Drykkjarvatn og langlífi

Skynsamt fólk hugsar meira um fæðuval sitt nú á tímum en áður var, en þó hafa ekki margir ennþá leitt hugann að einum mikilvægasta þætti heilsusamlegrar næringar; hvort sem þið trúið því eða ekki, er það drykkjarvatnið. Með orðinu vatn eigum við ekki aðeins við HzO. Við eigum við það sem við í raun og veru drekkum, sem til viðbótar við frumeindir vetnis og súrefnis inniheldur mismunandi magn ýmissa uppleystra málmsalta, sérstaklega kalks (calcium) og ef við erum heppin, einnig magnesíums.

Fáir gera sér ljóst, að það kalk og  magnesíum og e.t.v. fleiri málmsölt, sem koma með vatninu úr krananum, geta haft afgerandi áhrif á heilsufar þitt, sérstaklega á þetta við um hjartað. Nú þegar eru meira en nógar staðreyndir þekktar til að réttlæta þá fullyrðingu,  að hart vatn (auðugt afmálmsöltum) geti átt sinn þátt í því, hvort þú heldur lífi eða ekki. Höfundur einnar nýlegrar rannsóknar, skrifar eftirfarandi (Lancet, 20. jan., 1973): „Síðustu 10-15 árin hefur verið öfugt samband milli dauðsfalla, sérstaklega úr hjartasjúkdómum, og hörku drykkjarvatns. Þetta hefur fundist við rannsóknir í iðnaðarlöndum. Eftir því sem vatnið var mýkra, voru dauðsföllin fleiri.“

Rannsakendur voru Tortryggnir
Að minnsta kosti einn vísindamaður, dr. Margaret D. Crawford sagði í viðtali (Engineering Digest, april, 1973), að er hún hóf rannsóknina hefði það virst í sínum augum hrein fjarstæða, að harka vatnsins hefði einhver áhrif á heilsuna. Er dr. Crawford og félagar hennar, dr. S.E. Stitt, dr. D.G. Clayton og dr. J.N. Morris, allir úr Lækningarannsóknarráði (Medical Research Council) Bretlands, hófu rannsóknina, var ákveðið að gæta sérstakrar varúðar þegar reynt væri að einangra heilsufræðilegt mikilvægi drykkjarvatns frá öðrum hugsanlegum þáttum sem gætu hafa haft áhrif á tilraunina. Þeir athuguðu sjúkdóma og dauðsföll 289 karlmanna í 12 breskum borgum. Helmingur þeirra var í borgum með hart vatn en hinn helmingurinn með mjúkt. Reynt var að haga þannig til að allar aðrar aðstæður væru sem líkastar með tilliti til loftslags og stærðar borganna, ásamt atvinnu, vinnutíma og frístunda.

Mjög lítill munur reyndist vera þar á, en ef einhver var, þá helst í þá átt að þeir sem drukku mjúka vatnið stunduðu heldur meira erfiðar æfingar. Er litið var yfir dánarskýrslur beggja hópanna yfir 12 ára tímabil, uppgötvaði vinnuhópurinn óvænta hluti. Það mikilvægasta var sennilega það að „dauði úr hjartasjúkdómum var nálægt 50% hærri í borgum með mjög mjúkt vatn, borið saman við borgir með mjög hart vatn.“ Dauðsföll karlmanna í borgum með mjúkt vatn, var á bilinu 720 til 862, meðan samsvarandi dauðsföll í borgum með hart vatn lá á bilinu 499 til 597 af 100.000 karlmönnum.

Takið eftir því að flestu dauðsföllin í borgum með hart vatn voru greinilega neðan við þau fæstu í borgum með mjúkt vatn. Frá vísindalegu sjónarmiði var þessi uppgötvun þó ekki sú mikilvægasta, þar sem aðrir rannsóknarhópar höfðu áður komist að líkum niðurstöðum. Það sem virkilega var athyglisvert, bentu höfundar skýrslunnar á, var að í borgum með mjúkt vatn, þ.e. lægra kalkinnihald, voru  karlmenn með:hraðari púls meira kólesteról í blóðinu hærri blóðþrýsting. Enda þótt þetta segi okkur að hart vatn hafi góð áhrif á hjartað, sem hægt sé að mæla með þeim þrem stöðluðu aðferðum, sem venjulega eru notaðar við ákvörðun á hættu á hjartasjúkdómum, segir þetta okkur þó ekki svo öruggt sé, að það sé kalkið, en ekki einhver önnur steinefni í hörðu vatni, sem varðveiti hjörtu okkar fyrir sjúkdómum.

Meira kalk. – Færri hjartátilfelli
Hálfu ári eftir birtingu áðurnefndrar skýrslu, birti „Lancet“ aðra rannsóknarskýrslu, sem leiðir líkur að því, að það sé fyrst og frernst kalkið í hörðu vatni, sem geri það svo heilsusamlegt. Í júníhefti „Lancet“, 1973, kynnti dr. E. G. Know við Rannsóknarmiðstöð heilbrigðisþjónustu Birminghamháskóla (Health Services Research Centre of the University of Birmingham), niðurstöður rannsókna um samband dánarorsaka og mismunandi næringarþátta. Dr. Knox uppgötvaði að besta einfalda samræmið milli eins þáttar í næringu og einstaks sjúkdóms, fékkst sem öfugt samræmi milli kalkneyslu og kransæðasjúkdóma. Það mundi þýða tölfræðilega, að því meira sem neytt sé af kalki, þess minni líkur séu á að viðkomandi deyi úr hjartasjúkdómum, sem stafa aflokun mikilvægra æða, eins og á sér venjulega stað við hjartaáfall.

Skýrsla dr. Knox sýnir raunverulega, að kalk er annað í röðinni þeirra efna, sem mest áhrif hafa til verndar gegn öllum dánarorsökum. Í fyrsta sæti er C-vítamín, jafnvel þó að kalkið hafi vinninginn með tilliti til hjartasjúkdóma. Hversvegna kalk? Þar koma nokkur svör til greina. 1 fyrsta lagi er kalkið lífsnauðsynlegt til þess að hjartað geti dælt blóðinu á eðlilegan hátt, svo að því meira kalk sem þú færð, þess betur dælir hjartað. Dr. Knox bendir einnig á að svarið gæti legið í þeim þekkta eiginleika kalks, hvort heldur það er í mat eða drykk, að draga stórlega úr upptöku líkamans á blýi. Í annarri grein í „Lancet“ (7. apr. 1973), taka tveir þeirra vísindamanna, sem getið er hér á undan, dr. Grawford og dr. Clayton upp þráðinn og ræða um blý, kalk og hjartasjúkdóma.

Til að byrja með mældu þeir magn blýs í kranavatni í borgum, sem voru ýmist með mjúkt eða hart vatn. Þar reyndist vera lítill munur á. Samt sem áður sýndu sýni sem tekin voru úr rifbeinum fólks, greinilegan mun. Fólk sem bjó í borgum með mjúkt vatn hafði nálægt 50% meira blý í beinum sínum en það fólk sem bjó í borgum með hörðu vatni. „Þetta þýðir“, segja höfundar, „að blýmagn sem getur verið skaðlaust í hörðu vatni, er það ekki endilega í mjúku vatni. Hart vatn er bæði vörn gegn því að vatnið taki í sig blý úr vatnsleiðslupípum og einnig dregur það úr því, að líkaminn taki það til sín ef þess er neytt.“ Þeir komast að þeirri niðurstöðu, að það séu vaxandi líkur á að blý hafi óheppileg áhrif á hjarta og taugar, enda þótt margt sé enn á huldu í því efni.

Magnesíum kemur einnig við sögu
Nýlega skýrðu Barbara Chipperfield og J.R. Chipperfield við Lífefna- og efnafræðideild háskólans í Hull frá því, að þau hefðu fundið að miklu minna magn magnesíums var í hjartavöðva þeirra sem létust skyndilega vegna hjartabilunar, en í hjartavöðva þeirra sem létust af öðrum orsökum (Lancet 11. ágúst 1973). Vísindamennirnir telja að þetta gæti skýrt, hversvegna fleiri dauðsföll úrhjartasjúkdómum eru á svæðum með mjúkt vatn en á öðrum svæðum með harðara vatni. Dr. Eors, sem hefur skrifað og ritstýrt, nokkrum meiriháttar lækningaritum um hjartasjúkdóma, hefur lengi litið þannig á, að magnesíum og kalíum séu lykilefni til varnar gegn hjartasjúkdómum. Af þessum tveimur efnum finnst magnesíum venjulega í hörðu vatni.

Hvernig magnesíum hefur áhrif á hjartað lýsa þessir vísindamenn á eftirfarandi hátt: ,,Hver sem orsökin fyrir lækkun þessa efnis í hjartanu er, þá hefur það sýnt sig, að það hefur úrslitaþýðingu fyrir starfsemi hjartans. Actomyosin adenosin trifosfatas hjartans, sem gefur því samdráttarorkuna, er sett í gang með magnesíumjónum. Skortur á magnesíum hefur einnig verið settur í sambandi við aukna viðkvæmni hjartans, sem leitt getur til hjartsláttaróreglu (arrithmias). Læknismeðferð þar sem magnesíumsölt (steinefnablanda) voru gefin, hefur flýtt fyrir afturbata sjúklinga, sem fengið hafa kransæðastíflu, og aukið líkur á að þeir lifðu áfallið af.“

Ráð til þeirra, sem búa við mjúkt vatn
Sé kranavatnið þitt mjúkt, hvernig má þá herða það? Eða með öðrum orðum, hvernig getur þú fengið það kalk og magnesíum, sem talin eru vera hin læknandi efni harða vatnsins? Allra best og æskilegast ætti að vera að fá þessi efni í sama formi og þau eru í náttúrlegu hörðu vatni, þ.e.a.s. í korbonat formi. En hvar getur þú fengið kolsúrt kalk og kolsúrt magnesíum? Í náttúrlegri steinefnablöndu, sem þekkt er undir nafninu dólómít kalksteinn, oft aðeins nefnt dólómít. Dólómít inniheldur nálægt því tvöfalt meira kalk heldur en magnesíum og er náttúrlegur og öruggur efnagjafi fyrir bæði þessi efni. Dólómít er eini þekkti náttúrlegi steinefnagjafinn, sem í bragðlausum töflum sem auðvelt er að gleypa, getur meira en bætt okkur upp það sem á vantar af þessum efnum í kranavatninu.  Þýtt úr Prevention. Vol. 17/12 1974.

Eftirmáli þýðanda  Æ.J.
Síðan þessi grein er rituð, hafa ýmsar fleiri vísbendingar komið fram, sem renna stoðum undir þær niðurstöður, sem höfundur hennar leggur fyrir lesendur. Lengi hefur t.d. verið vitað, að í Finnlandi er einhver hæsta dánartíðni sem þekkist í heiminum úr kransæðasjúkdómum. Nýlegar rannsóknir,  sem þar hafa verið gerðar, sýna að ástandið í þessum efnum er þó ekki eins í öllu landinu, heldur er breytilegt eftir héruðum. Við athugun kom í ljós, að þau héruð, sem verst urð úti, hvað þessa sjúkdóma varðar, hafa öll berggrunn, sem er snauður af kalki og magnesíum og hljóta því að vera með mjög mjúkt vatn. Í þessum héruðum er dánartíðni úr kransæðasjúkdómum sú hæsta, sem nokkurs staðar hefur verið skráð í heiminum, svo vitað sé. Í öðrum landshlutum er ástandið miklum mun betra. Ekki hafa fundist neinir aðrir heilsufræðilegir þættir sem gætu skýrt þennan mikla mun. Margir þeir sem búa á „hættusvæðunum“ vinna líkamlega erfiðisvinnu og dvelja mikið utandyra við landbúnaðarstörf og skógarhögg og ættu því samkvæmt almennum skilningi að lifa heilsusamlegu lífi. Það dugir þó ekki til, því  eins  og áður segir er dánartala karlmanna á þessum svæðum, hærri úr hjartasjúkdómum en annarsstaðar þekkist, jafnvel í menguðum stórborgum.

Íslendingar mættu vel draga af þessu nokkurn lærdóm, því að hér á landi er víðast hvar mjög mjúkt vatn. Sennilega væri full ástæða fyrir okkur að taka að staðaldri dólómit eða aðra góða kalk og magnesíumgjafa. Skyr og ostur eru góðir kalkgjafar en innihalda lítið magnesíum, sem e.t.v. mætti fá úr grænmeti. Beinamjöl inniheldur bæði kalk og magnesíum ásamt fleiri steinefnum, en þó er sennilega heldur lítið í því af magnesíum miðað við kalk. Að öðru leiti er það frábær steinefnagjafi.

Til að nýta kalk úr steinefnagjöfum og fæðunni yfirleitt, er nauðsynlegt að fá gnægð D-vítamíns, sem best er að fá úr lýsi. Ein matskeið á dag er hæfilegt. Kalkskortur er talinn valda ótalmörgum sjúkdómum og kvillum, m.a. kölkun í liðum og æðakerfi (þótt undarlegt sé), nýrna og blöðrusteinum, tannskemmdum og jafnvel hefur verið talað um að kalkskortur gæti verið meðverkandi orsök í heila og mænusiggi. Enginn ætti að þurfa að líða af kalk- eða magnesíumskorti ef hann aðeins gerir sér hættuna ljósa og breytir matarvenjum sínum með tilliti til þess.

Höfundur: Ray Wolf ,  Ævar jóhannesson þýddi.



Flokkar:Greinar

%d bloggers like this: