Úr einu í annað

Hér fara á eftir 6 stuttar greinar, fyrirsagnir eru:

Hættulega góð astmalyf,

,,Þá væru þessi efni a lyfjaskrá“,

Bætiefnabiblían,

Al og Alzheimerssjukdómur,

B-3 vítamín, afengi og fíkniefn,

Þáttur um tannlækningar .

Hættulega góð astmalyf
Grein með þessu nafni var birt fyrir nokkru í Helgarpóstinum. Þar er talað um nokkur nýleg astmalyf af þeirri gerð sem örva svokallaða beta-2-viðtakara í lungunum. 1 greininni eru nefnd tvö þessara lyfja, ,,Ventolme“ og ,,Bricanyl“, en nokkur fleiri lyf með líkar verkanir eru á markaðnum. Þessi lyf eru hraðvirk úðalyf. Erlendar upplýsingar benda til að notkun þeirra geti í vissum tilfellum valdið skyndidauða og er í greininni gefið í skyn að e.t.v. 3-4 Íslendingar kunni að deyja árlega af þeim sökum. Í greininni er fremur en hitt varað við þessum lyfjum, sem þó er sagt að séu að sumu leyti allt að því of góð, því að einkenni sjúkdómsins hverfi, þó að orsökin, þ.e. bólgur í lungnaberkjum minnki ekki. Vitnað er í breskan lækni, Peter Barnes, prófessor við Bromton-sjúkrahúsið í Lundúnum, en hann vill draga úr notkun þessara lyfja en nota fremur úðalyf sem innihalda stera í staðinn. Þeim er þetta ritar sýnist þó að vafasamt sé hvort þar sé ekki að farið úr öskunni í eldinn, a. m. k. ef nauðsynlegt er að nota lyfin að staðaldri. Öllum steralyfjum sem notuð eru langtímum saman fylgja nefnilega mjög alvarlegar aukaverkanir sem ég ætla þó ekki að tíunda hér.

Prófessorinn áðurnefndi mælti með að nota bæði steralyf og astmalyfin umdeildu saman, en þó í minna mæli og taldi að steralyfin læknuðu orsökina þ.e.a.s. bólgurnar í lungnaberkjunum og þá minnkaði þörfin fyrir astmalyfin, sem í sjálfu sér er vafalaust rétt, þó að hitt sé jafn rangt að steralyf lækni orsök sjúkdóma. Það gera þau ekki, heldur breiða yfir hana. Í lyfjahandbókinni Medicinskabet eftir Níels Björndal, lækni og lyfjafræðing, segir að sé ventoline notað með sterum komi fyrir að það valdi bjúgi í lungum. Einnig er vitað að langtímanotkun stera í hvaða formi sem er veikir og jafnvel eyðir þekjufrumum, t.d. húðfrumum. Komi slíkt fyrir astmasjúkling og hann verði af þeim sökum neyddur til að hætta að nota steralyfín, hlýtur hann að vera illa á vegi staddur og miklum mun verr heldur en ef hann hefði aldrei byrjað að nota þau. Steralyfin eru að mínu mati ágæt og oft bráðnauðsynleg að grípa til í neyðartilfellum, en allsendis ónothæf við langvarandi sjúkdóma. E.t.v. geta astmasjúklingar notað „Theofyllin“-lyf, þó að þau séu vissulega ekki hliðarverkanalaus. Svo er nú komið á markaðinn úðalyf með mjög litlar aukaverkanir, sem nefnist ,,Kromoglikat“, og fæst hér á landi undir nafninu ,,Lomudal“. Efnið er í duftformi og er úðað með sérstöku tæki til þess ætluðu. Kromoglikat er talið hindra að ofnæmisvaldar hafi áhrif á þá staði þar sem ofnsemissvaranir koma fram, t.d. lungnaberkjur og draga  þannig verulega bæði úr tíðni astmakasta og einnig hversu þau verða alvarleg. Einnig vil ég benda astmasjúklingum á, að ýmsir telja að með náttúrulegum aðferðum megi oft á tíðum ná umtalsverðum árangri við lækningu astma sem og annarra ofnæmissjúkdóma.

,,Þá væru þessi efni a lyfjaskrá“
Í Morgunblaðinu er fastur þáttur um heilsufarsleg málefni sem nefnist „Heilsa“. Ýmislegt fróðlegt hefur komið í þessum þáttum, en því miður verður að segja eins og er, að gæði þeirra heimilda sem vitnað er í eru stundum umdeilanleg og málflutningur litaður og einhliða. Umsjónarmaður þáttanna virðist oft á tíðum líta á það sem tryggingu fyrir gæðum upplýsinga, ef einhverjir úr hinu fjölmenna starfsliði bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitsins (FDA) hafi sett nafn sitt við þær. Því miður gefa þær heimildir þó þrásinnis ástæðu til að vera á verði. Áðurnefnd stofnun hefur oft á tíðum legið undir ámælum fyrir óeðlileg áhrif fjársterkra lyfjaframleiðenda og þar af leiðandi að annarleg öfl ráði þá stundum ferðinni meira en vísindalegar rannsóknarniðurstöður. Það var þó ekki um þetta sem ég ætlaði að ræða. Í Morgunblaðinu 7. nóv. 1986 var stutt grein um snyrtivörur. 1 greininni er veist að snyrtivöruiðnaðinum og talað um auglýsingaskrum og nýtísku aðferðir til, að ginna auðtrúa fólk til að kaupa alls konar hrukkueyðandi krem og grímur á þeirri forsendu að í þeim séu náttúruleg efni, t.d. vítamín og kollagen, sem hindri að húðin eldist og gefi henni jafnvel æskuljómann á ný. Vitnað er í Heinz Eiermann, forstöðumann þeirrar deildar Matvæla- og lyfjaeftirlitsins sem fæst við rannsóknir snyrtivara. Hann segir: ,,Ef þessi varningur fjarlægði í raun og veru hrukkur og drætti eða orsakaði einhverja breytingu á starfsemi húðarinnar, þá væri hann auðvitað á lyfjaskrá“. Hann segir einnig að reglur eftirlitsins geri ráð fyrir því, að hafi snyrtivörur raunveruleg líffræðileg áhrif, þá teljist þau lyf. Það er þetta sjónarmið sem mér finnst full þörf á að taka til athugunar, vegna þess að íslenska Lyfjaeftirlitið og Hollustuvernd rík. hafa augljóslega tileinkað sér það og hafa starfað eftir því. Þetta sjónarmið gildir ekki síður fyrir annan þann varning sem oft er nefndur hollustuvörur eða náttúrulækningavörur. Þess vegna er yfirleitt ekki spurt að því hvort einhver vara kunni að vera óholl eða skaðleg, þó að það sé stundum látið í veðri vaka, heldur hvort hún geti læknað eitthvað. Leiki grunur á um að hún geti það er hún skilyrðislaust bönnuð eða gerð lyfseðilsskyld. Þess vegna er látið afskiptalaust þó að alls konar óhollusta í formi sælgætis, gosdrykkja og ýmiskonar ruslfæðu sé selt á öðru hverju götuhorni og það jafnvel utan venjulegs verslunartíma.

Ástæðan er sú að engum hefur til hugar komið að hægt sé að bæta eða lækna neitt með því að neyta áðurnefnds varnings. Þó að færa megi að því mörg og sterk rök að margs konar sjúkleika megi rekja til neyslu ruslfæðunnar, er svo að sjá sem heilbrigðisyfirvöld telji sér málið óviðkomandi. Aftur á móti er gengið mjög strangt fram í því að ekki standi á umbúðum náttúrulegra efna, t.d. tejurta, að þær basti eða lækni einhvern sjúkdóm. Sé ekki farið í einu og öllu eftir reglugerðum í þeim efnum eru umræddar vörur tafarlaust gerðar upptækar. Þetta gildir jafnt þó að engar minnstu líkur séu færðar fyrir því að neysla þeirra gæti skaðað nokkurn. Stefnan í framkvæmd er því að leyfa sölu á öllu sem vitað er að er óhollt og heilsuskaðlegt en banna allt sem e.t.v. væru svolitlar líkur á að læknað eða bætt gætu heilsuna. Mjög athyglisverð heilbrigðisstefna eða hvað ? Allt sem er hollt og líkamanum nauðsynlegt hlýtur samkvæmt þessari kenningu að vera lyf. Samkvæmt kenningunni hafa engin önnur efni en lyf lífefnafræðilegar verkanir, eftir því sem áðurnefndur Heinz Eiermann segir i greininni í Morgunblaðinu. Því á aðeins að selja slíkar vörur í lyfjabúðum eftir framvísun lyfseðils og gera þannig  öll náttúruefni, sem kynnu að hafa í sér fólgna þessa eiginleika, samstundis lyfseðilsskyld. Hvar framkvæmd slíkra reglugerða gæti endað er hins vegar ekki gott að geta sér til um, eða megum við e.t.v. búast við að þurfa að fá lyfseðil fyrir eggjum, grænmeti, súrmjólk eða öðrum algengum neysluvarningi? Samkvæmt núverandi lyfjalögum hér á landi væri slíkt vel hugsanlegt og þyrfti engu í þeim lögum að breyta til að svo gæti orðið, sbr. 50.gr. lyfjalaganna sem gerir ráð fyrir því að lyfjaeftirlitið geti haft afskipti af öllum vörum og fyrirtækjum ef því býður svo við að horfa. Auðvelt er að sýna fram á ótal lífefnafræðilega ferla sem allar áðurnefndar fæðutegundir tengjast í líkamanum. Að öðru leyti legg ég ekki neinn dóm á það sem sagt er um auglýsingaskrum í umræddri grein í Morgunblaðinu. Vafalaust er mikið til í því og ástæða til að vara fólk við vafasömum auglýsingum og þá ekki aðeins á snyrtivörum, heldur einnig á annarri neysluvöru. Þó vil ég taka fram að ég tel að E-vítamín ætti að vera í öllum olíum og smyrslum, sem notuð eru í sól og ljósböðum. Ekki vegna þess að ég álíti að E-vítamínið geri húðina endilega yngri og hrukkulausari, heldur til að draga úr óheppilegum áhrifum útfjólublás ljóss ásamt súrefni loftsins á húðina, sem veldur ótímabærri öldrun hennar og auknum líkum á húðkrabbameini.

Bætiefnabiblían
Nýlega kom út á íslensku fyrsta alþýðlega handbókin um vítamín og önnur fæðubótarefni undir nafninu „Bætiefnabiblían“. Bókin er eftir bandaríska lyfjafræðinginn Earl L. Mindell og er þýdd af Þórdísi Bachmann. Íslenskan formála skrifar Ólafur Ólafsson, lyfjafræðingur. Skákprent gefur bókina út. Bókin er hafsjór af fróðleik um fæðubótarefni og var sannarlega kominn tími til að fá slíka bók á íslensku. Eftir lestur bókarinnar er ekki svo ýkja margt sem undirritaður getur fundið athugavert við efni hennar og það fáa sem e. t. v. mætti gagnrýna er fremur smávægilegt og rýrir gildi hennar fyrir lesendur ekki alvarlega. Svo eitt slíkt sé nefnt, þá er í bókinni sett jafnaðarmerki á milli mjólkursykurs og mjólkurgerilsin lactobacillus acidophylus (eða L. acidophilus eins og nafnið er stundum skrifað). Annaðhvort er hér um þýðingarskekkju að rasða eða leiðinlegan misskilning bókarhöfundar. Mjólkursykur (laktósi) er næring fyrir mjólkursýrugerla t. d. L. acidoph. og eins og latneska nafnið ber með sér er L. acidoph. gerill eða baktería (bacillus), sem lifir í mjólk og myndar sýru. Þá telur höfundur Bætiefnabiblíunnar að hægt sé að lækna candida sveppasýkingu, sem hann nefnir „monilla“ á nokkrum dögum með acidophylus-gerlum. Því miður er þetta sjaldan svo einfalt, en nokkurra daga acidophyluskúr eftir sýklalyfjanotkun nægir oft til að hindra sveppasýkingu. Einnig eru mataræðisleiðbeiningar við sykursýki og lágum blóðsykri nokkuð á annan veg en flestir sérfræðingar í þeim efnum mæla nú með, svo að annað dæmi sé nefnt, sem orkað getur tvímælis um að sé rétt. Ekki er þó ástæða til að gera of mikið úr svona smámunum ef litið er á fjölmarga kosti bókarinnar. Höfundur er óhræddur að ráðleggja stóra skammta ýmissa bætiefna og segir réttilega að lítil sem engin hætta sé á eitrunareinkennum vegna ofnotkunar á neinum vítamínum nema á A- og D- vítamínum.

Auk þess bendir hann á fjölmörg mikilvæg atriði, t. d. notkun B-6 vítamíns og magnesíums við nýrnasteinum og að séu notaðir mjög stórir skammtar af C-vítamíni, sem hann ráðleggur í vissum tilfellum, þá eigi einnig að nota B-6 og magnesíum til að tryggja að C-vítamínið myndi ekki oxalsýrunýrnarsteina, sem t. d. íslenska lyfjaeftirlitið hefur gert allt of mikið veður út af, í viðleitni sinni til að hæða fólk frá að nota C-vítamín til að hindra kvef og aðrar veirusýkingar. Höfundur varar þó fólk við að skoða ráðleggingar sínar sem læknisráð, sennilega af ótta við að verða kærður, vegna þess að hann er lyfjafræðingur en ekki læknir. Ég ráðlegg öllum læknum, sem kunna að lesa þessar línur, að kaupa bókina og lesa með athygli. Því miður er kennsla í verkunum margs konar bætiefna á mannslíkamann í Læknadeild Háskóla Íslands, langt frá því að vera viðunandi og mega kennarar þeir sem bera ábyrgð á þeirri kennslu vel taka þessi orð mín til sín og um leið reyna að lappa upp á þekkingu sína í þeim efnum, með því að lesa þessa bók og jafnvel nota hana við kennslu í Háskólanum. Ég er ekki alls staðar fullkomlega sáttur við þýðingar á erlendum orðum, en geri mér þó vel ljóst, að þar er oft um smekksatriði að ræða, meðan ekki hefur myndast nægilega traust hefð í notkun slíkra orða og hugtaka. Þó er eitt orð í bókinni, sem ég á mjög erfitt með að fella mig við. Það er nafnið „griphúð“ eða „griphúðað“ yfir orð sem á ensku heitir „chelat“ (framb. kelat) og á norðurlandamálunum „kelat“. Orðið táknar sérstaka efnafræðilega bindingu einhvers málms við amóníósýruhópa, sem raða sér í kringum málmatómið á sérstakan hátt.

Enska orðið chelat þýðir gripkló á humri og hefur verið nefnt „krabbakló“ á íslensku. Vitanlega er það orð ónothæft í samsettum orðum eins og steinefnapillum. Á norðurlandamálunum er þá stundum sagt að efnið sé amínósýrubundið eða efnasambandið nefnt kelat eða amínókelat af málminum. Þannig mætti t. d. segja amínókelat-bundið járn eða amínósýrubundið járn. Reyndar finnst mér vel mega nota orðið kelat í íslensku, ekkert síður en t. d. súlfat eða nítrat, sem hlotið hafa langa hefð og eru hliðstæð orð. Orðið „griphúð“ finnst mér hins vegar minna allof mikið á stórgripahúð eða aðrar húðir af einhverjum skepnum, og að því slepptu gefa til kynna að pillurnar séu húðaðar með einhverju sérstöku efni, sem alls ekki er átt við í bókinni, þegar talað er um „griphúðaðar steinefnapillur“. Því vona ég að þetta orð nái ekki að festa rastur í málinu og að þeir sem síðar eiga eftir að skrifa um þetta hugtak noti frekar orðin „amínósýrubundnar“ eða „kelatbundnar“ steinefnapillur, að minnsta kosti meðan ekki finnst neitt virkilega gott íslenskt orð yfir þessháttar efnasambönd. Nokkrar ritvillur, mismunandi alvarlegar, rakst ég á en ætla ekki að tíunda þær hér. Ég veit ekki hvenær þessi bók er skrifuð en einhvern veginn finnst mér að síðan muni vera liðin 7-8 ár. Sé það rétt hefur höfundur þá verið í allra fremstu röð í þekkingu á því efni sem hann var að skrifa um. Síðan hefur þó ýmislegt gerst í rannsóknum vísindamanna á bætiefnum og því vantar í bókina upplýsingar um allra nýjustu rannsóknarniðurstöður t. d. um mikilvægi fjölómettaðrar fitu (lýsi og kvöldvorrósarolía), en þær rannsóknir fóru ekki að skila umtalsverður árangri fyrr en eftir 1980. Einnig vantar upplýsingar um nokkur snefilefni sem lítið komu fram í sviðsljósið fyrr en nú á allra síðustu árum. Þrátt fyrir það er bókin alls ekki orðin úrelt, sé litið á heildina og aldrei verður skrifuð sú bók um þetta efni, sem ekki úreldist á einhverju sviði innan fárra ára. Ég tel því að mikill fengur sé í þessari bók og þakka þýðanda vel unnið starf og útgefanda framtakssemina. Alla sem áhuga hafa á notkun bætiefni sem leið til bættrar heilsu, hvet ég til að kaupa bókina, lesa og nota sem handbók.

Al og Alzheimerssjukdómur
Áður hef ég vikið að því að mikið hafi verið skrifað erlendis á undanförnum árum um hugsanlegt samhengi milli efnasambanda sem innihalda ál í fæðu og hins mikið umtalaða Alzheimerssjúkdóms. Engin örugg lækning er til á þessum sjúkdómi, þó að einhverjir hafi bent á að mikið af vítamíninu kólin kunni að geta dregið úr verstu einkennunum og jafnvel hindrað áframhaldandi þróun hans. Kólin finnst í miklum mæli í lesitíni. Því hefur fólki með fyrstu einkenni sjúkdómsins verið ráðlagt að borða mikið af lesitíni. Það var þó ekki um lesitín sem ég ætlaði að ræða hér, heldur að stöðugt er að bætast við þær grunsemdir að ál í fæðu sé að minnsta kosti  áhættuþáttur í sambandi við Alzheimerssjúkdóm og jafnvel í sumum tilfellum ein aðalorsökin, þó að líklegt sé að fleiri samverkandi ástæður þurfi einnig að koma til. Dýratilraunir sýna að með stórum skömmtum af áli í fóðri má sýkja tilraunadýr af sjúkdómi sem ber flest einkenni Alzheimerssjúkdóms. Fólk sem þarf að nota nýrnavél að staðaldri fær oft Alzheimerssjúkdóm eða einkenni sem líkjast honum mjög, jafnvel á unga aldri. Uppgötvað var að væri vatnið sem rennur gegnum nýrnavélina og tekur til sín úrgangsefni úr blóðinu algjörlega laust við ál, gerðist þetta ekki, en því fyrr sem álinnihald vatnsins var hærra. Verulega meira ál finnst í heila fólks sem deyr úr Alzheimerssjúkdómi en úr öðrum sjúkdómum. Þetta hefur lengi verið vitað en deilt um hvort þar væri um orsök eða afleiðingu að ræða. Tíðni Alzheimerssjúkdóms hefur aukist uggvænlega í þróuðum löndum á undanförnum áratugum og einnig er hann nú farinn að herja á yngra fólk. A sama tíma hefur notkun á áli í matarumbúðir, eldunaráhöld og lyf margfaldast.

Einnig er nú talið að súrnun jarðvegs, vegna rangrar notkunar á tilbúnum áburði og súrrar úrkomu frá brennslu eldsneytis, sem gefur frá sér brennisteinssambönd, valdi því að mun meira ál sé nú í ýmsum algengum matvælum, en var fyrir nokkrum áratugum. Allt þetta ber að sama brunni; leiða má sterk rök að því að álneysla sé nú verulega meiri en áður var. En veldur álneysla þá Alzheimerssjúkdómi? Þeirri spurningu getur sennilega enginn svarað með fullkominni vissu nú á þessari stundu. Líkurnar á því eru þó stöðugt vaxandi, en sennilega verður að bíða ennþá í nokkra áratugi áður en endanleg sönnun liggur fyrir. Í því sambandi má benda á það að fjölmargir áratugir liðu áður en endanlega var talið  sannað  orsakasamband milli lungnakrabba og reykinga, enda þótt yfir gnæfandi líkur væri búið að færa fyrir því löngu fyrr.

Ég legg á það áherslu að ég tel samband áls og Alzheimerssjúkdóms ennþá alls ekki fullsannað, þó að líkur séu stöðugt vaxandi. Vegna þess hversu Alzheimerssjúkdómur er alvarlegur er þó full ástaeða til að vera á verði og taka enga óþarfa áhættu. Ég ráðlegg því fólki að sjóða ekki rabarbara eða annan súran mat í álpottum, því að sýran leysir úr þeim ál, sem síðan fer út í matinn. Einnig ætti að sniðganga gosdrykki og öl í áldósum og reyndar allan mat í álumbúðum. Drekkið te í hófi, því að te inniheldur meira ál en flest önnur matvæli. Skortur á vítamínum og steinefnum er talinn auka líkur á því að ál safnist fyrir í líkamanum.  Notið alls ekki sýrubindandi lyf sem innihalda ál, t. d. aluminwm oxíd, aluminwm hydroxíd og ýmsar mixtúrur og blöndur sem innihalda ál í einu eða öðru formi. Þeir sem nota þannig lyf fá í sig meira ál á nokkrum dögum en kemur úr pottum og pönnum á mörgum árum. Þó að einhver kunni að segja að álið frásogist illa í meltingarfærunum og gangi ómelt niður af fólki er það ekki rétt nema að vissu marki. Hluti þess fer út í blóðið og veldur óeðlilegu álagi á nýrun, sem reyna að hreinsa það úr blóðinu. Og starfi nýrun ekki nægilega vel, -hvað þá? E. t. v. er þar komin skýringin á því að sumir fá Alzheimerssjúkdóm á miðjum aldri en aðrir ekki. Á markaðnum er fjöldi sýrubindandi lyfja, sem ekki innihalda ál, t. d. kalsíum- og magnsíum silkat, sem hafa miklu betri sýrubindandi eiginleika en alúminíum hydroxíd og eru auk þess góðir kalk- og magnesíumgjafar. Biðjið lækninn ykkar um þau efni ef þið hafíð notað eitthvað af áðurnefndum lyfjum sem innihalda ál. Einnig hafa dólómíttöflur prýðilega sýrubindandi eiginleika, en þær fást án lyfseðils í heilsufæðubúðum. Þær má taka í eins stórum skömmtum og verkast vill, án neinna aukaverkana, en hver og einn verður að fínna hvaða skammtur hentar honum. Athugið að dólomíttöflur á að tyggja en ekki gleypa.

B-3 vítamín, áfengi og fíkniefni
Lengi hefur verið vitað að mikilli áfengisneyslu fylgir oftast nær skortur á B-vítamínum. Í vísindaritinu Journal of Orthomolecular Psychiatry 3. ársfj. 1986 er löng grein sem tekur þau mál fyrir á nokkuð nýjum grundvelli. Þar er grein eftir bandarískan lækni, John P. Cleary að nafni. Hann segir að í heila manna og dýra séu sérstakir viðtakarar sem tengist coenzýminu NAD, sem líkaminn myndar með nikotínsýru, þ.e. B-3 vítamíni. Þessi sömu viðtakarar geta einnig tengst ýmsum efnasamböndum skyldum morfíni, svokölluðum ópíötum. Verði skortur á NAD í heilanum fer fólki að líða illa og með því að bæta úr þeim skorti hverfur vanlíðanin. Sama gerist ef ópíatar eru í blóðinu. Þeir tengjast þá þeim viðtökurum sem ekki eru tengdir NAD. Sýnt hefur verið fram á að við niðurbrot áfengis tengist niðurbrotsefnið acetaldehyd taugaboðefninu dópamíni og myndar efni skylt morfíni. Það efni er nú af ýmsum talið aðalorsök áfengisfíknar. Þannig er enginn grundvallarmunur á áfengisfíkn og morfínfíkn, heldur aðeins stigsmunur. Það merkilegasta í þessari grein er þó það, að nokkrar tilraunir á fólki með áfengis- og morfínfíkn sýndu, að með stórum skömmtum af nikotínssýru má auka magn NAD í blóði og um leið dregur úr löngun fólksins í fíkniefnin og hverfur að mestu. Dr Cleary telur að nálægt því 10% einstaklinga þjáist af skorti af NAD í heila, oft vegna skorts á B-3 vítamíni. Hann telur að þeir einstaklingar þurfi af einhverjum ástæðum að fá meira B-3 í fæðu en annað fólk, að öðrum kosti sé þeim hætt við að leiðast út í ofdrykkju eða fíkniefnaneyslu. Hann mælir með að gefa fólki með áfengis- eða fíkniefnavandamál 500 mg af nikótínsýru eða meira á dag. Einnig er gott að gefa því samtímis minni skammta af blönduðum B-vítamínum. Hann nefnir ekki í greininni hvort nota megi nikótínamid í sama tilgangi, en þeim er þetta ritar finnst það líklegt, en þó ekki alveg ör uggt. Nikotínamid fæst hér á landi án lyf seðils (Við inntöku nikotínsýru myndast oft hiti og útbrot í húð sem ekki skeður við inntöku nikotínamid)

Þáttur um tannlækningar
Síðastliðið sumar opnaði ég útvarpið síðdegis og heyrði hluta af viðtalsþætti við tvo tannlækna. Nafni annars þeirra náði ég ekki en hinn er þekktur tannlæknir sem starfar við Heilbrigðisráðuneytið. Þeir ræddu aðallega um tannskemmdir skólabarna og ráð gegn þeim. Greinilegt var á málflutningi beggja að þeir töldu fyrirbyggjandi aðgerðir gegn tannskemmdum langsamlega mikilvægasta, ef til lengri tíma væri litið og að núverandi ástand þessara mála væri með öllu óviðunnandi. Sá þeirra sem starfar við ráðuneytið gagnrýndi sælgætisát og gosdrykkjaþamb unglinga kröftuglega og taldi það höfuðorsök þessa ófremdarástands, sem líkur benda til að Íslendingar eigi nú heimsmet í. Vissulega er það gleðilegt að það sjónarmið virðist nú einnig ná til þeirra sem líklegt má telja að ráði nokkru um þróun þessara mála í framtíðinni.  Áðurnefndir tannlæknar létu þarna hafa það eftir sér, að bætt mataræði og minnkað sælgætisát væri lykillinn að bættri tannheilsu þjóðarinnar, og að án þeirra grundvallarþátta yrðu aðrar aðgerðir óhjákvæmilega gagnslitlar. Þó er ekki hægt að segja frá þessum viðtalsþætti, án þess að einnig komi fram, að hjá öðrum þessara annars ágætu manna (það var sá sem starfar ekki hjá Heilbrigðisráðuneytinu), sló dálítið út í fyrir undir lokin. Hann var þá að tala um tannburstun og endaði mál sitt með því að ráðleggja börnum að renna niður tannkreminu að burstun lokinni. Vitanlega hafði hann áður tekið fram að ávallt ætti að nota flúor-tannkrem. Þetta sjónarmið hefur áður komið fram hjá einhverjum tannlæknum, en flestir held ég að hafi þó litið á það eins og hvert annað grín eða brandara. Áðurnefndur tannlæknir virtist hins vegar ráðleggja þetta í fúlustu alvöru.

Í tannkremi eru ýmis efni, m.a. slípiefni, sápuefni, bragðefni og gerladrepandi efni, auk þess sem stundum eru í því litarefni og flúor í flúortannkremi. Vel má vera að sum þessara efna séu skaðlaus til neyslu, en hitt er aftur á móti nokkurn veginn öruggt, að ekki er ætlast til þess af framleiðendum, að þeirra sé neytt nema þá í mjög litlum mæli, þ. e. a. s. þess litla magns sem eftir er þegar munnurinn hefur verið skolaður eftir tannburstun. Gerladrepandi efnin gætu t. d. hæglega truflað eðlilega þarmaflóru, ólíklegt er að sápu- eða hreinsiefnin séu holl til neyslu, flest tilbúin litarefni eru varhugaverð og geta m. a. valdið ofnæmi, sé þeirra neytt að staðaldri og svona mætti lengi telja. Ekki má svo gleyma flúornum. Ég gerði tilraun til að reikna út flúor-innihald tannkrems á einum tannbursta. Ég kreisti úr túbu af Colgate flúortannkremi hæfilegt magn til að bursta tennur og reyndist það vega nálægt einu grammi. Samkvæmt efnagreiningu, sem birt hefur verið, er flúormagn þessa tannkrems kringum 0.78%, í formi uppleysanlegra flúorsalta. Á einum tannbursta er því nálægt 7,8 mg flúors, sem er u. þ. b. fjórum sinnum meira en þeir sem annars telja flúor æskilegan fyrir tennur, ráðleggja sem heppilegan dagskammt fyrir stálpaða unglinga og fullorðna. Því er augljóst að þessi skammtur er allt of stór frá hvaða sjónarmiði sem hann er skoðaður og sennilega beinlínis hættulegur fyrir yngri börn.

Langvarandi ofneysla flúors veldur íbesta falli dökkum blettum á tönnum auk ýmissa annarra vandamála sem hér verða ekki rædd. Því miður eru upplýsingar um innihaldsefni tannkrems oft á tíðum af skornum skammti og því er ekki á þessu stigi málsins hægt að fullyrða hvort áðurnefndar tölur um flúorinnihald gilda um flúortannkrem almennt, þó að ekki sé ólíklegt að svo sé. Tannlæknirinn áðurnefndi tók sérstaklega fram að engin hætta væri á flúoreitrun, nema neytt væri í einu að minnsta kosti tveggja fullra tannkremstúba. Innihald áðurnefndrar tannkremstúbu var nálægt 100 gr og samkvæmt því telur tannlæknirinn að óhætt sé fyrir barn að neyta að minnsta kosti hálfs annars gramms af flúor í einu. Ég ætla hér ekki að leggja neinn persónulegan dóm á það, en skjóta málinu til eiturefnanefndar. Þó má benda á, að í Bandaríkjunum urðu fyrir nokkrum árum söguleg málaferli út af dauðsfalli barns eftir flúorskolun hjá tannlækni. Talið var að hluti skolvatnsins hefði runnið niður í barnið og valdið dauða þess nokkrum klst. síðar. (Sjá H. h. l.tbl. 1979). Það flúormagn hefur þó sennilega verið töluvert minna en sú tala sem nefnd var hér á undan og því vona ég fyrir hönd tannlæknisins áðurnefnda að fólk hafi almennt ekki tekið orð hans alvarlega, heldur litið á þau sem brandara og noti tannkrem hér eftir sem hingað til, til að bursta tennurnar, en ekki til matar.



Flokkar:Úr einu í annað, Greinar

%d bloggers like this: