Feng Shui -vindur og vatn

Feng Shui
Feng shui, sem þýðir vindur (eða loft), og vatn, eru forn kínversk fræði sem segja frá samspili vinda og vatna, og áhrifum þessa samspils í náttúrunni. Samkvæmt feng shui, er landslag lifandi, með faldan kraft og orkuleiðir sem verða til út frá lagi, stærð og lit landslags formsins, áttanna, og eðli efnisins sem í landslaginu er. Hið sama gildir í bústöðum manna. Í þeim býr kraftur sem hefur áhrif á fólkið sem í þeim býr. Að lifa í eindrægni og samlyndi með umhverfi sínu er undirstöðuatriði í feng shui, svo að sú orka sem umlykur mann vinni fyrir, frekar en á móti manni.

Saga feng shui
Feng shui er ekki ,,nýaldar“ innanhúsarkitektúr, uppfundinn til þess að auðvelda okkur uppröðun á hlutum í íbúðinni, svo einfalt er það ekki. Feng shui eru fræði sem þróast hafa í hundruð ára og sem gefa okkur upp stærðfræðilegar og stjarnfræðilegar formúlur sem segja til um hvernig er best að aðlagast umhverfi okkar og tíma, fræði sem segja til um hvernig er best að hagræða lífi okkar og heimili til þess að auðvelda okkur lífsins leið. Uppruni feng shui liggur í hinum merku fræðum, I Ching, en notkun á feng shui upphófst líklegast fyrir liðlega 3000 árum þegar fræðin voru fyrst og fremst notuð til þess að finna hentugustu landsvæðin fyrir grafreiti.

Þetta voru fræði, stunduð af búddískum prestum, sem voru helstu fræðimenn þessa tíma. Seinna var feng shui nýtt í sambandi við tímasetningu hvað varðaði landbúnað, en þá var reiknað út hvaða tími væri arðvænlegastur til að sá og uppskera. Jafnframt er feng shui notað við byggingu hýbýla. Fræðimenn sem fengu að læra feng shui voru valdir ungir að aldri og þeir eyddu síðan ævinni í að nema kínverska heimspeki, þar með talið feng shui fræðin. Oftar en ekki voru feng shui meistarar einnig miklir stjörnufræðingar, og læknar, vegna þess að þeir voru taldir búa yfir leyndardómum lífs og dauða.

Eins og fyrr segir liggur uppruni feng shui í I Ching, sem er fræðibók, skrifuð og þróuð af fjórum mönnum; Fu Hsi, King Wen, syni hans hertoganum af Chou, og Confusius. Þegar bókin er túlkuð og notuð á réttan hátt, nýtist hún til þess að skýra út og aðstoða við alla þætti lífsins. Innan I Ching stjörnufræðinnar er að finna þrenns konar kerfi;

1. T’ien Pan Shen Shu, sem þýðir orðrétt ,,járnplötu himnesk númer“. Þessi fræði eru númerafræði sem ekkert er til um í rituðu máli, vegna þess að óleyfilegt er að skrifa þau á blað. Þau eru leyndarmál og eru numin frá munni til munns.
2. Ho Lo Li Shu, sem þýðir ,,Ho kort Lo kort rökrétt númer“. Þessi fræði vinna út frá kenningunni um þrí-samlínurnar og niðurröðun þeirra, og er í þeim að finna m.a. þá formúlu sem nýtist til þess að ákvarða fæðingarorku einstaklinga, þ.e. ,,stofnar og greinar“ formúluna.
3. Chiu Kung Ming Li er níu húsa stjörnufræðin sem notast aðallega við Lo kortið, eða King Wen niðurröðun þrí-samlínanna. Það er héðan sem megin uppistaða feng shui er upprunnin.

Til eru fimm viðurkenndar kenningar, eða aðferðir, til iðkunar á feng shui; fyrst er að nefna Nyagnopa (rauði hattur), þá Geluypa (guli hattur), Kayupa (hvíti hattur), Sakyapa (blandaði hattur), og Bon (svarti hattur). Fyrstu fjórar kenningarnar eru upprunalegri, og nota áttavitann til þess að ákvarða áttir innandyra, á meðan Bon kenningin gengur út frá því að útidyrnar séu alltaf í norðri og ákvarða aðra hluta hússins út frá þeim. Það feng shui sem tíðkast hér, í okkar vestrænu veröld, er oft blanda af kenningum hinna mismunandi ,,hatta“, og er oft á tíðum verulega einfaldað til þess að falla inn í það tímaskyn sem hentar vestrænum huga.

Hugtakið feng shui – vindur og vatn
Hugtakið vindur getur átt við loft, eða orku, sem maður finnur fyrir sökum hreyfingar þess, eða loft sem er stöðugt, án hreyfingar. Vindurinn er hið óefnislega. Hann sést ekki og finnst aðeins vegna þess sem hann ber og vegna þess sem hann hreyfir. Vatn er allt efni sem ber í sér raka, það sést og finnst, og er þannig tákn fyrir það sem er efnislegt. Vatn getur verið tært eða gruggugt, þungt, eins og harðnandi hraun, eða létt eins og nýfallinn daggardropi sem flýtur af laufinu við minnsta titring. Vindurinn getur verið hreyfing sem varla finnst sem neitt annað en ferskleiki, og hann getur verið sá kraftur sem rífur upp höf og lönd. Vatnið er efnislegt og er því Yin, vindurinn er orka og er því Kí, eða Yang. Samspil þessara tveggja einda er lífið.

Hér eu nokkur dæmi um eðli Yin og Yang

YIN                                                         YANG
Jörðin                                            Himinninn
Skuggahlið fjallsins Nordurhlið             Sólarhlið fjallsins Suðurhlið
Flatlendi                                        Hringlaga
Víðátta                                            Tími
Dagur                                              Nótt
Tunglið                                            Sólin
Vestur                                              Austur
Norður                                             Suður
Hægri                                               Vinstri
Fyrir neðan                                     Fyrir ofan
Fyrir innan                                      Fyrir utan
Framan við og fyrir miðju           Að aftan og til hliðar
Form, líkami                                    Starfsemi
Blóð og líkamsvökvi                       Orka
Nærandi Kí                                     Varnar Kí
Yin nærir Yang                               Yang skapar Yin

Frumatriði feng shui –  Þrí-samlínurnar
Ein formúlan sem notast er við í feng shui, er samspil hinna átta þrílína í tvenns konar uppröðunum; Fu Hsi og King Wen. Fu Hsi formúlan lýsir lífinu eins og það getur orðið, og er nefnd ,,fyrir himin uppröðun“. Fu Hsi lýsir öllu eins og það er ,,á himnum“, þ.e. eins og hlutir eru áður en þeir eru blásnir lífi, og má líkja fu hsi uppröðunina við uppskrift að eðli efnis og hreyfingar, líkt og DNA strúktúr lýsir kjarna og eðli frumunnar. Hvað síðan verður um frumuna þegar hún mætir lífsöflunum, er lýst með king wen,sem er einnig nefnt ,,eftir himin uppröðun“.

Fu Hsi er þannig séð sem nokkurs konar forskrift að því sem verður, á meðan King Wen lýsir lífinu eins og það er, í náttúrunni, himnunum, og manninum. King Wen uppröðunin sýnir hreyfingu og samruna allra afla sem í lífinu finnast. Stuðst er við Fu Hsi formúluna þegar hanna á grafreiti, vegna þess að hún lýsir því sem orðið getur, þ.e. lífinu eftir dauðann og lífi þeirra sem á eftir koma, afkomendum hins látna. King Wen formúluna er stuðst við þegar þjóna á tilgangi lífsins, við hönnun á íverustöðum hinna lifandi, vegna þess að hún lýsir lífi í hreyfingu. Niðurraðanirnar eru á svokölluðum þrí-samlínum sem skýra samspil Yin og Yang. Þrí-samlínurnar eru til orðnar frá athugun á þróun Yin og Yang.

Fyrst voru tvö öfl séð;
Yin, sem er lýst með brotinni línu og Yang, sem er lýst með heilli línu þegar þessi tvö öfl koma saman þróast fjórar samlínur, eða fjögur öfl; Þessar fjórar samlínur túlka meðal annars árstíðirnar og áttirnar;
Hið mikla Yin túlkar veturinn og norðrið Minna Yin túlkar haustið og vestrið Hið mikla Yang túlkar sumarið og suðrið Minna Yang túlkar vorið og austrið Með áframhaldandi uppbyggingu og samruna á Yin og Yang, myndast þrí-samlínur, átta talsins. Það er við þessar átta þrí-samlínur sem notað er til að túlka öll öfl í náttúrunni.

Chien ……….Kun………..Chen…………Sun
Faðirinn…..móðirin……1. sonur …….1. dóttir
Málmur……..jörð…………viður………….viður

Kan …………Li………… Ken ………….Tui
2. sonur……2. dóttir…..3. sonur…….3. dóttir
Vatn……………..eldur……….jörð………….málmur

Og það er út frá samruna þessara átta þrí-samlína sem hinar sextíu og fjórar (8×8) sex-samlínur myndast, því öll mætast þessi öfl, á einn eða annan hátt. Hver samruni skapar ákveðin skilyrði sem hefur síðan ákveðin áhrif á lífið. Þetta eru fræði sem hin merka bók, I Ching, skýrir frá.

Frumöflin fimm
Önnur formúla sem notast er við í feng shui fræðunum er uppröðunin á hinum fimm frumöflum;
* Eldur – sólin, lýsing, sumar, hiti, hjartað, suður, rauður litur, bardagar.
* Jörð – gulur litur, miðja, miltað, hinar fjórar árstíðir.
* Málmur – haust, vestur, hvítur eða grár litur, lungun.
* Vatn – vetur, nýrun, svartur litur, norður, faldir hlutir, hvíld.
* Viður – lífleiki, austur, vor, lifrin, grænn litur.

Uppröðunin sýnir m.a. hvernig eitt frumafl nærir annað og hvernig eitt frumafl stjórnar öðru. Uppröðunin lýsir því hvernig jafnvægi er viðhaldið í náttúrunni og þar með í hýbýlum og íverustöðum fólks.

Ba gua
Þegar þessar tvær formúlur eru tengdar saman mynda þær Ba gua, sem er kannski þekktasta táknið í Feng shui heimspekinni. Ba gua þýðir; hinar 8 áttir, og gefur það okkur upplýsingar um hvernig hlutum er hagrætt í náttúrunni og þar með, hvernig best er að hagræða hlutum í umhverfi okkar, meðal annars með tilliti til; átta, eiginleika hverrar þrí-samlínu, frumaflanna og ferla þeirra, lita og fæðingarorku einstaklingsins sem á þar heima. Feng shui er ekki séð sem vísindi hér á vesturlöndum, vegna þess að ekki er hægt að sanna áhrif þess né eðli á vísindalegan hátt.

Það eru ekki trúarbrögð, þó svo að margir nýti sér feng shui við iðkun trúarbragða sinna. Það er heldur ekki eingöngu heimspeki vegna þess að í feng shui er notast við háþróaða tækni og einstök verkfæri. Feng shui er heldur ekki eitthvað sem fólk þarf að trúa á; og sé einhver spurður hvort hann trúi á feng shui, er alveg eins hægt að spyrja þann hinn sama hvort hann trúi á veðrið. Gagnalisti yfir bækur og blöð sem höfundur studdist við við gerð þessarar greinar;

Heimildir: ? The I Ching or Book of Changes, í þýðingu Richard Wilhelm, Princetown University Press ? The Astrology of I Ching, í þýðingu W. K. Chu, ph.D, Routledge & Kegan Paul.? The Way of Chinese Astrology, Jean-Michel Huon de Kermadec, Unwin paperbacks. ? The Feng Shui Handbook, Derek Walters, Thorsons. ? Amazing scientific basis of Feng Shui, Dr. Ong Hean-Tatt Ph.D, Eastern Dragon Press. ? Health, Wealth & Balance Through Feng Shui, Elaine Jay Finster, New age concepts. ? FSML, Centennial Publishing Plc

Höfundur: Arnbjörg Linda Jóhannsdóttit  skrifað árið 1999Flokkar:Umhverfið

%d bloggers like this: