Í gegnum tíðina hafa mismunandi meðferðaraðilar með góða þekkingu á notkun og virkni blómadropa hjálpað mörgum með því að velja tegundir og blöndur eftir þörfum hvers einstaklings. Ástæða þess að notkun blómadropa á Íslandi hefur orðið svo almenn á síðustu árum er án efa sívaxandi áhugi á sjálfshjálp með aðferðum sem byggja upp og bæta án þess að skaða. Auk þess er auðvelt að nálgast dropana í heilsubúðum og apótekum. En það eru ekki bara við mannfólkið sem ættum að njóta góðs af.
Þeir sem til þekkja gera sér grein fyrir að dýr eru einnig mjög móttækileg og það sést best í því hvað áhrifin eru skjót og greinileg. Mismunandi aðstæður geta valdið því að dýr fara úr jafnvægi. Eigendur greina ójafnvægi og vanlíðan í breyttri hegðun og líkamstjáningu. Við slíkar aðstæður virka blómadropar mjög vel og það dregur úr öllum vafa um bætandi áhrif þeirra þar sem dýrin vita ekki við hvaða viðbrögðum eða verkun á að búast.
En hvað eru blómadropar?
Á þriðja áratug síðustu aldar þróaði breski læknirinn og hómópatinn Edward Bach 38 mismunandi tegundir dropa sem unnir voru að mestu úr blómum. Tilgangur þeirra var að leiðrétta ójafnvægi huga og tilfinninga og stuðla þannig að bættri heilsu. Bach vann dropana samkvæmt eigin framleiðsluaðferð og náði þannig fram þeirri einstöku tíðni og útgeislunarorku sem leitast er við að ná enn í dag.
Geta dýr fengið hjálp?
Droparnir voru upphaflega einungis ætlaðir okkur mannfólkinu, en þeir hafa einnig reynst mjög vel við að hjálpa dýrum úti í náttúrunni og heimilisdýrum. Droparnir eru valdir eftir persónuleika eða neikvæðum tilfinningum sem upp koma hverju sinni. Þar má nefna dropa gegn myrkfælni,dropa sem hjálpa til við að aðlagast breyttum ytri aðstæðum eins og flutningum, dropa sem létta tímabundið þunglyndi, dropa sem auka sjálfstraust o.s.frv.
Til að meðhöndla ákveðið ástand þarf að nota dropana í tvær til þrjár vikur. Mest notuðu Bachdroparnir í dag eru s.k. batadropar (rescue remedy, recovery remedy). Þeir eru blanda fimm mismunandi blómadropa og eru notaðir í bráðatilvikum. Þeir reynast vel ef dýr hefur orðið fyrir slysi, í kjölfar aðgerðar, við streitu ýmiskonar, hræðslu o.s.frv. Hundar sem eru hræddir við sprengingar í kringum áramót líður mikið betur þegar þeim eru gefnir reglulega nokkrir dropa meðan á látunum stendur. Þá eru ótal dæmi um að villt dýr sem orðið hafa fyrir meiðslum ná sér ótrúlega fljótt þegar þeim eru gefnir batadropar.
Geta blómadropar skaðað?
Blómadropum fylgja engar aukaverkanir og þeir hafa ekki áhrif á lyfjatöku. Þeir eru auk þess auðveldir í notkun og við getum sjálf valið þá tegund sem við teljum við hæfi hverju sinni. Hafa ber alltaf í huga að það er mikilvægt að haft sé samband við dýralækni ef einhver óvissa ríkir um ástand dýrsins.
Hvernig á að taka dropana?
Auðveldasta leiðin er að setja nokkra dropa í drykkjarílátið eða nudda þeim bak við eyrun.Mælt er með tveim dropum í senn handa litlum hundi eða ketti, sex dropum fyrir stærri hund eðahest.
Aðrir blómadropar
En Bachdroparnir eru ekki einu blómadroparnir sem eru framleiddir í dag. Þeir eru hinsvegar langútbreiddastir og er ástæðan án efa sú að þeir hafa verið notaðir við góðan orðstýr áratugum saman. Mikið af heimildum um þekkingu og reynslu á notkun þeirra og virkni finnst víðsvegar bæði á prenti og á netinu. Í dag eru allavega þrjú fyrirtæki í Bretlandi sem framleiða dropa eftir uppskriftum Bach. Aðrir vel þekktir dropar eru áströlsku Bushdroparnir. Þeir eru framleiddir úr áströlskum jurtum og stuðst við mörghundruð ára gamla hefð frumbyggjanna.
Þeir dropar sem okkur á Íslandi standa kannski næst eru Blómadropar Kristbjargar. Þeir eru að mestu unnir úr íslenskum jurtum en einstaka jurtir eru erlendar að uppruna en lífrænt ræktaðar hér á landi. 1. Bach Flower Essences for the Family. London. Wigmore Publications Ltd. 1993 2. Hyne Jones, T.W. Dictionary of the Bach Flower Remedies. Cambridge. Book Production Consultants plc. 1995 3. http://www.animalsnaturally.com/bachflower.html 4. http://www.nelsonbach.com/BFE_for_pets.html5. Kristbjörg Kristmundsdóttir. Bæklingur sem fylgir Vitund I Íslenskir blómadropar Kristbjargar
Höfundur: Oddný Óskarsdóttir grein frá árinu 2003
Flokkar:Greinar og viðtöl