Eru sumar matarolíur hættulegar heilsu manna?

Á ráðstefnunni Low Carb Denver – 2020 sem haldin var í Denver í mars á þessu ári hélt Chris A. Knobbe læknir erindi sem hann kallaði ,,Diseases of Civilization“ með undirtitlinum ,,Are Seed Oil Excesses the Unifying Mechanism“. Knobbe er augnlæknir og augnbotnasérfræðingur. Hann hafði starfað sem slíkur í nærri 20 ár þegar hann árið 2013 fór að velta fyrir sér hvers vegna augnbotnahrörnun var orðin að heimsfaraldri en sjúkdómurinn var óþekktur fyrir um hundrað árum. Hann fór að leita að ástæðum þessa og rannsókn hans leiddi til þess að hann áttaði sig á að aldurstengd augnbotnahrörnun var aðeins einn af þeim fjölda sjúkdóma sem hrjá Vesturlandabúa sem voru óþekktir fyrir um hundrað árum en eru nú orðnir að heimsfaraldri.

Dr. Knobbe heldur því fram að orsakir krónískra sjúkdóma á Vesturlöndum séu aðeins tvær, þ.e. vannæring og eitrun, og ástæðan sé aðeins ein, þ.e. fræolíur sem notaðar eru til framleiðslu unnina matvara.

Unnin matvara, offita, vannæring og sjúkdómar.
Unnin matvara stendur undir allt að 74% af daglegri neyslu Bandaríkjamanna, hún samanstendur af hreinsuðu hveiti (e: refined), sykri og fræolíum (e: vegetable oils) og inniheldur engin næringarefni og engin vítamín. Bandaríkjamenn þurfa þannig að fá öll sín næringarefni úr um fjórðungi fæðunnar sem þeir neyta þegar verst lætur. Dr. Knobbe sýndi áheyrendum sínum á fyrirlestrinum faraldursfræðilega sögu vestrænna sjúkdóma síðustu 200 ár á glærum og hér endursegi ég þá sögu mikið stytta:

Í Boston voru hjartasjúkdómar óþekktir árið 1811. Á 19. öld má finna átta krufningaskýrslur um hjartasjúkdóma og sjúkdómurinn er afar sjaldgæfur. Árið 1912 birtir John Herrick fyrstu krufningarskýrsluna sem þekkt er um hjartaáfall. Árið 1930 eru hjartasjúkdómar skyndilega orðnir algengasta dánarorsök í landinu en voru nánast óþekktir 30 árum áður og árið 2010 dó um þriðjungur Bandaríkjamanna úr hjartasjúkdómum.

Árið 1811 dó um það bil hálft prósent íbúa Boston úr krabbameini og fyrir lok aldarinnar var dánarorsök af völdum krabbameins orðin 5,8% en árið 2010 dóu tæplega þriðjungur Bandaríkjamanna af völdum krabbameins.

Á 19. öld var sykursýki mjög sjaldgæf, árið 1935 byrjaði tilfellum að fjölga en voru þó ekki nema innan við hálft prósent. Árið 2015 höfðu þau 25 faldast og voru orðin 9,4%.

Árið 1851 voru aðeins 50 dæmi þekkt í heiminum um aldurstengda augnbotnahrörnun. Í dag eru tilfellin orðin 196 milljón á heimsvísu og stefna í 288 milljón árið 2040.

Til eru gögn frá 19. öld um offitu meðal fanga í Texas og Nebraska og var hún þá 1,2%. Árið 2015 voru 39,8% Bandaríkjamanna orðnir offitusjúklingar og nýjar spár benda til að hlutfallið verði orðið 50% árið 2030.

Kaloría er ekki það sama og kaloría.
Knobbe sýndi áheyrendum sínum á fyrirlestrinum á glærum nokkrar niðurstöður rannsókna á músum og rottum þar sem sýnt var fram á að kaloría er ekki það sama og kaloría því tilraunadýrin voru sett á fæði þar sem kaloríufjöldi var sá sami og það eina breytilega í fæðinu milli samanburðar flokka var omega 6 fitusýrur í fræolíum en þau sem fengu fæði sem innihélt 36,6% fræolíur þyngdust um 43,2% á þremur vikum en það jafngildir því að meðalþungur karlmaður þyngdist um 30 kíló meðan tilraunadýr sem neyttu fæðu sem var jafn margar kaloríur og aðeins 1,4% fræolíur hélst um það bil jafn þungt og fyrir tilraunina.

Að lokum
Fræolíur eru yfirgnæfandi hluti af matarolíum í verslunum hér á landi eins og um allan heim. Fræolíur eru t.d. canola olía, korn olía, bómullarfræ olía, soya olía, sólblóma olía, safír olía, vínberjafræ olía og hrísgrjóna klíð olía. Þessar olíur eru ódýrustu matarolíurnar á markaðnum. Þær eru því alfarið notaðar í framleiðslu á unninni matvöru og öll veitingahús nota þær til steikingar en það eru þessar olíur sem dr. Knobbe vísaði til þegar hann talaði um vannæringu og eitrun.

Hann segir að rannsóknir sýni að árið 2015 hafi 39,8% Bandaríkjamanna fallið undir skilgreininguna offitusjúklingar, þ.e. með BMI stuðul 30 eða meira og það stefni í að árið 2030 verði hlutfallið orðið 50%.

Sé það rétt sem dr. Knobbe heldur fram, þ.e. að ofneysla á omega 6 fræolíum sé meginorsök sjúkdóma eins og sykursýki 2, Alzheimers, Parkinsons, hjartasjúkdóma, krabbameins aldurstengdrar augnbotnahrörnunar, og fjölmargra fleiri krónískra sjúkdóma Vesturlandabúa þá er að mínu viti ekki unnt að draga aðra ályktun af því en þá að læknavísindi Vesturlanda hafi brugðist gersamlega þeirri skyldu sinni að rannsaka þetta, upplýsa um það og vara almenning við neyslu þessara olía, því allar staðreyndir málsins hafa legið fyrir í áratugi.

Dr. Chris A. Knobbe, MD fer fyrir stofnuninni Cure AMD foundation (cureamd.org) og fyrirlestur hans má finna á vef ráðstefnunnar:  lowcarbconferences.com/chris-knobbe-md/

Höfundur: Oddur Einarsson, cand.theol og stjórnsýslufræðingur MPA  og áhugamaður um næringarfræði.Flokkar:Næring

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d bloggers like this: