Smáskammtalyf (hómópatía) gegn kvefi og flensu

Mikilvægt er að hafa í huga að eitt af grundvallaratriðum í hómópatíu er að öll einkenni eru fyrst og fremst einstaklingsbundin. Þetta þýðir að tveir einstaklingar með kvef eða flensu þurfa að öllum líkindum ólík smáskammtalyf þar sem einkenni þeirra eru sjaldnast þau sömu í öllum atriðum. Einnig ber að hafa í huga að kvillar eins og kvef og flensa þróast stig af stigi og því getur þurft að beita fleiru en einu smáskammtalyfi við meðferð þeirra eftir því á hvaða stigi kvillinn er hverju sinni. Hér er getið nokkurra smáskammtalyfja sem reynst hafa vel við kvefi og flensu.

Kvef
Við kvefi gagnast alltaf vel að fara sér rólega, hvílast vel og drekka nóg af vökva. Einnig er gott að varast of miklar öfgar í hita og kulda. Bætiefni, einkum C-vítamín og zink, reynast mörgum vel svo og sólhattur og engifer. Hvað snýr að hómópatíu má reyna eftirfarandi.

Aconite
Aconite getur reynst vel ef kvefið hellist allt í einu yfir og er enn á byrjunarstigi.

Ferrum phos
Ef kvefið hefur hins vegar verið að þróast í smá tíma og leitar út í eyru og niður í brjósthol er Ferrum phos líklegra til að gagnast.

Allium cepa
(sviði undan nefrennslinu)
Kvef með nefrennsli, miklum hnerra og tárarennsli úr augum. Það svíður ef til vill í augun, viðkvæmni gætir fyrir birtu en tárarennslið er milt svo það svíður ekki undan því. Aftur á móti svíður undan nefrennslinu og það getur valdið fleiðri á efri vör og í nefi. Einkennin lagast verulega í fersku lofti en versna innan dyra og þegar líða tekur að kvöldi. Það veldur oft hnerra að koma inn í hlýjar vistarverur.

Euphrasia
(sviði undan tárarennslinu)
Euphrasia á við einkenni sem eru gagnstæð Allium cepa einkennum. Það rennur stöðugt úr augum og svíður undan því en ekki undan nefrennslinu. Augnlokin eru gjarnan þrútin, í þau svíður og kinnarnar eru rauðar undan tárarennslinu. Líðan er betri utandyra og viðkvæmni gætir fyrir birtu.

Natrum mur
(enginn sviði)
Það rennur úr augum og nefi samfara miklum hnerra. Kannski svíður í augun en rennslið úr þeim eða úr nefinu er ekki ertandi. Úr nefinu kemur mikið slím sem er í fyrstu glært eins og eggjahvíta en eftir nokkra daga er eins og allt sé að stíflast. Lyktar- og bragðskyn hverfur gjarnan alveg meðan á kvefinu stendur og þreytu og magnleysis verður vart. Líðan er verri á morgnana, við áreynslu og hita en betri í fersku lofti.

Arsen alb (sviði undan hvoru tveggja)
Það rennur úr augum og nefi og svíður undan hvoru tveggja. Viðkomandi er eirðarlaus, kvíðinn, mjög kulsækinn og á erfitt með að halda á sér hita Það svíður í augun og sömuleiðis bæði undan tárunum og þunnu nefrennslinu. Viðkomandi hnerrar en það léttir ekkert á og það er eins og nefið sé alveg stíflað. Einkennin versna í kulda og á nóttunni en skána við hita.

Merc sol
(sviði undan hvoru tveggja)
Viðkvæmni gætir bæði fyrir hita og kulda. Viðkomandi hnerrar mikið, sérstaklega í sólskini og þar sem hlýtt er. Hnerrinn veldur miklu rennsli úr augum sem svíður undan og nasirnar verða aumar og fleiðraðar undan svíðandi nefrennslinu. Það kemur mikið slím úr nefinu og í því eru gjarnan blóðlitaðar rákir. Á seinni stigum kvefsins verður slímið grænleitt, vont á bragðið og andardrátturinn illa lyktandi.

Hepar sulph
Kvef á seinni stigum með þykku og illa lyktandi slími úr nefi. Einkennandi er ofurviðkvæmni fyrir hvers kyns kulda og kaldur og þurr vindur getur jafnvel orsakað hnerra og nefrennsli sem þykknar og verður að gulu eða gulgrænu slími sem lyktar eins og gamall ostur.

Pulsatilla
Einkennin eru oft bara öðru megin. Þetta er kvef með nefrennsli sem þykknar, önnur nösin stíflast, lyktarskyn hverfur og andardrátturinn verður daunillur. Það klæjar ef til vill og svíður í augun og á morgnana getur verið eins og þau séu límd aftur með slími. Á morgnana er líka gjarnan mikið um gulgrænt slím en á nóttunni er nefið yfirleitt stíflað. Einkennin eru miklu verri inni við en léttir í fersku lofti. Tilfinningalega einkennist viðkomandi af grátgirni, mikilli þörf fyrir nærveru eða sókn í samúð og athygli.

Kali bich
Lykileinkenni er þykkt og seigt slím. Augnlokin eru þrútin og í þau svíður. Þegar snörlar í börnum af kvefi, einkum í þeim sem eru þykk og bústin, kemur Kali bic oft að góðu gagni. Einkennin linast við yl.

Phosphorus
Einkennanna verður oft vart í tengslum við veðrabreytingar eða við að fara úr hita í kulda og öfugt. Ástæðan fyrir kvefinu getur verið sú að viðkomandi sé orðinn gjörsamlega útkeyrður.

Gelsemium
Kvef sem minnir á flensu með verkjum og skjálfta ásamt þyngslum og sljóleika í höfði.

Flensa
Flensa ristir dýpra en kvef. Henni fylgja gjarnan beinverkir og sljóleiki þannig að erfitt getur reynst að sinna daglegum störfum. Hvíld er nauðsynleg og mikilvægt er að ná sér að fullu áður en haldið er til vinnu á ný. En það gildir sama um flensuna og kvefið hvað varðar næga hvíld, nægan vökva og það að forðast öfgar í hita og kulda.

Hér koma svo úr smiðju hómópatíunnar nokkur ráð við flensu.
Aconite gagnast oft vel í upphafi flensu sérstaklega ef viðkomandi er mjög órótt. Einkennin koma gjarnan mjög skyndilega eftir útivist í köldu, þurru og vindasömu veðri.
Belladonna á við þegar flensan hellist allt í einu yfir, einkennin eru strax mjög sterk, hiti og roði í húðinni, sérstaklega í andliti og augun gljáandi. Þessu fylgir gjarnan höfuðverkur sem einkennist af þungum slætti eða órólegum púls. Lítill sem enginn þorsti er samfara sótthitanum. Viðkomandi gæti hugsanlega verið með óráði. Líðanin versnar við birtu, snertingu og hávaða.

Ferrum phos hefur gagnast vel gegn flensu sem enn er á byrjunarstigi en hefur þó verið að þróast á nokkrum dögum. Einkennin eru þróttleysi og sljóleiki ásamt roða í andliti. Ferrum phos á einkum við ástand sem er mitt á milli sterkra einkenna Aconite og Belladonna annars vegar og sljóleika Gelsemium hins vegar. Ferrum phos einkenni eru minna öfgakennd og ekki eins afgerandi.

Bryonia
flensunnar verður smám saman vart á nokkrum dögum. Það verkjar í alla vöðva og einkennin versna við hreyfingu en líðan er betri í hvíld. Þurrkur í munni og húð er áberandi. Það er gjarnan skóf á tungunni og varirnar þurrar og sprungnar. Sjúklingurinn er mjög þyrstur en drekkur sjaldan og þá mikið í einu. Hann gæti átt til að vera pirraður og með vinnuna á heilanum. Jafnvel þó honum sé kalt hið ytra finnst honum honum vera heitt og þráir ferskt loft eða eitthvað kalt til að leggja við sig.

Rhus tox.
Hér eru einkennin eirðarleysi ásamt beinverkjum og þó viðkomandi sé með sótthita er honum kalt. Kuldi og raki auka á vanlíðan. Líðan er betri á hreyfingu en hvíld veldur óþægindum, s.s. á nóttunni.

Gelsemium
er hið sígilda smáskammtalyf gegn flensu. Einkenni eru sljóleiki, þyngslatilfinning og deyfð samfara beinverkjum. Það fer gjarnan hrollur eða skjálfti upp og niður bakið. Sótthiti án þorsta. Gelsemium er þekkt fyrir að gagnast við flensu sem á upptök í köldu og röku veðurfari. Höfuðverkur samfara sljóleika, þyngslum í höfði og þungum augnlokum. Streita eða spenna gera ástandið verra.

Nux vomica. Hér eru önuglyndi, pirringur og viðkvæmni fyrir dragsúgi lykileinkenni. Kulvísi er áberandi og þó viðkomandi sé heitt er hann mjög viðkvæmur fyrir öllum kulda. Nux vomica sjúklingar geta verið óheyrilega uppstökkir og viðskotaillir.Þeir komast í uppnám af minnsta tilefni en það er einkum birta og hávaði sem kemur þeim auðveldlega úr jafnvægi. Líðanin er verri á morgnana.

Höfundur: Ingibjörg G. Guðmundsdóttir  grein frá árinu 2001



Flokkar:Greinar og viðtöl

%d bloggers like this: