Maðurinn sem orkukerfi

Eggert V. Kristinsson flutti erindi á haustfundi Heilsuhringsins 1996

Ég rakst á þetta hugtak í fyrsta sinn í bók sem var gefin út hér á landi 1962, eftir geðlækninn Schafica Karagulla. Bókin heitir: Nýjar víddir í mannlegum skilningi og fjallar um rannsóknir dr. Karagulla og dr. Dóru van Gelder Kunz á áru- eða orkusviði mannsins. Þessar rannsóknir stóðu yfir í um 10 ár og fjallar bókin um árangur þeirra rannsókna.

Í stuttu máli þá er niðurstaða dr. Karagulla sú að maðurinn er í raun orkusvið og ég man að þessi hugsun heillaði mig þá, án þess að ég næði því fyllilega hvað hún væri að fara.

Það tekur tíma að venjast nýjum hugtökum þegar þau koma fram og við þurfum vissa aðlögun til þess að ná þeim fyllilega. En slíkt er alltaf að gerast í samtíma okkar varðandi tæknilegar nýjungar því þær koma svo hratt að við höfum varla við að taka upp ný heiti þeirra. Eftir vissan tíma eru þessi nýju heiti orðin að heimilisvinum hjá okkur og við tökum þeim sem sjálfsögðum hlut.

Í þessu tilfelli sem við ætlum að fjalla um núna, snýr hugtakið að manninum sjálfum og mun ég leitast við að varpa ljósi á þetta hugtak og reyna að útskýra fyrir ykkur að maðurinn er í raun orkusvið-orkukerfi.

Daglega erum við í raun stöðugt að vísa á þennan veruleika okkar sem orkulegt fyrirbrigði án þess að við veitum því neina athygli, eða að við setjum það í eitthvert sérstakt samhengi.

Við tölum t.d. um að við búum yfir hugarorku, vitsmunaorku, kynorku, tilfinningaorku og lífsorku. Við segjum líka á stundum að við séum orkulaus þegar við finnum að líkamlegt ástand okkar er ekki eins og það á að vera.

Hafið þið gert ykkur grein fyrir því hvað þið gangið yfirleitt fyrir mikilli orku? Ef þið viljið fá eitthvert raunveruleikaskyn á það, reynið þá að ímynda ykkur að þið haldið á sjálfum ykkur í fanginu, öllum þeim kílóum sem þið eruð, og reynið að hlaupa með ykkur fram og aftur einhverja vegalengd.

Í fyrsta lagi gætuð þið ekki loftað sjálfum ykkar, hvað þá að þið gætuð borið ykkur um í einhvern tíma. Hvað er þetta reginafl sem heldur okkur svona uppi og gerir okkur kleift að hreyfa daglega allan þennan þunga sem við erum? Það er að sjálfsögðu lífsorkan, lífskrafturinn sem okkur er gefinn.

Þessi lífskraftur er okkur svo sjálfsagður að við tökum varla eftir honum, hvað þá að við þökkum fyrir hann. Það er eins með vatnið sem við tökum sem sjálfsagðan hlut, það er ekki fyrr en það er orðið mengað og lítið af því að við áttum okkur á hvílík gersemi vatnið er í raun.

Í efnafræði sem við lesum í menntaskóla segir að það sem við köllum efni sé í raun fyrirbrigði sem samsett sé af mólekúlum á fullri ferð og bygging þeirra sé eftir því hvaða efnisform sé verið að birta. Til þess að mólikúl geti hreyfst þá þurfa þau svið eða vídd og orku, sem sagt orkusvið. Segja má að efnið sé því í raun formbirting orku og ekkert annað.

Á árunum 1950 til 1960 var þeirri vísindalegu staðreynd haldið fram að atómið væri smæsta efnisögnin sem til væri og þetta var okkur kennt sem heilagur sannleikur. Síðar, þegar nákvæmari mælitæki komu til sögunnar kom í ljós að atómið var engin efnisögn, það fannst ekkert efni í ögninni.

Þegar atómið var rannsakað nánar komu í ljós ennþá fíngerðari og smærri orkuleg fyrirbrigði sem við þekkjum í dag sem nifteindir og róteindir. Út frá þessu getum við gefið okkur að við séum einfaldlega orkulegt fyrirbrigði og að það sem birtist okkur sem efni, sé í raun formgerð orkunnar, -formbirting sem við höfum tamið okkur að hugsa um sem efni.

Ummyndun og formgerð orkunnar á sér alls staðar stað. Slíkt gerist í samspili orku sólar, orku jarðar og orku vatns. Við getum rakið þetta samspil líffræðilega í náttúrunni og séð að fyrir tilstuðlan þessara orkukerfa verður allt til sem vex á yfirborði jarðar. Án hins orkulega veruleika í tilverunni skeður yfirleitt ekki neitt. Sama má segja um það sem maðurinn hefur skapað. Allt það sem hann hefur lagt fram í einhverju formi hefur ætíð byggst á hugarorku hans, sköpunarafli og ímyndunarafli. Síðan hefur hann formgert hugmynd sína með þeim efniviði sem til er hverju sinni og eftir stendur formmynd hugarorkunnar eða það sem við köllum hlut.

Þegar við nálgumst þessa hugmynd um orkuímynd mannsins þá opnast okkur margir nýir möguleikar. Segja má að slíkt sjónarhorn gefi okkur kost á því að nálgast manninn á nýjan hátt. Kínverjar hafa þróað og notað kerfi sem þeir nefna „Acupunctur“ eða nálastungur í mörg þúsund ár. Það byggist á orkurásum og orkupunktum í líkamanum sem þeir hafa kortlagt nákvæmlega og gjörþekkja.

Megin hugmyndin á bak við þetta kerfi er að orkujafna svæði líkamans, þ.e. losa um orkustíflur og koma á jafnvægi orkuflæðisins þar sem ójafnvægi ríkir. Einnig nota þeir þessa aðferð til deyfingar við skurðaðgerðir.

Mér var eitt sinn boðið í kínverska sendiráðið til þess að horfa á kynningarmynd um nálastunguaðferðina þar sem sýndir voru holskurðir og heilaskurðaðgerðir þar sem eingöngu var notuð nálastungudeyfing. Sjúklingarnir sem aðgerðirnar voru gerðar á voru glaðvakandi allan tímann meðan á aðgerðunum stóð. Ekki bar á því að þeir yrðu fyrir neinum óþægindum á meðan eða eftir að aðgerðinni lauk.

Út frá þessu kínverska kerfi hafa mörg önnur meðferðarkerfi orðið til eins og shiatsu þrýstipunkta nuddið og akupressure eða þrýstipunktakerfið þar sem þrýst er á viðkomandi orkupunkta í stað þess að nota nálar. Í háskólum í Bandaríkjunum og Evrópu hefur þróast ný fræðigrein sem nefnist kínesiology sem byggir m.a. á þessum sama grunni. En það er að í líkömum okkar er fyrir hendi mikill fjöldi af orkurásum og orkupunktum sem tengjast allri líkamsstarfssemi okkar.

Orkurásirnar eru 28 talsins og sum þeirra kerfa sem ég nefndi vinna út frá 14 meginrásum. Orkupunktarnir á þessum orkurásum eru samtals 668, en einnig eru aðrir punktar sem liggja fyrir utan rásirnar.

Til eru rafmagnstæki sem segja til um nákvæma staðsetningu orkupunktanna. Allt þetta fjölþætta og mikla orkulagningarkerfi sýnir okkur að við erum eitthvað meira en bein, vöðvar, vefir og vatn.

Út frá þessum staðreyndum getum við séð að líkamar okkar eru með viðamikið og flókið orkurásakerfi sem lífsorkan flæðir um. Auðvitað verðum við að hafa raflagnir í okkur, rétt eins og flugvélar, bílar, skip, hús, tölvur og öll þau rafmagnstæki sem við styðjumst við í tilverunni.

Allt gengur fyrir orku og það þarf að leiða orkuna að, svo að viðkomandi hlutur eða manneskja bifist. Þessu er á engan hátt öðru vísi farið hjá mönnum en tækjum.

Innan jógagafræða er einnig tilvísun á ákaflega merkileg fyrirbrigði sem nefnast orkustöðvar mannslíkamans. Vestræn menning hefur í ríkum mæli tileinkað sér þessi þúsund ára mannvænu vísindi sem nefnast jóga. Öllum sem lagt hafa stund á einhverjar greinar jógafræðanna ber saman um að það sé afar uppbyggjandi að iðka slíkar æfingar. Hatha-Yoga er orðið mjög útbreitt í hinum vestræna heimi, en þessi grein jógafræða miðar að því að koma  líkamanum í gott jafnvægi, tilfinningalega og andlega.

Líkaminn verður sveigjanlegur og liðugur. Hann tekur þannig miklu betur við því orkuflæði sem við nefnum daglega lífsorku, en slíkt tryggir að manneskjan öðlast meira jafnvægi sem okkur er svo mikil nauðsyn á í dag.

Orkustöðvar þær sem jógafræðin fjalla um eru yfirleitt taldar vera 7, en þær helstu eru reyndar 8 talsins. Þessar orkustöðvar mynda flókið net um allan líkamann og eru lykillinn að því að orkuvæða allt orkukerfi hans og líffæri. Þessar orkustöðvar nefnast: Rótarstöð, kynstöð, miltisstöð, magastöð, hjartastöð, hálsstöð, ennisstöð og höfuðstöð.

Gerðar hafa verið vísindalegar rannsóknir á þessu fyrirbæri í orkusviði mannsins. Í bókinni „Wheels of Light“ (1989) eftir Rosalyn L Bruyere, í Bandaríkjunum nefnir hún rannsóknir dr. Valery Hunt, sem er forstöðumaður kínesiology deildar við UCLA háskólann í Kaliforníu.

Í þessari rannsókn voru mæld tíðnirið í orkusviði mannsins. Niðurstaðan sýndi að þau samsvöruðu tíðniriði sjáanlegs ljóss. Sú niðurstaða þýðir að það sem vísindin kalla hið mannlega orkusvið „The Human Energy Field“, og það sem jógafræðin kalla „árusvið“ er eitt og hið sama. Frekari rannsóknir sýndu einnig að þessu stóra orkusviði utan um manninn er haldið við af smærri orkuhvirflum sem við köllum orkustöðvar.

Á sama tíma sem þær dr. Hunt og Rosalyn L. Bruyere voru að vinna að þessum rannsóknum undir ströngum vísindalegum skilyrðum, voru vísindamenn annars staðar í Bandaríkjunum að komast að því að hugur mannsins er ekki í heila hans, heldur er hugurinn orkusvið bæði í og utanum líkama mannsins

Ný tækni í Kirlian ljósmyndagerð og Biofeedback tækni virðast styðja þessar niðurstöður. Einnig styðja höfundar eins og Wilder Penfield í bók sinni: The Mystery of the Mind, Karl Pribram í bók sinni: Languages of the Brain og dr. Robert O. Becker í bók sinni The Body Electric niðurstöður og rannsóknir dr. Hunt á orkusviði mannsins.

Höfundur bókarinnar „Wheels  of Light“ getur þess að rannsóknir á þessu fyrirbæri hafi verið stundaðar í Rússlandi frá 1920, og að ef til vill sé þetta fyrsta tilraun Bandaríkjamanna til að rannsaka þetta orkusvið mannsins.

Nánar er getið um þessa rannsókn í bókinni „Hendur Ljóssins“, eftir dr. Barböru Brennan (bls. 33). Í þeirri sömu bók er í 5. kafla ennfremur fjallað ítarlega um sögu vísindarannsókna á orkusviði mannsins.

Það er sem sagt að koma í ljós að allt það sem jógaafræðin hefur sett fram um orkusvið og orkustöðvar mannsins reynist rétt, en ekki einhver hjáfræði eins og lengi hefur verið haldið fram vegna skorts á vísindalegum sönnunum.

Nú þegar við höfum þessar upplýsingar vísindalega staðfestar, getum við farið að hugsa um hvernig við getum notað þær okkur til góðs. Þegar við göngum útfrá því að við séum í raun orkusvið/orkukerfi sem við sjálf höfum eitthvað með að gera þá opnast fyrir okkur nýir möguleikar sem ekki hafa verið inni í myndinni fyrr.

Með hugarorku getum við farið að hafa bein áhrif á það sem komið er úr jafnvægi í orkusviði okkar og komið því í jafnvægi á nýjan  leik. Orka hefur áhrif á orku og út frá því lögmáli getum við unnið.

Ég segi hiklaust að með þessum nýju niðurstöðum eigi eftir að fylgja ný viðhorf til uppruna sjúkdóma. Hvers eðlis þeir eru og hvernig megi meðhöndla þá. Það er alveg hugsanlegt að sjúkdómar séu frekar orkulegs eðlis heldur en eingöngu efnislegir og því beri að meðhöndla þá einnig út frá orkulega þættinum.

Læknar í Bandaríkjunum eru farnir að notfæra sér þennan möguleika, sérstaklega í baráttu við krabbamein. Þeir láta sjúklinginn vinna á meinsemdinni með jákvæðri hugarorku sinni. Máttur hugans er yfirleitt vanmetinn hjá okkur, en það er í raun fyrir tilstuðlan hans sem allt gerist í lífi okkar. Hvers vegna ekki á sviði heilbrigðis eins og á öðrum sviðum lífsins?

Það er þekkt staðreynd að neikvæð hugsun getur brotið niður ónæmiskerfi einstaklings ef henni er viðhaldið lengi, og þá á öll sjúkdómaflóran greiðan aðgang að manneskjunni. Við getum einnig gefið okkur, að jákvæð hugsun mun styrkja ónæmiskerfið og þannig haldið okkur frekar frá sjúkdómum.

Með framangreint í huga getum við betur séð að það er alls ekki svo fjarstæðukennt eða óraunverulegt að maðurinn sé í raun orkulegt fyrirbrigði. Við höfum það staðfest að í okkur er fjölbreytt og flókið orkurásarkerfi; við höfum orkustöðvar og við erum með orkusvið umhverfis og í okkur. Hugurinn er ekki lengur í heila okkar, heldur er hann orkusvið sem umlykur okkur innst sem yst.

Niðurstaðan verður sú að maðurinn er í raun bæði orkukerfi og orkusvið sem samanstendur af því sem við höfum m.a. rakið hér í stuttu  máli.

Höf: Eggert V. KristinssonFlokkar:Annað, Ýmislegt

%d bloggers like this: