Einfaldara líf – fyrir börn

Eftir að ég var búin að taka að mér að skrifa þessa grein um börn og einfalt líf, velti ég því mikið fyrir mér hvernig í ósköpunum ég gæti skrifað trúverðuga grein um þetta efni, barnlaus konan. Huggun mín er sú að kannski eigi máltækið um hið glögga gestsauga við hér. Ég þekki nokkuð mörg börn og mér þykir vænt um börn. Og oft er ég hugsi yfir því hvernig heim við búum þeim og hvaða vegarnesti við gefum þeim fyrir lífið. Það er áreiðanlega ekki auðvelt að ala upp börn í dag, með allt það áreiti sem á bæði okkur og þeim dynur daginn út og inn. Framleiðendur og auglýsingasálfræðingar hafa uppgötvað hvað börn eru auðvelt og gott skotmark og nota sér það óspart.

Uppeldi til einfeldni
Árið 1912 kom út í íslenskri þýðingu bókin „Einfalt líf“, eftir Charles Wagner, sem var prestur í Frakklandi á síðustu öld. Í kafla um „Uppeldi til einfeldni“ talar hann m.a. um að honum sýnist tvær aðferðir aðallega notaðar við uppeldi barna. Sú aðferð sem hér verður fjallað um, er það sem Wagner kallar að ala börnin upp fyrir sjálfan sig, þ.e. foreldrana. Þetta uppeldi felst í því að setja höft á börnin með því að „ofurselja foreldrunum allan frumleik sinn og allt eðli sitt. Eftir því sem barnið eldist verður þessi undirlægjuskapur að hreinni uppgjöf, sem nær til allra hugmynda og tilfinninga barnsins. Það verður ófullveðja allt sitt líf.

En þarna er að mati Wagners verið að reyna eitthvað sem alls ekki er mögulegt, því: „Mennirnir eru svo frábrugðnir hverjir öðrum, að það þarf að finna upp ótal aðferðir til að beygja, svæfa og slökkva sjálfstæða hugsun hvers einstaks. Og það tekst aldrei nema að nokkru leyti, svo að allt fer á ringulreið. Hvað eftir annað brýst hið innra frumkvæðisafl mannsins út um hverja smugu o veldur loftbrestum, landskjálftum og megnu uppnámi. Og þar sem ekki ber neitt á neinu, þar sem hið ytra vald nær yfirtökunum, þar grefur meinsemdin um sig undir niðri. Undir rólegu yfirborði felast hljóðar byltingar, skaplestir sem stafa af óeðlilegri þvingun, sinnuleysi og dauði,“ (bls. 163-165). Í nútímaþjóðfélagi eru það kannski ekki foreldrarnir sem eru að beygja börnin undir sinn vilja, heldur markaðsöflin. Þau hafa orðið yfirhöndina, því þau virðast líka hafa beygt foreldrana.

Efnisleg eða andleg gæði?
Forgangsröðunin í vestrænum þjóðfélögum hefur einkennst af áherslu á efnisleg gæði, á kostnað andlegra gæða. Og ef marka má sífelld tilboð á allt frá sápum til sólarlandaferða, virðist sem við leggjum mest upp úr því að kaupa og eignast sem mest fyrir sem minnstan pening. Þetta er það verðmætamat sem við gefum börnunum okkar í vegarnesti fyrir lífið. En nú bendir margt til þess að þessi forgangsröðun sé að breytast, enda hefur hún hvorki skilað okkur betri andlegri líðan né betri þjóðfélögum. Stöðugt fleiri átta sig á að andlegu verðmætin hafa orðið útundan og velja þess vegna að breyta forgangsröðuninni í lífi sínu, segja skilið við lífsgæðakapphlaupið og leitast við að einfalda líf sitt. Uppskeran er meiri tími, /meiri ró og betri andleg líðan. Og tími er ekki peningar – tími er líf.

Aðeins ein kynslóð
Í bókinni, Living the Simple Life, fjallar höfundurinn, Elaine St. James um ýmsar aðferðir við að einfalda líf sitt og kemur þar m.a. inn á foreldrahlutverkið. Hún segir m.a. frá fyrirlestri um uppeldi þar sem fyrirlesarinn spurði áheyrendur, hversu margir af þeim sem ættu börn eldri en fimm ára létu þau inna ákveðin verk af hendi, án þess að borga þeim fyrir það. Í fullum stórum sal af fólki réttu innan við tíu manns upp höndina. Síðan spurði hann hversu margir hefðu þurft að sinna slíkum verkum þegar þeir voru að alast upp. Nánast allur salurinn rétti upp hönd. „Þetta er ein kynslóð, gott fólk“ svaraði hann. Það er mikilvægt að börnin taki þátt í heimilisverkunum, án þess að fá borgað fyrir það. En þá er nauðsynlegt að byrja mjög snemma. Þó hlutirnir taki þannig lengri tíma til að byrja með, kemur að því að þetta verður aðstoð sem munar verulega um. Þar að auki eru það dýrmætar samverustundir þegar fjölskyldumeðlimir vinna að einhverju saman.

Tómstundir

Í fullorðinsheiminum erum við alltaf upptekin og höfum alltof mikið að gera. Börnin eru farin að tileinka sér sama lífsstíl og þeytast úr einu tómstundastarfinu í annað, eftir skólatíma. Framboð á slíkri afþreyingu hefur aukist mikið, en það er ekki þar með sagt að börnin þurfi að taka þátt í því öllu. Þau þurfa heldur ekki að bæta upp fyrir það sem foreldrarnir höfðu ekki tækifæri til að gera sjálf á þeirra aldri. Ef þetta er tilfellið á þínu heimili má hugsanlega ná samkomulagi um að börnin taki þátt í færri hlutum og velji það sem þau hafa mestan áhuga á. Þegar þau eldast munu þau búa að því að hafa þurft að skoða hug sinn, velja og hafna og forgangsraða út frá því sem þau virkilega langar til að gera. Sumum börnum er það líka léttir að þurfa ekki að keppast við og sanna sig á mörgum sviðum.

Breytingar í þessa átt færa öllum í fjölskyldunni einfaldara líf, einstakir fjölskyldumeðlimir fá fleiri rólegar stundir fyrir sig og fjölskyldan meiri tíma til að vera saman. Oft grípa foreldrar til þess að kveikja á sjónvarpinu eða „setja spólu í tækið“ til að hafa ofan af fyrir börnunum – og finnst það einfalda sitt eigið líf til muna. Það eru til margar rannsóknir um sjónvarpsnotkun barna og verður ekki farið út í þá umræðu hér. Hins vegar er það lykilatriði að með mikilli sjónvarpsnotkun læra börnin síður að treysta á eigið frumkvæði til að hafa ofan af fyrir sér. Börn sem ekki læra í uppvextinum að skapa sér sjálf sínar eigin hamingjustundir og vellíðan munu verða mjög vanbúin þegar þau takast á við alvöru lífsins.

Það er ómetanlegt að eyða tíma með börnunum úti í náttúrunni, fara út að hjóla, fara saman á bókasafnið og horfa á sólsetrið. Allt sem skapar meiri ró hið innra er gott vegarnesti. Að rækta hæfileika sína á þeim sviðum sem þau hafa valið sér, spila á hljóðfæri, teikna, lesa og semja. Fjölskylduferð í verslunarmiðstöð getur aldrei komið í staðinn fyrir þetta. Samvera af þessu tagi tekur tíma, en að eiga börn sem kunna að njóta þess einfalda og geta sjálf haft ofan af fyrir sér mun til lengri tíma litið einfalda bæði þitt líf og þeirra.

Verðmætamat og peningar
Forgangsröðun og verðmætamat birtist ekki síst í því hvernig við umgöngumst peninga og í hvert sinn sem þú tekur upp peningaveskið ertu að leggja grunn að því hvernig barnið þitt mun umgangast peninga í framtíðinni. Hvenær spurðir þú sjálfa(n) þig síðast þegar þú varst að því komin(n) að kaupa einhvern hlut: „Er þetta eitthvað sem mig vantar nauðsynlega?“ Manstu það kannski ekki? En hvenær sagðir þú síðast þegar barnið þitt þrábað þig um að kaupa einhvern hlut fyrir sig: „Nei, þú þarft þetta alls ekki“, eða „Þú ert nýbúin(n) að fá…..“. Tvískinnungur? Víst eru það foreldrarnir sem vinna fyrir peningunum, en eina leiðin til að kenna börnum að umgangast peninga af ábyrgð er með því að láta þau fá reglulega vasapeninga sem eru ekki „laun“ fyrir tiltekin verk, heldur þeirra hluti af kökunni.

Og þessum peningum eiga þau að geta ráðstafað sjálf, en án aukafjárveitinga, ef skammturinn hrekkur ekki til. Það er líka góð regla að byrja snemma að verja hluta af tekjunum (vasapeningunum) í sparnað og e.t.v. líka að gefa hluta í gott málefni að þeirra eigin vali. Eftir því sem stærri hluti af heimilisveltunni fer í gegnum kreditkort, raðgreiðslur, ávísanir og debetkort er erfiðara að sýna börnum fram á tengslin milli vinnu, tekna og eyðslu. Það er því mjög mikilvægt að þau læri þetta samhengi og viti að fyrir hvern þann hlut sem kostar peninga hafið þið foreldrarnir þurft að leggja heilmikið á ykkur. Það eru ekki enn farnir að vaxa peningar á trjánum.

Mig langar svo í…
Til að læra að fara með peninga þarf barnið þitt að átta sig á muninum á því að „þurfa“ og „langa“. Hér þarft þú að útskýra og sýna fordæmi (ef þú átt erfitt með að útskýra muninn, veistu hver heimavinnan þín er!). Matur, húsaskjól og föt eru nauðsyn, en Spice Girls bolur og tölvudýr flokkast undir langanir. Ef börnin fá að taka þátt í fjármálum fjölskyldunnar eftir því sem þau eldast, geta þau frekar tekið sjálfstæðar ákvarðanir um eigin fj ármál þegar þau fara að sjá fyrir sér sjálf.

Að hve miklu leyti lætur þú stjórnast af auglýsingum? Vill kannski þannig til að uppþvottalögurinn, þvottaefnið, kaffið og dömubindin á heimilinu eru einmitt af þeim tegundum sem mest eru auglýstar? En hefurðu velt því fyrir þér að hve miklu leyti auglýsingar stýra löngunum barnanna þinna? Auglýsingar gylla, og leikfangið sem barnið þitt langaði svo mikið í þegar það var auglýst í sjónvarpinu, er kannski ekkert svo sérstakt þegar það er komið með það í hendurnar. Ekki segja „Ég sagði þér þetta“, heldur bentu barninu á að það átti von á meiru. Leyfðu því að sjá það sjálfu. Við þurfum öll að fá að læra af mistökum okkar. Og börn eru skynsamt fólk.

Hver kannast ekki við senuna við búðarkassann þar sem barn fer hamförum yfir því að fá ekki eitthvað sem það langar í. Sumir foreldrar segja að lausnin sé einföld, bara að segja alltaf nei. En það má líka fara þá leið að þú segir barninu áður en komið er inn í búðina, hvort þú ætlar að kaupa eitthvað fyrir það og þá hvað. Eins geturðu sagt því hvernig þú munir bregðast við ef það biðji um eitthvað sem ekki er búið að ákveða að kaupa – og standa síðan við það. Hvað ef börn fá ekki allt sem þau langar í? Finnst þeim þau vera að fara á mis við eitthvað?

Má vera, a.m.k. til að byrja með. En um síðir þurfa öll börn að læra að enginn, sama hversu auðugur, getur gert allt eða fengið allt. Það er betra að þú kennir þeim að forgangsraða en að láta auglýsingatíma sjónvarpsstöðvanna um það. Það eru ekki öll börn sem hafa þroska til að axla fjárhagslega ábyrgð. Ef það er t.d. hætta á að barnið þitt verji vasapeningunum í vímuefni gætir þú þurft að útdeila aurunum í minni skömmtum og biðja um „skýrslu“ um hvernig þeim er varið. Með því að kenna börnunum þínum að fara með peninga, ertu ekki aðeins að einfalda lífið á heimilinu, heldur ertu að gefa þeim dýrmæta gjöf til framtíðar.

Gjafir
Afar, ömmur og aðrir ættingjar geta stundum raskað öllum góðum áformum foreldranna. Það er ævinlega vel meint, en kemur sér stundum illa. Mágkona mín kom þeim skilaboðum til þeirra sem næst stóðu fjölskyldunni að gefa dótturinni ekki tölvudýr um síðustu jól. Ég held að hún sé alveg hætt að biðja um tölvudýr núna. Það er ekki alltaf auðvelt að stýra gjafaflæðinu á þennan hátt, en það er hægt. Ein leið er að leggja til við ættingja að leggja peninga í sjóð en gefa færri leikföng. Því það er nú einu sinni svo, að börn taka yfirleitt ástfóstri við nokkur leikföng meðan önnur liggja lítið notuð og taka upp pláss – og stundum ekki svo lítið. Þar sem ég þekki best til eru það gömul leikföng foreldranna sem eru hvað vinsælust, hjólbörur sem voru gerðar upp og er nú skottast með í hesthúsunum og rafmagnslest sem stundum er sett í gang á sunnudögum. Viðburður sem áreiðanlega á eftir að verða dætrunum á heimilinu hlý endurminning þegar þær eldast
.
Það læra börnin…
Ef þú vilt einfalda líf fjölskyldunnar verður þú að byrja á þér. Það er grundvöllurinn. Ekkert er eins satt og að það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Ef þú heldur stöðugt lifandi innra með þér spurningunni: „Hvað þarf ég að gera til að einfalda líf mitt?“, þá muntu fá þau svör sem henta þér miðað við þínar aðstæður. Afraksturinn er betra andlegt, líkamlegt og tilfinningalegt jafnvægi. Og er það ekki kjarni málsins að aðeins með því að setja okkar eigið andlega jafnvægi efst í forgangsröðina, getum við gefið börnum okkar allt það besta sem þau eiga skilið. Við skulum í framhaldi af því, leyfa séra Wagner að eiga síðasta orðið, sem hann skrifaði fyrir hundrað árum: „Veitum börnum okkar einfalt, mér liggur við að segja hart, uppeldi; venjum þau við það, sem herðir þau og látum þau jafnvel kenna á skorti. Þau eiga að verða þeir menn, sem betur þoli þreytu og svefn út á víðavangi en kræsingar og mjúkar sængur. Með því móti gerum við úr þeim sjálfstæða og ábyggilega menn, sem treysta má, sem ekki selja sig fyrir smáþægindi og hafa þó engu að síður betri skilyrði en aðrir til að vera hamingjusamir menn.

Of mikið hóglífi veikir lífsþróttinn. Menn verða kærulausir, bölsýnir, gamlir fyrir tímann og hafa ekki gaman af neinu. Hve mörg eru ekki börnin og ungmennin nú á dögum með þessu marki brennd. Á þau hafa lagst eins og mygla, merkin eftir ellihrumleik okkar, efagirni, lesti og þá ósiði, sem þau hafa lært í sambúðinni við okkur. Við megum hugsa margt um okkur sjálfa þegar við athugum þessi örvasa ungmenni! Ljótar auglýsingar eru brenndar þeim á brár! Þessir skuggar segja okkur með allri sinni eymd, að sælan er undir því komin að lifa sönnu, framkvæmdarsömu, tápmiklu lífi, lausu við ok ástríðna, óeðlilegra þarfa og óhollra æsinga, að varðveita líkamshæfileikann til að njóta sólarljóssins og loftsins, sem við öndum að okkur og hjartans hæfileika til að verða gagntekin af elsku til alls þess sem er göfugt, einfalt og fagurt“. Einfalt líf, bls. 178-179. Heimildir og meira lesefni: Eisenson, Marc; „Mommy,

Höfundur: Sigurborg Hannesdóttir skrifað árið 1998



Flokkar:Fjölskylda og börn

%d bloggers like this: