Kenningar dr. Bernie Siegel

Erindi flutt af Hrund Helgadóttur hjúkrunarfræðingi á haustfundi Heilsuhringsins 1992

Yfirleitt þegar ég tala um fallegt fólk þá á ég alltaf við innrifegurð. Fegurð sálarinnar sést og finnst í útgeislun þessa fólks og fer aldrei milli mála. Elisabeth Kubler-Ross skrifar í einni af bókum sínum (Death, The Final Stage of Life) eftirfarandi:

,,Fallegasta fólkið er það sem reynt hefur þjáninguna, kynnst basli, upplifað missi orðiðað gefast upp á einhvern hátt og fundið leiðina úr hyldýpinu. Þetta fólk hefur í sér næmnina, þakklætið og skilninginn á lífinu, sem fyllir það samhyggð, mýkt og djúpri kærleiksvitund. Fallegt fólk verður ekki til úr engu.“ Þegar ég svo fór að skoða í huganum fólk sem ég þekki og hef þekkt í lífinu þá komst ég að því að það er til margt svona fólk. Hver er þá leyndardómurinn? Hvernig er hægt að öðlast þessa dásamlegu vellíðunartilfinningu gagnvart lífinu og tilverunni þrátt fyrir þær sorgir og erfiðleika sem á okkur dynja, öllum sem einu, í misjöfnum mæli þó.

Dr. Bemie Siegel segir: ,,Hugmyndin er að gleðjast og elska vegna þess að það er svo gott, en ekki vegna þess að það mun hjálpa okkur að lifa endalaust. Kærleikurinn og gleðin eru endirinn í sjálfum sér, ekki upphafið. Fyrir mig þýðir þetta að við þurfum flest oft á tíðum að leita og vinna að þessum tilfinningum í okkur sjálfum fyrst og fremst. Kærleikurinn og gleðin gerir lífið þess virði að lifa því, alveg sama hversu lengi það varir. Þetta eykur einnig möguleikann á að græða líkamann, en það er bónusinn, kremið á kökuna.“

Dr. Siegel hefur safnað saman aðferðum og mótað hugmyndafræði sem í fyrstu var byggð á vinnu Carls og Stephanie Simonton og Elisabethar Kubler-Ross, sem vafalaust margir kannast við. Síðan hafa þessar hugmyndir þróast í eigin farvegi og eru nú orðnar að fullmótaðri hópmeðferð, sem býður upp á öruggt, styðjandi umhverfi og leggur áherslu á valmöguleika, (oft getum við valið hvernig við tökum á málum) það að taka áhættu (sleppa út gömlum tilfinningum, sem hafa verið í fangelsi í mörg ár.) og andlegan og tilfinningalegan þroska einstaklinga. Fólk sem veikist af krabbameini er hvatt til að taka þátt í að græða eigið líf í stað þess að einblína á sjúkdóminn. Það er þó ekki eingöngu krabbameinssjúklingar sem hafa nýtt sér þekkingu dr. Siegel heldur fólk með ýmsa aðra langvinna sjúkdóma og finnst mér í raun allir, ekkert síður heilbrigðir en sjúkir geta nýtt sér þessar hugmyndir og aðferðir til að auka lífsgæði sín.

Áður en ég held áfram ætla ég að segja ykkur örlítil deili á mér og útskýra af hverju ég stend hér í dag og tala um Bemie Siegel. Eins og komið hefur fram er ég  hjúkrunarfræðingur að mennt. Ég starfaði við gjörgæsluhjúkrun í mörg ár en einhvern tímann, ég veit ekki hvenær eða hvers vegna, vaknaði áhugi minn á að kynnast krabbameinssjúklingum. Það var ekki sjúkdómurinn sjálfur sem mig langaði mest til að kynnast betur, heldur fólkinu sem fær hann og reynslu þess.

Um þær mundir var Heimahlynning Krabbameinsfélagsins að fara af stað með sína þjónustu í þeirri mynd sem hún er í dag og vantaði fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa. Þar hófust  fyrir alvöru kynni mín af fólki með sjúkdóminn krabbamein. Heimahlynningin er hjúkrunar- og læknisþjónusta fyrir sjúklinga með krabbamein á háu stigi og kjósa að dvelja í heimahúsi sem lengst. Þetta starf í Heimahlynningunni var harður en góður skóli lífsins. Ég er afar þakklát þeirri röð tilviljana (sem auðvitað eru engar tilviljanir, ég trúi ekki á þær) er færðu mig þangað.

Ég starfa nú við Heimastoð krabbameinslækninga deildar Landspítalans. Starfsemi þessi fór af stað 1. október 1992 og er hjúkrunar- og læknisþjónusta fyrir sjúklinga krabbameinslækningadeildarinnar þ.e.a.s. þá sem eru í heimahúsum. Á þessum tíma-í Heimahlynningunni, lærði ég margt og mikið um reynslu fólks af sjúkdómnum krabbamein og ekki hvað síst um reynslu þess af meðferðarúrræðum af ýmsu tagi allt frá stórum skurðaðgerðum, lyfja- og geislameðferðum til grasaseyða. Ég taldi mig komast að því að margt mætti betur gera varðandi stuðning við krabbameinssjúklinga, þó bæði læknar, hjúkrunarfræðingar og stuðningshópar Krabbameinsfélagsins væru sannarlega að gera marga góða hluti í þeim efnum.

En það er bara eins og með svo margt, það þurfa að vera valkostir og stuðningur í boði þarf að vera margvíslegur og koma úr ýmsum áttum, því þarfirnar eru eins misjafnar og sjúklingarnir eru margir. Í dag sé ég fyrir mér í huganum draumahús, þar sem hægt væri að bjóða upp á allar þær tegundir af stuðningsmeðferð sem vitað er um. Þá gæti fólk gengið þangað inn, valið það rétta fyrir sig og fengið það á tilfinninguna að það væri umvafið eins og ungabarn í vöggu.

Eftir að hafa lesið bækur Dr. Siegels vaknaði forvitnin fyrir alvöru. Gat verið eitthvað þarna sem við hérna gætum haft einhver not af? Í framhaldi af þessum vangaveltum ákvað ég að skrifa dr. Siegel til að athuga hvort hann væri fáanlegur til að kenna mér eitthvað um þessi mál. Svarið sem kom varð til þess að ég fór um manaðarmótin febrúar/mars s.l. til Connecticut til að sitja tvö tveggja daga námskeið á vegum ECaP (Exeptional Cancer Patients). Fyrra námskeiðið hét The Psychology of Illness and The Art of Healing, eða Sálfræði sjúkdóma og listin að lækna. Þar talaði dr. Siegel um hlutverk vonar, kærleika, trúar og ómeðvitaðra skoðana í því að byggja sig upp og læknast.

Hann kennir að mestu leyti með dæmisögum af fólki úr eigin reynslu Hann talaði um og sýndi dæmi um gildi teikninga, auk þess sem hann lét hópinn teikna og ein staklingana reyna að túlka myndir sínar og hvers annars, með leiðsögn. Hann leiðbeindi hópnum með sjónsköpun og slökun. Þátttakendur í þessu  námskeiði voru að miklum hluta sjúklingar en einnig starfsfólk heilbrigðisstétta á leið í námskeið númer tvö. Námskeið númer tvö var fyrsti hlutinn í þjálfun leiðbeinenda, sem hafa áhuga á að læra að leiða hópa eins og ECaP hóparnir eru. Þessi námskeið eru ætluð starfsfólki heilbrigðisstétta fyrst og fremst, þó þarna væru aðrir með aðra  grunnþekkingu eða reynslu. Á þessum tveimur dögum var farið í ótrúlega mikið efni.

1) Það var farið í stjórnun og skipulag á ECaP.
2) Ferilinn frá því sjúklingur sækir um á ECaP og þar til hann byrjar í sínum hópi er kynntur.
3) Starf hópanna, markmið
4) Hugmyndafræði.
5) Fræðsla um alnæmi.
6) Hvernig best er að markaðssetja þjónustu eins og þessa.
7) Hvernig útbúa á aðstöðu á sem bestan hátt
8) Uppástungur um hvernig best er að örva umræður í hópunum.
9) Lækningamáttur hópvinnu.
10) Notkun hugleiðslu.
11) Skilaboð frá undirmeðvitundinni í gegnum teikningar. Túlkun teikninga.
12) Draumar.
13) Notkun tónlistar og söngs.
14) Dauðann og hvernig tekist er á við þessa eðlilegu en erfiðu staðreynd lífsins í anda ECaP.
Félag krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra og Krabbameinsfélag Reykjavíkur styrktu mig til fararinnar. Florence Nightingale sú merka og framsýna kona skrifaði í einhverju riti sínu eftirfarandi: „Náttúran ein læknar og það sem hjúkrunarfræðingurinn þarf að gera, er að hjálpa sjúklingum að komast í besta mögulega ástandið, svo náttúran geti tekið til starfa.“ Þetta getur verið ein útskýringin á hugmyndafræði dr. Siegel.

Dr. Bemie Siegel er barnaskurðlæknir og almennur skurðlæknir að mennt. Hann vann mikið með krabbameinssjúklinga í sínu starfi og uppgötvaði þá smám saman mikilvægi samskipta líkama og sálar og að þessir sjúklingar gætu haft talsverð áhrif á sína andlegu og líkamlegu líðan með hugarfari sínu. Þetta varð til þess að árið 1978 stofnaði hann hóp krabbameinssjúklinga sem hann nefndi Exeptional Cancer Patients. Á Íslensku hefur þetta verið þýtt „Einstakir Krabbameinssjúklingar“. Margir hnjóta um þessa nafngift og spyrja: ,,Af hverju eru þessir krabbameinssjúklingar einstakari en aðrir?“

Ástæðan er sú, að upphaflega bauð dr. Siegel til sín 100 krabbameinssjúklingum, til þess að koma og vinna með tilfinningar. Það komu 12 sem voru tilbúnir til að vera „einstakir“ á þennan hátt og taka við stjórninni á eigin lífi í þeim tilgangi að græða það líkamlega, tilfinningalega, andlega og trúarlega. Í mínum huga þýðir þetta ekki að eitthvað af hinum 88 hafi ekki verið tilbúnir í einhvers konar vinnu með sig. Við erum öll einstök og finnum okkur mismunandi aðferðir. Eitt hentar mér, sem alls ekki hentar þér og sumir eru ekki tilbúnir til að fara í neina sérstaka vinnu með sig eða þurfa ekki á því að halda.

Markmið hópvinnunnar er m.a. að veita öruggt, verndað og kærleiksríkt umhverfi með sem minnstri skipulagningu. Umræðuefnin í hópnum eru ekki endilega ákveðin fyrirfram, (ekki markviss fræðsla) heldur stýrast þau af þörfum hópsins hverju sinni. Hópmeðlimir skiptast á upplýsingum og öllum leyfist að tjá sig eftir þörfum og undir handleiðslu. Þarna er samankomið fólk, sem allt á það sameiginlegt að hafa sjúkdóminn krabbamein. Enginn sem ekki hefur þennan sjúkdóm eða hefur einhvem tíman haft hann getur sagt krabbameinssjúklingnum hvemig honum líður. Allt er þetta fólk einstakt og hvert um sig upplifir það sjúkdóminn og það sem honum fylgir á sinn einstaka hátt. Það finnur oft sínar lausnir á vandamálunum og aðferðir til að lifa af. Sumar af þessum lausnum gætu hentað einhverjum öðrum sem t.d. er kominn styttra í sjúkdómsferlinu og þar með flýtt fyrir og létt honum leitina að eigin lausn.

Eftirfarandi er einfalt dæmi um þetta frá minni eigin reynslu. Anna er þrítug stúlka með krabbamein. Geislameðferð var næsta skrefið í meðhöndlun sjúkdómsins. Hún hafði ekki þurft á þessari tegund meðferðar að halda áður og þekkti hana ekki af öðru en því að frændi hennar hafði fengið svipaða meðferð og dáið stuttu síðar. Læknirinn hennar skýrði að sjálfsögðu út fyrir henni hvernig þetta færi fram, en það nægði ekki. Óttinn varð til þess að strax daginn eftir að hún fékk fréttirnar um væntanlega meðferð jukust sjúkdómseinkenni hennar verulega. Verkir versnuðu, ógleðin tók sig upp aftur og andleg líðan versnaði til muna.

Þegar ég spurði hana út í þessa skyndilegu breytingu þá tjáði hún mjög skýrt hræðsluna við geislana, við hið óþekkta, við eitthvað sem hún var búin að gera sér í hugarlund að væri stórhættulegt, hlyti að vera sárt og eyðileggja líkamann. Geislar, geislavirkni utan úr geimnum, allt tengdist þetta í hugskotinu, óx og varð ógurlegt. Ef þessi unga stúlka hefði á þessum tíma haft stuðning á borð við hóp „einstakra krabbameinssjúklinga“, þá hefðu vafalaust einhverjir úr hópnum getað miðlað henni af eigin reynslu af meðferðinni á jákvæðan hátt og veitt henni þann stuðning sem hana svo sárlega vantað þarna. Það eru miklar líkur til þess að hennar líkamlega og andlega líðan hefði færst í betra horf og hún komið í geislameðferðina betur undirbúin á sál og líkama.

Þetta er aðeins eitt lítið dæmi um, hvað reynsla annarra getur haft jákvæð áhrif á viðhorf og andlega líðan. Ef hún hefði t.d. þá haft tækifæri til að hitta konu, sem er sjúklingur minn núna og kallar geislana aldrei annað en ljós, þá hefðu hlutirnir e.t.v. horft öðruvísi við. Þessi kona fellur undir skilgreininguna á fallega fólkinu hennar Elisabetar Kubler-Ross sem ég sagði ykkur frá í upphafi. Hún hefur svo mikið að gefa öðrum með æðruleysi sínu og hugrekki þrátt fyrir sína eigin baráttu við erfiðan sjúkdóm.

Krabbameinssjúklingar eru nefnilega að sjálf sögðu alveg eins og velflestir aðrir, ekki bara þiggjendur, heldur oft á tíðum miklir gefendur. Sumir læknast, aðrir fá löng hlé á sínum sjúkdómi, þá geta þeir oft gefið mikið af sér og veitt öðrum ómetanlegan stuðning og uppörvun. Það að geta gefið öðrum er græðandi og uppbyggjandi í sjálfu sér. Það gefur lífinu tilgang á tímum þegar sumum finnst þeir ekki til nokkurs gagns, vegna þess að sjúkdómurinn hefur sett lífið úr skorðum um lengri eða skemmri tíma, eins og margir hér kannast sjálfsagt við.

Mjög algengt er að fólki finnist það einangrast og vera einmanna eftir að það greinist með sjúkdóminn krabbamein, burtséð frá fjölda aðstandenda og vina í kring. Það getur verið gott að finna í hópvinnunni að maður er ekki einn á báti hvað það varðar, né með ýmsar aðrar tilfinningar sem erfitt er fyrir aðra að skilja hversu vel sem þeir vilja og reyna. Í kærleiksríkri hópvinnu er t.d. hægt að vinna með vonina. Ekki með eitthvað lokatakmark í huga, eins og það að lifa endalaust, heldur t.d. vonina um það að geta lært að lifa lífinu og græða það, burtséð frá því hvort sjúkdómurinn er til staðar eða ekki. Þessar vonir og jákvæðni eru leiðir til að minnka og eða eyða kvöl og angist. Vonin felst í því besta mögulega. Hafi fólk vonina, þá afrekar það oft meira. Vonin getur aldrei verið slæm þó hún sé e.t.v. óraunsæ, segir Dr. Siegel.

Í þessari vinnu er forðast að gefa ráð, því það er talin helst til yfirþyrmandi aðferð, heldur er því treyst að í hverri persónu sé æðri vitund, sem vísar henni veginn, þannig að sérhver manneskja velji þá leið eða aðferð sem hentar henni best á þeim tíma. Hópar þessir verða oft eins og kærleiksrík fjölskylda og koma stundum að einhverju leyti í stað fjölskyldu, fyrir þá sem enga eða litla eiga. Þó er eirru stór og mikilvægur munur á hópnum og hinni raunverulegu fjölskyldu. Hann er sá, að í hópnum er einstaklingurinn laus við þau höft, sem eru til staðar í fjölskyldum og koma oft í veg fyrir að hann geti verið hann sjálfur. Eins og við vitum er það oftar en ekki að í fjölskyldum hafa einstaklingarnir ákveðin hlutverk og tjáskiptaform er oft mjög fastmótað. Því getur reynst erfitt að breyta, þó aðstæður breytist og þörfin fyrir annars konar samskiptamynstur aukist. Hins vegar hefur það sýnt sig að með vinnu í hópunum hefur einstaklingum t.d. tekist að vinna það vel með sjálfa sig  oft á tíðum að það hefur virkað inn í heilu fjölskyldumar og gert þær færari um að bæta sam skipti og vinna með vandamál og leysa þau.

Í hópunum er unnið með tilfinningar og reynt að skilgreina þær. Þar gefst tækifæri til að fá útrás fyrir þær undir eftirliti. Sá sem stýrir hópnum er á ensku kallaður „facilitator.“ Orðið ,,To facilitate“ þýðir að gera e-ð auðvelt eða mögulegt. ,,Facilitator“ er því leiðbeinandi. Leiðbeinandinn gerir meðlimum hópsins það kleift að tjá tilfinningar sínar, ef þeir vilja, hvort sem um er  að ræða gleði eða sorg. Sorgin og reiðin eru erfiðar tilfinningar Það reynist fólki oft mjög erfitt að tjá þessar tilfinningar og eins fyrir hópinn að upplifa þær, þegar þær brjótast út. Ef hópurinn getur tekið tilfinningunum eins og þær eru og leyft þeim aðila sem ber þær að koma þeim frá sér á sinn hátt, án þess að trufla eða reyna meðvitað eða ómeðvitað að stöðva þær, þá getur þetta orðið mikil losun og mikil hjálp. Tilhneigingin er hins vegar oft sú hjá fólki að reyna að stöðva sterka tilfinningaútrás og fara að hugga vegna þess að það tekur einfaldlega of mikið á að horfa uppá slíka útrás.

En raunin er sú að hin minnsta truflun getur stöðvað þetta mikilvæga tilfinningaflæði, t.d. bara það að einhver hreyfi sig, gangi út eða bara rétti fram „tissue“, getur valdið því að sá sem er í sterkri tilfinningaupplifun fari að nota heilann í sér og hugsa „nei þetta get ég ekki leyft mér hér“ og þá er allt búið, augnablikið liðið hjá og tilfinningarnar eru rétt einu sinni komnar inn aftur á bak við lás og slá, þar sem þær halda áfram að valda, hver veit hve mikilli, vanlíðan og skaða. Það má líkja þessari vinnu við það að reyta arfann úr blómabeðinu til þess að blómið geti vaxið og þroskast á eðlilegan hátt. A sama fundinum getur verið upplifun bæði gleði og sorgar, þar sem hvort tveggja er tengt gróanda lífsins.

Hópmeðlimir eru hvattir til að taka áhættur með það að skoða sitt eigið líf og gera á því viðeigandi breytingar ef þeir eru tilbúnir. Það er í besta lagi að segja nei og gera það ekki ef þeir ákveða að gera engar breytingar. Þá er oft erfitt að halda hlutverki leiðbeinandans til streitu og reyna ekki að grípa inn í ákvörðun einstaklingsins, þó augljóst virðist að ákveðnar breytingar bæti ákveðið ástand sem er í ólestri og veldur e.t.v. óþarfa vanlíðan. En reglan er ófrávíkjanlega sú á ECaP að einstaklingurinn ákveður sjálfur hvað hann vill vinna með, á hvaða hraða og það er að fullu virt. Stundum eru lagðar fram spurningar til að hvetja umræður í hópnum.

Hvernig líður mér núna á þessari stundu?
Hvernig var vikan síðan við hittumst síðast?
Hvers vegna er ég hér?
Hvers vegna er ég raunverulega hér?

Svörin geta verið mjög ólík. Ég er hér t.d. af því ég var beðin um það. Ég fór að hugsa af hverju er ég raunverulega hér og þá kom annað svar. Ég er raunverulega hér af því að mín þörf er mikil fyrir að koma því sem ég er að segja ykkur frá mér til ykkar og mín von er sú, að ef þessar aðferðir eru eitthvað, sem við hér getum nýtt okkur til stuðnings krabbameinssjúklingum á Íslandi, þá sé þetta innlegg frjókorn, sem fyrr en síðar lendir í góðum jarðvegi og fái þar tækifæri til að vaxa og þróast í það sem hentar okkur best hér á Íslandi. Og þá hafið þið það. Það er oft fróðlegt að spyrja sjálfan sig þessara spurninga.

Hvernig finn ég vonina í vonleysinu og óörygginu?
Hvernig er ég sérstök?
Hvað get ég gert þegar ég verð hrædd?
Hver er munurinn á því að verða heill/gróa og því að læknast? Verðum við einhvern tímann heil?

ECaP býður upp á einstakt líkan hópmeðferðar, sem byggist á því að kærleikur án skilyrða græðir. Það býður upp á stuðning við fólk með krabbamein eða aðra langvinna sjúkdóma sem kjósa að vera einstakir með því að taka við stjórninni á því að græða sitt eigið líf, líkamlega andlega og trúarlega. Aðalmarkmið félagsskaparins „Einstakir krabbameinssjúklingar“ er að bjóða upp á öruggt umhverfi, þar sem einstaklingar og starfsfólk heilbrigðisstétta geta lært að:

• það að vera sáttur við sjálfan sig og kærleikur án skilyrða eru árangursríkir eiginleikar;
• hugurinn og andinn innihalda ótæmandi möguleika;
• eðli líkamans er að græða sjálfan sig;
• vonin er alltaf til staðar;
• kraftaverk gerast;
• sérkennum hvers einstaklings á að fagna.
• að móta þessar hugmyndir, sem félag.
• að finna tæki og aðferðir til að græða og
• að taka þátt í vakningu alheimsins um græðandi meðvitund.

Hugmyndafræðin:  Lífinu á að fagna.
Við þurfum að geta skynjað hinn dásamlega lífsneista í okkur sjálfum og öðrum. Við getum fundið leiðina að því að auka þennan neista í okkur og öðrum. Við viðurkennum að við sjálf og allir aðrir eru á hverri stundu að gera sitt besta. Ferðalagið til betra lífs er einstakt fyrir hvern og einn. Það er persónulegt og getur aldrei orðið alhæft. Ö11 tjáum við okkar neista á okkar persónulega hátt. Við þurfum að þekkja og viðurkenna tjáningu hverrar manneskju á þessum neista Heilbrigði er stöðugt, lifandi og hreyfanlegt ferli. Lausn frá líkamlegum sjúkdómi er markmið í sjálfu sér, en aðalmarkmiðið er að losna við fyrirstöðumar sem koma í veg fyrir að við getum tjáð og notið heilbrigði okkar á öllum sviðum: líkamlegum tilfinningalegum andlegum og trúarlegum Þessi vinna snýst um ferilinn – ferðalagið. Við viljum setja ferilinn af stað og haldast áhugasöm í honum.

Þessi vinna snýst um það að við erum öll á ferðalagi, hvort sem við erum veik eða ekki. Við viðurkennum og styðjum það sem er rétt fyrir hverja og eina manneskju. Hvað hún lifir fyrir, frekar en hvað hún er hrædd við (jákvætt frekar en neikvætt). Við viðurkennum að við erum öll kennarar og nemendur. Við erum opin fyrir okkar eigin visku og visku skjólstæðinga okkar um leið og hún kennir okkur. Kærleikurinn græðir. Við erum hér til að læra og vinna, (eins og við öll hér í dag) til að safna reynslu; til þess að nýta hana svo í okkar eigin umhverfi. Kærleikurinn er trúin á heilagleika allra hluta, samhygð fyrir okkur sjálfum og fyrirgefning á þeim hlutum í okkur sem við erum að læra. Kærleikurinn er það sem mýkir okkur og opnar fyrir víðtækari reynslu og það að brjótast undan því að vera auðveldlega tilbúin til að nota dómhörku.

17. ágúst 2009 Þar sem þessi fyrirlestur var fluttur fyrir 16 árum síðan skrifaði ég Hrund Helgadóttur og spurði hana hvort hún teldi ræðuna eiga erindi á heimasíðuna. Svarið var eftirfarandi. Hugmyndir Bernie Siegel eiga enn við og persónulega skil ég þær betur eftir því sem tíminn líður, enda hafa vísindalegum og vönduðum rannsóknum í mætti hugans til að hafa áhrif á líkamann og umhverfið fleygt fram. Hann hefur haldið áfram að þróa starf sitt og skrifa. http://www.berniesiegelmd.com/. Ég held því að rétt sé að varðveita greinina frá því fyrir 16 árum og vísa í bækur hans og skrif síðan auk heimasíðunnar.

Tvær bækur Bernie Siegle hafa verið þýddar á íslensku.

Með góðum kveðjum Hrund Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur.Flokkar:Greinar og viðtöl

%d bloggers like this: