Erindi fluttu á aðalfundi Heilsuhringsins 2002 af Gunnari Eyjólfssyni leikar
Þakka ykkur fyrir að bjóða mér á þennan merkilega fund þessa merkilega félagsskapar. Ég hef um árabil stundað kínverska heilsuleikfimi, sem á frummálinu er nefnd Qigong. Qi þýðir lífsorka, en Qigong þýðir leiðin að. Á okkar máli gæti það kallast „leiðin að lífsorku“.
Líf mitt hefur oft verið háð tilviljunum, eins og það hafi verið einhver form sem ég hef átt að falla inn í. Ég er að tala um það sem leiddi til þess eitt af öðru í lífi mínu að ég iðka qigong í dag. Þegar ég var nítján ára gamall komst ég að sem nemandi í breska konunglega leiklistarskólanum Royal Academy of Dramatic Art. Þar var Clifford Turner einn af þeim kennurum, sem hafði mikil áhrif á mig og á ég honum margt að þakka því að hann kenndi mér stjórnaða öndun og einbeitingu.
Hann er einn af feðrum ensku mállýskunnar sem kölluð er ,,Public English“ og kennd við ensku útvarpsstöðina BBC. Clifford Turner kenndi fólki sem koma þurfti fram opinberlega út frá hugtökunum: stjórnuð öndun, stjórnaður burður, stjórnuð hugsun. Svo var þar grískur kennari, sem kenndi okkur limaburð á leiksviði og í kvikmyndum og annað slík. Hann fór mjög ítarlega í þetta og það var gaman að vera í tímum hjá honum. Einn daginn þegar við komum í tíma þá var teiknuð hliðarmynd af manni á töfluna. Hálsinn vísaði fram og axlirnar voru upp undir eyrum. Þegar hann byrjaði kennsluna benti hann á myndina og sagði. ,,Einn af ykkur á föður eða afa, sem á fullorðins árum lítur svona út, eða jafnvel á miðjum aldri“.
Við vorum forvitnir að fá að vita hver af okkur þetta væri, en alls vorum við 15 piltar í bekknum. Hann benti á mig og sagði. ,,Það eruð þér herra Eyjólfsson“. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, þegar þetta dundi yfir mig og allir litu á mig. Hvernig gat það verið að þetta ætti við mig. Þá var ég tággrannur með langan háls og uppréttur, mikið betri en ég er núna. Svo hélt hann áfram og sagði. ,,Þetta eru erfðir, þér eigið eftir að verða svona með árunum“. Ég er ættleiddur og sá föður minn fyrst þegar ég var sex ára gamall og síðan aftur þegar ég var 14 ára.
Þá var þessi myndarlegi maður orðinn algjörlega saman rekinn og svo njörvaður niður að hann þurfti að snúa sér öllum við ef hann leit til hliðar. En gríski kennarinn kenndi mér hvernig ég ætti að láta andann stjórna efninu og koma í veg fyrir að verða svona. En ég get sagt ykkur hér, að mig hefur stundum ekki langað til neins eins mikið og að láta það eftir mér að vera svona. En ef ég væri búinn að láta það eftir mér síðan ég var tvítugur gæti ég ekki litið upp núna. Í þess stað hef ég daglega munað eftir þessu og hvað eftir annað staðið mig að því að vera að síga niður og þá bara leyst úr læðingi allt efnið og rétt mig upp og ég ætla að gera það áfram á meðan Guð leyfir mér að lifa.
Í qigong er sagt. ,,Upprétt mæna eldist ekki“. Ég var svo heppinn, fyrir stríð, að fá að leika með nokkrum frægum leikurum Mið-Evrópu. Það voru allt saman Gyðingar sem höfðu flúið til Englands undan nasistum, flestir frá Austurríki. Þar á meðal var leikari sem hét Fredrik Valk, hann var lærður sálfræðingur, en sló í gegn sem leikari. Þegar hann vissi að Clifford Turner hefði kennt mér sagði hann einu sinni á æfingu. ,,Ég skal kenna þér dálítið meira í hléinu á milli sýninga“. Síðan kenndi hann mér sjálfs-dáleiðslu-öndun, þannig að ég get andað með öðru lunganu í einu og andað með lungunum sitt á hvað. Ég get fært alla áreynslu frá öðru lunganu yfir í hitt.
Þá kemur kannski spurning eins og er þetta nauðsynlegt? Nei, ekki nema að eitthvað komi fyrir annað lungað. Það er hægt að lifa með eitt lunga og það er hægt að stækka þetta eina lunga með æfingum svo öndun verði betri. Fredrik Valk kenndi mér þessa öndun og þjálfaði mig í einbeitingu. Nokkrum árum seinna fór ég á námskeið til Ameríku þar var aðalkennarinn maður að nafni Josef Cramer. Eftir nokkrar æfingar tók hann mig á eintal og lagði til að ég lærði qigong, sem ég vissi þá ekki hvað var. Hann kom mér í samband við menn frá Kóreu, Kína og Víetnam sem stunduðu qigong, þarna stutt frá. Ég fór að hans ráðum og lagði stund á þetta þar til ég fór heim, sem var árið 1959. Ég hafði með mér heim bæklinga um qigong, því að þó að hópeflið styrki er maður ekki háður því að vera í hópi og alveg er hægt að vera einn við æfingar. Svo lenti ég í slysi í Þjóðleikhúsinu árið 1972 þá var ég að leika Jagó í Óþelló.
Ég þurfti að stökkva ofan af svölum þriggja metra háum og sem ég stökk á næst síðustu sýningunni, skaddaðist ég í bakinu og fékk slæmt brjósklos. Ég var svo lánsamur að um sama leyti voru að koma hingað til lands heila- og taugasérfræðingarnir Kristinn Guðmundsson og Bjarni Hannesson, sem gerðu brjósklosaðgerð á baki mínu. Eftir aðgerðina sagði annar þeirra: ,,Nú getur þú ekki gert alveg allt sem þú hefur áður gert. En það er margt annað sem þú getur gert“. Ég sætti mig einhvern veginn ekki við það að geta ekki gert allt eins og áður. Þá mundi ég að í bæklingi um qigong, sem ég hafði tekið með mér heim, var kafli um bakvandamál. Ég fór til Spánar mér til heilsubótar og æfði æfingarnar, sem voru kenndar í bæklingnum. Með tímanum tókst mér aftur að ná fyrri hreyfanleika og nú get ég næstum farið í brú afturábak, sem auðvitað átti ekki að vera hægt.
Uppistöðulónið
Qigong snýst um að stjórna orkuöfluninni. Einmitt það sem ég drap á í upphafi og Clifford Turner kenndi: Að stjórna önduninni, burðinum og hugsuninni. Kínverjar segja: ,,Þú átt að líta á sjálfan þig sem uppistöðulón“. Rafmagni sem kemur frá stórum vatnsaflsvirkjunum er dreift um allt, en ef það er þurrkur og vatnsbúskapurinn ekki nægur gerist það, sem við sem eldri erum munum vel eftir, þegar húsmæður voru beðnar að dreifa elduninni á aðfangadag, því ef að allir kveiktu undir jólasteikinni á sama tíma, fór rafmagnið. Þegar elduninni var lokið birti aftur í kotinu. Það er talað um að þegar menn hafa stundað qigong í hundrað daga sé komið jafnvægi á uppistöðulónið, þá sé eingöngu að halda því við yfirflæði. En það geta komið fyrir atburðir í lífi okkar, sem valda því að við þurfum að leggja okkur enn meira fram til að barmafylla lónið. Kínverjarnir segja: ,,Látið þið alltaf vera hægt yfirflæði á uppistöðulóninu“.
Stjórnuð öndun
Flestir anda níu til fimmtán sinnum á mínútu. Sumir hafa náð dýpri öndun og anda sex sinnum á mínútu, en nokkrir eru þeir sem hafa náð svo djúpri og fylltri öndun að þeir anda aðeins fjórum sinnum á mínútu. Ákjósanlegust er róleg, djúp og fyllt öndun, það er samhljómur efnis og anda. Við eigum að anda orku- og næringaröndun, sem er djúp, stillt og gefur úthald. Ekki viðhaldsöndun, sem er grunn og gefur enga orku. Slík öndun kemur að vísu í veg fyrir að við köfnum og hún heldur okkur gangandi. En með slíkri öndun erum við útkeyrð þegar kemur að kvöldi, af því að við höfum vanrækt næringaröndunina. Það er sorglegt að það skuli fara úrskeiðis hjá fólki að draga andann og að fólk neiti sér um þann lúxus að draga rólega og djúpt að sér andann og fylla lungun. Skynja síðan augnablikið meðan við öndum ekki og erum að snúa við til útöndunar. Það augnablik er kallað; „augnablik eilífðarinnar“. Það er gott að þora að dvelja þar augnablik. Síðan tæma lungun með því að anda rólega frá sér.
Samviskan
Að læra qigong má líkja við að brjóta garð: Það þarf að grjóthreinsa, plægja, herfa, bera áburð á og hlúa að. Í qigong garði eru ræktaðar þrjár jurtir: Jurt visku, jurt heilbrigðis og jurt langlífis. Samvisku mannsins má líkja við garðyrkjuáhöldin. Við ræktun reynir illgresið alltaf að komast að vegna þess að garður qigong fólks er ákaflega frjór. Þá er að læra að halda garðinum hreinum, vinsa úr og uppræta illgresið. Fjarlægja það og gæta þess að það fari ekki yfir í garð nágrannans og skjóti þar rótum. Heldur gera það óvirkt í eitt skipti fyrir öll. Við erfum marga eiginleika frá foreldrum okkar og forfeðrum. Þeir geta verið bæði góðir og slæmir. Það er eins og sumir fái aðeins góða eiginleika, en svo eru það aðrir sem sitja uppi með slæma kosti.
Þá er gott að þora að takast á við sjálfan sig og rækta jákvæðu eiginleikana. Halda í skefjum neikvæðum öflum, en laða fram og auka það góða. Því að það er í okkar valdi hvað við ræktum í eigin garði. Mest um vert er að vera sáttur við sjálfan sig. Ætlir þú að stunda qigong verður þú að öðlast þessa sátt. Það er ekki hægt að leyna ósætti í fjölskyldu. Þótt því sé sópað undir teppið, er það þar og verður þar, þar til viðkomandi hefur tekið til í sínum ranni. Það er gott að geta beðist fyrirgefningar, sá sem ekki fyrirgefur er illa settur, því að hann burðast með reiðina og stundum sligar reiðin fólk. Samviska mannsins verður að vera jákvæð gagnvart lífinu og lífi annarra. Ef eitthvað er til, sem heitir samviskulaus manneskja, á viðkomandi auðvitað ekki að iðka qigong.
Iðkun qigong
Kínverjarnir segja: ,,Á hverjum morgni þegar þú vaknar, áttu að skynja qi-ið“. Ef þú notar vekjaraklukku á ekki að láta hátt í henni, hún á bara að gefa frá sér smá hljóð. Þú átt ekki að hlaupa fram Haust 2002 15.4.2009 11:11 Page 9 úr rúminu heldur áttu að liggja smá stund og gera þér grein fyrir því að þú ert lifandi, ekki taka það sem sjálfsagðan hlut. Því á hverjum morgni er komið að fólki sem hefur dáið í svefni. Hvernig skynjar maður þá qi? Með lokuð augun byrjar maður að skynja lyktina, kannski finnur maður að það mætti opna glugga. Síðan kyngir maður munnvatni og það er mjög mikið lagt upp úr því að það sé gott munnvatnsflæði. Kínverskir læknar halda því fram að í munnvatninu sé ákaflega mikil orka og þeir sem búi ekki yfir góðu munnvatnsflæði eigi á hættu að fá maga- og ristilsár. Mikið munnvatnsflæði vinnur gegn slíkum meinsemdum.
Maður kyngir munnvatninu og heilinn segir manni hvaða bragð eða óbragð er í munninum. Næst skynjar maður hvernig manni líður, síðan hlustar maður, svo opnar maður augun og fer fram úr. Þetta tekur bara fimm andartök. Það er þýðingarmikið að fólk viti að hverju það gengur þegar það byrjar að æfa qigong. Það er tímasóun, ef qigong er ekki iðkað reglulega og af alvöru. Með ástundun má öðlast gífurlega mikla persónulega uppbyggingu og mikinn sálarstyrk. Það byggir fólk upp jafnt innra, sem ytra Þegar maður er hlaðinn orku eftir æfingu í qigong, er vellíðan bæði á sál og líkama. Allar meinsemdir eru fyrirstaða og stíflur í orkuflæðinu. Við eigum að vera með blóðflæðið svo hlaðið af lífsorku, að þegar það mætir hindrum, sem gæti verið meinsemd að búa um sig tekur qiið (lífsorkan) til sinna ráða og ræðst á fyrirstöðuna og eyðir henni. Það er hægt að gera þetta ótrúlega lengi. Árangurinn er undir hverjum og einum komið, hver og einn verður að gera þetta sjálfur. Það hleður enginn fyrir þig.
Þolnari
Ég ætla að segja ykkur frá atviki, sem henti í maímánuði fyrir fjórum árum, þegar ég var 72 ára. á hringdi til mín maður sem var búinn að taka að sér þýðingarmikið starf í fyrirtæki og vildi komast í taltíma. En það var kominn sumartími og námskeiðin búin, svo ég sagði að hann mætti hringja til mín í september og minna mig á samtal okkar. Á mínútunni níu fyrsta september hringdi hann og í huga minn kom strax að þetta væri qigong maður, vegna þess að hann hafði skipulag á hlutunum.
Hann sagðist vera daglega í líkamsrækt og því var hann vel á sig kominn. Ég byrjaði að kenna honum talæfingar, öndun og burð. Eftir nokkurn tíma þegar hann hafði lært undirstöðuatriðin í öndun og öðru, fór ég með honum einn hring í qigong eins og það er kallað. Einn hringur felst í því að gera röð af æfingum, sem samanlagt taka 100 andardrætti. Fyrstu 30 andartökin eru í algjörri kyrrstöðu. Af því að maðurinn var í svo fínu formi, áætlaði ég að hann réði við meira, en venjulegur byrjandi. En þegar við vorum búnir með rúmlega 70 andartök, gafst hann upp. Þá sagði ég sestu bara niður ég klára þetta. Af hverju sagði ég það?
Vegna þess að qigong maður klárar það sem hann hefur sett sér. Hann rýfur ekki einbeitinguna, þótt síminn hringi eða hann verði fyrir öðru ónæði. Þegar ég settist niður að lokinni æfingunni, sagði hann: ,,Gunnar þú ert sjötíu og tveggja ára gamall, en ég er þrjátíu og þriggja ára og ég er Íslandsmeistari í vaxtarrækt. Ég neita því að þú hafir meira úthald en ég“. Ég svaraði. ,,Þú verður bara að kyngja því“. Þá sagði hann. Viltu kenna mér þetta. Í dag treysti ég honum að leiða hvern sem er í qigong. Qigong er krefjandi og það styrkir okkur gífurlega mikið því að í qigong er ekkert til sem heitir að gefast upp. Það er aðeins ein krafa, viðkomandi verður að hafa takmarkalausa trú á lífinu og bera takmarkalausa virðingu fyrir því. Qigong iðkandi gerir sér grein fyrir ábyrgðinni fyrir því að vera trúað fyrir heilbrigðum skilningarvitum. Við höfum ekki leyfi til að brengla þau með óæskilegum vímugjöfum.
Það eru til margar bækur um qigong, ein slík er; The way of Qigong. Undirtitill; The art and science of Chinese energy, eftir Kenneth S. Cohen. Bókaútgáfa, Ballantine Books, New York. Hægt er að kaupa á sumum flugvöllum spólur sem sýna hvernig qigong er gert
Erindi fluttu á aðalfundi Heilsuhringsins 2002 af Gunnari Eyjólfssyni leikar
Flokkar:Fjölskylda og börn, Hreyfing