Kvikasilfurseitrun af völdum amalgam tannfyllinga

Ingibjörg Sigurðar og Soffíudóttir segir frá reynslu sinni

Virtur sænskur tannlæknir Christer Malmström, sem sérhæft hefur sig í að fjarlægja amalgamfyllingar úr tönnum og meðhöndla fólk með sjúkdóma af völdum kvikasilfurseitrunar, lýsir sig reiðubúinn að koma til Íslands til að kenna heilbrigðisstéttum að greina sjúkdóminn og meðhöndla afleiðingar hans. Hér fer á eftir viðtal við Ingibjörgu Sigurðar og Soffíudóttur, sem hefur gengist undir meðferð hjá Christer Malmström.

Ingibjörg er Hug- og handverkskona útskrifuð frá Myndlistar og handíðaskóla Íslands og Konstfacskolan í Stokkhólmi, en hefur unnið við margt annað ásamt myndlistinni, m.a. skrifað barnabók er nefnist Blómin á þakinu. Hún er einmitt um þessar mundir boðin til Normandí í Frakklandi á menningarhátíð vegna bókarinnar  Hún starfar núna sem stuðningsfulltrúi hjá Svæðisskrifstofu Reykjavíkur málefna fatlaðra. En það verkefni sem í öndvegi hefur verið hjá Ingibjörgu síðastliðin 21 ár er uppeldi dóttur hennar, sem ekki gekk átakalaust vegna torkennilegra veikinda hennar sjálfrar. Hún leitaði til lækna hérlendis en enginn virtist átta sig á hvað væri til ráða. Leitin að lækningu endaði eftir 20 ár í Svíþjóð þegar Ingibjörg komst til Christer Malmström og hann fjarlægði allar amalgam tannfyllingarnar úr munni hennar. Nú gefum við Ingibjörgu orðið:

Veikindi mín lýstu sér í mikilli vanlíðan bæði andlegri og líkamlegri. Ég var stödd í Svíþjóð er ég komst að því að hægt var að finna út með rannsókn á hægðasýni hvort um kvikasilfurseitrun væri að ræða. Rannsóknarstofa þar í landi gerði fyrir mig þessa rannsókn og ég fékk niðurstöðurnar sendar hingað heim. Í rannsókninni kom fram að kvikasilfrið í líkama mínum var langt fyrir ofan eðlileg mörk. Næsta skref var því að kynna sér möguleika á meðferð hér heima en ég komst að því að engin úrræði voru hérlendis. Læknar virtust alls ófróðir um slík veikindi. Ég neyddist því til að taka þá erfiðu ákvörðun að dvelja í heilt ár í Svíþjóð meðan á meðferðinni stóð. Allar amalgamfyllingarnar voru fjarlægðar úr munni mínum. Þó að dvölin erlendis væri vægast sagt mjög erfið var þó erfiðara að koma heim til Íslands þar sem engan stuðning var að fá. Í Svíþjóð eru til samtök amalgam og rafmagnsóþolssjúklinga, auk þess sem stuðningshópar þar eru mjög virkir. Einnig gat ég leitað til tannlækna, lækna og sérfræðinga svo sem vísindamanna og sálfræðinga, sem eru upplýstir á þessu sviði.

Rafmagnsóþol algengt
Það má segja að ég hafi fengið tvo „alranga“ sjúkdóma því að ég fékk líka mikið rafmagnsóþol. Algengt er að fólk sem fær kvikasilfurseitrun verði fyrir því, en það er þó ekki algilt. Alrangra sjúkdóma segi ég vegna þess að íslenska heilbrigðiskerfið viðurkennir þá ekki. Ég þurfti því að fjármagna meðferðina og utanlandsveruna alfarið sjálf. Það sem mestu máli skipti var að ég endurheimti heilsuna við þessa meðferð ef undan er skilið rafmagnsóþolið, sem þó hefur minna þjakað mig eftir því sem frá líður.

Var heppin
Ég var heppin að komast í hendur eins þekktasta tannlæknis heims Christer Malmström, sem sérhæfður er í að fjarlægja amalgam úr tönnum. Hann er einn af frumkvöðlunum og hefur starfað á þessu sviði hátt í 20 ár og ferðast nú vítt og breitt um heiminn ásamt öðrum lækni, til að halda námskeið fyrir tannlækna og lækna. Ástæða þess að mikilvægt er að upplýsa lækna um einkenni kvikasilfurseitrunar er sú að fólk leitar fyrst til lækna með kvilla sína. Í tilfellum kvikasilfurseitrana er mikilvægt að undirbúa einstaklinginn vel áður en meðferð hefst hjá tannlækni. Einnig er mikilvægt að fylgjast vel með fólkinu á meðan og á eftir meðferð, því að fráhvarfseinkenni eiga sér stað á meðan kvikasilfrið er að hverfa úr líkamanum. Enginn sem telur sig vera haldinn kvikasilfurseitrun vegna amalgamtannfyllinga ætti að leita til annarra tannlækna en þeirra sem hafa sérhæft sig á þessu sviði. Því miður eru dæmi þess að vankunnátta hafi orðið til þess að varanlegt heilsutjón hefur hlotist af.

Býðst til að koma
Mér er ánægja að segja frá því hér að Christer Malmström hefur beðið mig að koma því á framfæri við íslenska lækna og tannlækna að hann sé tilbúinn ásamt öðrum lækni að halda námskeið hér á landi. Eftir þá veikindabaráttu sem ég hef háð, sem ég óska engum öðrum að ganga í gegn um, hvet ég íslenska lækna og tannlækna að þiggja þetta boð og kynna sér hlutina, sagði Ingibjörg að lokum.

Ingibjörg Sigfúsdóttir skráði  árið 1999

Sjá líka á www.heilsuhringurinn.is  Kvikasilfurseitrun frá tannfyllingum, Kvikasilfurseitrun úr tannfyllingum, Kvikasilfurseitrun af völdum amalgam tannfyllinga.Flokkar:Eitrun og afeitrun

%d bloggers like this: