B3 vítamín (nikótínamid) gegn áfengisfíkn verkar

Greinarhöfundur veit um að nokkrir einstaklingar hér á landi sem hafa prófa B3 vítamín gegn áfengissýki, en hefur ekki getað aflað sér vitneskju um árangur, nema í einu tilfelli. Í því tilfelli var um að ræða mann sem drukkið hafði mjög mikið og illa í áratugi. Svo var komið að hann var búinn að fá skorpulifur á svo háu stigi, að læknar tjáðu honum að dauðinn biði hans innan nokkurra vikna, ef hann hætti ekki algjörlega að smakka vín á stundinni. Andlegt ástand hans og fíkn í áfengi var þá komin á það stig, að hann treysti sér ekki til að hætta drykkjunni, jafnvel þó að honum væri gert ljóst að áframhaldandi drykkja jafngilti dauðadómi. Móðir hans hafði verið sagt frá greininni í Journal of Orthomolecular Medicine, sem sagt var frá í síðasta blaði, og ákvað að gera lokatilraun til að reyna að bjarga lífi sonar síns. Hún keypti glas af B3 vítamíni (nikótínamid), ásamt nokkrum fleiri vítamínum, og fór með til sonar síns. Hann féllst á að taka þau og hætti drykkjunni samdægurs.


Þessi maður hafði oft áður hætt drykkju eftir margra vikna fyllirí. Líðan hans var þá yfirleitt mjög bágborin fyrstu vikuna og jafnvel miklu lengur. Hann fékk stundum drykkju-brjálæði (delirium tremens), sá ofsjónir og yfirhöfuð var líðan hans hörmuleg. En nú brá svo við að ekkert af þessum einkennum gerði vart við sig. Fráhvarfseinkenni voru lítil sem engin og ekki vottur af deliríum tremens eða öðrum einkennum sem vön voru að hrjá hann þegar líkt stóð á. Að nokkrum dögum liðnum var hann orðinn eins og nýr maður, að sögn móður hans, og hresstist með degi hverjum og löngun í áfengi virtist að mestu eða öllu horfin. Hann hélt áfram að hressast og vikur og mánuðir liðu. Að sögn móður hans mundi hún ekki eftir honum jafn hressum síðan hann var unglingur. Honum fannst nú að óhætt mundi að slaka á og draga úr töku vítamínanna og fór að trassa að nota þau. Ekki leið á löngu þar til gamla löngunin í áfengið vaknaði á ný og hann drakk sig fullan eitt kvöld.

Morguninn eftir, þegar hann rankaði við sér, fylltist hann ótta yfir að nú væri öll hans viðleitni unnin fyrir gíg. Hann náði í glösin með vítamínunum og tók fullan skammt. Þá var eins og við manninn mælt að löngun hans að halda drykkjunni áfram hvarf og hann drakk ekki meira í það skiptið. Slíkt hafði aldrei áður skeð, ef hann hafði lent á fylliríi eftir að hafa verið ,,þurr“ í langan tíma. Eftir því sem greinarhöfundur veit best, hefur líkt tilvik gerst einu sinni síðan, án þess að alvarleg drykkja yrði úr, en að öðru leyti hefur maðurinn staðið sig vel og er við góða heilsu. Reynsla þessa einstaklings sýnir að nikótínamid (B3) í risaskömmtum dregur mjög úr áfengisfíkn og fráhvarfseinkennum eftir langvarandi ofdrykkju. Einnig hindrar það deliríum tremens fullkomlega. Auk þess sýnir reynsla þessa manns að sé dregið úr vítamíngjöfinni eða henni hætt, sígur fljótlega aftur á ógæfuhliðina.

Magn það af nikótínamid, sem þessi maður notaði fyrstu vikurnar var 750 mg. á dag, tekið nokkrum sinnum yfir daginn. Engra aukaverkana varð vart. Þeir sem áhuga hefðu á að notfæra sér B-3-vítamín gegn áfengisfíkn, ættu ekki að byrja með minni skammt en 500 mg. á dag. Of lítill skammtur er líklegur til að valda vonbrigðum og vantrú á gagnsemi meðferðarinnar. Síðar má gera tilraunir með smærri skammta og fínna þá hvaða lágmarksskammtur dugir fyrir hvern einstakling. Auk nikótínamid er rétt að nota einnig blönduð B-vítamín, C- og E-vítamín, en ekki ætti að þurfa að nota þau í risaskömmtum. Lík meðferð og hér hefur verið lýst hefur verið notuð, með mjög góðum árangri í Ameríku, við sumum afbrigðum geðklofa. Um það ætla ég þó ekki að ræða hér, en hef hug á að gera því efni skil síðar.

Höfundur: Ævar Jóhannesson árið 1987



Flokkar:Greinar

Flokkar/Tögg, , ,

%d bloggers like this: