Hómópatía – vitræn vísindi

Erindi flutt af Ingibjörgu G. Guðmundsdóttur á haustlfundi Heilsuhringsins 1998

Hómópatía eða smáskammtalækningar er sú grein svonefndra óhefðbundinna lækninga sem nú er í hvað mestum vexti. Mikill árangur og öryggi þessarar aðferðar höfðar til æ fleiri manna um heim allan. Nýr hugsunarháttur varðandi heilsu og heilbrigði hefur rutt sér til rúms. Við erum meðvitaðri um streituna sem við búum við og hvað það er sem veldur sjúkdómum og kvillum. Í auknum mæli tökum við virkan þátt í heilsugæslu okkar og beinum sjónum æ meir að náttúrulegum lækningaaðferðum og fyrirbyggjandi aðgerðum.

Hómópatía var þekkt og stunduð hér á Íslandi áður fyrr og er nú að ryðja sér til rúms á ný, eftir langt hlé. Hómópatían er einhver mildasta og áhrifamesta lækningaaðferð sem um getur. Litið er á hvern þann sem leitar hómópatískrar aðstoðar sem sérstakan einstakling sem þurfi að skoða og meðhöndla sem slíkan. Hómópatían virkar mjög djúpt og getur hjálpað til að lækna kvilla á öllum stigum, líkamlega, tilfinningalega og andlega. Hún er heildræn í þeim skilningi að hún fjallar um einstaklinginn sem heild, en ekki bara um tiltekna kvilla eða sjúkdóma.

Allópatía – Hómópatía
Allt of marga menntaða lækna skortir þjálfun í að líta á sjúklinga sína heildrænt og hafa því tilhneigingu til að meðhöndla hvern kvilla og hvert líffæri fyrir sig og komast því oft ekki fyrir ræturnar. Einkennin kunna að hverfa en sjúkdómurinn bælist og vaknar gjarnan upp á ný eða birtist í öðru formi, oft að því er virðist algerlega ótengt fyrri kvilla. Gjarnan eru notuð verkjastillandi og bólgueyðandi lyf ásamt geðdeyfðarlyfjum til að draga úr óþægindunum.

Aukaverkanir lyfjanna geta orðið að meiriháttar vandamáli, þannig að raunveruleg lækning verður oft utan seilingar. Aðferðin sem oft beitt er (meðal hómópata nefnd allópatía allopathy; allo = andstæða; pathy = þjáning) felst í því að leitast er við að lækna með andstæðu sjúkdómsins, s.s. niðurgang með stemmandi, bólgur með bólgueyðandi o.s.frv. Litið er á sjúkdóminn sem andstæðing sem þurfi að takast á við og sigra. Aðferðirnar eru oft harkalegar; líkaminn verður eins konar orrustuvöllur og mikið er talað um „baráttu“ þar sem alls kyns lyf, sum mjög hættuleg, geislavirk efni ásamt ýmsum tólum og tækjum eru notuð sem vopn.

Að lækna líkt með líku
Eins og allópatía er orðið hómópatía (homoeo = sams konar; pathy = þjáning) komið úr forngrísku og þýðir bókstaflega „lík þjáning“ – að lækna líkt með líku. Hómópatían nýtir sér hið náttúrulega lögmál sem felst í lækningarmætti hliðstæðna, þeirri meginreglu að hvaðeina sem getur valdið skaða geti jafnframt læknað sambærilegt ástand. Örsmáir, algjörlega öruggir skammtar eru gefnir við einkennum sem eru lík þeim sem stærri skammtur af sama efni myndi valda hjá heilbrigðri manneskju. Smáskammtur (remedía) unninn úr kaffi er dæmi um þetta. Margir þekkja áhrifin af því að drekka of mikið kaffi, strekktar taugar, hjartsláttur, sviti og svefnerfiðleikar.

Smáskammturinn Coffea gagnast oft vel við þesskonar einkennum. Sumir þekkja áhrifin af því að byrja að fikta við að reykja; svimi, hræðileg vanlíðan, fölvi og ógleði. Sjúklingur sem kemur til hómópata með slík einkenni gæti notið góðs af remedíunni Tabacum sem unnin er úr tóbaki. Allir kannast við einkennin sem fylgja því að skera lauk nefrennsli, tár og sviði í augum, ekki ósvipað frjóofnæmi enda er smáskammtur unnin úr rauðlauk, Allium cepa, hin besta lækning við slíku ofnæmi. Reynsluna af timburmönnunum (stóra skammtinum) og afréttaranum (smáskammtinum) þekkja margir.

Saga Hómópatíunnar
Frá alda öðli hafa þessar ólíku aðferðir verið kunnar. Það var þó ekki fyrr en fyrir 200 árum að þýskur læknir og efnafræðingur, Samuel Hahnemann, mótaði endanlega grunninn að hómópatíunni og hugmyndafræðina sem hún styðst við, í bók sinni „The Organon“, sem enn þann dag í dag er nokkurs konar biblía hómópata. Á 88 ára langri og frjósamri ævi (1755-1843) uppgötvaði Hahnemann mörg af helstu smáskammtameðulum (remedíum) sem enn eru í notkun, og ætti það að vera næg bending um hversu vel fræði hans voru grunduð. Það má segja að hómópatían eins og við þekkjum hana sé sprottin af snilli Hahnemanns, tilraunum hans, athugunum og reynslu, og er því umfram allt reynsluvísindi (empirical science).

Hahnemann var starfandi læknir en missti fljótt trúna á þeim aðferðum sem helst voru notaðar til lækninga um hans daga. Þetta voru aðferðir eins og blóðtaka í miklum, stundum banvænum mæli, ásamt notkun mjög eitraðra lyfja svo sem kvikasilfurs og arseniks sem oft ollu ómældum skaða. Slíkar hættulegar og í hæsta máta óvísindalegar aðferðir fengu Hahnemann til að segja skilið við hefðbundnar lækningar. Hann sneri sér að þýðingum og því að reyna að finna mildari aðferðir til lækninga. Það má geta þess að Hahnemann var á meðal fyrstu manna til að halda á lofti ágæti hreinlætis og fersks lofts til betri heilsu.

Að lækna líkt með líku
Meðal annars þýddi hann grein um notkun Peruvian barkar (sem kínín er unnið úr) til lækningar á mýrarköldu (malaríu). Hann tók að gera tilraunir með efnið á sjálfum sér og tók eftir því hjartslátturinn jókst, hann varð syfjaður og fingurnir kaldir. Einnig gerðu vart við sig kvíða einkenni, kuldahrollur og skjálfti ásamt auknum þorsta og máttleysi. Líkaminn varð dofinn og óþægindi mikil. Einkennin komu skyndilega og stóðu í 2 – 3 klst. Þegar hann endurtók skammtinn komu einkennin aftur. Og þegar hann hætti inntökum hurfu þau.

Hahnemann hafði þannig framkallað hjá sjálfum sér einkenni mýrarköldu eða malaríu, einmitt það sem efninu var ætlað að lækna. Þannig hófst löng saga enduruppgötvana á hinu náttúrulega lækningalögmáli að „lækna líkt með líku“ eða „similia similibus curentur“. Vitneskju um þetta lögmál má rekja langt aftur í tímann, allt aftur í 5-6000 ára gömul indversk handrit og vitað er að Hippokrates, faðir læknisfræðinnar þekkti það svo og Paracelsus og Galen svo einhver þekkt nöfn séu nefnd.

Prófanir
Hahnemann kallaði athuganir sínar prófanir (provings) eða sannanir. Þær sýndu fram á að í sérhverju efni er innbyggð tiltekin einkennamynd. Og þegar sú mynd/einkenni sem tiltekið efni framkallar hjá heilbrigðum einstaklingi endurspeglar einkenni sjúklings þá er líkingin til staðar og árangur næst með notkun þess gegn sjúkdóms einkennunum. Hahnemann þróaði síðan aðferð til að leysa þennan lækningamátt úr læðingi svo hann mætti nýta á sem mildastan hátt og þar eru einmitt komnir smáskammtarnir. Það sem í þessu felst er að í raun býr náttúran yfir svörum og lausnum við öllum vanda, við lítum bara svo oft langt yfir skammt.

Flestir hafa óvart upplifað það að „prófa“ eða „sannreyna“ einkenni efna eins og laukskurðinn og kaffidrykkjuna, sem hér á undan var greint frá. Áður en yfir lauk hafði Hahnemann vísindalega prófað meira en 2000 mismunandi efni eða skammta, mun fleiri en er notað, en þau eru oftast 2-300. Upplýsingar um þau er að finna í bókum sem nefnast Materia Medica þar sem mjög nákvæmlega eru tíunduð einkenni hvers efnis, sem öll hafa eingöngu verið prófuð á mönnum (engar dýratilraunir).

Lífskrafturinn
Hómópatar álíta að líf og heilsa lúti ákveðnum innri krafti sem stöðugt leitast við að skapa jafnvægi. Hahnemann nefndi það lífskraftinn „the vital force,“ þetta sem gerir muninn á líki og lifandi manni. Með þessum krafti leitast líkaminn stöðugt við að lagfæra og halda í góðu lagi því sem þarf og tekst það ef ekki koma til ytri eð innri áreiti sem setja hlutina um of úr skorðum. Mengun og aukaefni í fæðu eru t.d. ytri áhrifavaldar sem líkaminn er stöðugt að reyna að aðlagast. Önnur áhrif eru t.d. ónógur svefn, hreyfingarleysi, tóbaks-, eiturlyfja og áfengisfíkn, slæmar matarvenjur s.s. ofneysla sykurs, kjöts og fitu.

Andleg og tilfinningaleg streita er e.t.v. ekki eins augljós en engu minna áreiti s.s ástvinamissir, ótti, óhamingja í hjónabandi eða áhyggjur af börnunum. Kvillar og sjúkdómar geta líka stafað af neikvæðu viðhorfi eða óviðeigandi tilfinningaviðbrögðum s.s. græðgi, afbrýðisemi, ótta, óheyrilegri reiði, gremju o.þ.h. Eins og áður er sagt getur hómópatían gagnast við veikindum á öllum stigum, jafnt andlega sem líkamlega, og vel valin hómópatísk meðferð er ekki bara skammtíma lausn heldur getur hún stuðlað að varanlegum breytingum og komist fyrir rætur vandans þannig að raunveruleg lækning fáist.

Mikilvægar upplýsingar
Hómópatar líta ekki á einkennin sem sjúkdóm sem fyrir alla muni þurfi að sigrast á og losna við líkt og læknisfræðin sem við þekkjum best gerir, heldur sem upplýsingar lífskraftsins um hvað hafi farið úrskeiðis og hvernig verið sé að reyna að takast á við það. Oftar en ekki læknast ýmislegt af sjálfu sér með nægilegri hvíld, fersku lofti og breytingum í mataræði. Ef við aðeins veitum því athygli gefur líkaminn okkur nákvæmlega til kynna hvers hann þarfnast hverju sinni til að ná jafnvægi. Ef lífsorkan er þá ekki næg er þörf á utanaðkomandi aðstoð. Einkennin eru okkur þá leiðarvísir til að finna hvers konar hjálpar sé þörf og hvaða smáskammtar (remedíur) muni gagnast best.

Engir tveir eru eins
Kvillar og einkenni eru mjög einstaklingsbundin. Það sem í fljótu bragði virðist vera eins hjá tveim eða fleiri einstaklingum getur verið mjög mismunandi þegar betur er að gáð. Hlaupabóla eins barns kann að vera öðruvísi en annars. Hóstinn í einum allt öðru vísi en í öðrum o.s.frv. Rétt val á smáskammti byggist á samantekt allra einkenna viðkomandi, andlegra, tilfinningalegra og líkamlegra, og þar sem engir tveir eru eins eru oft fleiri en ein tegund smáskammta sem kann að gagnast við því sem í fljótu bragði virðist vera sami kvillinn. Þetta þýðir t.d. að tveir einstaklingar sem báðir leita til hómópata með magasár fá örugglega ólíka meðhöndlun einfaldlega vegna þess að þeir eru ólíkir einstaklingar og orsakirnar fyrir magasárinu því ekki þær sömu.

Bráðakvillar – langvinnir sjúkdómar
Bráðakvillar s.s hlaupabóla, flensa, hósti, skordýrabit og stungur eru yfirleitt skammvinnir og lagast af sjálfu sér. Hómópatían dregur úr vanlíðan og flýtir fyrir bata í slíkum tilfellum. Langvinnir sjúkdómar vara lengur eins og nafnið bendir til, og eiga sér dýpri rætur. Þeir eru ekki líklegir til að læknast án utanaðkomandi aðstoðar. Hér erum við t.d. að tala um húðvandamál eins og sóríasis og exem, ofnæmi, asthma, síendurtekið kvef ásamt öllum þeim kvillum sem herja á hin mikilvægari líffæri líkamans svo sem hjarta, heila, nýru og taugakerfi. Læknisfræðin telur marga slíka sjúkdóma ólæknandi og getur einungis numið brott einkenni þeirra. Hómópatían hefur aftur á móti oft hjálpað til varanlegrar lækningar slíkra sjúkdóma en til þess þarf að sjálfsögðu sérhæfða aðstoð lærðs hómópata en ýmsa minniháttar kvilla getur fólk auðveldlega lært að fást við sjálft.

„Lögmál lækningarinnar“
Í hómópatíu er gjarnan talað um lögmál lækningarinnar (The Law of Cure). Þar er átt við að það hvernig við veikjumst og verðum heil aftur sé bundið ákveðnu ferli sem byggir á því að líkaminn reyni í lengstu lög að vernda mikilvægustu líffærin, s.s. hjarta, lifur, lungu og heila, m.a. með því að reyna að halda sjúkdómnum sem næst yfirborði líkamans. Samkvæmt því veikjumst við utan frá og inná við, neðan frá og upp og lækning á sér þá gjarnan stað í öfugri röð, þ.e. innan frá og út á yfirborðið og ofan frá og niður. Þetta er mjög rökrétt vegna þess að mikilvægustu líffærin liggja djúpt og varin í líkamanum og ofan við miðju hans. Smáflensa eftir mikið álag getur t.d. verið mikil blessun þar sem líkaminn/lífskrafturinn er að reyna að fá okkur til að aflétta álaginu á taugakerfinu með því að fá smáhvíld og koma þannig í veg fyrir alvarlegri afleiðingar. Ef smákvilli er hins vegar bældur t.d. með sýklalyfjum eða sterakremi kann hann að setjast að dýpra í líkamanum og valda alvarlegri afleiðingum.

Hvað gerist?
Það sem hómópatían gerir er í raun er að hjálpa líkamanum að lækna sig sjálfur með því að örva og efla lífskraftinn sem alla jafna sér um að halda öllu í jafnvægi. Smáskammtinum má þá líkja við startið sem við gefum bíl með tóman rafgeymi. Það þarf utanaðkomandi orku til að geymirinn geti aftur farið að hlaða sig og endurnýja orkuna. Það sama gildir um okkur og líkama okkar. Við þurfum stundum aðstoð til að komast á rétta braut þegar eitthvað hefur farið úrskeiðis. Hómópatíu má nota við svo gott sem öllum kvillum og sjúkdómum. Undantekningar eru helst ,,mekanískur“ skaði s.s. beinbrot og meiri háttar líkamlegur áverki. Þar getur hómópatían þó líka gagnast m.a. til að minnka sársauka og flýta fyrir lækningu.

Útbreiðsla hómópatíu fyrr og nú
Á síðustu öld stóð Hómópatían í miklum blóma í Ameríku. Þá voru 15% lækna þar hómópatar, alls um 15.000 manns og a.m.k. 22 þekktir hómópatískir læknaskólar, yfir 100 hómópatísk sjúkrahús og 1000 hómópatísk lyfjafyrirtæki. Ein af ástæðunum fyrir svo miklum vinsældum hómópatíu á síðustu öld var án efa árangur hennar gegn ýmsum farsóttum sem þá geisuðu. Í kólerufaraldrinum í Evrópu og Ameríku 1831 náðist t.d. mun betri árangur með hómópatíu en almennum læknisaðferðum. Dánartíðni hjá hómópötum var að meðaltali 2,4 – 21% á móti 50% hjá hinum. Skráðar heimildir frá Cincinnati í USA sýna að í kólerufaraldrinum 1849 var dánartíðni þeirra 116 sjúklinga sem fengu hómópatíska meðferð 3% á móti 40-60% hjá öðrum.

Hvað gerðist?
Hómópatían átti sitt gullaldarskeið á síðari helmingi síðustu aldar og í byrjun þessarar. Nokkrar helstu ástæður fyrir niðursveiflu hennar var opinber fjandskapur og andstaða læknastéttar og lyfjaframleiðenda sem líkja má við ofsóknir, og fór Hahnemann ekki varhluta af því. Einnig urðu miklar framfarir í læknavísindum sem juku mönnum mjög bjartsýni og trú á áhrifamátt þeirra. Þessi þróun varð jafnt í Evrópu sem Ameríku. Í mörgum löndum voru sett lög eða reglur sem meinuðu hómópötum að starfa og gerði þeim erfitt um vik. Eitt af fáum löndum sem aldrei setti slík lög er Bretland. Þar hafa verið reknir hómópatískir spítalar bæði í London og í Glasgow allt til okkar daga og breska konungsfjölskyldan hefur allar götur síðan 1820 haft hómópata í sinni þjónustu.

Staðan í dag
Í dag er vaxandi áhugi á náttúrulegum lækningaaðferðum og aukin útbreiðsla hómópatíu um allan heim. Um leið og fólk gerir sér æ betur grein fyrir nauðsyn þess og mikilvægi að taka ábyrgð á eigin heilsu í stað þess að fá læknum allt vald í þeim efnum í hendur, vex áhuginn á öðrum möguleikum. Og það er ekki bara meðal almennings sem áhuginn á hómópatíu vex heldur virðast æ fleiri innan heilbrigðisstéttanna vera að fá áhuga líka. Í tímaritinu Newsweek vorið 1995 birtist grein um vaxandi áhuga tryggingafyrirtækja í Bandaríkjunum á óhefðbundnum lækninga aðferðum og þá einmitt vegna þess hversu miklu ódýrari þær væru og oft áhrifaríkari en aðrar. Í þeirri grein var þess sérstaklega getið að hómópatía væri sú grein óhefðbundinna lækningaaðferða sem sýndi hvað bestan árangur og væri hvað ódýrust.

Á Íslandi
Hér á Íslandi störfuðu hómópatar með miklum árangri áður fyrr. Um tíma höfðu þeir m.a.s. starfsleyfi frá landlækni. Það var á þeim tímum þegar ekki þótti nóg framboð af lærðum læknum. Samkvæmt minni bestu vitund lést síðasti hómópatinn sem hafði slíkt starfsleyfi rétt eftir 1950. Ýmsar bækur og bæklingar komu út á íslensku hér áður fyrr m.a. „Hómópatísk lækningabók“ útgefin 1882. Fyrir nokkrum árum kom út bók um líf og starf Lárusar Pálssonar hómópata, mjög fróðleg og áhugaverð lesning Árið 1959 birtist í ensku hómópatatímariti grein eftir Íslending, Sæmund Jóhannesson á Akureyri, sem kynnst hafði hómópatíunni allvel af eigin raun og annarra.

Þessi grein er í raun ákall um að efla hómópatíu hér á landi og hefur því nú loks verið svarað, 40 árum síðar, með því að nú eru hómópatar loksins farnir að starfa hér aftur af fullum krafti. Nokkur hópur hefur lokið námi frá viðurkenndum skólum og allstór hópur er nú í námi við breskan skóla. Verið er að leggja síðustu hönd á reglugerð um innflutning smáskammtameðala, en hann hefur ekki verið leyfður til þessa, svo þetta stefnir allt í rétta átt. Efling hómópatíunnar er ekki bara mikilvæg fyrir okkur hér og nú. Hún getur skipt sköpum fyrir heilsufar komandi kynslóða sem þurfa sífellt að gíma við nýja og flóknari sjúkdóma og áreiti. Það er því einlæg ósk mín okkur öllum til handa að hómópatían sem og aðrar náttúrlegar leiðir til betra lífs og heilsu fái blómstrað hér um ókomin ár.

Höfundur:  Ingibjörg G. Guðmundsdóttir er jógakennari og hómópati.Flokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , , , , , , ,

%d bloggers like this: