Heilsupólitík

Þó að nú sem endranær megi benda á nokkrar nýjar annars konar eða ,,framhjámarkaðs“ meðferðir til þess að lækna einn og annan krankleika eða aðferðir til þess að halda heilsunni í lagi þá sýnist mér í ljósi síðustu þróunar heilsumála á Evrópusvæðinu, ekki síður nauðsynlegt að beina kastljósinu að öðrum þætti heilsumála, þ.e. að þeim nýju samfélagslegu áherslum, sem eru nú að koma hægt og sígandi í ljós. Þær birtast hver af annarri á þessum sama veigamikla vettvangi sem snertir okkur öll, þó að við sjáum þar oft ekki trén fyrir skóginum. Það er að segja á vettvangi almennrar heilsu eða heilsuleysis.

Evrópsk heilsa eða heilsuleysi
Heilsa eða heilsuleysi snerta okkur auðvitað öll, þó við berum oft ekki gæfu til þess að meta þessa tvo póla nánar fyrr en við tilheyrum sjálf „heilsuleysis“ hópnum. Sem betur fer er hinn hópurinn stærri, en að sama skapi illa upplýstur um þessi mál öll og baksvið þeirra. Þess vegna er Heilsuhringurinn með sitt samnefnda blað sá nauðsynlegi vettvangur sem við getum staðfest, því fátt eitt er birt um raunveruleika heilsumála í fjölmiðlum hér, en því meira um misvel grundaðar upphrópanir á sama sviði. Það hefur áreiðanlega ekki farið framhjá neinum, að á þessu sumri urðu söguleg tímamót í samskiptum þingmanna Evrópuþingsins og utanaðkomandi lobbyista alþjóðlegra risafyrirtækja og það á kostnað 250 milljóna Evrópskra borgara.

Evrópuþingið samþykkti sem sé veigamiklar takmarkanir á markaðsmeðferð fæðubótaefna. Þessar samþykktir taka gildi eftir tvö ár eða svo, en það er í samræmi við heimspeki valdsaðila heimsmarkaðsins að allar þær vondu breytingar sem þarf að gera vegna eðlis þessa nýja lénsvalds – en þær fela um leið í sér takmarkanir á frelsi almennings verði að opinberast hægt og hægt. Og þannig megi kæfa uppsteit almennings gegn þeim í fæðingu. Nánar vinnur þetta nýja pólitíska lénsvalds okkar heims ekki í krafti lýðræðis og atkvæða borgaranna til að bæta samfélag manna, heldur í krafti fjármagns til að auka eigið fjármagn.

Lagabreytingarnar eru kynntar sem nauðsynleg samræming Evrópuríkjanna sem feli um leið í sér meira öryggi í framleiðslu fæðubótaefna fyrir neytendur. Þær fjalla m.a. um „klínískar rannsóknir“ á öllum fæðubótaefnum sem eru nú á markaðnum og strangari kröfur um hámarksinntöku þeirra. Það fyrra þýðir að öll venjuleg framleiðslufyrirtæki fæðubótarefna verða að loka eða selja fyrirtækin til lénsherranna, því greiða þarf rannsóknargjald sem getur numið allt að 10 milljónum króna fyrir hvert fæðubótaefni sem hvert fyrirtæki vill framleiða. Hið seinna þýðir svo að tollgæsla og lögregla allra Evrópulanda verður á höttunum eftir utanaðkomandi fæðubótareiningum sem fara yfir þessi hámarksinntökumörk.

Fyrsta beina markaðsafleiðingin af þessum lögum verður án efa að lyfjarisarnir eru fljótlega orðnir einráðir á Evrópusvæðinu um alla framleiðslu á fæðubótarefnum. Og endaþótt ekki sé unnt að fá einkaleyfi á fæðubótarefnum, þá má fá einkaleyfi á blöndu af fæðubótarefnum og lyfjum. Og þetta er greinilega það sem stefnt er að, því þessi nýju lög, sem gætu alveg eins verið skrifuð beint af samtökum iðnaðarframleiðslurisanna í Evrópu, opna um leið fyrir sölu á svokölluðum ,,vita-foods“ eða vítafæðu, sem er þekkilegra nafn á nýja hugtakinu ,,nutraceuticals“, orði samsettu úr ,,pharmaceuti- cals“ eða lyfjum og ,,nutritionals“ eða fæðu.

Sem sagt ,,lyfjafæða“ er það sem nú skal koma ofan í okkur, venjulega borgara, með aðstoð vísindastimpilsins. Þessi kerfisbreyting sem er þannig matreidd sem hrein samræmingaraðgerð og öryggiseftirlit fyrir Evrópulöndin, er í raun hrein markaðstæknileg yfirtaka á fæðubótarmarkaðnum, en hann nemur, sem kunnugt er, hundruðum milljarða dollara árlega á heimsgrundvelli. Ameríkaninn segir: „If you can´t fight them, join them“ – en hér er að eiga sér stað ný útfærsla á sama málshætti : ,,If you can´t fight them, find a way to take them over.“

Viðvörunarbjöllur
Það eitt að á þennan hátt er ákveðið að hafa vit fyrir almenningi af hópi hagsmunaðila, sem er samblanda af fulltrúum leigu-vísindanna og markaðsaflanna, í orði kveðnu svo að „vesalingurinn ég“ fari sér hugsanlega ekki að voða, nægir til þess að hringja viðvörunarbjöllum hjá öllum skynsamlega þenkjandi fólki. Því öllum er það vitaskuld ljóst, að á sama tíma og ekki liggja fyrir neinar vísindaniðurstöður eða neinar aðrar fréttir að líkamlegri skaðsemi af völdum fæðubótarefna, heldur bendir þvert á móti flestallt nýtt sem rannsakað er nú á sviði fæðubótaefna, til þess að inntaka þeirra sé hluti af varnarbaráttu okkar gegn sjúkdómum.

Á sama tíma er hreinn og klár dauði fólks vegna aukaverkana sem fylgir inntöku á lyfjum og röng lyfjainntaka, þ.e. framleiðsla lyfjarisanna á markaðnum, nú í sjötta sæti sem dauðaorsök í vestræna heiminum.Ef hagsmunir almennings væri raunverulega undirstaðan undir þessum nýsamþykktu lögum, væri vitaskuld sömuleiðis full ástæða fyrir Evrópuþingið að setja ný lög til þess að takmarka af fullum þunga framleiðslu á lyfjum með aukaverkunum af þessu eða öðru tagi. Eða gegn lyfjum sem geta drepið manneskjur. En það er vitaskuld ekki á dagskránni. Hversu margir þurfa að deyja áður? Og hver er skynsemin á bak við þetta?

Hagsmunaárekstur
Jú, svarið felst í raun í þeim sláandi hagsmunaárekstri sem er á milli tekjuöflunar lyfjaframleiðslurisanna á heimsmarkaðnum og svo heilsuástandi almennings. Þetta er einfalt  reikningsdæmi: Því betra sem heilsuástand almennings er, því minna þéna lyfjarisarnir. Og á hinn veginn, því verra sem heilsuástand almennings er, þeim mun meira þéna þeir. Hagsmunir lyfjarisanna felast því óumdeilanlega í því að vinna gegn öllu því, sem er ekki þeirra eigin framleiðsla, en stuðlar samt að betri heilsu almennings eins og á við um fæðubótarefnin. Það að fæðubótarefni gefa ekki af sér samskonar ofsagróða og lyf, m.a. vegna þess að ekki er hægt að fá einkaleyfi á þeim, má greinilega komast framhjá með óprúttunum aðferðum. Fyrir þá sem ekkert þekkja til þessara mála væri þá næsta spurningin þessi: Vinna þessir aðilar Evrópsks framleiðsluiðnaðar eins og t.d. lobbyistagrúppan ERT (European Roundtable of Industrialists) virkilega gegn fæðubótarefnum?

Samtryggingarkerfi
Nú er það svo að í vestræna heimshlutanum hefur verið byggt upp samtryggingarkerfi í heilsumálum í nær hundrað ár. Ríkiseiningarnar hafa tekið á sig að veita hluta af sköttunum, greiddum af almenningi, til læknisþjónustu sömu, þ.e. hinir mörgu heilbrigðu greiða niður kostnað hinna fáu sjúku. Sá hluti þessarar risaupphæðar, sem vex hvað hraðast nú er einmitt lyfjakostnaðurinn. Því í reynd virkar kerfið þannig að skömmtunaraðilar lyfjanna til almennings með vísindastimpilinn, læknarnir, eru stundum allof duglegir við að útdeila „gæðunum“ til viðskiptavina sinna. Hvort sem það er af vanþekkingu eða græðgi. Þetta sjálfvirka skömmtunarkerfi vestrænna ríkja með vísindayfirbragð á sér, skapar lyfjarisunum aðaltekjulind sína, en vegna veika hlekksins í því er það um leið að sprengja þessa samtryggingarhugmynd okkar.

Það hefur m.a. leitt til þeirra viðbragða, að nokkur vestræn lönd eins og t.d. Danmörk og Þýskaland hafa nú um stund sett undir þann leka. Ný lög í þessum löndum segja einfaldlega, að það séu aðeins ódýrustu lyfin á markaðnum með sömu virkni og dýra „merkjavaran“, sem læknarnir skrifa þar – oft á tíðum vegna eigin hagsmuna – sem lyfjaverslanirnar geta nú selt viðskiptavinunum. Hafi almenningur hins vegar fundið leiðir utanvert við alla ríkisaðstoð, þrátt fyrir þetta samtryggingarkerfi, til þess að viðhalda heilsu sinni á eigin spýtur, t.d. með fæðubótarefnum, þá ætti ríkisvaldið allri skynsemi samkvæmt að vera fullsátt. Því ekkert er betra fyrir ríki en að hafa innan vébanda sinna þegna með eigin frumkvæði og framkvæmdasemi. En því miður er skynsemi ekki lengur besti kosturinn þegar óþægilegur þrýstingur fjárhagslegra hagsmuna er annars vegar.

Kosnir fulltrúar ríkisvaldsins
Sá tími er löngu liðinn að kosnir fulltrúar ríkisvalds, hvar sem er í heiminum, geti haldið í skefjum ásókn peningavaldsins eða heimsfyrirtækja yfir á þeirra áhrifasvið. Viðkvæmasti snertipunkturinn milli slíkra er sá að það kostar mikla peninga fyrir verðandi ríkisfulltrúa að standa í framboði í nútímanum, eins og hver maður skilur. Er það sanngjarnt, spyrja gjarnan slíkir, að greiða þá blóðpeninga úr eigin vasa, þegar maður vill eingöngu vinna að hagsmunum almennings og fórna sér fyrir eigin þjóð? Á hitt er að líta að heimsfyrirtækin eru nú tilbúin með peningana í lausri mynt og án kvittana, útdeildum í formi ,,lobbyista“, sem ekki er lengur þverfótað fyrir.

Þess vegna er nú orðnar til tvær gerðir af kosnum fulltrúum ríkisvaldsins: Þeir gamaldags og heiðarlegu og svo hinir sem eru varanlega á valdi utanaðkomandi fjármagns. En auðvitað á þessi sorglega lýsing á daglegu lífi stjórnmálafólks, fremur við um önnur lönd en okkar ,,litla land“ eða er ekki svo? Enginn vill benda á óheiðarleika kolleganna á þeim bæ, svo það þarf e.t.v. fleiri  starfsmenn byggingarvöruverslana til þess arna? En hér gildir einnig að allir í hópnum verða dæmdir eftir verstu tilfellunum, ef enginn innri þrýstingur á sér stað í átt að hreinsun. Í þessu samhengi er þó vert að athuga tvennt:

Í dag er það heimsþróunin sem á sér stað undir titlinum ,,globalisation“ sem setur alla stjórnmálamenn jafnt í þá stöðu að þurfa að standast freistingar af þessu tagi. Og hvað snertir sérstöðu Íslands þá má alveg nefna það, að sérlega málglaður fulltrúi japanska verslunarráðsins í Tokyo hefur fullyrt, að á ,,þjóðlanda-mútulista“ þeirra, þ.e. þar sem um er að ræða þær prósentur sem leggja þarf þar í landi ofaná grunnkostnað hvers konar verkefna sem japönsk fyrirtæki bjóða í, t.d. togarasmíði, þegar gengið er frá tilboðum, þá er Ísland í þriðja sæti hvað snertir háar prósentur. Og annað landanna fyrir ofan ,,okkar menn“ er Tyrkland. Tilboð japanska fyrirtækisins um smíði togarans er þá þannig útbúið, að það fær fulla greiðslu, sem er segjum 90% umsamins verðs, en afgangurinn, t.d. 300 milljónir krónur, eru lagðar á erlendan  bankareikning sem íslenskur lykilmaður í samningunum hefur einn aðgang að. Svo einfalt er það.

Þingmenn blekktir?
En hvers vegna fór svo að Evrópuþingið samþykkti þessi lög í sumar? Þó nokkrir þingmenn þar tala nú um það, að þeir hafi verið blekktir til þess arna. Á bak við þessa aðgerð stóð mikill þrýstihópur ,,lobbyista“, sem vann markvisst á vegum samtaka ýmissa heimsfyrirtækja. ERT hefur verið nefnt, UNICE (Union of Industrial and Employers Confederations of Europe) er önnur ,,lobbyistagrúppa“ með aðganga af fagþekkingu þúsund vísindamanna á öllum sviðum akademískara vísinda. Nú um stundir er það einn meginfylgikvilli alþjóðlegra stofnana, alþjóðlegra viðskiptasamninga og samruna ríkja í viðskiptaheildir eins og Evrópusambandið, að þar með eiga alþjóðlegu risafyrirtækin hægara um vik með að beita beinum persónulegum áhrifum sínum:

Í fyrsta lagi er auðveldar að ná árangri með „viðskiptum“ við samsafnað vald, hvað sem það svo sem kostar. Í öðru lagi eru viðkomandi þingmenn/ fulltrúar ekki kosnir af almenningi og geta þess vegna heldur ekki verið felldir í kosningum af sömu. Í þriðja lagi er atburðarásin það langt frá almenningi að hann veit ekkert um það sem er að gerast. Og að síðustu eru fjölmiðlar hvort eð er þannig samsettir, að þeir hafa tilhneigingu til þess að álykta sem svo, að úr því að Evrópuþingið setti þessi lög og úr því að vísindastimpill er á málinu, hlýtur eitthvað réttmætt að vera á bak við það. Sem er auðvitað hreinn misskilningur.

Nauðsynleg lagasetning
Að þessu gefnu, getum við dregið þá augljósu ályktun, að ef það þurfi yfirleitt að setja ný lög gegn válegri þróun á kostnað heilsu og heilla almennings, þá eru það lög gegn þessari þróun á misbeytingu valds sem hér er lýst, þ.e. gegn því að alþjóðleg risafyrirtæki geti þannig keypt sér leið fyrir hagsmuni sína á kostnað almennings. En hver trúir að slík ævintýri gerist? Við sem munum nokkur ár til baka þekkjum vel þau nýju lög um markaðstakmörkun fæðubótarefna, sem íslenska ríkið samþykkti þá. En það hét reyndar þá að það væri gert til samræmis við Evrópusvæðið. Nýju lögin frá því í sumar gætu alveg eins hafa verið samþykkt með þeim rökum, að flest Evrópulönd væru núþegar búin að setja slík lög. Hvað er eggið og hvað er hænan í þessu máli?

Sumarleyfisfréttir
Fyrir skömmu dvaldi ég stutt í Danmörku um sumarleyfistímann og því voru fréttirnar ekki feitar í blöðunum. Því kom sú forsíðufrétt Politiken á óvart, sem sagði frá niðurstöðum rannsóknar óháðrar vísindasögustofnunnar, sem var á þá leið, að vísindamenn í þjónustu alþjóðlegu risafyrirtækjanna fölsuðu iðulega niðurstöður rannsókna sinna fyrir viðkomandi, til þess að þau fengju þær niðurstöður sem þau óskuðu formlega eftir. Þetta eru sem sé þeir aðilar sem ég hef nefnt hér leiguvísindin. Það sem kom á óvart var þó ekki að þetta er gangur málanna, síður en svo, en hins vegar að blaðið birti þessar niðurstöður óhikað.

Einhver ritstjórinn hefur örugglega verið í sumarfríi og þurft að kippa í spottann símleiðis. Enda koma næsta dag allt önnur forsíðufrétt og ekkert framhald á þeirri fyrri. Og hvað haldið þið, kæru lesendur Heilsuhringsins, að hafi nú verið nýja fréttin? Jú, sú að rannsóknir læknavísindanna á erfðatæknifræði myndi fljótlega eftir 20 ár eða svo bæði útrýma krabbameini, eyðni, alzheimer og hjartasjúkdómum. Gerið svo vel, vill nokkur fleiri gamlar lummur? – Þetta heitir á amerísku: „Damage control“ eða skaðastjórnun.

Eigin heilsa okkar
Þegar við sem borgarar þjóðríkja erum að fjalla um heilsu okkar og barna og barnabarna, megum við ekki gleyma þessum atriðum málsins sem hér hefur verið fjallað lauslega um. Hér er ekki aðeins heilsa einstaklingsins í vogarskálinni heldur allar ytri samfélagslegar og efnahagslegar aðstæður sem fyrir hendi eru. Eftir að málið er skoðað nánar, eins og ný lög Evrópusambandsins gefa fullt tilefni til, þá kemur í ljós að heilsumál okkar eru orðin hápólitísk. Og að barátta blinds peningavalds gegn réttindum okkar hefur tekið nýja alvarlega stefnu. Kerfið sem við höfum búið til sjálf í kringum heilbrigðismálin og talið fullkomið, eru vitaskuld eins og önnur kerfi, full af götum, sem óprúttnir aðilar nota sjálfum sér til framdráttar.

Það skiptir engu máli hvort kerfið er með vísindablæ eða ekki, ef svik eru í tafli. En það er svo auðvitað innra mál vísindasamfélagsins að taka á þeim leigu-vísinda vinnubrögðum sem viðgengst nú í sambandi við málefni heilbrigðisgeirans. Geri þau það hins vegar ekki, þá hefur það ekkert annað í för með sér, en að vantrú almennings á vísindasamfélaginu vex enn. Og þá fer illa. Áreiðanlega er kominn tími til þess að hugsa allt þetta dæmi upp á nýtt. Og það er í okkar eigin valdi að gera það, því þegar allt kemur til alls, þá er það eigin budda sem er sterkasta atkvæðið. En um leið er enn mikil þörf á því að upplýsa allan almenning í smáatriðum um veruleika heilbrigðispólitíkur nútímans. Bókin „Lífsspursmál“ dugði ekki til ein og sér hér hjá okkur.

Veiki hlekkurinn í þessu skömmtunarkerfi ríkisfjármagns til alþjóðlegra lyfja-risafyrirtækja er vísindakenndi einstaklingurinn, sem ákveður af eða á um það hvert ríkispeningarnir renna. Án efa myndu margir í þeirri stöðu vilja taka þátt í að snúa þessari öfugþróun við, en þá skortir löggjöf sem styður þá í þeirri viðleitni. Löggjafarvaldið þarf að hafa innan sinna vébanda manneskjur sem raunverulega hugsa um heill borgaranna sem þeir fengu vald sitt hjá, en ekki þá sem eru í daglegu sambandi við alls konar ,,milljarða-dollara“ peningavald, eða hina sem beygja sig viðstöðulaust fyrir erlendum ,,aðlögunaraðgerðum“ matreiddum af sama peningavaldi.

Skylda okkar borgaranna er að þrýsta stöðugt á sömu fulltrúa og láta þá ekki komast upp með þá meginkenningu nútímastjórnmála að nú skuli stjórna eftir „skammtímaminni almennings“. Sem sagt að taka æ meiri réttindi af okkur aftur sem unnust í miklu átakastríði í hverju Evrópsku landi fyrir sig á síðustu tveim, þrem öldum, vegna þess að allt sé um leið gleymt. Fæðubótarefni eru okkur lífsnauðsynleg þrátt fyrir allt hjávísinda-söngl á móti þeim. Þau keppa vissulega við lyfin en lyf eiga að bæta heilsu en ekki að misnotast til fjárplógsstarfsemi. Sú Evrópska lagasetning frá því í sumar sem þrengir verulega rétt okkar til þess að taka inn hrein og ómenguð fæðubótaefni af eigin geðþótta, er hreint brot gegn mannréttindum okkar. Ef við krefjumst ekki réttar okkar nú, þá verður næst gengið enn frekar á sjálfsögð réttindi okkar.

Höfundur: Einar Þorsteinn Ásgeirsson



Flokkar:Ýmislegt

%d bloggers like this: