Fyrir allmörgum árum uppgötvaðist það að amínósýran „Tryptofan“ verkar róandi á miðtaugakerfið, þannig að séu litlir skammtar af henni teknir nokkru fyrir svefn getur hún í ýmsum tilfellum komið í stað svefnlyfja eða róandi lyfja. Engar hliðarverkanir fylgja þannig notkun tryptofans, enda er það fullkomlega náttúrulegt efni, hluti fullgilds próteins og ómissandi næringarefni. Fyrir nokkrum árum var hægt að fá tryptofan keypt hér í heilsubúðum og einhverjum lyfjabúðum. Ýmsir notfærðu sér þetta og fóru að nota þessa amínósýru við mildu svefnleysi í stað lyfseðilsskyldra svefnlyfja. Búast hefði mátt við því að allir hefðu orðið mjög glaðir við og alveg sérstaklega heilbrigðisyfirvöld, því að eins og vitað er eru flest svefnlyf og róandi lyf ávanabindandi og geta með tíð og tíma orðið mikið vandamál fyrir þá sem eru svo ólánsamir að ánetjast þeim. Svo reyndist þó því miður ekki.
Eftir að búið var að selja tryptofan hér í nokkurn tíma var það skyndilega sett á bannlista við hlið hættulegra eiturefna. Og ekki nóg með það að bannað væri að selja það í heilsubúðum. Læknum, sem sumir hverjir voru einnig farnir að nota það, var gert mjög erfitt um vik ef þeir vildu ávísa á það með lyfseðli. Ekki dugði að skrifa venjulegan lyfseðil og fara með hann í apótek, heldur þurfti að fá sérstakt leyfi hjá Lyfjanefnd til að mega flytja efnið til landsins. Það leyfi lá oft alls ekki á lausu, eftir því sem mér hefur verið tjáð. Ég minnist þess að landsþekkt kona hafði símasamband við mig fyrir nokkrum árum. Hún sagði mér að hún ætti oft erfitt með svefn og hefði verið svo í marga áratugi.
Hún sá í H.h. stutta frásögn eftir undirritaðan, þar sem sagt var frá tryptofan. Þá fékkst efnið hér í verslunum og hún keypti sér eitt glas til að vita hvort það gagnaði sér. Svo að lengri saga sé gerð stutt, þá gerbreytti þetta öllu fyrir hana. Hún fór að sofa eðlilega, en það hafði hún ekki gert síðan hún var ung stúlka að eigin sögn. Þetta gekk svona á meðan hún gat fengið cryptofan, en nú sagði hún að búið væri að banna efnið og hún fengi það hvergi. Hún var grátklökk á meðan hún sagði mér þessa sögu og sagðist nú ekki hafa sofið eðlilegan svefn í langan tíma og vera alveg að gefast upp. Hún spurði mig hvort ég gæti bent sér á eitthvert ráð til að fá tryptofan. Því miður kunni ég ekkert ráð til að töfra það fram, en benti henni á að reyna að tala við Landlækni og vita hvort hann gæti beitt áhrifum sínum henni til aðstoðar. Lengra varð samtal okkar ekki, en síðar frétti ég á skotspónum að hún mundi hafa fengið einhvern til að kaupa efnið erlendis og koma með í handfarangri heim til Íslands. Þetta er ljót saga, en því miður er hún ekkert einsdæmi.
Líkt má m.a.segja um fleiri amínósýrur t.d. DL-fenylalamin, sem ég hef sagt frá hér í blaðinu áður. DL-fenylalamin dregur úr óeðlilegum verkjum með því að hægja á niðurbroti náttúrlegra kvalastillandi efnasambanda, sem myndast í líkamanum og nefnd eru „eldorfin“. Við höfum áður fjallað um þau efni hér í blaðinu og mun ég því ekki ræða þau frekar. Fenylalamin er ekki ávanamyndandi, jafnvel í stórum skömmtum í langan tíma. Það er því miklu æskilegra heldur en verkjalyf, sem oft eru notuð í svona tilfellum. Notkun fenylalamins er ekki leyfð hér á landi en mér er ekki kunnugt um að nein frambærileg rök hafi verið færð fyrir því að banna þessa amínósýru, sem er ein af ómissandi amínósýrunum, eins og tryptofan. Þegar farið er að hugsa um þetta fer tæplega hjá því, að sá grunur hljóti að hvarfla að sum um að eitthvað hljóti að vera athugavert við starfshætti Lyfjanefndar ríkisins.
Þeir ágætu menn sem þar sitja ættu að athuga það að þeir starfa í opinberri nefnd, sem kostuð er afalmannafé, m.ö.o skattfé almennings. Þeir eru því í raun og veru þjónar mín og þín og ber skylda til að hegða sér í samræmi við það. T.d. ber þeim ótvírætt að rökstyðja fullkomlega allar sínar gerðir, hvenær sem þess er krafist. Sumum finnst að í starfsemi Lyfjanefndar birtist stundum annarleg sjónarmið sem þjóni ekki almannaheill, heldur einhverju allt öðru. Vonandi hefur þessi orðrómur ekki við rök að styðjast. Ég treysti mér ekki til að leggja þar orð í belg og hef vísvitandi forðast að kynna mér hverjir sitja í nefndinni svo að persónuleg viðhorf hefðu þar ekki áhrif. Því læt ég lesendum eftir allar vangaveltur um starfshætti Lyfjanefndar ríkisins.
Fólin sýruskortur veldur fósturskaða
Fyrir nokkru opnaði ég útvarpstækið fyrir tilviljun á fréttatíma og hittist þá þannig á að verið var að segja frá viðamikilli rannsókn sem gerð var vestanhafs til að ganga úr skugga um hvort það væri rétt sem haldið hefur verið fram af ýmsum, að koma megi í veg fyrir vansköpum eins og t.d. klofinn hrygg með því að gefa hinni verðandi móður vítamín, sérstaklega fólin sýru um meðgöngutímann. Tilraunin náði til stórs hóps kvenna. Hversu stór hann var náði undirritaður ekki, eða þá að það kom ekki fram í fréttinni. Hópnum var skipt í tvennt og fékk annar helmingur kvennanna vítamín en hinn ekki. Þegar rannsókninni lauk og unnið hafði verið úr gögnum kom mjög athyglisverð niðurstaða i ljós. Nálægt því fjórum sinnum fleiri vanskapningar fæddust af þeim konum sem engin vítamín fengu heldur en af hinum hópnum. Þessi niðurstaða kom reyndar ekki svo mjög á óvart því að aðrar minni kannanir höfðu bent til hins sama en rótgróin vantrú og andstaða meðal þeirra sem miklu ráða í heilbrigðismálum gegn því að mataræði eða næring skipti einhverju máli varðandi sjúkdóma eða heilbrigði hefur þó enn sem komið er hindrað það að handbær þekking væri notuð til gagns og velferðar fyrir óborna einstaklinga.
Nú mun erfitt að lemja höfðinu öllu lengur við steininn og vonandi verður þessi bandaríska rannsókn til þess að draga mjög úr fæðingu barna með klofinn hrygg og fleiri slík alvarleg meðfædd heilsufarsleg vandamál. Læknarnir sem að áðurnefndri rannsókn stóðu, mæla með því að öllum þunguðum konum séu gefin B-vítamín meðan á meðgöngu stendur og þó alveg sérstaklega fólin sýra, auk þess að borða hollan mat. Þeir sem lesið hafa H.h. í nokkur ár að staðaldri minnast þess e.t.v. að sá er þetta ritar skrifaði um þetta sama efni í blaðið fyrir nokkrum árum undir nafninu „Klofinn hryggur og fólin sýra“. Þar var sagt frá írskum rannsóknum sem bentu til hins sama og rannsókn sú sem hér greinir frá. Nú er komin endanleg sönnun þess að það sem sagt var í þeirri grein var rétt.
A-Vítamín læknar psoriasis
Í desember s.l. var í þættinum „Nýjasta tækni og vísindi“, sem Sigurður Richter sér um, sagt frá athyglisverðum lækningum á psoriasis, sem framkvæmdar eru í Júgóslavíu. Læknameðferðin hefur verið notuð með frábærum árangri við fjölda sjúklinga, flesta frá Júgóslavíu, en einnig öðrum löndum. Sýndar voru myndir af mörgum sjúklingum fyrir og eftir meðferð og var næstum ótrúlegt hversu batinn var fljótur að koma. Þeim sem lesið hafa eldri árganga H.h. kemur þetta þó ekki svo mjög á óvart því að „lyfið“ er A-vítamín. Lesendur gamalla ár ganga H.h. minnast þess e.t.v. að við birt um grein um psoriasis og A-vítamín í einhverju af fyrstu blöðunum. Fáir hafa því miður líklega farið eftir þeim leiðbeiningum sem þar voru gefnar og greinin hefur í tímans rás fallið í gleymsku. Munurinn á þeirri grein og þeim upplýsingum sem komu fram í sjónvarpsþættinum var einkum fólginn í því að í greininni var mælt með vítamínið væri tekið inn og var það því hluti fæðunnar en Júgóslavarnir bera það á húðina. Hvort tveggja virðist vera áhrifaríkt og lækna sjúkdóminn. E.t.v. skýrir þetta hvers vegna hákarlalýsi bætir psoriasis. Hákarlalýsi er nefnilega mjög auðugt af A-vítamíni. Það er m.a. ein ástæða þess að ekki er leyft að selja það hérlendis.
Samkvæmt greininni í H.h. forðum daga geta psoriasis sjúklingar að öllum líkindum ekki nýtt sér „beta-karótín“ (forefni fyrir A- vítamín) úr fæðunni og verða því að fá A- vítamín beint i forminu „retínol“, annað hvort úr lýsi eða öðrum A-vítamínríkum mat eða þá með því að taka það sem bætiefnapillur. Júgóslavarnir nota þriðja valkostinn. Þeir bera vítamínið á húðina. E.t.v. er það besta leiðin til að lækna þennan sjúkdóm sem talinn hefur verið ólæknandi, en aðeins hægt að draga úr einkennum með ónæmisbælandi lyfjum. Kannski fer nú loksins að rofa til hjá psoriasissjúklingum sem þjáðst hafa allt of lengi e.t.v. að þarflausu. Farið er að selja A-vítamínríkt krem í Júgóslavíu og sennilega kemur það hingað innan tíðar. Þangað til geta þeir sem vildu prófa hvort vítamínið verkar, keypt sér belgi með A-vítamíni, sprengt þá og blandað saman við einhverja góða matarolíu ásamt dálitlu af E-vítamíni (til að verja A-vítamínið gegn oxun). Þessa blöndu má síðan bera á psoriasis blettina daglega og sjá hvað gerist. Gangi ykkur vel og látið okkur vita um árangur.
B-3 vítamín læknar áfengis fíkn
Eins og ég hef áður sagt frá í þessum rabbgreinum mínum telja nokkrir amerískir vísindamenn að lækna megi áfengisfíkn með notkun stórra skammta B-3 vítamíns. Í danska tímaritinu „Vita Medica“ nr. 32, 1989 er stutt grein um þetta efni eftir næringarfræðinginn Erik Kirchheiner. Hann kemst i einu og öllu að sömu niðurstöðu og sagt var frá hér í blaðinu og færir sömu rök fyrir máli sínu. Hann telur að nota skuli 500 mg af B-3 vítamíni á dag, deilt niður í smáskammta yfir daginn. Þá telur hann að nikótínsýra sé betri en nikótínamid, en þetta er þó ekki fullkomlega staðfest. Þá mælir hann með að nota einnig önnur vítamín úr B-flokknum í minni skömmtum og jafnvel fleiri fæðubótarefni. Hann segir eftir amerískum heimildum að þessi meðferð sé mjög áhrifarík til að lækna áfengissýki. Við hér við blaðið treystum því að þessar upplýsingar séu teknar alvarlega og að þeir sem við áfengisvandamál eiga að stríða, en vilja losna úr þeim nornakatli, prófi að nota vítamínið í nægilega langan tíma til þess að árangur komi í ljós og verði varanlegur. Þið megið gjarna láta okkur vita um hvernig gengur
Flokkar:Úr einu í annað