Ef til vill er það eitt hið mikilvægasta fyrir heilsu okkar að drekka nóg af góðu vatni. Með eitt hið mikilvægasta á ég við að næst á eftir hreinu lofti og jákvæðri hugsun sé nóg af góðu vatni e.t.v. mikilvægara en hvað við borðum, líkamsrækt o.fl. Mér finnst nokkuð ljóst að þegar móðurmjólkinni sleppir sé vatn eini drykkurinn sem er náttúrulegt fyrir okkur að neyta. Af hverju er svona áríðandi að drekka nóg vatn? Vatn er stærstur hluti mannslíkamans (ca. 70%) og gegnir lykilhlutverki í blóðrás, meltingu og flutningi efna til og frá líkamanum.
Meira að segja hluti beinagrindarinnar er vatn. Oft er sagt að ákjósanleg dagleg vatnsdrykkja sé 2 lítrar á mann. Ef við gefum okkur að þetta sé hæfilegt fyrir meðalmann, þá hlýtur það líka að vera minna fyrir létta manneskju og meira fyrir þunga og líka þarf að taka tillit til hreyfingar og útgufunar. Hvernig tryggjum við best að við drekkum daglega allt það vatn sem við þurfum?Mín reynsla er að við þurfum hreinlega að mæla drykkjuna a.m.k. meðan við erum að venjast. Að klára svo og svo margar könnur eða flöskur, heima, í bílnum og í vinnunni.
Af hverju er ekki jafn gott að fullnægja vatnsþörf líkamans með öðrum drykkjum s.s. gosdrykkjum, kaffi, te og mjólk ? Í fyrsta lagi er það mikið álag á skilvindur líkamans sem þurfa að framleiða vatn úr þessum drykkjum og í öðru lagi eru flestir þessir drykkir súrir (með lægra PH-stig en blóð okkar). Það veldur álag á efnaskipti og beinabyggingu líkamans, sem síðan endar í lausu kalsíum sem sest að víðsvegar í líkömum okkar og er sem slíkt trúlega orsök margra sjúkdóma.
Ef það er náttúrulegt fyrir okkur að drekka vatn, af hverju er það þá svo erfitt að mörg okkar drekka helst allt mögulegt annað en vatn ? Ég tel að orsökin sé sú að drykkjarvatnið sé orkusnautt (dautt). Getur vatn verið ýmist lifandi eða dautt? Við tölum gjarna um lifandi dýr og plöntur en gleymum að jörðin sjálf sem og vatnið er líka lifandi. A.m.k sumum forfeðra okkar hefur verið þetta betur ljóst en okkur sbr. eftirfarandi tilvitnun í Snorra Eddu: ,,Þat hugsuðu þeir ok undruðust, hví þat myndi gegna, er jörðin ok dýrin ok fuglarnir höfðu saman eðli í sumum hlutum ok þó ólíkt að hætti. Þat var eitt eðli, að jörðin var grafin í hám fjallstindum ok spratt þar vatn upp, ok þurfti þar eigi lengra að grafa til vatns en í djúpum dölum. Svá er ok dýr ok fuglar, at jafn langt er til blóðs í höfði ok fótum.“
Ég tel að hefðbundin meðferð vatns í vatnsveitum misbjóði náttúrulegum eiginleikum þess og dragi úr lífsorku þess. Ferskvatni er eðlilegt að ráða sjálft ferð sinni til sjávar og renna á leiðinni yfir stokka og steina. Þegar við geymum vatn í tönkum og flytjum síðan eftir rörum hvort tveggja undir þrýstingi, þá rennur vatnið ekki á eðlilegan hátt og virðist sem þessi meðferð hafi neikvæð áhrif á molekul vatnsins og dragi úr lífskrafti þess. Líklega er okkur þetta ljóst ómeðvitað, þ.e. líkamar okkar skynja þetta og þess vegna höfum við takmarkaða lyst á vatni.
Hvað er til ráða?
Ekki er nauðsynlegt að leggja niður vatnsveitur og að við förum öll að sækja okkur lindarvatn til drykkjar. Það er tiltölulega auðvelt að lífmagna (endurlífga) það vatn sem við notum til drykkjar og matseldar og fyrir blóm og dýr. Það er vel þekkt í andlegum fræðum að lifandi verur séu hlaðnar mis mikilli lífsorku. Eitt afbrigði þessarar orku er líka þekkt í sjálfsvarnar íþróttum s.s. karate. Þar sem vatn er líka lifandi er þessi orka í vatni í mismiklum mæli (ekki mælanlegt með hefðbundnum mælitækjum). Við getum lífmagnað kranavatnið með þessari orku og höfum öll hæfileikann til þess.
Hvernig förum við að?
Við tökum ílát t.d. könnu, glas eða flösku (betra að nota gler eða keramik frekar en plast) og fyllum ílátið með kranavatni og höldum því síðan með báðum höndum þannig að við snertum annað hvort með lófum eða fingurgómum. Um leið og þú hugsar þér að þú hlaðir vatnið með orku er gott að hugsa (senda) kærleiksríka hugsun til vatnsins. Ef þú ert í vafa um hvernig þú sendir kærleiksríka hugsun til vatnsins, byrjaðu þá á því að hugsa um það eða þann sem þér þykir vænst um og þegar þú ert altekin af þeim kærleika sem þú berð í brjósti til viðkomandi, sendir þú þessa hugsun til vatnsins (það virkar).
Fyrst til að byrja með getur verið nauðsynlegt að halda í 20-30 mínútur en með æfingu verður þú betri orkuleiðari og kemst af með styttri tíma. Það er líka hægt að kíkja með öðru auga á t.d. sjónvarp á meðan. En það erfleira sem kemur þér til hjálpar og gerir það að verkum að þetta þarf ekki að vera mjög tímafrekt. Vatn sem er jákvætt og hlaðið orku hefur ávallt tilhneigingu til að hafa samsvarandi áhrif á annað vatn og vökva og þetta getum við nýtt okkur með því að tæma ekki ílátið með lifandi vatninu heldur fylla og blanda saman áður en tæmist.
Best er að nota sem mest sömu ílát. Á meðan á lífmögnun stendur skulið þið anda hægt og djúpt (áreynslulaust) og þið munið upplifa að gjörðin hefur líka góð og róandi áhrif á ykkur. Þegar vatn hefur verið lífmagnað með þessum hætti finna margir mun á bragði vatnsins, eins og það verði sætara og mýkra og það fer betur í maga. Mörg dæmi eru um að fólk sem fer að drekka nóg af góðu vatni upplifi aukna orku og betri líðan á allan hátt samhliða lækningu ýmissa sjúkdóma. Gott er að drekka vatn fyrir mat (megrandi) ekki með mat. Ef þú áfram velur að drekka einhverja aðra drykki, drekktu þá ávallt glas af vatni fyrst til þess að vera viss um að þú sért ekki að svala þorsta þínum með viðkomandi drykk. Verði þér að góðu.
Höfundur: Bergur Björnsson, reikimeistari og leiðbeinandi: bergur@simnet.is
Flokkar:Næring