„Það eru engir sjúkdómar ólæknandi, þ.m.t. alnæmi ef fólk lifir í takt við náttúruna“, segir Ann Wigmore, stofnandi Hippocrates Health Institute og einn áhrifaríkasti náttúrulæknir vorra tíma. Ann Wigmore fæddist í Litháen árið 1909. Hún ólst upp hjá ömmu sinni sem sjálf stundaði árangursríkar náttúrulækningar. Þegar Ann var 16 ára sendi amma hennar hana til Bandaríkjanna, þar sem fjölskylda hennar hafði þegar sest að. Þar vann hún hörðum höndum í bakaríi foreldra sinna. Þetta ásamt slæmu mataræði hafði þau áhrif að heilsu hennar fór hrakandi. Dag einn var hún á ferð í hestvagni þegar hún varð fyrir slysi.
Fætur hennar krömdust og læknar hennar fullyrtu að hún hefði þarna byrjað þjáningarfullt dauðastríð, nema að þeir tækju fæturna af við hnén. Það var þá sem Wigmore mundi eftir árangursríkum tilraunum ömmu sinnar við að hjúkra hermönnum með drep. Hún neitaði læknisaðgerð og var send heim til að deyja. En öllum á óvart voru náttúran og örlögin henni hliðholl. Með því að borða mikið af jurtum, grasi og blómum sem voru full af súrefnisríkri blaðgrænu náði hún sér að fullu. Því miður tók heilsuleysið sig upp aftur, óhamingjusamt hjónaband olli því m.a. og 50 ára greindist hún með ristilkrabba.
Henni voru gefnir 6 mánuðir. Aftur sneri hún sér til guðs og náttúrunnar. Ann Wigmore byrjaði að borða hráfæði ásamt fræjum, spíruðu korni og baunum sem hún hafði trú á. Hún uppskar algjöran bata á aðeins einu ári. Þessir tveir atburðir breyttu lífi hennar algjörlega. Ann skildi að líkaminn hreinsar út og læknar sjálfan sig ef maður bara gefur honum það tækifæri að innbyrða auðmelta fæðu sem er stútfull af næringarefnum. Ann Wigmore taldi að það væri aðeins tvennt sem veldur sjúkdómum; eitrun og næringarskortur.
Ann sagðist vita að „köllun hennar væri að opna lækningastöð, þörfin væri svo mikil á að kenna öðrum um lækningarmátt líkamans“. Hún vildi kenna fólki að það væri ekkert sama sem merki milli aldurs og heilsuleysis. Hver og einn ber ábyrgð á eigin líkama. Mörg ár fóru í rannsóknir og tilraunamennsku því hún vildi komast að því hvaða fæði væri næringarríkast og hægt að rækta innandyra. Með því ertu óháður árstíma og ræktunarskilyrðum. Sumar tilraunirnar gerði hún á sjálfri sér og að lokum varð hún sannfærð um að lifandi fæða væri lykillinn að heilbrigði.
Hún stundaði ýmiskonar nám í náttúrulækningum og uppskar að lokum margar viðurkenningar frá fjölmörgum stofnunum. Starfsvettvangur hennar var víða um heim. Hún vann við að hjálpa veiku fólki og öðlaðist virðingu margra, þar á meðal lækna og stjórnmálamanna. Árið 1971 fékk hún viðurkenningu frá sænsku Nóbelsverðlauna akademíunni.
Lifandi fæða – ósoðinn matur
Líkaminn þarf byggingarefni af allra bestu gerð. Góður matur gefur góðan líkama og þar með góðar hugsanir, tilfinningar og gjörðir. Góð leið til að viðhalda góðri heilsu er að matreiða hráfæði. Það er vitað að fólin sýra, E og C vítamín hjálpar líkamanum til að byggja upp ónæmiskerfið og verndar okkur þar með gegn sjúkdómum. Samt höldum við áfram að velja þægilega, duftkennda, tilbúna, næringarlitla, eiturefnasprautaða, vakúm- pakkaða, niðursoðna, frysta – sumsé steindauða fæðu.
Þar fyrir utan gerum við allt sem við getum til að eyðileggja fæðuna ennþá meira með því að grilla, sjóða og steikja næringarefnin og þar með drepa niður allt sem heitir ensým. Þau eru líkamanum jafn mikilvæg og vítamín og steinefni en því miður ekki eins þekkt meðal almennings. Meltingin virkar ekki ef við höfum ekki nægilegt magn ensýma. Við fæðumst með ensým og líkaminn framleiðir hluta þeirra en við verðum að bæta við forðann með því að borða ensýmríka fæðu. Fæða sem ekki inniheldur ensým er upphitaður matur og t.d. mjólk, egg, súkkulaði, salt og sykur. Að meðaltali innbyrðir fólk 2 kg af bragðefnum, litarefnum, bindiefnum og rotvarnarefnum.
Við borðum 1 kg af sykri á hverri viku. Og við plötum okkur sjálf með því að telja okkur trú um að fæða sem við getum að einhverju leyti tengt náttúrunni sé hollari en önnur fæða. Dæmi um þetta væri ávaxtajógúrt. Við höldum að hún sé álíka holl og hrein jógúrt, en staðreyndin er sú að ávaxtajógúrtin er stútfull af sykri á meðan hrein jógúrt er svo gott sem sykursnauð.
Ef við viljum hreinsa út og byggja upp líkamann í þeim tilgangi að öðlast meira heilbrigði getum við valið að borða lifandi fæðu sem er einfaldari, ódýrari, bragðbetri og umfram allt hollari en nokkur önnur fæða. Lifandi fæða er ávextir, ber, grænmeti, hnetur, fræ, baunir, linsur og þari sem er matreitt án upphitunar, einnig brauð og kökur sem má hita upp að 45°C. Maturinn samanstendur af súpum, salötum, áleggjum, kæfum, mauki, kexi, sósum, tertum, ís, drykkjum, hnetu- og fræmjólk sem skapar endalausa fjölbreytni og bragðast auk þess betur. Þeir sem prófa lifandi fæðu verða yfirleitt undrandi á hversu bragðgóð hún er.
Eini sykurinn sem maður borðar er sykurinn í þurrkuðum og ferskum ávöxtum og ekki þarf maður að hafa slæma samvisku að borða góðgæti sem er búið til úr því. Í ísskápnum þurfa að vera til hnetur og möndlur sem lagðar hafa verið í bleyti, náttúrulega gerjuð fræ og spíraðar linsur og baunir. Í avókadó, fræjum, korni, baunum, hnetum og möndlum er að finna allt það prótein sem líkaminn þarf. Sérstaklega hátt próteinmagn er í kornsafa og „wheat grass“ sem auk þess inniheldur mikið af amínósýrum. Próteinið í spíruðu hveiti eykst 2,5 sinnum og þegar spírunin fer fram brotnar próteinið niður í amínósýrur sem eru auðmeltari fyrir líkamann.
Einnig aukast ensým og vítamín við spírun. Náttúran sér okkur fyrir því sem við þurfum á sniðugan hátt. Mikið magn af B–12 vítamíni finnst í hveiti-grasi og spírum. Öll B-vítamínin finnast í hnetum, spírum, bönunum, sölum og fræjum. Kalk er að finna í möndlum, hnetum, káli, grænum blöðum, spírum og í sesamfræjum sem innihalda 10 sinnum meira kalk en mjólk. Góðir járngjafar eru söl, þurrkaðir ávextir, græn blöð, hnetur, fræ, spírur og hörfræ. Í lifandi fæðu er engu bætt við og ekkert fjarlægt, næringarefnin fá að njóta sín í sinni upprunalegu mynd. Líkaminn þarf ekki að erfiða við að endurvinna og melta þunga, óholla gerfiefnafæðu og getur í staðinn unnið á uppsöfnuðum eiturefnum og læknað sjálfan sig.
UPPSKRIFTIR
Ég fór út til Puerto Rico í september á síðasta ári þar sem starfrækt er heilsuhæli/skóli í anda Ann Wigmore. Þetta var alveg stórkostleg upplifun. Dagurinn byrjaði kl. 6 niður á strönd þar sem við gerðum yogaæfingar í sólarupprásinni við ölduniðinn. Síðan tóku við fyrirlestrar um lifandi fæði, næringarfræði o.fl. ásamt verklegum tímum í matargerð, náttúrulegri snyrtingu þar sem við lágum með avókadó á kinnunum og gúrkur á augunum og slökuðum á.
Við lærðum að búa til safnhaug og að spíra spírur, rækta hveiti gras og búa til kornsafa (rejuvelac). Á kvöldin voru sýnd myndbönd eða kenndar sjálfstyrkingaræfingar. Það sem kom mér mest á óvart var hve auðvelt það er í raun að rækta allt sem þarf í þessu mataræði heima hjá sér, enda var það markmið dr. Ann að allir gætu útbúið það sem til þyrfti í lítilli íbúð. Það er bara spurningin að byrja. Margir hafa morgunmatinn og kvöldmatinn lifandi en fá sér eina létta grænmetismáltíð eldaða yfir daginn.
Aðrir hafa eina lifandi máltíð yfir daginn. Það er hægt að hafa þetta alla vega, en mest um vert er þó að taka eitt skref í einu og þó að fólk noti sér aðeins kornsafann eða auki við hráa salatið er það að stíga afar dýrmæt skref inn á heilsubrautina. Aðalatriðið í lifandi fæðu er að TYGGJA MATINN VEL! hvað svo sem þú borðar. Undirstöðuuppskriftir í lifandi fæði eru orkusúpa, kornsafi (rejuvelac) og „wheatgrass djús“ sem er pressaður safi úr grasi sem er ræktað úr hveitifræjum. Það er ótrúlegt hversu girnilega, fjölbreytta og lystuga rétti má matreiða í þessu fæði. Það gildir hér sem í annarri matseld, vera forvitin og prófa sig áfram.
ORKUSÚPA
1 dl kornsafi eða vatnsmá söl eða annar þari
1 dl spírur, s.s linsur og/eða kjúklingabaunir, ertur,adukibaunaspírur
1 dl grænt grænmeti, s.s bókhveiti spírur og/eða sólblómaspírur, brokkolí, lambhagasalat (eða annað eiturefnalaust kál)
Ávextir s.s 1 epli eða 1 sneið af vatnsmelónu eða ½ papaya
1 avocadó eða ½ dl útbleyttar möndlur eða sesamfræ eða sólblómafræ
Allt er sett í blandara nema avókadóið, og blandað vel í ca 2 mín. Þá er avókadóinu bætt útí og blandað í ca 10 sek. Tilbúið. Í þessa súpu á að nota hugmyndaflugið, þetta er aðeins grunnuppskrift. Rétt samsetningin er að nota: kornsafa + spírur + grænt + ávöxt + prótein. Þá fær líkaminn alla þá næringu sem á þarf að halda. Síðustu ár ævi sinnar lifði dr. Ann eingöngu á orkusúpu, hún borðaði hana 5 sinnum á dag og þá 5 matskeiðar í senn og tuggði hvern bita minnst 30 sinnum. Hún þurfti aðeins 2-3 tíma svefn og hljóp um eins og unglingur.
KORNSAFI
Í kornsafanum (rejuvelac á ensku) sem er próteinríkur, er óvenju mikið magn af aspergillus og lactabacillus mjólkursýrugerlum sem eru nauðsynlegir fyrir meltinguna. Einnig er safinn ríkur af B, C, E vítamínum og enzýmum. Þessi drykkur hjálpar okkur að brjóta niður erfið mólekúl s.s. fitu og sterkju. Það sem til þarf er: Glerkrukka Grisja eða tjullefni Teygja Korn – heilt hveitikorn og heilt rúgkorn (bestur árangur næst með lífrænt ræktuðu korni) Vatn
1. Bolli hveitikorn og ? bolli rúgkorn eru þvegin og lögð í bleyti í ca 12 klst.
2. Síðan er kornið látið spíra í 2 sólarhringa: SPÍRUN: kornið er skolað og sett í krukku sem er lokað með grisju og teygju. Krukkunni er hallað svo að allt vatnið leki úrhenni. Þetta er endurtekið 2x á dag í 2 sólarhringa eða þar til litlu spírurnar sem koma út úr frækorninu eru jafn langar og kornið sjálft.
3. Núna eru kornspírurnar settar í krukku með rúmlega helmingi meira vatni. Krukkunni er lokað með grisju og teygju. Krukkan er látin standa á eldhúsborðinu í 2 – 3 sólarhringa. (fer eftir hitastigi, því heitara – styttri tími).
4. Vökvanum – KORNSAFANUM – er hellt fráog hann settur á flösku eða í könnu og geymdur í ísskáp. Hann geymist í u.þ.b. ½ mánuð í kæli.
5. Hægt er að nota sömu kornspírurnar 2x í viðbót og er vökvinn í seinni skiptunum látin standa í 1 – 2 sólarhringa á eldhúsborðinu. 6. Þegar hellt er af korninu í fyrsta skiptið er gott að láta nýjan umgang af korni í bleyti til að viðhalda framleiðslunni. Þennan drykk er gott að drekka á fastandi maga. Einnig er þetta upplagður drykkur ca ½ klst. fyrir mat til að hjálpa til við meltinguna. Eins og fyrr sagði er kornsafinn stútfullur af enzýmum en þau ku vera leyndarmálið á bak við eilífa æsku.
AVÓKADÓSÓSA
4 avókadó
ferskur kóríander, eftir smekk
1 msk söl
1 agúrka
½ dl appelsínusafi
½ rauð paprika
Kornsafi á að fljóta rétt yfir hráefnið í blandaranum. Allt sett í blandara og blandað vel. Góð að hafa sem kalda sósu með mat sem og út á salat.
HUMMUS
65% spíraðar kjúklingabaunir
15% sesamfræ, sem hafa legið í bleyti í 8 klst og spírað í aðrar 8 klst
5% kornsafi
5% sítrónu eða lime safi
5% ferskur kóríander
3% söl
2% cumin
Kjúklingabaunir eru settar í matvinnsluvél og þær tættar niður. Sesamfræjum, kóríander og kornsafa er bætt útí og blandað vel. Þá er restinni af uppskriftinni bætt útí og hrært vel saman. Gott að nota sem álegg eða sem aðalrétt með góðu grænu salati og avókadósósu.
FRÆ-MJÓLK
1 bolli (ca 2 dl) spíruð fræ, t.d. sesam eða
sólblómafræ (í bleyti í 8 klst – spíra í 8 klst)
2 bollar kornsafi
2 döðlur sem hafa verið í bleyti í 2 klst. eða
½ banani (má sleppa fyrir þá sem ekki vilja neinn sykur)
Blandið öllu mjög vel saman í blandara og sigtið í gegnum sigti eða grisju (bleyju). Þetta er afar kalk- og næringarrík mjólk fyrir börn með mjólkuróþol og aðra sem vantar vökva út á t.d. grautinn eða muslið sitt. Einnig er hægt að nota möndlur í staðin fyrir fræ. Á veitingastaðnum mínum, Grænum kosti býð ég upp á kornsafa, nýpressað wheatgrass djús og orkusúpu fyrir þá voguðu. Er þetta oftast til, en einnig er hægt að hringja á undan sér, sérstaklega með orkusúpuna.
Gangi ykkur vel, kær kveðja, Sólveig Eiríksdóttir skrifað árið 1998
Flokkar:Næring