Mataræði í mötuneytum

Lækkun áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma meðal verksmiðjufólks

Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga hefur verið starfræktfrá árinu 1979. Áður en starfsemin hófst voru settar strangar reglur um starfsemina í starfsleyfi varðandi ytra öryggi, mengunarvarnir .o.s.frv. og innra öryggi sem varða aðbúnað starfsmanna fyrirtækisins. Þessum þáttum hefur verið allvel sinnt í gegnum árin en margt mætti þó betur fara. Starfsmenn verksmiðjunnar hafa verið um 180 auk lausráðinna starfsmanna, þar til þrengingar fóru að segja til sín á árinu 1992 og íkjölfarið var starfsmönnum fækkað í l50. Störf í verksmiðjunni eru fjölbreytt

og vinnuaðstæður sömuleiðis.  Frá upphafi hefur verið reglubundið eftirlit með heilsufari starfsmanna. Síðustu 10 arin hefur þetta eftirlit verið í höndum heilsugæslulækna við Heilsugæslustöðina á Akranesi. Aðaltilgangur starfsmannaheilsuverndar í fyrirtæki sem þessu er að fyrirbyggja sjúkdóma, einkum atvinnusjúkdóma með læknisskoðunum, rannsóknum og leiðbeiningum þar að lútandi. Reynt er að tengja kvartanir einstaklinga vinnuaðstæðum og hafa áhrif á það sem miður fer. Einnig er hlutverk læknanna að staðfesta atvinnusjúkdóma ef um það er að ræða og fylgja eftir að veitt sé viðeigandi meðferð. Þá er almennt lækniseftirlit og leiðbeiningar um heilbrigðan lífsstíl stór þáttur af starfinu. Í gegnum tíðina hefur ekki borið á alvarlegum atvinnusjúkdómum sem tengjast þessum vinnustað sérstaklega, heldur fyrst og fremst heilsuvandamálum sem tengjast vinnuaðstæðum í verksmiðjum þar sem unnin er erfið vinna við misjafnar aðstæður s.s. hita, kulda, hávaða o.fl. Heilsuvandamál starfsmanna tengjast einnig lífsstíl dagsins í dag s.s. reykingum, offitu og vinnulagi. Læknarnir hafa reynt að hafa bætandi áhrif á alla þessa þætti.

Þann tíma sem heilsugæslulæknar hafa séð um starfsmannaheilsuverndina hafa fjölmörg vandamál komið til tals, þar á meðal þau sem tengjast þyngd. Starfsmenn neyta einnar heitrar máltíðar á dag auk morgunmats og kaffimeðlætis á vinnustaðnum. Þeir hafa reynt einir sér og í misstórum hópum að ná tökum á þyngdaraukningu sinni og létt sig með ráðgjöf læknanna, en árangur ekki alltaf verið langvirkur. Í kjölfar umræðu um ráð við þessum vanda var ákveðið að breyta mataræði í mötuneyti verksmiðjunnar þannig að starfsmenn ættu reglulega kost á hitaeiningasnauðara fæði. í framhaldi af þessu og til að gera breytinguna markvissari var ákveðið að kanna hvernig ákveðnir áhættuþættir sem tengjast hjartasjúkdómum breyttust á tveggja ára tímabili. Hár blóðþrýstingur, reykingar, háar blóðfitur og offita eru taldar aðalorsakir hjartasjúkdóma. Lögð var áhersla á að skoða einkum breytingar á þyngd og blóðfitu. Byrjað var á að fá til samstarfs Guðrúnu Þóru Hjaltadóttur næringarfræðing, til að kanna samsetningu fæðis sem á boðstólnum var í verksmiðjunni og fylgja eftir breytingunum með því að vera matreiðslumanni til halds og trausts. Auk þess hélt hún þrjá fræðslufundi fyrir starfsfólk og aðstandendur þeirra þar sem mættu 150 manns.

Þann 1. júní 1989 var mataræðinu breytt. Breytingin fólst í að hætt var að hafa nýmjólk á boðstólnum, í stað sny’örs og annars viðbits með mettuðum fitusýrum’ kom jurtasmjörlíki. Reynt var að hafa álegg fituminna og dregið var úr eggja- og rjómanotkun við matseld. Brauðmeti varð trefjaríkara og einnig var breytt kaffimeðlæti. Síðast en ekki síst var boðið uppá salatborð með allfjölbreyttu úrvali grænmetis og ávaxta. Við breytinguna fækkaði hitaeiningum í morgunmat úr 1800 í 700 og í hádegismat úr 1300 í  1000. Almennt féll breytingin í góðan jarðveg enda hafði hún verið kynnt fyrir starfsmönnum og þeir fengið að segja álit sitt á henni. Nokkrar skondnar uppákomur urðu þó er breytingin átti sér stað, því einstaka starfsmenn sem voru ósáttir mættu með smjörið sitt eða nýmjólkina og vildu hafa aðgang að því á staðnum, en smátt og smátt aðlöguðust menn nýjungunum og voru almennt ánægðir að nokkrum vikum liðnum. Alls tóku 155 starfsmenn þátt í rannsókninni frá upphafi til enda.

Erfitt er að meta árangurinn sem fékkst beinlínis af þessum breytingum og þeirri íhlutun sem þeim fylgdi þar sem ekki var stuðst við viðmiðunarhóp. Þyngdarstuðull (kg/ m2) starfsmanna var nánast óbreyttur að lokinni tveggja ára athugun, sem túlka má sem jákvæða niðurstöðu því árin undan var algengt að einstaklingar þyngdust ár frá ári þótt undantekningar væru þar á. Einnig voru nokkrir sem hættu að reykja á tímabilinu og fylgir því gjarnan nokkur þyngdaraukning. Aðrir þættir sem fylgst var með sérstaklega og urðu fyrirferðarmesti hluti rannsóknarinnar var blóðfitan, en ákveðnir hlutar hennar eru taldir vera áhættuþættir fyrir hjartasjúkdóma þ.e.a.s. heildarkólesteról og lágþéttnifituprótín, reyndar eru aðrir hlutar hennar, háþéttnifituprótín, taldir draga úr kransæðasjúkdómum. Háþéttnifituprótín eru talin flytja óæskilega blóðfitu frá æðaveggjum m.a. til lifrar þar sem hún fær annað hlutverk. Lágþéttnifituprótínin aftur á móti, bera blóðfitu að æðaveggjum. Til þess að sem bestur árangur næðist var starfsfólki skipt í hópa eftir gildi kólesteróls í fyrstu mælingum sem gerðar voru áður en mataræði var breytt.

Í hópi A voru 43 einstaklingar, þeir sem höfðu lægst gildi eða minna en 6,0 mmól/1, hópur B 58 einstaklingar með 6-6,9 hópur C 31 einstaklingur með 7-7,9, og í hópi D 23 einstaklingar með meira en 8,0. Reynt var að Wa meiri áhrif til hvatningar á þá einstaklinga sem voru með hærri gildin með því að gefa þeim meiri upplýsingar og veita þeim aðhald. Á tveggja ára tímabilinu lækkaði kólesteról í öllum hópum en tiltölulega meira í þeim sem höfðu hærri gildi. Á myndinni má sjá hvernig dreifing kólesterólgilda hliðrast á rannsóknartímabilinu. Að meðaltali var lækkun i 7,6%, sem samkvæmt erlendum rannsóknum gæti þýtt að dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóma lækkaði um 15% ef lægri gildi haldast áfram. Háþéttnifituprótín hækkuðu í þeim hópum sem þau voru mæld í og var sú hækkun tölfræðilega marktæk. Lágþéttnifituprótínin lækkuðu í hópi D en ekki í hópi C.

Fleiri starfsmenn í þeim hópum sem höfðu hæst kólesterólgildin, höfðu í lok tveggja ára tímabilsins velt því meira fyrir sér hvað þeir lögðu sér til munns samkvæmt niðurstöðum spurningalista sem lagður var fyrir. Þeir sem höfðu lægri gildi í upphafi veltu almennu mataræði ekki eins mikið fyrir sér. Fjöldi fólks borðar aðalmálið dagsins í mötuneyti vinnustaða eða á matsölustöðum. Í könnun Manneldisráðs Íslands, sem gerð var á mataræð Íslendinga árið 1990, kom fram að 22% karla í þéttbýli borða að staðaldri heita máltíð í mötuneyti og að þessar máltíðir eru fituríkari en gengur og gerist með almennan heimilismat. Niðurstöður af þessari rannsókn að mati þeirra sem að rannsókninni stóðu eru eftirfarandi: Hægt er með íhlutun í mataræði á vinnustað að hafa bætandi áhrif svo máli skipti, á áhættuþætti hjartasjúkdóma. Hollusta mataræðis á vinnustöðum og þeim stöðum sem selja máltíðir og skyndibita hefur ekki verið nægur gaumur gefinn. Til þess að ná árangri við að breyta mataræði almennings er nauðsynlegt að efla fræðslu ekki síst meðal þeirra sem framleiða matvæli og matbúa þau.

Heimildir: 1.) Reynir Þorsteinsson ofl. Lækkun áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma meðal verksmiðjufólks. Árangur tveggja ára’íhlutandi heilsuverndar í Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Læknablaðið 1992; 78: 163-9. 2.) Laufey Steingrímsdóttir, Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Stefanía Ægisdóttir  Könnun á mataræði Íslendinga 1990. 2. Mataræði og mannlíf. 1992.



Flokkar:Greinar