Broddmjólk –náttúrlegt undraefni

Broddmjólk er sú mjólk nefnd sem fyrst myndast í mjólkurkirtlum spendýra eftir að dýrið hefur eignast afkvæmi. Hún hefur nokkuð aðra samsetningu en mjólkin sem síðar myndast og hefur töluvert verið rannsökuð á liðnum árum vegna þess að lengi hefur verið trú á að hún hafi sérstaka hollustu eiginleika. Nú er vitað að broddmjólk inniheldur efni frá móðurinni sem hafa hvetjandi áhrif á ónæmiskerfi afkvæmisins, t.d. svokölluð cytokin og prótein með mjög lágan sameindaþunga, svokölluð „Biologica l Response Modifiers, BRMs“ sem hafa staðbundnar verkanir í flestum líffræðilegum ferlum í afkvæminu. Gerðar hafa verið tilraunir með að nota broddmjólk og efni unnin úr broddmjólk í læknisfræðilegum tilgangi, t.d. til að lækna eða bæta ástand liðagigtarsjúklinga, sem ekki hefur tekist að hjálpa nægilega með hefðbundnum læknisráðum. Hér á eftir verður ofurlítið sagt frá þessum tilraunum og árangri þeirra.

Læknisfræðilegar verkanir broddmjólkur
Vitað er að broddmjólk úr konum hefur öflug ónæmishvetjandi áhrif, bæði á frumubundna og vessabundna hluta þess (cellular and humoral). Árið 1993 fullyrtu C.E. Grosvenor o.fl. (Endocr. Rev. des. 1993), að fjöldi hormóna, vaxtarþáttur og líffræðilega virk efni væru í broddmjólk og oft í hlutfallslega meiri styrk en finnst í blóðvökva fólks. Nýlega var uppgötvað að ónæmisfrumur (neutrophils, macrophages) innihéldu ónæmisglobúlín, sérstaklega IgA og í minna mæli IgM og IgG og ensímið peroxidasa. Vitað er að mótefnið IgA, sem fengið var úr broddmjólk, gat við tilraun varið Hep-2 frumur fyrir sýkingu af sjúkdómsvaldandi E-coli bakteríum.

Af þessu og fleiru má því gera ráð fyrir að broddmjólk mæðra verji barnið öfluglega gegn ýmiskonar sýkingum. Því er ekki að ófyrirsynju að mæður eru hvattar til að hafa börn sín á brjósti. Þangað til nýlega var þess ekki vænst að cytokin væru í broddmjólk en nú hefur það verið staðfest að minnsta kosti fjögur cytokin eru í henni: Il-1 (interleuken I), Il-2, Il-6 og gamma-interferon og TNF (tissue necrosis factor), en þessi efni eru talin mikilvæg eða ómissandi svo að ónæmiskerfið þroskist eðlilega. Í brjóstamjólk mæðra sem áttu börn sín fyrir tímann, var til muna meira af ónæmishvetjandi efnum en í annarri brjóstamjólk, sem staðfestir að náttúran reynir að styrkja ónæmiskerfi nýfædda barnsins, sem ekki er ennþá fullmótað, eins fljótt og verða má.

Broddmjólk úr dýrum
Þó að broddmjólk úr konum sé vafalaust til muna æskilegri fæða fyrir smábörn heldur en broddmjólk úr dýrum, t.d. kúm, þá er samt fjölmargt sem er sameiginlegt með allri broddmjólk, sama úr hvaða dýrategund hún er fengin. Til dæmis inniheldur broddmjólk úr kúm ónæmisglóbúlín IgE, IgA og IgM. Fjölpeptíð, auðugt af prólín hefur einnig fundist í broddmjólk, en það er talið hafa ónæmisvirkni og verkar bæði innan líkamans og í tilraunaglösum. Það er talið hafa áhrif í sjálfsónæmi og við að þroska T-frumur.

Broddmjólk til lækninga
Margar kannanir hafa verið gerðar til að sjá hvort broddmjólk gæti hindrað niðurgang hjá fólki. Síðan árið 1985 hefur broddmjólk verið reynd við niðurgangi í börnum sem rótaveira olli. Í könnun sem birt var 1989 fengu 55 börn broddmjólk úr kúm. Til samanburðar fengu 65 börn „gervimjólk“. Ekkert barnanna sem fékk broddmjólkina fékk niðurgang en 9 úr samanburðarhópnum. Foreldrar barnanna sem fengu gervimjólkina þurftu að leita læknis með börn sín sjö sinnum oftar en úr hópnum sem fékk broddmjólkina. Í annarri könnun 1995 sýndi það sig, að ekki aðeins fengu þau

Broddmjólkurextrakt
Á síðustu árum hefur tekist að vinna úr broddmjólk „extrakt“ eða efnasambönd sem nefnd eru „infópeptíð“. Þessi extrakt er á markaðinum undir nafninu Cytolog og dreift af Allergy Research Group í Bandaríkjunum. Infópeptíðin eru áhrifarík til að leiðrétta margskonar ónæmistruflanir eða ranga ónæmisvirkni, t.d. það sem nefnt hefur verið „sjálfsónæmi“ eða „sjálfsofnæmi“. Einnig fjölþætta ofnæmissjúkdóma. Cytolog hefur enn sem komið er einkum verið notað sem viðbótarmeðferð við liðagigt, (Rheumatoid Arthritis) og skylda sjúkdóma. Í mars 1996 var gerð lítil læknisfræðileg tilraun sem 12 liðagigtarsjúklingar tóku þátt í og 10 sjúklinga með annarskonar gigt.

Allir sjúklingarnir notuðu eitt eða fleiri gigtarlyf, allt upp í fimm mismunandi tegundir. Þeim var sagt að nota lyfin áfram samhliða extraktinum, en reynslan var sú að flestir sjúklinganna drógu úr lyfjanotkuninni þegar leið á tilraunina og sex af níu þeirra liðagigtarsjúklinga sem notuðu lyf með líkar verkanir og asperín (indometasin, ibuprofen o.m.fl.) hættu að nota lyfin reglulega meðan á tilrauninni stóð, vegna þess að verkirnir hurfu eða minnkuðu án þess að lyfin væru tekin.

Upphaflega átti aðeins að taka 12 liðagigtarsjúklinga í tilraunina en þegar vinir og ættingjar sáu hversu vel þeim vegnaði á extraktinum komu 10 sjúklingar með annarskonar liðagigt (Osteoarthritis) og báðu um að fá að vera með í tilrauninni. Það voru allt konur og notuðu allar lyf með líkar verkanir og aspirín, auk þess að tvær þeirra notuðu fleiri lyf. Öllum nema einni batnaði mjög verulega, en hún var með alvarlega skemmda hnjáliði sem þörfnuðust skurðaðgerðar. Þrátt fyrir það minnkaði hitamyndun og roði kringum liðina og dró úr bjúgmyndun.

Niðurstaðan var sú að flestum sjúklinganna batnaði eitthvað og sumum mjög mikið. Batinn hófst ft áður en mánuður var liðinn frá því að byrjað var að nota broddmjólkurextraktinn og hélt áfram eftir því sem lengri tími leið. Þeir sem lengi höfðu verið með gigtina voru lengur að finna breytingu til batnaðar en batinn kom samt þótt síðar væri, nema liðurinn væri orðinn algerlega ónýtur, en jafnvel þá minnkaði bólga og verkir og sjúklingnum leið skár.

Rétt er að benda þeim sem kunna að lesa þessar línur á, að ef einhver reyndi að drekka broddmjólk í þeirri von að hún lagi eitthvað, t.d. liðagigt eða niðurgang, þá má ekki hita hana mikið yfir 40°C, því að hiti eyðileggur ýmis mikilvæg efnasambönd og ensím. Því er ólíklegt að mikið gagn sé að því að borða ábrystir, sem búnar eru til með því að hita broddmjólk upp í suðumark með því að setja ílát með broddmjólk niður í sjóðandi vatn og hafa þar, þangað til broddmjólkin „hleypur“, þ.e. eggjahvítan í henni breytist úr fljótandi formi í hlaup, líkt og verður þegar egg eru soðin.

Gaman væri að frétta um árangur ef einhver reyndi að drekka broddmjólk eða gefa smábörnum. Verði ykkur að góðu. Greinarhöfundur er tækjafræðingur við HÍ.Heimild: Journal of Orthomolecular Medicine, nr. 2, 1998

Ævar JóhannessonFlokkar:Greinar

%d bloggers like this: