Má verjast slitgigt?

Rætt við Egil Þorsteinsson, kírópraktor árið 2000
Bandaríkjamaðurinn Daniel David Palmer var búinn að átta sig á því árið 1895 að ýmsir kvillar læknuðust þegar hann færði til fyrri vegar bein er gengið höfðu til í hryggnum. Í framhaldi kynnti hann sér hvernig stoðkerfið tengdist taugakerfinu og komst að því sem nú er vitað; að taugakerfið stjórnar allri starfsemi líkamans. Hann lagði því áherslu á eðlilega starfsemi beggja kerfa. Þetta var upphaf kírópraktíkur sem Egill Þorsteinsson lauk námi í frá Sherman College of Straight Chiropractic í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum árið 1997.

Egill útskýrði fyrir okkur hvernig hægt er með kírópraktík að hamla framgangi slitgigtar og annarra vandamála í stoðkerfinu. Við gefum honum orðið:  ,,Taugakerfið er stjórnkerfi líkamans og samanstendur af heilanum, sem er eins konar stjórnstöð, mænunni og taugarótum sem liggja eins og trjágreinar út frá mænunni. Taugarnar greinast svo og ná til allra frumna líkamans. Heilinn stjórnar aðgerðum líkamans með því að senda taugaboð niður mænuna, út frá mænunni á milli hryggjarliðanna um taugaræturnar og til líffæranna. Heilinn fær síðan upplýsingar eftir sömu leið um ástand líffæranna og byggir ákvarðanir sínar á þeim upplýsingum. Brenglun í starfsemi taugakerfisins og áhrif hennar á líkamsstarfsemina alla er sá grundvöllur sem kírópraktík byggir á.

Það er einnig lykilatriði að vandamál í hryggjarsúlunni er það sem einkum truflar taugakerfið: hryggjarliður sem misst hefur stöðu sína er orsök vandans. Stóra spurningin sem kírópraktorinn þarf að svara er hver hryggjarliðanna er skaðvaldurinn. Hryggjarsúlan hefur meðal annars það hlutverk að hýsa og vernda mænu og taugarætur rétt eins og höfuðkúpan verndar heilann. Hún er einnig hluti af stoðkerfinu sem heldur okkur uppréttum, styður við höfuð og búk og viðheldur stöðugleika líkamans. Hryggurinn samanstendur af tuttugu og fjórum hreyfanlegum liðum sem gera það að verkum að öll súlan er hreyfanleg. Stöðugleikanum er að einhverju leyti fórnað fyrir hreyfinguna en á móti koma sterk liðbönd sem halda hreyfigetu liðanna innan ákveðinna marka. Mikilvægast þessara liðbanda er brjóskið sem liggur á milli liðbolanna og tengir þá.

Brjóskið leyfir ákveðna hreyfingu í liðnum og ákvarðar um leið stöðu liðarins sem situr hreinlega ofan á brjóskinu. Hversu vel tekst til með þessa hluti veltur á því hversu heilt brjóskið er. Nokkurn veginn í miðju brjóskinu er poki, fullur af hlaupkenndum vökva sem að mestu leyti er vatn. Poki þessi er eins og jafnvægispunktur og hreyfist til og frá í samræmi við hreyfingar liðarins fyrir ofan. Svo lengi sem liðurinn situr á sínum stað og hreyfir sig eðlilega og brjóskið er heilt, er liðurinn í lagi. Hreyfing er leið liðarins til að fá næringu og er lykillinn að heilsu liðarins.

Hnjask af ýmsum toga er orsök þess að liður missir stöðu sína. Um getur verið að ræða slys, síendurtekna ranga líkamsbeitingu, óeðlilega þyngdardreifingu líkamans, fæðingargalla, eiturefni í umhverfinu og slæmt mataræði, svo fátt eitt sé nefnt. Þegar liðnum er ýtt úr stað rifnar brjóskið og liðpokinn missir stöðu sína. Þegar brjóskið rifnar bólgnar það upp, líkt og útbungun á slöngu í sprungnu bíldekki. Útbungun þessi sest oft beint á taugarætur og truflar þar með taugaboð til og frá heilanum. Þetta hefur alvarleg áhrif á líkamsstarfsemina.

Gleymum því ekki að taugakerfið er stjórnkerfi líkamans. Stundum rifnar brjóskið upp að því marki að vökvinn í miðju brjóskinu lekur út úr liðpokanum. Þegar svona er komið missir liðurinn töluverða hreyfigetu og líkaminn á oft erfitt með að yfirvinna það ástand sjálfur. Fyrir því eru aðallega þrjár ástæður. Sú fyrsta er að þegar liðpokinn situr illa er erfitt fyrir hann að komast að miðjunni aftur, því vökvinn í pokanum er lítt eftirgefanlegur.

Önnur er sú að liðurinn fyllist af vökva sem dregur úr hreyfigetunni. Auk þessa fara vefir á brjóskinu að vefja sig saman, festast og hreyfingin minnkar enn. Allt þetta hefur auðvitað slæm áhrif á ástand liðarins. Sé ekkert að gert mun þessi slæma þyngdardreifing á liðnum og óeðlilega litla hreyfing valda því að brjóskið fer að gefa sig enn frekar. Liðurinn gengur í gegnum sex ákveðin stig sem sjást einna best á röntgenmynd þar sem hryggurinn er skoðaður frá hlið. Ég mun nú lýsa þessum sex stigum lauslega.

1. Þykkt brjósk: Allt brjóskið er þykkara en önnur brjósk í kring vegna þess að hnjask hefur átt sér stað og bólgur myndast.

2. Brjósk þynnra aftan til:Liðurinn er nú kominn yfir mestu bólguna. Liðurinn situr nú aftarlega og brjóskið er þunnt aftan til.

3. Brjósk enn þynnra aftan til: Nú er ástandið að verða krónískara. Liðurinn situr aftar og brjóskið er enn lokaðra að
aftanverðu.

4. Allt brjósk þunnt: Nú hefur greinilega dregið mjög úr þykkt brjósksins í heild og hún orðin um það bil tveir þriðju hlutar
af upprunalegri þykkt. Oft sjást skemmdir á liðbolum, sérstaklega á liðnum ofan við brjóskið.

5. Allt brjósk þynnra: Nú er u.þ.b. einn þriðji hluti eftir af þykkt brjósksins. Liðbolurinn ofan við brjóskið er oft meira
skaddaður.

6. Allt brjósk mjög þunnt: Þegar svona er komið er lítið eftir af brjóskinu og stutt í að bein snerti bein. Ef það gerist byrja liðirnir að festast saman. Hér hefur verið í stórum dráttum lýst ferli því sem á sér stað þegar liðir í hryggjarsúlu og annars staðar slitna. Þegar vandamál af þessu tagi eru fyrir hendi í liðum, eru ákveðin einkenni til staðar. Bólgur og eymsli eru í kringum liðina, og hreyfigetan er minni en eðlilegt er svo dæmi séu nefnd.“

Varð verkjalaus í mjöðm:
Fróðlegt var að tala við Ester Benediktsdóttur, sjötíu og þriggja ára. Hún sagðist hafa beðið lengi eftir skurðaðgerð vegna skemmds mjaðmarliðar og þjáðst mikið, hún tók út kvalir við göngu og var engan veginn fær um að gegna algengum heimilisstörfum. Til dæmis hafði hún þurft að láta þvo fyrir sig gólfin um árabil. Mikil umskipti urðu fljótlega eftir að hún áræddi að fara til Egils í meðferð. Veikari fóturinn fór smám saman að lagast og þremur mánuðum síðar var hún verkjalaus og gat þvegið sitt gólf sjálf. Áður en hún byrjaði í meðferðinni sagði hún næturnar hafa verið verstar, verkirnir voru miklir ef hún lagðist fyrir. Sú kvöl leið hjá eftir nokkur skipti hjá Agli.

Ester ákvað því þegar komið var að henni í biðröðinni á sjúkrahúsinu að láta aðgerðina bíða eins lengi og meðferðin hjá Agli héldi henni verkjalausri. Aðspurður sagði Egill að ef skoðaðir eru spjaldliðir þeirra sem kvarta um verki í mjaðmaliðum megi oft sjá að þeir eru í rangri stöðu og fastir. Staða spjaldliðanna ræður miklu um hversu eðlileg starfsemi mjaðmarliðanna er. Sé staða og hreyfing spjaldliðanna óeðlileg orsakar það slæma stöðu og óeðlilega hreyfingu lærleggjanna, þar sem þeir mæta mjöðmunum. Við þetta bólgna og slitna brjósk og liðbönd í mjaðmarliðum sem orsaka niðurbrot í þeim.

Meðferðarúrræði er að laga stöðu og hreyfingu spjaldliðanna. Kírópraktorinn skoðar sjúklinginn með það fyrir augum að fá sem mestar upplýsingar um vandamálið, hvaða liður er orsök þess, hvernig fór hann úr stað, hvaða áhrif slíkt hefur á aðra liði og líkamann í heild. Í þessum tilgangi notum við meðal annars mælingar á hitanum við hryggjarsúluna, hreyfigeta liðanna er prófuð, leitað er að bólgu og eymslum, einnig nota ég ásamt Bergi Konráðssyni röntgenmyndir þar sem hryggjarsúlan er gaumgæfilega skoðuð aftan frá og frá hlið. Þegar upplýsingar liggja fyrir er tekin ákvörðun um hvaða liðum þarf að hnika til og hvernig. Nákvæmni í þessum efnum er geysilega mikilvæg. Takmarkið er að færa liðinn stystu leið til baka í rétt horf og hafa þannig jákvæð áhrif á stöðu og hreyfingu hans.

Þetta tvennt stuðlar að því að bólgur hverfi úr liðnum og að hann fari að starfa eðlilega á ný. Þá léttum við þrýstingnum af taugakerfinu, fáum meiri stöðugleika í hryggjarsúluna og getum hægt á og jafnvel stöðvað þá óheillaþróun sem komin var af stað í liðnum. Að sjálfsögðu geta aðrir liðir líkamans orðið fyrir hnjaski, svo sem hnjáliðir, axlarliðir, olnbogaliðir, úlnliðir og kjálkaliðir. Þeir geta þá einnig þurft meðhöndlun af því tagi sem lýst hefur verið.“

Fólk sem leitar til kírópraktora er á öllum aldri, allt frá nýfæddum börnum til elstu borgara samfélagsins. Sumir eru illa haldnir af verkjum, stundum með mikla slitgigt eða alvarlega sjúkdóma. Um getur verið að ræða ófrískar konur og fatlaða einstaklinga svo dæmi séu tekin. Taka þarf tillit til hvers og eins, svo meðferð megi verða sem árangursríkust. Nám kírópraktors tekur sex ár og endar með doktorsgráðu í greininni. Helstu áherslur eru oftast á líffæra- og lífeðlisfræði, taugafræði, röntgenfræði og allt sem viðkemur kírópraktíkinni sjálfri.

Viðtölin voru tekin og skrifuð árið 2000 af Ingibjörgu SigfúsdótturFlokkar:Meðferðir

Flokkar/Tögg,

%d