Um bólusetningu og vörn hvannarinnar og annarra jurta

„Grösin vernduðu mig fyrir umgangspestum og veirusýkingum greinilega, og hafa gert það til þessa.“

Ég er ein af þeim, sem hæstvirtir ráðherrar forsætis- og heilbrigðismála vilja ná tali af, því að ég er óbólusett og hef mínar eðlilegu ástæður fyrir því. Þess vegna vona ég, að þær ágætu vinkonur lesi þetta.


Á níunda áratug síðustu aldar varð ég ofnæmissjúk og hafði ofnæmi fyrir öllum aukaefnunum eða svokölluðum E-efnum í matnum og þoli því ekki að borða hvað sem er enn í dag, en ekki nóg með það. Ég fékk líka lyfjaofnæmi, og hafði raunar haft það undirliggjandi í mér nokkuð lengi, því að ég kafnaði nærri því af pensilíni, sem mér var gefið löngu fyrir þennan tíma, og þegar ég þurfti að vera inni á Landspítalanum sumarið 2009, og mér láðist að geta þess að ég væri með ofnæmisastma, fékk svo morfín eða eitthvað álíka við uppskurðinn, þá var ég nær köfnuð, þegar það fór að verka, og gat rétt náð að gera hjúkrunarkonu viðvart, áður en ég kafnaði alveg, svo að það varð að gefa mér mótefni við því, sem virtist virka.

Strax þegar lyfjaóþolið og -ofnæmið byrjaði í mér, þá var mikið vandamál að gefa mér nokkurt einasta lyf, þegar á þurfti að halda, því að það var leitun á lyfi, sem ég gat þolað, – og hafði það í för með sér, að ég fór að stunda grasalækningar fyrir sjálfa mig og reiða mig á grös jarðarinnar, sem hafa dugað mér betur í dag en nokkurt lyfseðilsskylt lyf hefði getað gert, þó að þau geti nú mörg verið góð og gagnast mörgum þeim, sem þau þola. Margir ættingjar mínir eru líka grasalæknar, og ég ráðfærði mig oft við Ástu grasalækni og fleiri, þegar ég þurfti þess með. Ég fékk mér líka bækur, m.a. frá Austurríki, sem gögnuðust mér vel, sérstaklega ein þeirra eftir Mariu Treben, þar sem allir heimsins sjúkdómar voru upptaldir og sagt, hvaða jurtir var hægt að nota við lækningu þeirra, og það var hægt að treysta því, að það stóð allt, sem þar kom fram.

Við notkun jurtaseyða og jurtatesins, sem ég blandaði, fylgdi bætt og betri heilsa, og ég fór að taka eftir því, að ég var ekki eins næm fyrir sjúkdómum og fyrr. Grösin vernduðu mig fyrir umgangspestum og veirusýkingum greinilega, og hafa gert það til þessa. Sérstaklega hefur hvönnin verið góð þar, svo og brenninetlan, vallhumallinn, fjallagrösin og blóðbergið. Ég hef aldrei farið í inflúensusprautur á veturna, og hef heldur ekki þurft þess, því að ég veit, að hvönnin ver mig fyrir öllum pestum, enda verður mér sjaldan misdægurt enn þann dag í dag, og fljót að ná því úr mér, sem kann að koma í mig, þar sem grösin eru líka fljót að hreinsa það úr mér.

Þegar ég veiktist sumarið 2009, þá hafði komið smá krabbameinsber í ristilinn á mér, sem þurfti að skera. Þegar mér var sagt, að aðeins einn eitill af ellefu hefði getað orðið mér banvænn, þá sagði ég: „Blessuð séu grös jarðarinnar.“ Því að þá vissi ég, að þau höfðu bjargað mér, enda var ég líka að forverja mig, þar sem þessi tegund krabbameins var ættlæg í minni fjölskyldu.

Grasaseyðin mín og hvönnin sérstaklega hafa því haldið mér á lífi til þessa, og ég hef drukkið jurtaseyðið mitt á hverjum einasta morgni frá því ég byrjaði á þessu árið 1987. Og blessuð hvönnin ver mig fyrir þessum veirufjanda, veit ég. Ég fer um allt, að vísu með grímu, þegar skylda ber til, og er innan um fólk, án þess að verða fyrir barðinu á veirufjandanum, – sem betur fer. Hvönnin ver mig eins og hún hefur alltaf gert, og því tel ég mér óhætt að vera óbólusett, enda sýnist mér nú í dag, að allir geti veikst, hvort heldur þeir eru bólusettir eða ekki. Svo er verið að tala um hin og önnur afbrigðin, sem ekki er vitað, hvort bóluefnin ráði við, fyrir nú utan mismuninn á þessum bóluefnum, svo að ég treysti engu þeirra til þess að verja mig á við jurtirnar, enda spyr hvönnin ekki að því, hvað veiran eða afbrigðið heitir; hún ræðst til atlögu við þetta allt saman.

Þar sem ég er nokkuð viss um, að ég muni ekki þola bóluefnin frekar en annað lyfjakyns, þá leyfi ég mér að afþakka bólusetningu, hvað sem hver segir, og læt hvönnina og aðrar góðar jurtir verja mig áfram fyrir öllum veirum, bakteríum og sjúkdómum og halda í mér lífinu, eins og þau hafa gert hingað til, þangað til Guði þóknast að taka mig til sín. Ef ykkur væri sama, þá er þetta sama og þegið, kæru ráðherrar.

Höfundur: Guðbjörg Snót Jónsdóttir, guðfræðingur og fræðimaður.

Áður birt grein um svipað efni, Eflum forvarnir gegn veirusýkingum eftir Sigmund Guðbjarnason:

Eflum forvarnir gegn veirusýkingumFlokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, ,

%d bloggers like this: