Eflum forvarnir gegn veirusýkingum

Þann 14. apríl birtist ágæt grein í Morgunblaðinu: ,,Ætihvönn gamalt pestarlyf“ eftir Þorvald Friðriksson fréttamann þar sem hann bendir á gamalt viðtal við Margréti Guðnadóttur, prófessor og veirufræðing. Hér viljum við taka undir hvatningu Þorvaldar og hvetja menn til að nýta sér íslenskar lækningajurtir sem finnast víða í íslenskri náttúru.Veiruvirk efni í jurtum. Nú er mikið rætt um kórónaveiru, COVID-19, og hefur hún breiðst út og valdið farsótt sem herjar á heimsbyggðina alla. Slíkar farsóttir gerðu mikinn usla á árum áður og varnir eru litlar enn í dag. Það mun taka tíma að þróa og framleiða hentug lyf og munu ekki allir hafa aðgang að þessum lyfjum.

Þegar slík vá herjar er vert að huga að því hvernig hægt er að efla varnir líkamans á annan hátt, t.d. með því að leita að náttúrulegum veiruvörnum. Í náttúrunni finnast veiruvarnir sem plöntur hafa þróað en plöntur hafa eigin varnarvopn sem þær hafa þróað á milljónum ára. Þessar veiruvarnir eru margskonar lífvirk náttúruefni sem finnast bæði í grænmeti og ávöxtum og í ýmsum lækningajurtum, m.a. í ætihvönn, blóðbergi og vallhumli.

Til dæmis hefur verið sýnt fram á að ef sellerí er sýkt með veiru þá er framleiðsla á fúranókúmarín-efnum örvuð mjög í jurtinni og bæla þessi efni veirufjölgun í jurtinni. Fúranokúmarín eru mikilvæg efnavopn jurta og hefur verið sýnt fram á að þessi efni hafa einnig áhugaverða lífvirkni í mönnum. Með því að neyta jurta sem hafa veiruvirk efni eða heilsubótarefna sem unnin eru úr þessum jurtum má hugsanlega draga úr áhrifum veirusýkinga.

Í ætihvönn eru mörg veiruvirk efni. Imperatorin er fúranókúmarín sem mikið er af í ætihvönn. Þetta efni hindrar t.d. fjölgun á veiru sem veldur eyðni. Flavonoídar er stór flokkur lífvirkra efna og eru sum þessara efna virk gegn veirum. Í ætihvönn, vallhumli og blóðbergi eru efni sem hefta vöxt á kvefveirum. Gömul hefð er fyrir því að nota blóðberg við kvefi og flensu. Ekki hefur tekist að bera kennsl á öll veiruvirku efnin í þessum jurtum.

Hagnýtum þekkingu og reynslu fyrri kynslóða

Notkun ætihvannar til lækninga á sér langa sögu. Í Norður-Evrópu töldu menn hvönnina vera eina mikilvægustu lækningajurtina. Auk þess að vera mikilvæg matjurt á Norðurlöndum og Bretlandseyjum var lækningamáttur hvannarinnar vel þekktur meðal norrænna manna. Öll jurtin var notuð til lækninga, bæði laufið og ræturnar sem mátti geyma þurrkaðar árum saman, einnig safaríkir og meyrir blaðstilkarnir svo og fræin sem þroskast síðsumars.

Ætihvönn var talin geta læknað fjölda sjúkdóma. Vallhumall er önnur mjög öflug lækningajurt sem er töluvert mikið notuð, m.a. í græðandi smyrsl. Náttúra Íslands hefur upp á að bjóða fjölda áhugaverðra lækningajurta, bæði í sjó og á landi, og ættum við að nýta þær betur til að styrkja heilsuna og skapa úr þeim aukin verðmæti.

Heimildir:

Aniviral potental of medicinal plants against HIV, HSV, influenza and coxsackievirus: Adam M. et al. Phytother. Res. 2018: 32(5): 811-822.Antiviral herbs-present and furure. Huang J. et.al. Infect. Disord. Drug Targets. 2014: 14(1):61-73.Imperatorin Inhibits HIV-I Replication through an Sp1-dependent Pathway. Rochio Sancho et. al. J. Biol. Chem. 2004. 279, 37349-37359.>> Náttúra Íslands hefur upp á að bjóða fjölda áhugaverðra lækningajurta.

 

Höfundur:   Sigmundur Guðbjarnason, Prófessor emeritus. Greinin er birt með leyfi höfundar en var áður birt í Morgunblaðinu þann 18.4.20.Flokkar:Annað, Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , , ,

%d bloggers like this: