Er til öruggt læknisráð við liðagigt?

Í tímariti Heilsuhringsins árið 1981 var birt greinin: ,,Er til öruggt ráð við liðagigt?“

Í formála greinarinnar segir eftir farandi:

Fyrir tveimur áratugum (1961) kom út í Bandaríkjunum bók sem bar nafnið ,,Liðagigt og heilbrigð skinsemi“. Höfundur bókarinnar var óþekktur ungur maður, Dale Alexander að nafni. Fyrsta upplag bókarinnar seldist upp á nokkrum mánuðum, og sama var að segja um aðra og þriðju útgáfu hennar. Síðan hefur þessi bók verið þýdd á tungur flestra menningarþjóða og víða hefur hún komist í röð metsölubóka. Í Bandaríkjunum einum hefur hún verið endurprentuð yfir 50 sinnum i meira en milljón eintökum og þar með komist í röð söluhæstu bóka sem gefnar hafa verið út.

Bandaríska tímaritið ,,The Health wiew Newsletter“ átti nýlega (árið 1981) viðtal við höfundinn, þar sem hann segir í stuttu máli frá hvað gerir læknisaðferðir hans á liðagigt svo einstæðar og um leið árangursríkar. Viðtalið birtist hér örlítið stytt:

Rakst á gamalt læknisráð sem reyndist vera ,,glataði lykillinn“

Móðir Alexanders hafði þjáðst af liðagigt í fjölda ára án þess að fá neina bót meina sinna. Dale fór nú að leita á eigin spýtur að því læknisráði, sem gæti linað þjáningar hennar og las allar bækur sem hann komst yfir, sem fjölluðu um liðagigt, bæði læknisfræðibækur og bækur um alþýðulækningar. Eftir langa og árangurslausa leit rakst hann að lokum á gamla lækningabók frá árinu 1855 sem reyndist vera ,,glataði lykillinn“ sem leysti vandamálið. Bókin var eftir lækni að nafni L.J. De Jongh, sem hafði notað ráðið í eigin læknisstarfi. Hann hafði eftir langa reynslu fundið, að það gaf betri árangur en nokkuð annað, sem hann hafði prófað. Aðferðin var auk þess fullkomlega hættulaus.

Dale Alexander ákvað því að reyna hana á móður sinni, sem var fús til að gera tilraunina. Í fyrstu gerðist ekkert, en eftir tíu vikur kom fyrsta breytingin i ljós, sem lýsti sér í því að hár hennar, sem verið hafði þunnt og líflaust, hlaut ljóma sinn á ný. Á tólftu viku varð sú breyting að húðin sem verið hafði þurr og skorpin, varð mjúk og slétt.

Að lokum kom sú breyting, sem beðið hafði verið eftir. Liðagigtin fór að skána. Það var á fimmta, mánuði. Bólgan í fingrum og liðum á höndum fór að réna. Kvalirnar fóru að minnka. Síðan fóru hnjáliðirnir að lagast, og að lokum hvarf bakverkurinn. Eftir að fyrstu merkin um bata hófust gengu hlutirnir hratt fyrir sig. Áður en langt um leið gat hún hreyft sig þjáningarlaust og batinn varð varanlegur.

Þorskalýsi gerði kraftaverkið

Þó það kunni að hljóma undarlega þá var það þorskalýsi, hreint og klárt þorskalýsi sem gerði kraftaverkið á móður hans og öðrum, sem fengið hafa fullan bata með aðferð Alexanders.

Hann skýrir það þannig að þorskalýsið bæti smurninguna milli liðflatanna. Ef smurningin er ekki i lagi myndast núningur milli flatanna sem ertir og veldur sársauka, stirðnun og að lokum bólgur, sem gera liðinn meira eða minna ástarfhæfan eða jafnvel ónýtan. Eins og núningsfletir í vélum þarfnast liðirnir stöðugrar smurningar, ef þeir eiga að geta hreyfst eðlilega. Ef þorskalýsi er tekið á réttan hátt berst það með blóðrásinni til liðanna, þar sem liðfletirnir sjúga í sig efni úr því, sem verkar eins og smurning og gera þeim kleyft að starfa eðlilega.

Svona einfalt er þetta, en verkar það í raun og veru?

Alexander fullyrðir að svo sé, og bendir á að á umliðnum árum hafi hann fengið þúsundir bréfa frá þakklátu fólki sem segir honum frá reynslu sinni og hvernig það hlaut fullkomna lækningu með aðferð hans. Hann segir frá, hvernig hann fór frá einu bókasafninu í annað, til að kynna sér allt sem vitað var um liði og liðagigt og fór auk þess á námskeið ætluð læknum.

Einnig starfaði hann á sjúkrahúsum til að kynnast sjúkdóminum sem best. Að lokum var hann orðin eins og lifandi alfræðibók um liði og liðagigt. Í námi sinu lærði hann, að liðirnir geta tekið nærandi olíur í sig beint frá blóðinu og að svæðin næst beinaendunum geta fengið þessa næringu frá liðflötunum með gegnflæði.

Hann lærði einnig að í heilbrigðu fólki er liðvökvinn meira en fimmtán sinnum þykkari en í þeim sem þjást af liðagigt. Einnig komst hann að því að fæðan hefur bein áhrif á gæði liðvökvans. T.d. verður merkjanleg þynning á liðvökvanum 20 mínútur eftir að neytt er máltíðar með miklum sætindum. Einnig las hann um dýratilraunir sem gerðar höfðu verið á árunum milli 1920-30 og virtust staðfesta niðurstöður hans. Að lokum gerði hann svo tilraun á sjálfum sér, þannig að hann fjarlægði alla olíu úr fæði sínu í nokkra mánuði til að sjá hvað gerðist. Eftir fjóra mánuði byrjuðu liðagigtareinkenni að koma i ljós, og á skömmum tíma urðu þau svo alvarleg að hann varð að hætta tilrauninni og taka þorskalýsi til að lækna sjálfan sig, sem tókst á skömmum tíma.

Alexande komst síðar að því, að hinn fægi gigtarlæknir dr. Ralph Pamberton við háskólann i Pennsylvaníu hafði uppgötvað lækningarmátt þorskalýsis árið 1920 og skrifað um það skýrslu (,,Studies on Arthritis in the Amy, Based on Four hundred Cases. Archives of Internal Medicine March 1920, bls. 231-282.“ Endurprentað í ,,The Medical Management og Arthritis“ Dr. R. Pamberton)

Nota verður lýsið á réttan hátt

Til þess að lýsið nýtist sem best verður að neyta þess á réttan hátt og gæta þess að nota ekki um leið aðrar matvörur sem eyðileggja áhrif þess. Bestur árangur fæst með því að taka lýsið á fastandi maga og neyta engrar annarrar fæðu, hvorki í föstu né fljótandi formi að minnsta kosti klukkustund á eftir. Einnig má taka lýsið áður en gengið er til náða, ef þess er gætt að liðnir séu um það bil fjórar stundir frá síðustu máltíð og að minnsta kosti 30 mín. frá því að drykkjar var síðast neytt. Sumum þykir óblandað lýsi slæmt á bragðið. Þeir geta blandað það með ofurlitilli nýmjólk eða safa úr hálfri appelsínu og hrist þetta saman áður en það er drukkið.

Lýsisbelgir eru gagnslausir vegna þess að þeir fara ómeltir fá maganum niður í skeifugörnina og meltast fyrst í smáþörmunum.

Ástæðan fyrir því að nota þarf lýsið á þennan hátt er sá að ef enginn matur eða drykkur er í maganum þegar lýsið fer niður í hann, gefur það meltingarvökvanum færi á að blandast saman við lýsið og við það leysist það í sundur í örsmáa dropa sem komast beint úr maganum út í blóðstrauminn (cisterna chyle) og berast þannig með blóðinu út til liðanna, sem fá þá tækifæri til að taka hluta þeirra upp og notfæra sér eins og áður er lýst. Afgangurinn berst síðan til lifrarinnar, sem umbreytir þeim í önnur efnasambönd, sem líkaminn notfærir sér á ýmsan hátt.

Ef vatn eða annar fitusnauður vökvi er í maganum, þegar lýsið kemur niður í hann, gengur þetta öðruvísi fyrir sig. Lýsið safnast fyrir í stórum afmörkuðum bólum, sem síðan berast niður í skeifugörnina og smáþarmana og meltist þar. Þá fer það út í portæðina, sem ber það beint til lifrarinnar, sem umbreytir því. Aðeins örlítill hluti þess berst beint út í blóðstrauminn og getur komið liðunum að notum. Sama gerist þegar lýsisbelgir eru teknir, þess vegna eru þeir ónothæfir við lækningu á liðagigt, eins og greinir hér að ofan.

Ekki drekka með mat

Í ýmissi fæðu eru olíur, sem geta smurt liðina á líkan hátt og þorskalýsi, þó að það sé best. Til þess að geta notfært sér þær má alls ekki drekka með mat. Drekkið heldur nokkru fyrir máltíð en ekki með matnum. Eini vökvinn sem nota má með mat eru súpur, sem innihalda fitu og nýmjólk. Hvortveggja inniheldur fitu- og olíudropa, sem líkaminn getur notfært sér. Best er að allir drykkir, hafi hitastig sem næst líkamshitanum. Ísvatn og kældir drykkir, jafnvel mjólk, eru afleitir. Þeir valda því að fita í fæðunni storknar og klumpast saman í stað þess að leysast sundur í smáagnir. Súrir drykkir eru einnig slæmir, sérstaklega kaldir og ætti að varast að nota þá með mat, en drekka þá fremur milli máltíða. Þetta gildir einnig um mikið súra ávexti t.d. sítrónur.

Sódavatn og gosdrykkir eru þó allra verstir, og ættu liðagigtarsjúklingar alls ekki að nota slíka drykki, hvaða nafni sem þeir nefnast. Sykur, sæta drykki og sætsúpur á sem minnst að nota, því að reynslan sýnir að sætindi gera liðvökvann of þunnan og eyða hæfileika hans til að smyrja liðina. Aftur á móti eru flestir nýir ávextir ágætir nema þeir séu mjög súrir, t.d. sítrónur. Helst þarf að tyggja slíkan mat sem allra best, þannig að munnvatnið blandist vel saman við. Þetta gildir reyndar um allan mat, en ekki aðeins um ávexti. Einnig er ágætt að nota mikið grænmeti.

Alexander telur ekki æskilegt að drekka tilbúinn ávaxtasafa, heldur vill hann að ávextirnir séu notaðir í heilu lagi því í þá blandist munnvatnið saman við um leið og þeirra er neytt, sem hann telur mjög mikilvægt.

Gefist ekki upp á stundinni þó að batinn komi ekki á stundinni

Þó að sú meðferð sem hér er lýst gagnist flestum, er þó mjög misjafnt, hversu langan tíma tekur að breyting verði. Stundum fer líðanin að batna eftir nokkrar vikur, en þá er algengara að nokkrir mánuðir líði, þar til verulegur bati næst. Ekki er óalgengt að sex til sjö mánuðir, eða jafnvel lengri tími líði. Eftir að batinn á annað borð er hafinn er hann mjög greinilegur. Venjulega byrjar hann í fingrum og liðum í örmum. Því næst í fótum og síðast í baki og hálsliðum, þó getur röðin verið önnur í vissum tilfellum.

Gefist ekki upp, þó að ykkur þyki litið þokast í rétta átt, en haldið ótrauð áfram. Treystið því að árangur náist fyrr eða siðar. Rannsókn í Bandaríkjunum árið I959, sem framkvæmd var af læknunum dr. Charles Bruch og dr. Edward Johnson sýndi, að af 98 sjúklingum hlutu 92 annað hvort fullan eða mjög verulegan bata á 2ja til 20 vikna tíma (National Journal of Medicine, júli 1959).

Ef liðirnir  hafa hlotið óbætanlegt tjón af sjúkdóminum, fæst að vísu ekki fullur bati, en í flestum tilfellum batnar þó líðan sjúklinganna verulega. Haldið því ótrauð áfram þar til sjúkdómurinn lætur unda siga.

Blanda af appelsínusafa og lýsi

Sumum gengur illa að taka lýsi, vegna þess að þeim fellur ekki bragðið. Þeir geta tekið það með ferskum appelsínusafa á eftirfarandi hátt:

1. Takið hálfa appelsínu og pressið úr henni safann í lítið vatnsglas.

2. Bætið út í glasið einni matskeið af hreinu þorskalýsi.

3. Hrærið vel saman í 10-20 sek.

4. Hellið úr glasinu í annað glas og síðan í fyrra glasið og endurtakið þetta u.m.þ.b. 20 sinnum.

5. Drekkið blönduna samstundis. Í stað appelsínusafa má nota nýmjólk ef að óskað er, en alls engan annan vökva. Neytið einskis á eftir í að minnsta kosti 60 mínútur.

Ath. Sumir geta verið ofnæmir fyrir appelsínum. Þeir verða að nota mjólkurblönduna eða lýsið óblandað. Notið undir engum kringumstæðum meiri appelsínsafa en fjórar matskeiðar, heldur minna en of mikið. Geymið lýsið í kæliskápnum svo að það þráni ekki.

Þýtt og endursagt úr The Health-wiew Newsletter nr. 17 af Ævari Jóhannessyni árið 1981.Flokkar:Greinar

Flokkar/Tögg, , , , ,

%d