Frumöflin fimm – ,,Wu Xing”

Á kínversku tákna Frumöflin Fimm: Wu = Fimm, Xing = Hreyfing. Sú heimspeki sem fjallar um frumöflin fimm hefur ekki alltaf verið þáttur af kínverskri læknisfræði, heldur hefur heimspekin átt vinsældum að fagna hingað og þangað í sögunni. Á Warring States tímabilinu varð kenningin mjög vinsæl og var notuð varðandi læknisfræði, stjörnufræði og öll náttúruleg vísindafræði. Dagatöl, tónlist og jafnvel stjórnmál tóku mið af heimspekinni um frumöflin fimm.

Allt var flokkað í fimm stig eða fimm eiginleika. Strax á árunum eftir Krist var síðan farið að gagnrýna þessa heimspeki sem of staðlaða og jafnvel ranga, og í 900 ár var heimspeki þessi síðan lögð til hliðar og ekki tekin upp fyrr en eftir að Song Tímabilið gekk í hönd (960 e.Kr.) Síðan þá hefur kenningin þróast og er notuð mikið enn þann dag í dag sem lýsing á eðlilegu og óeðlilegu ferli í náttúrunni og þar með manninum. Sami skóli þróaði kenninguna upprunalegu um frumöflin fimm og Yin og Yang, Yin-Yang skólinn, sem einnig var nefndur Náttúru-skólinn.

Þessi „Skóli“ hafði mikil völd á sínum tíma, og og allir hans kennimenn voru í hávegum hafðir, og á vissan hátt stóð fólki stuggur af þeim því þeir notuðu þessar tvær kenningar á þann hátt að þeir virtust geta séð hluti fyrir og ákvarðað velgengni afla landsins, þ.á.m. velgengni stjórnenda landsins. Þegar ný fjölskylda kom til valda var hún ákvörðuð samkvæmt frumöflunum fimm og hver keisari hafði sinn lit og sinn ákvarðaðan stjórnstað og bústað, allt í samræmi við frumöflin fimm. Þar á meðal var Guli Keisarinn, eða The Yellow Emperor.

Hans tímabil ákvarðaði tímabil jarðar og hans tímabil var þess háttar að náttúran átti að vera gjöful á þessum tímum. Mikið kapp var lagt við landbúnað og vel var farið eftir því sem Yin-Yang skólinn sagði til um. Kennimenn þessir töldu að þeir gætu vitað fyrirfram hver yrði næsta fjölskylda í stjórn landsins. Yu Yan sagði: „Hverju og einu af frumöflunum fimm er fylgt á eftir af því sem hið fyrra nær ekki að ráða við. Shun tímabilinu var stjórnað af krafti jarðar, Xia tímabilið ríkti fyrir tilkomu viðar, Shang tímabilinu var stjórnað af krafti málms, og Zhou tímabilinu var stjórnað af krafti eldsins. Þegar komið er að nýju tímabili sýnir himinninn heillavænleg merki til fólksins.

Á tímunum rétt fyrir Huang Ti (Guli Keisarinn), skriðu stórir jarðormar og maurar fram úr fylgsnum sínum“. Hann sagði „þetta sýnir að jörð er rísandi, þannig að litur okkar mun verða gulur, og öll okkar mál munu verða sett undir merki jarðar“. Á tímunum rétt fyrir Yu hinn mikla, skapaði himinninn tré og jurtir sem visnuðu ekki með hausti og vetri. Hann sagði „Þetta sýnir að viður er rísandi, því mun litur okkar vera grænn og öll okkar mál verða sett undir merki viðarins“ . Á þessum tímum skipuðu heimspekingar Yin-Yang kenningarinnar og frumaflanna fimm sama sess í sínu þjóðfélagi og vísindamenn nútímans gera í dag. Þeirra kenningar voru vísindi sinna tíma. Frumöflin fimm standa fyrir fimm ólíka eiginleika náttúrulegra fyrirbrigða, fimm hreyfingar og fimm tímabil í árshringnum.

Í bókinni Shang Shu (skrifuð 1000 – 771 f.Kr.) segir: „Frumöflin fimm eru vatn, eldur, viður, málmur og jörð. Vatn gefur raka niður á við, eldur blossar upp á við, viður bognar og svignar, málm er hægt að móta og hann getur harðnað, jörð heimilar sáningu, vöxt og uppskeru. Það sem vætir og sekkur (vatnið) er salt, það sem blossar upp á við (eldurinn) er beiskt það sem getur svignað og bognað (viðurinn) er súrt, það sem má móta og sem harðnar (málmurinn) er bragðsterkt (pungent), það sem leyfir sáningu, vöxt og uppskeru (jörðin) er sætt.“ Þessi yfirlýsing sýnir greinilega að frumöflin fimm standa fyrir fimm ólíka, eðlislæga eiginleika og stig náttúrulegra fyrirbrigða eins og áður sagði. Hún sýnir einnig að hverju frumefni tilheyrir sérstakt bragð, og það er greinilegt að þessar bragðtegundir hafa meira með eðlislægan eiginleika hlutanna að gera (t.d. efnasamsetningin) frekar en bragðið sjálft.

Frumöflin Fimm sem hreyfing
Frumöflin fimm tákna einnig ólíka átt hreyfinga náttúrulegra fyrirbrigða. Viður táknar útvíkkun, útávið hreyfingu í allar áttir. Málmur táknar samandragandi hreyfingu, innávið hreyfingu. Vatn táknar hreyfingu niðurávið. Eldur táknar hreyfingu uppávið. Jörð táknar hlutleysi eða stöðugleika. (Jörð táknar líka breytingar, þ.e. eðlilegar umbreytingar).
Innbyrðis tengsl frumaflanna fimm
Frumöflin fimm raðast niður á 36 ólíka vegu, sem lýsa áhrifum þeirra hvert á annað og innbyrðis tengslum. Algengustu eru:
Hið heimsfræðilega ferli, (Cosmological sequence) sem er elsta niðurröðunin. Hún segir: „Af hinum fimm frumöflum er hið fyrsta kallað vatn, hið annað eldur, hið þriðja viður, hið fjórða málmur og hið fimmta jörð“. Þessi niðurröðun er tengd númerafræði hvers og eins frumafls:
Hið skapandi ferli (Generating sequence) Þarna er frumöflunum raðað niður í þeirri röð sem þau næra og framleiða hvort annað í. Viður nærir eld, eldur nærir jörð, jörð nærir málm, málmur nærir vatn, vatn nærir við.
Stjórnunar ferlið
Þessi niðurröðun er samkvæmt stjórnun, þ.e. hvaða frumafl stjórnar hverju: Viður stjórnar jörð, jörð stjórnar vatni, vatn stjórnar eldi, eldur stjórnar málmi, málmur stjórnar við.
Yfirstjórnunarferlið
Þetta ferli fylgir sömu niðurröðun og stjórnunarferlið, og sýnir sjúklega afstöðu frumaflanna gagnvart hvort öðru. Þetta skeður þegar eitt frumafl, eða líffæri er of veikt eða annað of sterkt.
Móðgunar – ferlið
Þetta ferli er öfugt við stjórnunarferlið, og er sjúkdómsferli, eða ferli ójafnvægis innan frumaflanna og líffæranna.

Samsvörun frumaflanna
Hér eru tengd mismunandi fyrirbæri og eiginleikar innan smáheima (t.d. ákveðin ferli innan náttúru og manns) og alheims við eitthvert af frumöflunum. Kínverjar til forna sáu tengsl og munstur milli allra hluta, þ.a.m. á milli mannsins og náttúrunnar, milli munsturs heilbrigðis og jafnvægis og sjúkdóma. Sum þessara tengsla eru augljós og algeng viðfangsefni okkar sem meðferðaraðila, önnur geta virst langsótt oft á tíðum og erfið í niðurröðun. Tilfinningin er sú hin sama í báðum tilfellum, heimspekin á bak við þessar kenningar er djúp og fögur. Það á við hér eins og á svo mörgum sviðum kínverskra lækninga, sjúkdóminn er ekki alltaf auðvelt, eða mögulegt, að lækna, en svörin eru alltaf til og allt ójafnvægi í manninum á sér samsvörun í náttúrunni. Öll lútum við sama lögmáli hér, menn, dýr, jurtir og jörðin sjálf.

Dæmi um samtengingar líffæra og frumafl Árstíð: Viðurinn er tákn fyrir vorið. Algengt er að lifrarorkan truflist á vorin. Lifrarorkan fer út á við og upp og vorið er sú árstíð sem ber með sér uppvakningu á Yang orku. Yang orkan getur eflt lifrarorkuna of mikið. Átt: Austan vindar geta gert lifrarorkuna mjög ofvirka, og höfuðverkur verður oft verri í þessari vindátt. Litur: Húðlitur fólks með lifrarójafnvægi tekur oft á sig grænan blæ. Bragð: Lítið af súru í mat styrkir lifrina, en mikið súrt skemmir hana. Loftslag:Vindur er greinilegur sjúkdómseinkennavaldur hjá öllum þeim sem þjást af lifrarvandamálum, og oft veldur vindur höfuðverkjum og hálsríg. Skynfæri: Lifrin gefur raka til og nærir augun. Líkamsvefir: Lifrin gefur raka til og nærir sinar. Tilfinningar: Reiði er tilfinning sem tengist. Við og Lifur. Ef lifrarorkan rís upp getur sjúklingurinn átt það til að rjúka upp í reiðiköstum. Hljóð: Öskur, samanber reiði!

Frumöflin fimm eru: Eldur, Jörð, Málmur, Vatn og Viður
Eldur. Eiginleikar eldsins eru hiti og skapandi tunga, þ.e.a.s. hugmyndaríki og frásagnarlist. Tilfinning eldsins er gleði og hlátur. Líffærin sem tilheyra eldinum eru hjarta og smágirni, hjartaverndari eða umslag hjarta og þrír hitarar. Tími þessar líffæra er 11-13 fyrir hjartað, 13-15 fyrir smágirni, 19-21 fyrir hjartaverndara og 21-23 fyrir þrjá hitara. Tilfinning eldsins er gleði. Andleg hlið eldsins er Shen, sem hefur það aðalhlutverk að leiða okkur í gegn um hvert andartak og þær aðstæður sem kveða að okkur í daglegu lífi. Shen er okkar beinu tengsl viðhið guðlega

Eldurinn er sterkastur á sumrin
Vestræn vísindi sjá eingöngu tvö af þessum líffærum sem líffæri, sem og Kínverjar gera reyndar líka. Hjartaverndari og þrír hitarar eru í raun starfsemi frekar en líffæri. Hjartaverndari ver hjartað og sér um að koma boðum þess til hinna líffæranna og er í raun móðir allrar Yin orku í líkamanum. Þrír hitarar eru hreyfing á orku og líkamsvökva og eru séðir sem faðir Yang orku líkamans. Eldurinn hefur mikið með geð og svefn að gera, hitastig líkamans og eiginleika mannsins til að gleðjast og hlæja. Ef eldurinn er ekki í jafnvægi, er stutt í svefnörðugleika og þunglyndi. Ef þrír hitarar detta niður í orku, sem getur skeð ef líkamanum er ekki haldið á hreyfingu, verður manneskjunni ávallt kalt, og sérstaklega verða útlimir kaldir og stirðir.

Jurtir sem styrkja eldinn eru meðal annarra:
Engifer – (Zingiber officinalis), sem örvareld-líffærin
Kanill – (Cinnamonum cassia), sem örvar eld-líffærin
Garðabrúða – (Valeriana officinalis), sem róar eld-líffærin

Jörð
Eiginleikar jarðarinnar eru raki og umbreyting (transformation). Líffærin sem tilheyra jörðinni eru milta og bris og magi. Tími þessara líffæra er 7-9 fyrir maga og 9-11 fyrir milta og bris. Tilfinning jarðarinnar er hugsun og einbeitning. Andleg hlið jarðarinnar er Yi, sem er sá eiginleiki sem gerir okkur kleift að einbeita okkur, læra og muna. Yi er einnig sá eiginleiki sem á þátt í of-hugsunum og þráhyggju. Árstími jarðarinnar er sá tími sem fellur á milli árstíðanna, þ.e. tíminn þar sem ein árstíð breytist í aðra. Jörðin er mjög mikilvægt frumafl í okkur vegna staðsetningar hennar. Jörðin virkar sem öxull fyrir öll hin frumöflin og sér í raun um að öll líffæri starfi vel. Líffæri jarðarinnar, milta, magi og bris sjá um að orka sú sem vinnst úr mat og drykk sé hrein og tær og nýtanleg jafnt fyrir önnur líffæri sem og orkurásirnar. Bragð jarðarinnar er sætt og sætur matur og sætar jurtir eru því styrkjandi fyrir þau líffæri sem tilheyra þessu frumafli. (Þegar talað er um að sætur matur styrki miltað er átt við magn eins og 10-15 rúsínur, eða 1 epli.

Hér er ekki átt við snúð og kók eða neitt því um líkt. Þvert á móti er sætur matur í óhófi eins og eitur fyrir jarðarlíffærin). Hér á Íslandi er jörðin það frumafl sem mest álag er á sökum óstöðugleika í veðri og vindum svo og í samfélaginu. Allt álag leggst á jörðina og líffæri hennar. Kuldi er mjög skaðlegur fyrir jarðarlíffærin og eina leiðin til að bæta okkur upp ytri kulda er með því að innbyrða heitan og styrkjandi mat. Þetta er ein ástæðan fyrir því hvers vegna allur mjólkurmatur er okkur svo óhollur og sérstaklega er þetta matur sem alls ekki á heima á morgunverðarborðinu þar sem morguninn er sá tími sem milta og magi vinna mesta orku úr fæðinu. Miltað á þá líkamsorku sem heldur okkur uppréttum og öllum okkar líffærum á sínum stað í líkamanum. Það heldur blóðinu í æðunum og heldur okkur vakandi og virkum. Í sjúkdómum eins og ofþreytu, síþreytu, þunglyndi og leiða á miltað yfirleitt stærsta þáttinn. Einnig eru sjúkdómar sem einkennast af líffærasigi eða blæðingum einnig tengd veikri miltaorku. Vegna þess hversu mikil áhrif fæðið hefur á miltað má komast langa leið í lækningum á milta ójafnvægi með fæðinu einu saman.

Jurtir sem styrkja jörðina eru meðal annarra:
Kamilla – (Camomilla recutita), styrkir milta og bris og róar maga
Mjaðurt – (Filipendula ulmaria), styrkir milta og bris
Fjallagrös – (Cetraria islandica), styrkir og mýkir sérstaklega magann
.
Málmur
Eiginleikar málmsins eru þurrkur og samandragandi hreyfing. Líffærin sem tilheyra málminum eru lungu og ristill. Tími þessara líffæra er 3-5 fyrir lungun og 5- 7 fyrir ristilinn. Tilfinning málmsins er sorg og grátur. Andlegur eiginleiki málmsins er Po, sem er hinn jarðneski hluti sálu okkar, ágirnd, efnishyggja, öfund o.sv.frv. Po virkir okkur og gerir okkur kleift að skynja hlutina á líkamlegan hátt. Po er einnig talinn vera sá eiginleiki sálu okkar sem man hina jarðnesku ímynd okkar eftir dauðann. Málmurinn er sterkastur á haustin, en jafnframt eru veik lungu viðkvæmust á þeim árstíma.

Lungun stjórna húðinni og sjá um að verja líkamann gegn utanaðkomandi áhrifum veðra, vinda og örvera. Þó svo að tilfinning málmsins sé sorg er málmurinn einnig það frumafl sem aðhyllist mest lög og reglur. Sagt er að sterk lungu séu grunnurinn að góðri dómgreind. Ef lungnaorkan er veik er manneskjan gjörn á að fá allskyns utanaðkomandi sjúkdóma, hún svitnar gjarnan á daginn við minnsta álag og getur átt það til að vera mjög grátgjörn. Einnig er manneskja með veika lungnaorku mjög næm fyrir öllum utanaðkomandi áhrifum, jafnt bakteríum og vírusum sem og annarra tilfinningum og óréttlæti heimsins.

Jurtir sem styrkja Málminn eru meðal annarra:
Lakkrís – (Glycyrrhiza glabra), sem styrkir bæði lungu og ristil
Fjallagrös – (Cetraria islandica), sem mýkir lungun og gefur þeim raka

Vatn
Eiginleikar vatnsins eru kuldi og upphaf vaxtar. Vatnið nærir fræið til þess að það geti vaxið í krafti viðarins seinna meir. Þar með má segja að vatnið geymi upphafsorkuna. Líffæri sem tilheyra vatninu eru nýru og þvagblaðra. Nýrun eru séð geyma tvenns konar orku; nýrna-Yin orkuna sem nærir og styrkir, byggir og nærir bein, merg og heila, og nýrna- Yang orkuna sem heldur líkamanum heitum og starfandi. Nýrun geyma lífsorkuna og viðhalda lífi og starfsorku.

Þau eru völd að vexti og þroska mannsins, og þau stjórna hinum 7 og 8 ára þroskastigum sem kona og maður ganga í gegn um á ævinni. Nýrun geyma einnig þá líkamsorku sem gerir okkur kleift að eiga heilbrigð börn og þau eru sögð stjórna lengd lífsins. Tími líffæra vatnsins er 15-17 fyrir þvagblöðru og 17-19 fyrir nýrun. Tilfinning sú sem tengist vatninu er hræðsla og ótti og sá sem þjáist af veikleika í nýrum á iðullega við einhverskonar hræðslu að stríða. Andlega hlið vatnsins er Zhi sem er viljakraftur okkar og lífslöngun. Vatnið er sterkast á veturna, en veik nýru eru jafnframt viðkvæmust á þeim árstíma.

Jurtir sem styrkja vatnið eru meðal annarra
Klóelfting – (Equisetum arvense), sem styrkir nýrna-Yin orkuna
Birki – (Betula alba), sem styrkir nýrna-Yin orkuna. Kanill – (Cinnamonum cassia), sem styrkir nýrna-Yang orkuna, og er mjög mikilvæg þegar hiti líkamans er farinn villu vegar. Kanill beinir líkamshitanum aftur niður til nýrnanna.

Viður
Eiginleikar viðarins eru vindur og vöxtur. Viðurinn er eitt kraftmesta frumaflið og það geymir þann kraft sem keyrir plöntuna í gegn um harða skel fræsins, og síðan upp í gegn um jörðina. Líffærin sem tilheyra viðnum eru lifur og gallblaðra. Lifrin hefur mikilvægu hlutverki að gegna í sambandi við heilbrigði blóðs. Hún nærir og endurnýjar blóðið og heldur því hreinu og kraftmiklu. Gallblaðran geymir þann kraft sem er gall. Tími líffæra viðarins er 23-01 fyrir gallblöðru og 1-3 fyrir lifrina. Tilfinning sú sem tengist viðnum er reiði. Andlega hlið viðarins er Hun sem eru yfirjarðnesku hliðar sálu okkar. Það er í gegn um Hun sem Shen (andlega hlið eldsins) nær að tjá sig og það er með Hun sem við myndum ímyndunarafl okkar ásamt því sem við náum að meta og skipuleggja líf okkar. Hun er sá eiginleiki sem er talinn hafa áhrif á lífssýn okkar /og markmið í lífinu. Viðurinn er sterkastur á vorin, en veik lifur og eða gallblaðra eru jafnframt viðkvæmust á þeim árstíma.
Jurtir sem styrkja viðinn eru meðal annarra:
Túnfífill – (Taraxacum officinalis), rót og blöð, styrkja lifur og gallblöðru Kínversk hvönn, Dong Quai – Angelica sinensis, styrkir lifrarblóð og er því mjög mikilvæg jurt fyrir margar tegundir af lifrarveikleika.

SÁLRÆNIR ÞÆTTIR
FRUMAFL NAFN     HLUTVERK
HJARTA   Shen eru sendiboðar himnanna og leiðtogar lífsins. Séð sem andleg regla frekar en einn eiginleiki. Shen eru óeyðanlegir og þeir fylla út óendanleikann. Shen er sá eiginleiki sem gerir hvern einstakling ólíkan öðrum. Hið sanna hlutverk Shen er að leiða okkur i gegn um hvert andartak og þær aðstæður sem kveða að okkur i hinu daglega lifi.
MILTA   Yi er sá eiginleiki sem gerir okkur kleift að einbeita okkur, að læra og að muna.
LUNGU  Po (7)  eru hinir jarðneskustu hlutar sálu okkar, ágirnd, efnishyggja, öfundsýki o.s.frv. Po virkja okkur og eru sá eiginleiki sem gerir okkur kleift að finna til og skynja hlutina. Po er sá eiginleiki sem man hina jarðnesku ímynd okkar eftir dauðann.
NÝRU   Zhi er viljakraftur okkar og lífslöngun.

LIFUR  Hun (3)
Hun eru yfirjarðneskir hlutar sálu okkar. Það er i gegn um Hun sem Shen er fært að tjá sig. Þad er í gegn um Hun sem ímyndunaraflið fær lausan tauminn ásamt getu okkar til skipulags og rétts mats. Hun er sá eiginleiki sem er talinn hafa áhrif á lífssýn okkar og markmið i lífinu. Shen

Við flutning greinarinnar í uppfærslu heimasíðunnar hefur endir geinarinnar fallið út.

Höfundur: Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir

 



Flokkar:Greinar og viðtöl

%d