SOV svæða- og viðbragðsmeðferð á höndum og fótum,

Í stuttri grein verður stiklað á stóru  um hugmyndafræðina að baki SOV meðferðar, en vonandi hafið þið gagn og gaman af. Svæða- og viðbragðsmeðferð er list snertingar, skynjunar og næmni. Hún er virk aðferð til heilsubótar, til sjálfshjálpar og til að hjálpa öðrum til bættrar heilsu. Rætur hennar má rekja árþúsundir aftur í tímann. Í SOV meðferð notar nuddarinn hendur sínar og meðhöndlar hendur og fætur nuddþega svo meðferðin verður samspil handa og fóta. Við ætlum fyrst að fjalla dálítið um hendur og fætur almennt og síðan ýmsar kenningar sem liggja að baki þessum fræðum og sýna myndir af höndum og fótum eins og þeir líta út þegar leyndardómar þeirra koma fram í dagsljósið

Hendur okkar og fætur eru listasmíð, ákaflega merkileg og gegna fjölbreyttu og margþættu hlutverki í lífi og starfi. Með höndum okkar tjáum við okkur og fæturnir tengja okkur við jörðina og þeir bera líkamann daginn út og daginn inn. Yfirleitt kvarta þeir ekki mikið en öll vitum við að þeir eru undirstaðan og ef þeir eru ekki í lagi þá erum við ómöguleg. Í hvorum fæti eru 26 bein og í hvorri hendi eru 27 bein. Þau tengjast saman um liðamót sem eiga að fjaðra og mynda samstillta hreyfingu þegar við vinnum með höndum, hreyfum okkur, göngum eða dönsum. Mjög mikilvægt er að fætur og hendur séu bæði sveigjanleg og sterk. Nú er það svo í okkar samfélagi að við getum ekki gengið berfætt og frjáls úti í náttúrunni, sveiflað höndum og fundið snertinguna við móður jörð og föður himinn, nema endrum og eins, það verður að segjast eins og er að veðurfar á Íslandi er ekki hagstætt til þessa. Lengstan hluta ársins verðum við að vera í sokkum og skóm og jafnvel með vettlinga. Þessir líkamshlutar verða stirðir og dofnir, sérstaklega fætur.

Hin vestræna kenning að baki svæðameðferðar er sú að líkamanum er skipt kerfisbundið í ákveðin svæði og þau svæði eru síðan kortlögð á höndum og fótum sem áhrifasvæði. Sérhvert líffæri og líkamssvæði á sér samsvörun á fótum og sérstakri nuddtækni er síðan beitt á þessi áhrifasvæði til að hafa áhrif á tiltekna líkamsstarfsemi til heilsubótar. Þessi kenning gildir einnig um hendur, allur líkaminn er kortlagður á höndum, og hægt er að meðhöndla hann í gegnum þær.

Dæmi: Ef tiltekið líkamssvæði, t.d. öxl, er undir álagi, með skerta hreyfigetu og verk, kemur fram álag á samsvarandi áhrifasvæði á höndum og fótum. Ef nú þetta áhrifasvæði er meðhöndlað þá getur álaginu létt og viðkomandi staður, hér öxlin, fer að virka betur, verkur minnkar og hreyfigeta eykst. Það hefur komið í ljós að svæðameðferð er verkjastillandi, örfar losun úrgangsefna, örfar starfsemi innkirtla, eykur blóðflæði til líffæra, er mjög róandi og dregur úr spennu í líkamanum.

Til er austræn kenning sem varpar ljósi á það hvernig svæðameðferð virkar. Samkvæmt henni hugsum við okkur líkamann sem tré, og eins og tréð hefur rætur niður í jörð þá hefur sérhver líkamshluti rætur niður í fæturna, sem þurfa að vera í lagi. Líffæri, vöðvar, taugar og bein, eiga rótarenda í fótum sem flytja næringu til þess staðar í líkamanum sem við á. Hendurnar eru greinar trésins og í gegnum þær fáum við næringu frá himninum, í okkar samfélagi eru þær yfirleitt betur tengdar sínu hlutverki en fæturnir, þær eru heilbrigðari, samt verðum við að muna að jurtin er ein heild og það sama á við um líkamann. Og þá sjáum við að í stað þess að vera eins og jurtir sem vaxa úti í náttúrunni og taka til sín næringu frá jörðinni og himninum, þá erum við allflest eins og pottablóm í glugga eða jafnvel eins og afskorin blóm í vasa.

Ræturnar í fótum okkar ná ekki þeirri næringu og örvun sem líkaminn þarfnast og líkamsstarfsemin verður ekki eins og best verður á kosið. Svæðameðferð á fótum ýtir við rótarendum og viðkomandi staður í líkamanum fær örvun og styrkist og aukið samband kemst á, rætur fara jafnvel að vaxa á afskorin blóm. Önnur austræn kenning heldur því fram að um líkamann streymi orka eftir orkubrautum, frá höndum til höfuðs, frá höfði til fóta, frá fótum til brjósts, frá brjósti til handa og svo áfram í flæðandi hringrás meðan við lifum. Kínverjar kalla orkuna kí, Indverjar prönu, við kjósum að kalla hana lífsorku.

Þessi lífsorka er alltumlykjandi og gegnumstreymir allt, lifandi verur hafa hæfileika til að nýta sér hana hver á sinn sérstaka hátt og hún streymir í ákveðnum farvegi um líkamann eins og áður er sagt og ef við erum heilbrigð þá er flæðið samfellt og engar hindranir. Við mennirnir erum búnir að klúðra þessu dálítið og erum undirlagðir af orkustíflum og hindrunum og það kemur fram í sjúkdómum og vanlíðan. Úr þessu er heilmikið hægt að bæta með viðbragðsmeðferð, þar sem þrýstingi er beitt á ákveðna punkta á orkubrautunum, ásamt örvandi eða letjandi orkubrautastrokum. Þessi kenning er vel þekkt á Vesturlöndum í gegnum kínversku nálastungumeðferðina, en með góðum árangri er hægt að nota þrýsting með fingrum í stað nála.

Lífsorkunni má skipta í nokkur stig:
1. Fósturorka sem tengir saman yin og yang, móður og föður.
2. Öndunarorka, líkaminn dregur til sín alheimsorku við inn- og útöndun. Kviðaröndun gefur aukna orku.
3. Fæðuorka, lifandi fæða, hrámeti svo sem grænmeti og ávextir gefa líkamanum besta orku.
4. Orkubrautaorka, orkan kemur frá móður jörð, föðurnum á himnum og frumum líkamans, hún tengist öllum líffærum.
5. Líkamstaktsorka, finnst best í æðakerfinu hefur sterk áhrif á tilfinningar.
6. Kynorkan, er í eistum karla og eggjastokkum kvenna
7. Andleg orka, orka ljóssins sem er innan persónuleikans og verndar okkur frá því að leiðast á ranga braut. Eykur varurð og hjálpar okkur til að vera hrein. Góð leið til uppljómunar.
8. Heildarorka, allt frá tómleikatilfinningu til fullnægingu. Í SOV meðferð byggjum við á þessum kenningum og tengjum þessi tvö meðferðarform saman.

Svæðameðferð byggist á því að hið stóra endurspeglist í því smáa, allur líkaminn endurspeglist til dæmis í fótum og höndum og hægt sé að meðhöndla heildina gegnum afmarkaðan hluta líkamans. Viðbragðsmeðferð byggir á því að um líkamann streymi orka í ákveðnum farvegi og hægt sé að hafa áhrif á þessa orku til heilsubótar.

Fyrr á öldum voru lækningar stundaðar vegna áhuga þeirra sem hæfileika höfðu, og hefðbundnar lækningar þeirra tíma voru byggðar á tilfinningum og reynslu og sú kunnátta sem þannig safnaðist gekk frá foreldrum til barna.

Nudd var stór þáttur í hefðbundnum lækningum fyrri tíma. Til eru myndristur frá tímum Faróa Egyptalands, sem sýna að verið er að nudda fætur og þrýstipunktameðferð og nálastungulækningar eru taldar mörg þúsund ára gamlar og kristnir menn vita út frá Biblíunni að Jesú Kristur sagði lærisveinum sínum að þvo fætur hvers annars. Það er ekki fyrr en á seinni hluta 19. aldar þegar rökhyggjan varð allsráðandi að hefðbundnar lækningar urðu að víkja fyrir nýju flokkunarkerfi. Nú skyldu þeir sem stundað höfðu lækningar kallast skottulæknar og fúskarar og starf þeirra óhefðbundið. Hefðbundnar lækningar skyldu vera byggðar á vísindalegum staðreyndum og rökhyggju, en ekki tilfinningum og reynslu.

Fjölmörg rit hafa verið skráð í viðleitni til að skilgreina mannlegt eðli. Yfirleitt hafa tvær stefnur tekist á „stefna vitsmuna og rökhyggju“ og „stefna innsæis og tilfinninga“. Vestræn læknisfræði byggist á vísindalegri þekkingu, og það sem við í dag nefnum óhefðbundnar lækningar byggir á þeirri þekkingu sem innsæi og reynsla genginna kynslóða hefur fært okkur. Það sem við í okkar skóla viljum helst sjá er að þessar stefnur vinni saman, bæti hvora aðra upp og jafnvægi sé ríkjandi. Fyrst og fremst er hver einstaklingur ábyrgur fyrir sinni heilsu og líðan, en jafnframt eigum við að hjálpa hvert öðru. Svæða og viðbragðsmeðferð er mjög áhrifarík heilsubótaraðferð sem allir ættu að þekkja og geta beitt, sér og öðrum til heilsubótar.

Skoðið fætur ykkar og athugið hvers þið verðið vísari, eymsli benda til álags á samsvarandi stað í líkamanum. Þessar myndir eru í lit á heimasíðu Svæða og viðbragðsmeðferðaskóla Íslands, nudd.is.

Að lokum:
Er það ekki sérstakt að fjallstoppur eins lítill og fjarlægur og hann er og umlukinn dulúð verður mörgum markmið og hvatning? Er það ekki sérstakt að þú hrífst af manneskju sem verður svo maki þinn og þú átt eftir að deila lífinu með? Er það ekki sérstakt að þér líður misvel í návist annarra? Er það ekki sérstakt að hægt er að hafa áhrif á líðan sína með því að þrýsti nudda fætur sína eða fara í SOV meðferð?

Svæða- og viðbragðsmeðferðaskóli Íslands býður upp á nám í ofangreindum fræðum, á Akureyri og í Reykjavík. Upplýsingar fást í síma 557-5000 og 895-7333. Heimasíða skólans er www. nudd.is.  Höfundur: Katrín Jónsdóttir árið 2001.



Flokkar:Kjörlækningar, Meðferðir

Flokkar/Tögg, , ,

%d bloggers like this: