Rolfing -handfjötlun á tengivefjum líkamans

Rætt við Hafþór R. Gestsson árið 1999
Fyrir nokkrum árum hitti ég konu sem sagðistvera að læra rétta líkamsbeitingu með aðferð sem héti Rolfing hjá erlendum manni sem byggi yfir þessari þekkingu. Að hennar sögn hafði meðferðin leyst heilsuvandamál sem hún átti við að etja. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hitti Elísabetu Pétursdóttur athafnakonu í Reykjavík og heyrði sögu hennar um bakveiki sem bráðbatnaði eftir Rolfingmeðferð. Þá fannst mér tími til kominn að kynna lesendum blaðsins þessa meðhöndlun sem ekki mun vera mikið þekkt hérlendis
.
Saga Elísabetar er sú að hún hafði kennt verkja í mjóbaki síðan hún var barn, en þá lenti hún í slysi og var stuttu seinna skorin upp við botnlangabólgu. Síðan kenndi hún þessu tvennu um bakverkina. Um hríð hélt hún að verkirnir stöfuðu af samgróningum í kviðarlíffærum og hélt að verkina leiddi aftur í mjóhrygginn. Einnig kenndi hún um mikilli bakskekkju sem var svo mikil að sjá mátti utan klæða. Síðastliðinn vetur var hún orðin afar þjáð, hún gat hvorki legið eða setið og átti erfitt með gang, verst var þó að standa upp. Hún tók það til ráðs að láta útbúa fyrir sig púlt þar sem hún gat staðið við tölvuna.

Þannig var ástand hennar þegar hún frétti af Hafþóri Gestssyni sem nýlega var þá kominn frá Bandaríkjunum úr námi í Rolfing og komst til hans í meðferð. Ekki þarf að orðlengja það að strax eftir fyrsta tímann leið henni mikið betur. Eftir það fór hún í hefðbundna Rolfingmeðferð, sem fólst í tíu skiptum sem tóku einn og hálfan klukkutíma hvert skipti. Unnið var eftir ákveðnu kerfi sem hefur innbyrðis samhengi. Í hverjum tíma voru teknir fyrir mismunandi líkamshlutar þannig að þegar meðferðinni var lokið átti samhæfing líkamans að vera orðin góð. Það má sannarlega segja að slíkt hafi tekist í Elísabetar tilfelli því að hún hefur ekki kennt sér meins í bakinu síðan og hryggskekkjan er ekki lengur auðsjáanleg.

Í hverju var batinn fólginn
Eftir að hafa heyrt um bágindi og bata Elísabetar fýsti mig að vita meira um þessa meðferð og leitaði til Hafþórs R. Gestssonar sem er fyrsti Íslendingurinn sem lært hefur Rolfing. Með leyfi Elísabetar innti ég hann fyrst eftir því í hverju hjálp hennar hefði verið fólgin og er eftirfarandi umsögn birt hér með hennar leyfi.

Hafþór: Þegar ég sá Elísabetu fyrst var ég ekki viss um að ég gæti mikið fyrir hana gert sökum þess hve skakkur hryggur hennar var. Það kom síðar í ljós á röntgenmynd að hún var með liðskrið þar sem einn hryggjarliður var skriðinn talsvert til á næsta fyrir neðan. Hún var búin að læsa sér í þeirri líkamsstöðu þar sem hún fann minnst til. Hliðarhryggskekkja (scoliosis) í fullorðnu fólki er erfið viðureignar. Með Rolfing er stundum hægt að rétta nokkuð úr henni og að ná fólki verkjalausu en hún réttist ekki fullkomlega. Öðru máli gegnir um unglinga sem eru enn að vaxa, þar er hægt að hjálpa bandvefnum að halda í við beinvöxtinn og halda þannig skekkjunni í lágmarki.

Í tilfelli Elísabetar náðist að rétta talsvert úr skekkjunni og losa hana þar með við verkina. Orsökin lá að hluta til í bandsvefsfellum mjóbaks og kviðar en einnig í rass og aftanlærsvöðvum Hún hafði alla tíð gengið mikið, farið í sund og verið á skíðum þar af leiðandi engið sterka bakvöðva. Afleiðingin var sú að bandvefurinn í mjóbakinu varð stuttur og herptur . Sama gilti um rass og aftanverða lærvöðva. Með því að teygja sinar, fell, liðbönd og bandvefinn utan um vöðvana var hægt að ná þessum ágæta árangri, ekki er síst að þakka henni sjálfri því hún tók þátt í meðferðinni af lífi og sál.

Ég veit að þetta var henni oft erfitt þegar ég þurfti að vinna djúpt á viðkvæmum svæðum en hún kvartaði aldrei. Rolfing er í raun vinna beggja aðila og því er mikilvægt að skjólstæðingurinn sé virkur og jákvæður gagnvart vinnunni. Þó verkefnið væri krefjandi var mjög gaman og gefandi að vinna með Elísabetu vegna hennar jákvæða viðhorfs og andlega styrks.

Rolfing eða Rolfun
Rolfing er líkamsmeðhöndlun og hreyfikennsla. Meðferðin miðar að því að koma jafnvægi á líkamann í þyngdaraflinu með því að draga úr líkamsskekkjum, þannig stendur líkaminn hagkvæmast undir sjálfum sér og ber sig um með lágmarks fyrirhöfn. Rolfing kom fram í Bandaríkjunum um miðja þessa öld og er byggt á 50 ára vinnu og rannsóknum bandaríska lífefna- og lífeðlisfræðingsins dr. Idu P. Rolf. Meðferðin dregur nafn sitt af henni. Rolfing tæknin byggist á djúpri og mjög hægri þrýstimeðferð, sem losar um herptan bandvef og bandvefsfell (fascia), ásamt kennslu í hreyfingum og sjálfgæslu þannig að líkams-staða/beiting og vitund getur breyst varanlega.

Meðferðin endurvekur eðlilegan sveigjanleika, lengd og aðskilnað bandvefslaga. Þannig er hægt að komast hjá röngu álagi á liðamót og of miklu álagi á vefjakerfi líkamans. Þessi nýja og bætta líkamsbeiting leiðir oft til þess að gamlir viðvarandi verkir hverfa. Dr. Ida Rolf líkti mannslíkamanum við kubbahlaða og sagði að ef líkamsbyggingin væri bein væri allt í lagi. Þar gilti sama lögmál og með kubbana ef einhver hluti hennar gengi úr beinni línu ylli það óstöðugleika.

Markmið meðferðarinnar er að hjálpa líkamanum að finna jafnvægi. Það er gert með því að losa um bandvef líkamans, sem er samfléttað net frá hvirfli til ilja. Líkaminn er fræðilega nokkuð bein lóðlína og hreyfingarnar frjálsar ef allt er í lagi. Þegar eitthvað raskar lóðlínu líkamans þurfa vöðvarnir að halda við bygginguna. T.d. þegar önnur líkamshliðin lengist en hin styttist, liðbönd togna, vöðvar og bandvefsfell gefa eftir á einum stað en herpast saman á öðrum. Orka eyðist þar sem líkaminn leitast við að halda sér uppi á rangan hátt. Þeir vefir sem bregðast best við Rolfing meðferð eru þessi bandvefsfell, oft er hægt að hjálpa fólki sem kvartar um stirðleika, særindi eða verki sem stafa af því að þessi fell eru orðin stutt og þykk. Stundum festast þau við aðliggjandi vefi og geta þannig dregið úr hreyfigetu.

Eini Íslendingurinn
Hafþór R. Gestsson útskrifaðist sem Rolfer í bandvefsmeðferðinni Rolfing árið 1998, frá eina skólanum í heiminum sem kennir þessi fræði, The Rolf Institute, Boulder, Colorado í Bandaríkjunum. Inntökuskilyrði í skólann eru stúdentspróf (College degree) eða sambærileg menntun, haldgóð reynsla í nuddi og nuddaðferðum og að standast inntökupróf í skólann í líffæra- og lífeðlisfræði. Áður útskrifaðist hann sem svæðanuddari frá Nuddskóla Reykjavíkur hjá Kristjáni Jóhannessyni sjúkranuddara, sem nuddfræðingur frá Nuddskóla Guðmundar Rafns Geirdal, sem pólunarfræðingur frá Polarity Center of Colorado (nám sem Lilja Þormar hjúkrunarfræðingur stóð fyrir hér á landi) og með reikimeistaragráðu frá skóla Bergs Björnssonar. Þar að auki hefur hann lokið mörgum stuttum námskeiðum í tengdum greinum m.a. í krufningu. Þess má til gamans geta að allnokkrir starfandi læknar, sjúkraþjálfarar, hnykkjarar og hjúkrunarfræðingar í heiminum hafa stundað nám í The Rolf Insititute og nota Rolfing í sínu starfi.

Hafþór segir að þó að Rolfing aðferðin hafi algjöra sérstöðu þá eigi hún helst samleið hér á landi með störfum sjúkraþjálfara, sjúkranuddara og kírópraktora því þessar aðferðir byggja allar á einhverskonar sértæknimeðhöndlun (physical manipulation) þó hver með sínu sniði. Þess má geta að svissneska heilbrigðiskerfið greiðir fyrir Rolfing meðferð líkt og Tryggingastofnun greiðir niður sjúkraþjálfun á Íslandi. Einnig greiðir fjöldi bandarískra heilsutryggingafélaga Rolfing meðferð fyrir skjólstæðinga sína. Hafþór segir það staðfasta trú sína að með tilkomu þessarar meðferðar til viðbótar þeim sem fyrir eru hér á landi megi spara í heilbrigðiskerfinu svo sem síendurteknar dýrar myndatökur af stoðkerfum sem æ ofan í æ sýna að allt virðist í lagi hjá viðkomandi þó að hann eigi við sífelda verki að stríða. Við þær aðstæður getur Rolfingmeðferð oft leyst stoðkerfisvandamál þegar önnur meðferðarform hafa brugðist.

Þessi grein var endurskoðuð í desember 2018 þá var Hafþór hættur að vinna við rolfing og hafði snúið sér að öðrum viðfangsefnum.

 Flokkar:Meðferðir

%d