VATN

Hvað er vatn?

Væntanlega þykir mörgum þessi spurning einkennileg, getur nokkur vafi leikið á því hvað vatn er?
Um vatn segir í Wikipedia: „Vatn er lyktar-, bragð- og nær litlaus vökvi sem er lífsnauðsynlegur öllum þekktum lífverum. Vatnssameindin er samansett úr tveimur vetnisfrumeindum og einni súrefnisfrumeind og hefur því efnaformúluna H2O. Það eru 1,4 milljarðar km³ vatns á jörðinni sem þekja 71% af yfirborði hennar.“

Vatn hefur marga athyglisverða og jafnframt óvenjulega eiginleika. Vatn er til dæmis eina efnið á jörðinni sem getur verið í föstum, fljótandi og loftkenndum fasa og nú er farið að tala um fjórða fasann vegna þess að ekki er unnt að skýra hegðun vatns að öllu leyti með hinum þremur. Þegar vatn frýs eykst rúmmál þess öfugt við öll önnur efni en það léttist og ís flýtur því á vatni og þegar frosið vatn þiðnar breytast eiginleikar sameindanna um tíma. Þá hefur fljótandi vatn hæstu yfirborðsspennu allra vökva á jörðinni. Margar flugur geta staðið á vatni og eðla sem lifir í regnskógum MiðAmeríku og ber fræðiheitið Basiliscus basiliscus getur hlaupið á vatni og er því gjarna nefnd Jesús eðlan.

Magn vatns á jörðinni er stöðugt og því verður ekki breytt. Maðurinn er u.þ.b. 70% vatn og ófætt mannsbarn í móðurkviði er um 90% vatn. Það má því segja að hnötturinn sem við byggjum sé risastór vatnsgeymir og við sjálf séum jafnframt vatnsgeymir. Fullorðinn maður þarf að drekka um 2,5 lítra af vatni á dag til að lifa eðlilega og hann getur tekið upp allt að 1,5 lítra í gegn um húðina.

Vatnssameindin er tvípóla. Vetnisfrumeindirnar eru með frekar jákvæða hleðslu en súrefnisfrumeindin neikvæða. Hún dregur því að sér vetnisfrumeindirnar og hver þeirra dregur síðan að sér súrefnisfrumeind og þannig verða til klasar (e. clusters) sem mynda vatnið. Á níunda áratug síðustu aldar birti franski ónæmisfræðingurinn Jacques Benveniste byltingarkenndar kenningar sínar um að vatn gæti endurbyggt efni sem það hefði komist í snertingu við þótt ekkert væri lengur eftir af því í vatninu. Vatn hefði með öðrum orðum minni og ekki bara það, hægt væri að gera stafrænt (e. digitized) afrit af upplýsingum vatnsins um efnið sem það hefði komist í snertingu við, senda afritið milli landa sem tölvuskrá, koma upplýsingunum fyrir að nýju í hreinsuðu vatni á áfangastaðnum og lesa þar upplýsingarnar um aðskotaefnið úr vatninu. Benveniste fékk niðurstöður sínar birtar í Nature, en ritstjórnin gerði fyrirvara um þær. Hann féll frá árið 2004.

Einn af þeim sem var ósáttur við meðferðina á Benveniste var franski veirufræðingurinn Luc Montagnier, en hann hlaut Nóbelsverðlaun árið 2008 fyrir að uppgötva HIV veiruna. Montagnier fékk til samstarfs við sig fyrrum samstarfsmenn Benveniste árið 2014 og beitti sömu aðferðum og hann við að reyna að sanna kenningar hans. Gögnin voru send til Sannio Benevento háskóla á Ítalíu þar sem Vittorio Colantuoni prófessor í sameindalíffræði tók við þeim, viðurkenndi að hann hefði verið fullur efasemda en hefði ákveðið að láta háskóla sinn taka þátt í tilrauninni vegna vináttu við hinn franska starfsbróður og af virðingu fyrir honum. Af háskólans hálfu sá Giuseppe Vitiello prófessor í eðlisfræði um framkvæmd hins ítalska hluta tilraunarinnar. Í klukkustund var hreinsað vatnið látið „hlusta“ á stafrænu merkin sem komu frá franska hlutanum.

Niðurstaðan var að ítalska hreinsaða vatnið gat endurgert 98% DNA sameindanna sem komu í stafrænu formi frá Frakklandi í tölvupósti. Rannsóknin var birt hinn 11. maí 2017 í svissneska vísindaritinu MDPI sjá: https://doi.org/10.3390/w9050339.

Árið 2018 flutti prófessor Vitiello fyrirlestur sem hann kallaði Water Electromagnetic Imaging and the Polymerase Chain Reaction á ráðstefnunni Physics Chemistry and Biology of Water sem haldin hefur verið árlega frá árinu 2014. Í fyrirlestrinum sagði hann frá rannsókninni, aðferðarfræðinni við hana og niðurstöðu hennar. Fyrirlesturinn er aðgengilegur á vefsvæði ráðstefnunnar.

Skilningur á eðli vatns hefur aukist mikið síðustu ár með stórauknum rannsóknum og auðvelt er að nálgast þær á netinu. Mig langar að lokum að geta um greinaflokk sem birtist í vefritinu Science in Society Archive eftir Dr. Mae-Van Ho. Um er að ræða sjö greinar og hin síðasta ber heitið Water Structured in the Golden Ratio. Henni lýkur með hugleiðingu höfundar um að sameindauppbygging vatns í sínu hreinasta formi sé 1,6180339887… þ.e. gullinsnið (e. the golden ratio) sem sé lykill lífsins, lykill alheimsins, lykill alls.

Greinarhöfundur hlaut fyrir margt löngu prestvígslu og starfaði í nokkur ár sem prestur innan Þjóðkirkjunnar. Hann umgekkst því vatn öðruvísi en flestir gera, hann vígði vatn til að skíra börn upp úr því. Og hvað með það gætu menn spurt, er vígt vatn eitthvað öðruvísi en annað vatn? Svarið við því er já, hornið milli vetnisfrumeindanna og súrefnisfrumeindarinnar breytist. Auðvitað þarf ekki prest til að vígja vatn, það getur hver sem er gert og best er að sem flestir taki þátt í slíkri vígslu, það þarf bara tvennt til: Kærleika og þakklæti.

Útdráttur
Maðurinn er 70% vatn. Sameindauppbygging vatns í sínu hreinasta formi er í gullinsniði sem er lykill lífsins, lykill alheimsins, lykill alls.

Höfundur: Oddur Einarsson er áhugamaður um vatn.



Flokkar:Næring

Flokkar/Tögg, ,

%d bloggers like this: