingar eru ekki á eitt sáttir hvað þetta varðar. Þegar Ron Davis var að vaxa úr grasi trúðu menn því að lesblinda væri líkamlegur galli sem gerði það að verkum að viðkomandi hefði ekki hæfileika til að lesa og skrifa. Með öðrum orðum, viðkomandi hefði heilagalla sem gerði þá heimska. Síðar hafa verið ýmsar kenningar eins og að halda að þetta væri áunninn galli orsakaður af því að stökkva yfir ákveðið þroskastig sem barn; það að skríða. Þessar hugmyndir kviknuðu út frá því að oft stökkva lesblind börn beint í það að ganga, án þess að skríða fyrst.

Upp komu meðferðarlausnir sem byggðust á að láta lesblinda skríða til að tengjast þessu þroskaskeiði og þannig ganga í gegnum þann þroska sem vantaði. Þessar aðferðir skiluðu ekki miklum árangri. Menn hafa notað litaðar glærur til að reyna að lagfæra lesblindu með misjöfnum árangri, og tala um skort á ákveðnum fitusýrum (m.a. omega3) sem eru mikilvægar fyrir heilastarfsemina að lýsi væri þá góð lausn. Persónulega held ég að það geti hugsanlega hjálpað eitthvað, þótt ég hafi enga reynslu af því. Ron Davis hefur mjög skýra skoðun á því hvað lesblinda er, sem ég er sammála.

Við reyndar notum orðið „lesblinda“ yfir ýmsa námsörðugleika, sem við höfum komist að raun um að spretta öll af sömu rót. Lesblinda (dyslexia), reikniblinda (dyscalculia), ofvirkni (hyperactivity), athyglisbrestur (attention deficit disorder, ADD) og ákveðin hreyfi- og jafnvægisvandamál (dyspraxia) eru öll tilkomin vegna þess að viðkomandi hugsar í myndum. Og vegna þess að öll þessi einkenni eiga sömu orsök, má beita sömu lausninni á þau öll. Ron Davis hefur jafnvel þróað útgáfu af þessu kerfi til að lagfæra Asbergers heilkenni (væg einhverfa), þótt ég sjálfur hafi ekki reynslu af að beita kerfinu á einhverfu. Meginrökin sem ég sjálfur styðst við eru heilbrigð skynsemi og það sem Englendingar kalla ,,The proof is in the pudding“.

Allt Davis kerfið er byggt á þeirri hugmynd að orsök lesblindunnar liggi í þeirri einföldu staðreynd að viðkomandi einstaklingur hugsar í myndum (myndrænt) en ekki í orðum (orðrænt). Við beitum eingöngu þeirri hugmyndafræði og árangurinn skilar sér nánast undartekningarlaust. Eina skýringin sem ég get séð á þessum mikla árangri, er sú að hugmyndafræðin sé rétt.  Þú spyrð kannski hvernig það geti passað að myndræn hugsun geti orsakað lesblindu. Svarið sem Ron fann er einfalt, en ekki endilega auðvelt að útskýra. Ég skal gera mitt besta. Það er nokkuð viðtekin skoðun að fólk almennt hugsar annað hvort í myndum eða orðum og margir nota bland beggja. Þegar ég segi í myndum, meina ég í kyrrmyndum (eins og ljósmynd) og einnig í hreyfimyndum (eins og kvikmynd).

Þessi  myndræna hugsun er þeim mun fullkomnari, því meira sem hún er notuð. Þeir sem eru bestir í þessari hugsun (þeir lesblindu), upplifa hugsun sína nánast jafn sannfærandi og hlutveruleikann, í þrívídd, með hljóðum, lykt, snertiskyni og jafnvel bragði. Því meira sem þú notar þessa myndrænu hugsun, þeim mun minna notar þú orðræna hugsun. Nú, það gefur auga leið að ef þú notar orð lítið í þínu innra hugsanaferli, þá er orðaforði og leikni þín í að nota orð lakari heldur en hjá þeim sem hugsa mestmegnis í orðum. Þetta er alþekkt þegar menn nota framandi tungumál. Ef þú hugsar ekki á viðkomandi tungumáli þá munt þú alltaf birtast sem seinn í hugsun, vegna þess að þú þarft að mynda hverja hugsun úr þínu innra móðurmáli yfir í hið ytra framandi tungumál. Þessi stöðuga þýðing úr innra myndmáli yfir í ytra tungumál er einn flöturinn á lesblindunni, en ekki sá mikilvægasti.

Ekki vandamál fyrr en í skóla
Lesblindan verður ekki að vandamáli fyrr en komið er í skóla, vegna þess að myndræna hugsunin verður ekki til trafala fyrr en reynt er að nota hana til að ráða úr tvívíðum táknum, sem eingöngu eru rétt frá einu sjónarhorni. Þegar lesblindir fyrst kynnast stöfunum í stafrófinu, byrjar vandamálið venjulega. Sumir sérkennarar í Englandi hafa notað aðferð sem kallast Letterland. Þar er hverjum staf gefin mynd til að hjálpa lesblindum einstaklingi að leggja stafina á minnið. K hefur mynd af konungi,A hefur mynd af Önnu epli (Annie Apple) o. s. frv. þarna reyna menn að byggja á ákveðnum hluta hæfileika lesblindra, myndhugsuninni. Þetta getur orðið til þess að viðkomandi einstaklingur getur náð að leggja á minnið stafrófið, en hins vegar þegar þessi sami einstaklingur kemur til mín, er mitt fyrsta verk að hreinsa burt allar þessar myndir sem búið er að tengja við stafi stafrófsins.

Ástæðan er sú að þessar myndir verða til trafala þegar kemur til að nota stafina til að smíða orð sem hafa ekkert að gera með viðkomandi mynd. Ef ég sé orðið „afi“ og mynd af ,,Annie Apple“ kemur upp í hugann vegna þess að orðið byrjar á ,,a“, þá er Letterland lausnin orðin mér til trafala fremur en til hjálpar. Annie Apple veldur ruglingi frekar en að skýra orðið. Myndin af Annie Apple kemur hugsanlega einungis upp í hugann í sekúndubrot, svo snöggt að ég verð ekki meðvitað var við myndina, en það er nóg til að slá mig út af laginu og rugla mig.

Mikilvægasti flöturinn á lesblindunni er sú staðreynd að það eru ákveðin orð sem ekki hafa myndræna merkingu, og þar af leiðandi eru ónothæf á þessu innra myndmáli. Þessi orð kallar Ron Davis „trigger-words“ vegna þess að þau valda ruglingi hjá lesblindum, en ég hef kosið að kalla þau „ruglorð“. þessi orð valda ekki endilega vandræðum í töluðu máli, vegna þess að lesblindur einstaklingur þroskar með sér öflugan hæfileika til að lesa í aðra tjáningu og brúa þannig bilin sem rugl-orðin valda. Þetta verður einungis að vandamáli þegar kemur að einhverju eins og lestri, skrift og stærðfræði.

Þar hefur myndræni hugsuðurinn ekki við neitt að styðjast nema flöt tákn á blaði. Ef hann skilur ekki rugl-orð sem hann les, þá er hann í vandræðum. Lesblindir hafa oft komið sér upp ýmsum sniðugum lausnum á þessu vandamáli, eins og til dæmis að hoppa yfir myndlausu orðin og giska þess í stað á samhengi myndrænu orðanna. Þetta gengur upp að vissu marki, en auðvitað verður lesskilningur með þessum hætti ekki upp á marga fiska. Þessi myndlausu orð eru þau algengustu sem við notum. Meira en helmingur orða í flestum setningum eru  myndlaus. Hvað meina ég með myndlausum rugl-orðum? Öll orð samanstanda af eftirtöldum 3 þáttum:

1. Hvernig orðið hljómar.
2. Hvernig það lítur út á blaði.
3. Hvað það merkir.

Hljóð orðsins eða útlit þess dugar þeim sem hugsa í orðum, til að geta lesið og skrifað það án vandræða og með fullum skilningi. Þeir hugsa á sama tungumáli og þeir tala, þannig að það þarf enga þýðingu yfir á myndmál í þeirra hugsanaferli. Myndrænn hugsuður hins vegar, getur ekki hugsað með útliti eða jafnvel hljóði orða. Hann verður að hafa merkinguna – og hana sem mynd. Nafnorð til dæmis valda yfirleitt ekki neinum vandamálum hvað þetta snertir, vegna þess að merking þeirra er oftast myndræn. Flestir sem hugsa um merkingu nafnorðsins ,,hús“ sjá fyrir sér mynd af byggingu með þaki, veggjum, gluggum og dyrum. Og ef þú flettir þessu orði upp í orðabók, getur þú séð að þessi mynd er nákvæmlega skýringin á þessu orði.

Merkingin er myndræn. Þannig getum við rennt í gegnum fjölda nafnorða og séð að merking þeirra á sér nánast alltaf hliðstæðu í mynd. Annað er uppi á teningnum ef ég bið þig td. Að hugsa um merkingu orðsins „um“. Þótt örfáir einstaklingar hafi mynd fyrir merkingu orðsins „um“, þá er það mjög sjaldgæft. Þetta skapar ekki vandamál fyrir orðræna hugsuði, en þeir sem hugsa í myndum eru sem snöggvast ráðþrota. Ómeðvitað grípa þeir til þess úrræðis sem í hlutveruleikanum hefur reynst þeim best, en það er að „velta orðinu fyrir sér“ í huganum. Þetta gera myndhugsuðir í orðsins fyllstu merkingu.

Ef þú hefur hlut í höndunum sem þú skilur ekki til hvers er, getur það hjálpað mikið að velta hlutnum til, að skoða hann frá öðru sjónarhorni. Þetta úrræði hjálpar hins vegar ekki þegar úrlausnarefnið er tvívítt tákn eins og bókstafur eða orð. „um“ verður að „mu“ ef þú horfir á það aftan frá. Þetta leiðir til þess að sú náttúrulega úrlausnaraðferð sem gerir lesblinda oft að afburða hönnuðum, hugmyndasmiðum og jafnvel rithöfundum, það að geta séð hluti (og hugmyndir) frá mismunandi sjónarhornum, verður nú skyndilega fjötur um fót. Lausnin er jafn einföld og vandamálið: Við þurfum að þýða orðið í eitt skipti fyrir öll yfir í myndmál.

Það dugar því miður ekki að gefa viðkomandi einfaldlega myndræna orðabók, heldur verður lesblindur einstaklingur að öðlast tæran skilning á merkingu viðkomandi orðs og síðan búa til (með leir) sína eigin mynd fyrir það, sem endurspeglar þann skilning. Orðið „um“ hefur til að mynda fjölda mismunandi skýringa, en þær eru þó flestar nægilega skyldar hver annarri til að  skýr skilningur á einni þeirra dugi til að brúa bilið frá orðinu ,,um“ yfir í myndhugsun. Ein merkingin er ,,allan hringinn í kring“ samanber ,,ég hef belti um mig miðjan“. Mynd fyrir þetta gæti verið maður með belti um sig miðjan. Þetta gæti verið myndin fyrir merkingu orðsins ,,um“.

Þegar viðkomandi hefur skapað raunverulega leirmynd af merkingu orðsins, ásamt útliti orðsins í leir, gerir hann örstutta æfingu sem tengir saman og rótfestir útlit, hljóð og merkingu orðsins í huga sér. Þegar þessu er lokið veldur orðið „um“ viðkomandi ekki vandræðum framar. Þessi myndlausu orð eru 219 í Ensku og ég er enn að vinna að fullmótun íslensks lista yfir myndlaus orð. Þau eru eitthvað fleiri, ásamt því að við höfum margfalt fleiri orðmyndir (útgáfur) af hverju orði í íslensku heldur en í ensku.

Ráðþrota með merkimiða
Allir þeir sem ég hef unnið með, koma til mín meira og minna ráðþrota, með ýmsa merkimiða í vasanum: leti, ábyrgðarleysi, heimska, eða sérhlífni. Það er svo venjulega á þriðja degi með mér, sem allt í einu rennur upp fyrir þeim ný heildarmynd sem skýrir alla þeirra erfiðleika og viðbrögð þeirra við þeim. Ef viðkomandi er barn, þá er þetta einfaldlega enn ein nýjungin í þeirra lífi og þau hafa nú lært eitthvað nýtt og spennandi sem þau tileinka sér upp frá því. Ef hins vegar viðkomandi er fullorðinn, þá fylgja venjulega ýmsar tilfinningar þessari uppgötvun. Biturð og reiði: ,,Ef þetta er svona einfalt, hvers vegna þurfti ég að ganga í gegnum alla þá bitru reynslu sem þetta hefur valdið mér?“ Sorg:

,,Ef aðeins ég hefði vitað þetta sem barn, hefði líf mitt verið mjög ólíkt.“ Gleði:,,“Ég þarf ekki að ströggla við þetta lengur!“ Og í sumum tilfellum eldmóður: „Ég vil gefa sem flestum þessa gjöf sem mér hefur verið gefin, gjöf skilnings á sjálfum mér og endurreistrar sjálfsvirðingar.“ Þetta hefur verið drifkrafturinn hjá flestum sem hafa lagt þetta fyrir sig eins og ég. Flestir sem starfa við þetta hafa svipaða sögu að segja og ég; þeir sjálfir eða einhver þeim nákominn hefur upplifað tímamót í sínu lífi eftir að hafa gengið í gegnum Davis kerfi og það fyllti þá eldmóði.

Kennsla kerfisins tekur alla jafna 36 klst. sem oftast er dreift yfir 6 daga. Þetta er einstaklingsvinna 5 daga í einni lotu, 6 klst. hvern dag og svo sjötta daginn einhverjum mánuðum síðar til að sjá hvernig gengur og skerpa á því sem þarf. Fyrsta skrefið er venjulega um 2 klst. viðtalskönnun, áður en viðkomandi skuldbindur sig í allt kerfið. Þar er ekki verið að kanna hvort viðkomandi sé lesblindur, heldur er einfaldlega verið að kanna hvort viðkomandi geti og muni nýta sér Davis kerfið. Við athugum hvort viðkomandi hugsi í myndum, og hvort raunverulegur verkvilji sé fyrir hendi. Þetta er mikilvægt vegna þess að eftir að þessari fyrstu viku lýkur, þarf viðkomandi að klára dæmið á eigin spýtur með vinnu sem tekur allt að 80 klst. þeirri vinnu má dreifa yfir allt að einu ári.

Ég gef þeim í hendur vopnin og þjálfunina til að sigrast á lesblindunni, en þeir verða sjálfir að fylgja þessu eftir og nota vopnin til að varanlegur árangur náist. Í þessari viðtali erum við einnig að kanna hvort líklegt sé að gott samstarf náist á milli mín og viðkomandi. Vil ég vinna með honum/henni og vill hann/hún vinna með mér. Á Íslandi hefur þegar farið í gang vinnuhópur þeirra sem gengið hafa í gegnum kerfið með mér, þeir hittast vikulega og fylgja því eftir. Í bígerð er eftirfarandi: Síðan ég kom aftur til London daginn eftir fyrirlesturinn góða í Ármúlaskóla, hef ég unnið baki brotnu að því að finna úrlausnir fyrir alla þá Íslendinga sem lýst hafa áhuga á Davis kerfinu. Íslenskir Davis-leiðbeinendur verða ekki tilbúnir í að taka á móti lesblindum fyrr en í haust í litlum mæli og síðan af fullum krafti einhvern tíma á næsta ári.Flokkar:Fjölskylda og börn, Greinar

%d bloggers like this: