Mold – kálmaðkur – vítamín

Mold – Heilsurækt! Kannski hlærðu að mér, eins og flestir gerðu – og ég líklega mest sjálfur – fyrstu árin, sem ég var að baksa við að leita hollefna, bera saman upplýsingar, og prófa á sjálfum mér til að fá einhverja rökstudda hugmynd um gildi þeirra fyrir heilsu og starfsþrek, sem var af svo skornum skammti, að frá vitrænum sjónarmiðum skoðað, var það bæði skoplegt og heimskulegt, að það skyldi svo mikið sem hvarfla að mér, að hefja innflutning. Í því var í rauninni engin skynsemisglóra. En stundum þurfum við jafnvel að hundsa skynsemina, og láta annað ráða  ferðinni. Og það var þá ekki úr háum söðli  að detta, þótt tilraunin mistækist.

Mold – .Heilbrigði manns og moldar er  nátengd. Menguð mold – Mengaður  gróður. Heilbrigð mold – lífræn og holl fæða – heilsugjafi, manni og dýri. Jurt – dýr – maður – þrátt fyrir mismun, lúta þessir hlekkir lífkeðjunnar sama næringarlögmáli. Allir þurfa þeir rétta næringu og rétt lífsskilyrði til heilbrigði. Og erum við ekki að brjóta þetta mikilvæga næringarlögmál með því að gervifóðra þann jarðveg, sem á að skila okkur beint, og gegnum nytjadýr okkar, sem heilnæmastri næringu?

Náttúran er okkur oft vitrari. – Ef við vinnum með moldinni, þjónar hún okkur. Ef við vinnum gegn henni, hegnir hún okkur. – Og er hún ekki þegar farin að hegna okkur fyrir gervifóðrun síðustu áratuga? Eða er ekkert orsakasamhengi milli gervifóðrunar jarðvegs og kvillasemi manna og dýra? Þýska firmað ,,EDEN“, er þekkt fyrir hollvöruframleiðslu sína.

Hver einasta vörutegund þess, hefur hlotið „NEUFORM“ gæðamerkið. En EDEN kaupir ekki hráefni af bændum: grænmeti, ber, ávexti, nema þeir hafi ræktað land sitt með lífrænum áburði síðustu 10 ár. Þetta talar skýru máli um álit þeirra á lífrænum og tilbúnum áburði. Hvergi í Evrópu er leyfilegt að nota nafn DEMETER, hinnar fornu gróðurgyðju, á vörur, nerna hráefnið hafi verið ræktað við ,,biodynamiskan“ áburð. (Grísku orðin: bios og dynamis, þýða líf og kraftur.) Hvenær hefjum við tímaritið Frey til þeirrar virðingar, að tengja nafn hans úrvalds ræktun? Mikilvæg  undirstaða  næringarframleiðslu er landbúnaður. Það hvílir því mikil ábyrgð á bændum að framleiða hollar afurðir. En gæði mjólkur, kjöts, eggja og garðávaxta hljóta að vera í samræmi við gæði fóðurs og umhirðu.

En þar sem ræktuð jörð er aðalfóðurgjafinn, ber brýna nauðsyn til að vanda sem best til áburðar. Vestur í Breiðafirði er þörungaverksmiðja í slíkum fjárhagsvandræðum, að rætt var um að leggja hana niður, en fjörðurinn fullur af völdu hráefni til áburðar og fóðurbætisframleiðslu. Reynslan  hefur sannað gildi hvors tveggja. -Á þessu vakti ég athygli í grein sl. vetur. En ekki er mér kunnugt um, að neinn hafi ansað henni. Hvers vegna er lifandi, efnaauðugt hráefni látið liggja ónotað, en föndrað við þá hugmynd að byggja nýja verksmiðju til að framleiða tilbúinn áburð?

Kálmaðkurinn
Kálmaðkurinn sækir í gulrófuna. En tvö síðustu sumur hef ég gert tilraun með áburð úr sjávargróðri, sem bendir til þess, að hann verndi gulrófuna fyrir maðkinum, auk annarra kosta hans. Auk þess mun hann ódýrari en tilbúinn áburður. Fóðurbætir úr sjávargróðri hefur sannað ágæti sitt í betri mjólk – betra kjöti – og betri og meiri ull – betri eggjum – og aukinni heilbrigði. Og gefinn hefur hann verið veðhlaupahestum til þol- og þrekauka. Og pelsdýrum til fegurðarauka. Er ekki full ástæða til alvarlegrar athugunar á þessum sviðum hér? Eitt af mikilvægustu verkefnum Heilsuhringsins er að vinna að umbótum á ræktun og fóðrun. Ofangreindar upplýsingar um  gildi þessa fóðurbætis, eru skv. reynslu og tilraunum bæði vestan hafs og austan. Í næsta hefti mun ég skýra nánar frá heimildum og þeirri  gæðaaukningu afurða, sem í ljós hefur komið við notkun þessa fóðurbætis, jafnframt bættu heilsufari dýranna.

Lecithin
LECITHIN er í hverri frumu líkamans, mest í taugavef, og miklu meiri í heilanum. Það er því tauga- og heilanæring, sem mikilvægt er að fá nægð af, – ekki síst eldra fólki, að talið er. – Það vinnur gegn kólesteróli í blóðinu, og leysir jafnvel upp, að einhverju leyti það, sem þegar hefur sest í æðarnar, – er jákvætt gegn háum blóðþrýstingi – gegn psoriasis – yngir húðina – talið tefja fyrir öldrun, einnig E vítarín. – Þessi atriði sýna, hve lecithin er mikilvægt. – En fleira kemur til, og verður rætt nánar síðar.

Pollen
POLLEN – frjóefni blóma – mjög fjölþætt lífefni. Sænska gerðin: Pollitabs, notað af íþróttamönnum ýmissa þjóða . Eykur hjarta-, lungna- og vöðvaþol, og eflið heilsu og mótstöðuafl t.d. gegn inflúensu. Margir, sem nota það reglulega, fá yfirleitt ekki kvef. – Eykur námsþrek. Það gerir BIO-STRATH einnig. Sár og beinbrot gróa fyrr, sé pollitabs neytt, segir sænskur prófessor í læknisfræði OLov Lindahl. – Api-pollen er veikara, en reynist einnig mjög vel. – Meira um pollen næst, það er þess virði.

,,Rysk rot“ – Rússnesk rót
Mér var fyrir nokkrum árum boðið á heilsusýningu. Og þar kynntist ég ,,rótinni“. Ungur sænskur vísindamaður, með lifandi áhuga fyrir náttúrulegum efnum hefur kynnt sér þau í mörgum löndum. Þeirra meðal er ,,rússneska rótin“, sem vex villt austur í Síberíu, og hefur um langan aldur verið meðal alþýðulyfja austur þar. Fjöldi tilrauna hefur sannað, að ,,rótin“ er ákaflega alhliða, eins og ginseng, pollen og  Biostrath. –

Aukaverkanir eru engar, þótt hún sé notuð um lengri tíma. ,,Rússneska rótin“ hefur m.a. verið prófuð á hlaupurum. Og í ljós hefur komið, að  „rótin“ hefur aukið þol þeirra til muna. Sundþol  tilraunadýra jók  rótin  um 50-60%. – Bílstjórar í næturakstri, reyndust mun öruggari, er þeir fengu  ,,rótina“. – Og menn, sem voru látnir hraðlesa kafla og leiðrétta villur um leið,  leiðréttu miklum mun fleiri villur, er þeir neyttu rótarinnar. Ljóst er því, að hún eykur bæði líkamlegt þrek og skerpir athyglisgáfu – og ÁN neinna aukaverkana. ,,Rótin“ vinnur bæði gegn háum og lág um blóðþrýstingi. Og er jákvæð gegn sykursýki. Hún bætir líðan kvenna á breytingaskeiðinu. – Og í ljós hefur komið, að eftir mánaðarnotkun, skerpir hún heyrn, sérstaklega á lágtóna. – Eftir öllu að dæma, er ,,rússnesk rót“ meðal þeirra fæðubótarefna, sem líkleg eru til að draga úr lyfja- og sjúkrakostnaði. Og síst mun af því veita, slíkur sem hann er.

Höfundur: Marteinn Skeftells árið 1985Flokkar:Umhverfið

%d bloggers like this: