Rannsóknir á ginsengi við Krabbameini

Í tímaritinu Cancer Epidemiologi, Biomarkers & Prevention (Faraldsfræði krabbameins og forvarnir) (Vol 4, 401-408) (sem kom út í júní 1995) var greint frá rannsókn, sem gerð var við „Korean Cancer Center Hospital“ (Sjúkrahús Kóresku krabbameinsstofnunarinnar) en rannsóknin beindist að því hvort draga mætti úr áhættu á ýmsum tegundum krabbameins með neyslu ginsengs. Rannsóknin fór fram undir stjórn Dr. Taik-Koo Yun en hann starfaði sem prófessor við Ríkisháskólann í Seul í Kóreu, þar til hann fór á eftirlaun, en nú starfar hann á rannsóknarstofnun í krabbameinsrannsóknum. Ásamt honum vann dr. Soo Yong Choi við rannsóknina, en hún var styrkt af Vísinda og tækniráðuneytinu í S-Kóreu.

Inngangur
Ginseng er líklega sú lækningajurt sem hvað lengst hefur verið notuð í Asíulöndum, eða um þúsundir ára. Hún er afar verðmæt og eru miklar hefðir, en þó fyrst og fremst nákvæmni, tengdar ræktun hennar og uppskeru. Í rás aldanna hafa myndast goðsagnir um verðmæti og lækningamátt jurtarinnar. Nú á síðustu árum hafa vísindamenn hafið víðtækar rannsóknir á ginsengjurtinni með tilliti til virkra innihaldsefna og líffræðilegra áhrifa. Frá árinu 1965 hafa verið skráðar ýmsar lyfjafræðilegar verkanir ginsengextrakts. Þar má nefna ýmis áhrif á taugakerfið, róandi áhrif, vörn gegn magasári af streituálagi, minnkun á þreytu, áhrif á innkirtlastarfsemi, styrking ónæmiskerfisins og ýmislegt fleira1-4 Í fornri kínverskri læknisfræðibók frá tímum Liang keisaraveldisins, (500 árum fyrir Krist), er skýrt frá því að ginseng auki lífslíkur manna.5 Það var kveikjan að því að athygli þeirra Yun og Choi beindist að, hvort rekja mætti þetta til þess að ginsengneysla veitti vörn gegn krabbameini.

Dýratilraunir
Árið 1978 hófu þessir vísindamenn víðtækar tilraunir á músum og rannsökuðu þeir, hvort ginseng gerði krabbameinsvaka óvirka. Tilraunin leiddi í ljós að rautt ginseng hafði krabbameinsbælandi áhrif á lungnaæxli af völdum ýmissa krabbameinsvaldandi efna.6,7 Þessi áhrif eru að sumu leyti fólgin í aukinni virkni drápsfrumunnar „(natural killer cell)“ til að vinna á krabbameinsfrumunni. 8 .Síðar rannsökuðu þeir Yon og Choi, hvort aðrar tegundir ginsengs hefðu þessi áhrif. Niðurstaðan var að eftirfarandi gerðir og afurðir Panax Ginseng C.a. Meyer væru krabbameinsbælandi: Ferskt ginseng: Þurrkað duft eða extrakt af 6 ára rót. Hvítt ginseng: Extrakt og þurrkað duft eða extrakt af 5 og 6 ára gömlum rótum. Rautt ginseng: Duft eða extrakt af 4-5- 6 ára gömlum rótum.9-11 Aðrar víðtækar dýratilraunir styðja þessar niðurstöður, m.a. frá Japan og Kína.9-11

Faraldsfræðilegar rannsóknir
Árið 1990 birtist í Int. J. Epidemiol, niðurstöður rannsókna þeirra Yun og Choi, þar sem þeir könnuðu með samanburðarrannsókn hvort ginsengneysla veitti vörn gegn krabbameini í mönnum. Sú rannsókn var gerð í samvinnu við „Korean Cancer Center Hospital“. Rannsakaðir voru 1810 einstaklingar sem skipt var í tvo jafn stóra hópa. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að þeir sem neyttu ginsengs væru í minni hættu á að fá krabbamein en hinir sem ekki neyttu þess og var áhættuhlutfallið (áh) = 0,56. Þessi rannsókn var birt í „Journal Epidemiology“ árið 1990.12 Með þá niðurstöðu að leiðarljósi héldu þeir Yun og Choi rannsókninni áfram og var tilraunin stækkuð og tekið tillit til fleiri þátta. Þátttakendum var fjölgað og og voru nú rannsakaðir nálægt 4000 einstaklingar. Þeir voru sömuleiðis valdir úr hópi sjúklinga frá „Korean Cancer Center Hospital“ , eins og þeir fyrri. Var valið með tilliti til að fá sem fjölbreyttastan hóp hvað snertir aldur, menntun, starfsgreinar ofl. Krabbameinstilfellin voru flokkuð eftir ákveðnum staðli frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO)13 og skiptust tilfellin í: Krabbamein í vör, koki og munnholi, í vélinda, í maga, í ristli, í lifur, í brisi, í barkakýli, í lungum, í brjóstum kvenna, í leghálsi, í eggjastokkum, í þvagblöðru, í skjaldkirtli, aðrar tegundir. Athugaðir voru eftirfarandi þættir:
a. Hvaða tegundir ginsengs voru áhrifaríkastar gegn krabbameini.
b. Er samband milli skammta og verkunar.
c. Hversu lengi þarf að neyta ginsengs þar til fyrirbyggjandi áhrif nást
d. Hefur ginsengneysla áhrif á allt krabbamein.
e. Hefur ginsengneysla áhrif á krabbamein af völdum reykinga

Öll krabbameinstilfellin voru staðfest með vefja- og eða frumurannsókn. Allir sem tóku þátt í rannsókninni voru valdir úr hópi sjúklinga, sem leitað höfðu til „Korean Cancer Center Hospital“, en það sjúkrahús er ekki eingöngu ætlað krabbameinssjúklingum, heldur gegnir það ennfremur hlutverki sem almennt sjúkrahús fyrir nágrennið. Viðmiðunarhópurinn var valinn úr hópi sjúklinga sem leitað höfðu til sjúkrahússins vegna ýmissa bráðatilfella t.d. botnlangabólgu, hálsbólgu, lungnabólgu, stíflu í ristli og stækkunar á skjaldkirtli (góðkynja). Í upphafi voru allir þátttakendur spurðir af sérþjálfuðu fólki. Ef einhver gat ekki svarað vegna veikinda var sá útilokaður frá rannsókninni. Til að gæta hlutleysis þekktu spyrjendur hvorki fólk í hópi krabbameinstilfella né í viðmiðunarhópi og vissu ekki hvort um krabbameinstilfella- eða viðmiðunarhóp væri að ræða.14 Til að fá sem nákvæmust svör um neyslu var spurt á hvaða aldri þátttakendur hefðu fyrst neytt ginsengs, hversu oft þeir hefðu neytt þess, hve lengi og síðan hvaða tegund af ginsengi þeir notuðu. Til að benda á hve nákvæm rannsóknin var, voru 10% þátttakenda endurspurðir ári eftir fyrsta viðtalið og var „k“ gildi fyrir samræmi í svörun. „K“ reyndist vera 0,78, en gildi hærra en 0,75 telst ágætt samræmi.15

Niðurstöður
Ef litið er á töflu 2 kemur fram að af krabbameinssjúklingum höfðu 921 aldrei neytt ginsengs, en 1066 höfðu einhvertíma notað það. # Í viðmiðunarhópnum höfðu 605 aldrei neytt ginsengs en 1382 höfðu einhvertíma neytt þess. # Af viðmiðunarhópnum hafði því 69,6% neytt ginsengs miðað við 53,6% krabbameinssjúklinganna. Áhættuhlutfallið (á.h.) fyrir ginsengneytendur var því 0,50 Þeir voru því í mun minni áhættu á að fá krabbamein en þeir sem ekki neyttu gingsengs. Ef miðað er við töluna 1 í áhættuhlutfalli, eru allar tölur minni en 1 til að minnka áhættu og eftir því sem talan er lægri því minni áhætta á sjúkdómnum. Mismunandi áhættuhlutfall (á.h.) sýndi sig fyrir mismunandi tegundir ginsengs: Extrakt úr nýju ginsengi. Extrakt úr hvítu ginsengi, duft úr hvítu ginsengi og rautt ginseng sýndu öll jákvæðan mismun en aftur á móti kom ekki fram mismunur hjá þeim sem neyttu sneiða af nýrri ginsengrót, safa af nýju ginsengi eða drukku te úr hvítu ginsengi og þeirra sem ekki höfðu neytt ginsengs. Besta útkoman var fyrir þá sem neyttu rauða gingsengsins eða 0,20 Tafla 3 sýnir samband áhættuhlutfalls (á.h.) við tíðni neyslu og hve lengi neyslan hefði staðið yfir. Því oftar og lengur sem það tímabil varði, sem ginsenginntökurnar áttu sér stað því minni áhætta á krabbameini, sem sýnir að þarna er beint samband á milli skammta og áhættu. Áhættuhlutfalllið (áh) var frá 0,60 fyrir þá sem neyttu ginsengs 1-3 svar sinnum á ári og niður í 0,36 fyrir þá sem neyttu þess oftar en einu sinni í mánuði. Til þess að sjá hvernig talan breyttist er áhættuhlutfallið (áh) fyrir 1, 2, 3, 4, og 5 ára neyslu 0,64, 0,53, 0,36 0,45 0g 0,31, sem sýnir hvernig áhættan minnkar með lengri notkun. Með tilliti til tegunda krabbameins kom fram áhættuhlutfall þeirra sem neyta gingsengs:

krabbamein í vör, munnholi og koki á.h. = 0,47
krabbamein í vélinda á.h. = 0,20
magakrabbamein á.h. = 0,36
ristilkrabbamein á.h. = 0,42
krabbamein í lifur á.h. = 0,48
krabbamein í brisi á.h. = 0,22
krabbamein í barka á.h. = 0,18
lungnakrabbamein á.h. = 0,55
krabbamein í eggjastokkum á.h. = 0,15

Aftur á móti kom ekki fram marktæk lækkun áhættuhlutfalls þeirra sem neyttu ginsengs og hinna sem gerðu það ekki á eftirfarandi tegundir krabbameins:  Krabbamein í brjósti kvenna, leghálskrabbamein, blöðruhálskrabbamein, skjaldkirtilskrabbamein. Þá var ennfremur rannsakað hvort ginsengneysla hjá reykingarfólki gæti minnkað líkurnar á krabbameini sem tengja má reykingum. Viðvíkjandi krabbameini í lungum, vör, munnholi, koki og lifur hjá reykingarfólki kom fram: 1. reykingarfólk er í mun meiri hættu að fá krabbamein en þeir sem ekki reykja, (vel þekkt). 2. þeir sem reykja eru í mun minni hættu ef þeir neyta ginsengs, en ef þeir gera það ekki. Áhættuhlutfall (á.h.) þeirra sem reykja og neyta ginsengs samanborðið við þá sem reykja ekki og neyta ginsengs:
1,99 fyrir krabbamein í lungum
2,36 fyrir krabbamein í vör, munnholi og koki.
2,09 fyrir krabbamein í lifur
2,90 fyrir krabbamein í maga.

Samsvarandi tölur fyrir reykingafólk sem tók ginseng miðað við þá sem ekki tóku það voru: Lungnakrabbamein:
Reyktu og neyttu ginsengs á.h. = 1,99
Reyktu en neyttu ekki ginsengs á.h. 4,13
Krabbamein í vör, munnholi og koki:
Reyktu og neyttu ginsengs á.h. 2,36.
Reyktu en neyttu ekki ginsengs á.h. 4,41

Þar kemur alls staðar tala miklu hærri en 1, sem sýnir að áhættan á að fá krabbamein af völdum reykinga er alltaf til staðar en gingsengneysla getur þó minnkað þessa áhættu. Niðurstaðan sýnir lægra áhættuhlutfall hjá reykingarfólki sem neytir ginsengs og er í samræmi við dýratilraunir þær sem leiddu í ljós að rottur sem voru meðhöndlaðar með krabbameinsvaldandi efni úr tóbaksreyk, sýndu minni tilhneigingu til krabbameinsmyndunar ef þær fengu ginseng, en hinar sem fengu það ekki.16-18 Þessar niðurstöður styðja það sjónarmið að þeir sem taka inn ginseng séu í minni áhættu að fá ýmsar tegundir krabbameins. Þar sem aðrir hafa ekki stýrt farandsfræðilegum rannsóknum á fyrirbyggjandi áhrifum ginsengneyslu gegn krabbameini hafa þeir Yun og Choi framkvæmt rannsóknir í 4 aðalræktunarhéruðum ginsengs í Kóreu og einu héraði til samanburðar á u.þ.b. 15.000 einstaklingum. Þeirri rannsókn sem stóð í 7 ár er lokið en niðurstöður eru í greiningu.

Hvað veldur?
Ekki er fullkomlega ljóst hvaða innihaldsefni í ginsengi hafa þessi áhrif. Eins og áður er getið kom fram í dýratilraunum að tíðni kirtilæxla í lungum af völdum krabbameinsvaldandi efna hjá músum sem gefið var ginsengextrakt minnkaði og virkni drápsfrumunnar jókst, en úr henni hafði talsvert dregið við meðferðina með krabbameinsvaldandi efninu.8 Ef til vill er þarna að finna skýringu. Þar sem ginseng hafði verið notað sem náttúrulyf í Kóreu í aldaraðir fannst þeim Yun og Choi þó meiri ástæða til að fá staðfest hvort ginseng hefði þau krabbameinsbælandi áhrif hjá mönnum sem það hafði í músum heldur en að rannsaka virkni innihaldsefnisins. Japönsku vísindamennirnir Dr. Shibita og O Tanaka1 einangruðu fjölda tríerpen sapónín sambanda (svonefndra ginsenosíða) úr ginsengi árið 1965. Það var í fyrsta skipti sem þessi efni voru einangruð í náttúrunni. Síðan þá hafa 28 slík sambönd fundist í laufum og rótum ginsengplöntunar. 19 Það fer eftir tegund m.a. hversu margir ginsenosíðar eru til staðar í plöntum, t.d. hvort um er að ræða japanskt ginseng, amerískt ginseng eða Kóreu ginseng, en flestir hafa fundist í Kóreu ginsengi. Auk ginsenosíðanna hafa fjölda mörg önnur innihaldsefni verið greind í ginsengi. Í upphafi beindist athygli manna fyrst og fremst að ginsenosíðunum, sem virku innihaldsefnunum, því sýnt hefur verið fram á að þeir koma í veg fyrir stökkbreytingar20 og hamla vexti krabbameinsfruma. Athygli beinist nú að fleiri innihaldsefnum. Ef dæma skal út frá því að til staðar eru fleiri efnasambönd hver með sín sérkenni, sem komið hefur í ljós að verka gegn krabbameini, eru möguleikar á samverkandi áhrifum. Einnig er auðvitað sá möguleiki fyrir hendi að einhver óþekkt innihaldsefni hafi þessa verkun. Til þess að fá úr þessu skorið þarf að gera m.a. mjög víðtækar efnafræðilegar rannsóknir sem spennandi verður að fylgjast með í framtíðinni.

Tilvitnanir:
1 Shibita S Tanaka, O Soma, K lida, Y Ando, T, and Nakamura H. Studies in saponin and sapogensins of ginseng the structure of panaxatriol. Tetrrahedron Lett, 3. 207-213, 1965.
2 Tanaka, O and Kasai R Saponins of ginseng and related plants. In W. Herz, H Griesebach, G.K. Kirby and C Tamm(eds). Progress in Chemistry og Organic Natural Products, Vol 46, pp 1-76. New York Springer -Verlag, 1984.
3 Shibita S,. Tanka O, Shoji J and Saito H. Chemistry and pharmacology of panax. In H Wagner, H. Hikino and N.r. Farnsworth (eds) Economic and Medicinal Plant Reserch, Vol 1, pp 218-284. Tokyo Academic Press 1985.
4 Chang H.M. and But P.P. Pharmacologi and Applications of Chinese Materia Medical, Vol I Singapore: World Scientific, 1986.
5 Jing T H and Jin S B A. Simplifies version of Shenong´s Ancient Chinese Medical Textbook. Liang Dynasty of China circa 500 A.D p.40 Munkwang Doso, Taipei, Taiwan 1982.
6 Yun T.K,Yun T.K. un and Hanl, W An experimental study on turmor inhibitory effect of red ginseng in mice and rats exposed various chemical carcinogens. Proceedings of 3rd International Ginseng Symposium pp 87-113. Seul Korea: Korea Ginseng Reserch Institude Press 1980.
7 Yun T. K. Yun Y. S. and Han I-H Anticarcinogenietic effect of red ginseng on newborn mice exposed to various chemical carcinogens. Canser Detect Prev., 6 5-15 525, 1983.
8 Yun Y.S, Jo, S.K. Moon, H.S., Kim Y.J. Oh. Y.R. and Yun T.K. Effect of red ginseng on natural killer cell activity in mice with lung adenoma induced by urethan and benzo(a)pyrene. Cancer Detect Prev. I(Suppl): 301-309, 1987.
9 Yun T.K. and Lee Y-S Anticarcinogenic effect of ginseng powder depending on the types and ages using Yun´s anticarcinogeicity test (I) Korean J Ginseng Sci, 18 160-164 1994.
10 Yun T. K. and Lee Y-S Anticarcinogenic effects of ginseng extracts depending on the types and ages using Yun´s anticarcinogenicity test (II) Korean J Ginseng Sci 18 18. 160- 164, 1994.
11 Wu X,G and Zhu D.H. Influence of ginseng upon the development of liver canser induced by diethylnitrosamine in rats. J Tongji Med Univ. China 1010: 141-145, 1995.
12 Yun T.K. and Choi S.Y. A case control study of ginseng intake and canser Int J. Epidemiol. 19: 871-876, 1990.
13 WHO, International Classsificationof Diseses for Oncologi pp. 1-19 Genua Switzeland WHO 1976.
14 Cornifild J.A Statistical problems arising from retrospective studies. Prosidings of the 3rd Berklely Symposium IV pp 135-148 Berkly University California Press 1956.
15 Landis J.R. and Koch G.G. The measurement of observer agreement for categorical data. Biometrics 33, 159-174. 1977
16 Yun T. K. and Kim s_H. Inhibitantion of development of benzo(a)pyrenee- induced mouse pulmonary adenoma by natural products. J. Toxicol Sci (Japan) 16 (Suppl I) 53-62 1992.
17 Yun T.K Usefullness of medium term bioassy determining formation of pulmonary asenoma in NIH(GP) mice for finding anticarcinogenic agents from natural producs. J. Toxicol Sci (Japan) 16 (Suppl I) 53-62 1992.
18 Yun T.K. Kim s-H and Lee Y-S. Trial of a new medium term model using benzo(a)pyrene induced lung turmor in newborn mice. Anticancer Res 15, No 3 1995.
19 Liu cX and Xiao P.G. Recent advances on ginseng research in China J Ethnopharmacol 36: 27-28, 1992.
20 UmnovaN.V., Michurina T.L., Smirnova N.I. Alexandrova, I.V and Poroschenko G.G. Study of antimutagenic properties of Bio-ginseng in mammalian cells in vitro and vivo. Bull Exp Biol. Med 111: 507-509, 1991.
21 Tode, T., Kikuch Y., Kita T., Hirata, J., Imaizumi, R and Nagata, I. Inibitoryefffecys by oral administration of ginsenoside Rh2 on growth of human ovarian canser sells in nude mice. J canser Res. Clin. Oncol., 120: 24-26 1993.
22 Hirakura K. Morita, M Nakajima K Lkeya Y and Mitsuhashi H. Polyacetylenes from the roots of Panax ginseng. Phytochemistry 30, 3327-333, 1991.
23 Hirakura K. Morita M., Nakajima K Lkeya Y and Mitsuhashi H. Three acetylenic compounds from roots of Panax ginseng. Phytochememystry, 31: 899-903 1992.
24 Matssunaga H Katano M YMmoto H Fujito H Mori M and Takada K. Cytottoxic activity of polyacetylene coumpounds in Panax ginseng. Chem Pharm. Bull. 38: 3480-3482, 1990.Flokkar:Fæðubótarefni

Flokkar/Tögg

%d