Áhrif farsímamastra á líkamlega og andlega heilsu mína

Saga mín hefst haustið 2008 þegar sett var upp farsímamastur nálægt heimili mínu. Upp úr áramótum fer ég að finna fyrir því að ég á sífellt erfiðara með að einbeita mér, sérstaklega við lestur, sem og að festa svefn á kvöldin. Í fyrstu áttaði ég mig ekki á hvað var að gerast og hvað gæti verið að valda þessum breytingum hjá mér.

Eina breytingin sem hafði orðið á umhverfi okkar var þetta nýja mastur og beindust því sjónir okkar að því. Ekki leið á löngu þar til einkennum fjölgaði, pirringur í húð, eyrnasuð eða óþægileg hljóð, þrýstingur á miðeyra, þyngsli yfir höfði, pirringur um allan líkamann, herpingur í innri líffærum, ógleði, hjartsláttartruflanir og orkuleysi sem leiddi að lokum til andlegs niðurbrots hjá mér.

Á þessum tíma fóru aðrir á heimilinu einnig að kvarta undan svipuðum óþægindum og vorum við farin að mætast á næturnar með sængurnar okkar þar sem við gátum ekki sofið og hvílst. Ljóst var þá orðið að við áttum ekki annan kost en þann að finna okkur annan íverustað þar til fundið var út úr þessu. Barátta okkar við að endurheimta heimilið reyndist löng, ströng og kostnaðarsöm. Þetta var mjög erfiður tími.

Ég leitaði aðstoðar þriggja opinberra stofnana varðandi áhrif farsímamastra og örbylgjusendinga þeirra.
Fyrst setti ég mig í samband við Heilbrigðiseftirlitið, þar var mér vísað á Geislavarnir ríkisins. Þeir vísuðu á símafyrirtækið og töldu ekki ástæðu til að koma og mæla fyrir okkur og sögðu að það væri hagur símafyrirtækisins að hafa þetta í lagi. Símafyrirtækið sendi strax tvo menn með flugi til mín en fljótlega kom í ljós að tilgangur þeirra reyndist einungis vera sá að sannfæra mig um að ekki væri hægt að veikjast vegna örbylgjusendinga frá símamöstrum.

Er ég leitaði til læknis var mér tjáð að ekkert væri í læknisfræðunum varðandi rafsegul- eða örbylgjuóþol, en ég fékk svefnlyf til að geta sofið. Mér leið eins og ég stæði í miðju völundarhúsi, máttvana og enga aðstoð að fá. Hálfu ári eftir að við neyddumst til að yfirgefa heimili okkar náðum við loksins að fá mastrið tekið niður og gátum flutt aftur heim.

Það var ekki fyrr en ég kynnist fólki sem hafði svipaða sögu að segja og var búið að sækja sér þekkingu á málefninu að ég fékk aukinn skilning á því og líðan minni. Lífsskerðing mín er töluverð eftir þessa reynslu og mun ég trúlega aldrei ná fullum bata. Viðkvæmni mín fyrir raf- og geislamengun er það mikil í dag að þegar ég fer í heimsókn í hús sem eru í nálægð við farsímamöstur eða hátt rafsegulsvið í þeim, þá mæta fyrri einkenni og vanlíðan strax.

Raf- og nútímatæknivæddir bílar er ekki möguleiki fyrir fólk eins og mig að nota vegna sendibúnaðar og rafsegulssviðs sem gjarnan eru í þeim. Ferðalög geta reynst mér flókin og erfið vegna tækjabúnaðar í flugvélum og flugstöðvum. Gistirými eru oftast með þráðlaus net sem kalla fram einkennin.

Mér verður gjarnan hugsað til áhrifa nútíma tæknibúnaða þegar ég heyri fólk tala um síþreytu, athyglisbrest, svefnörðugleika, ofsakvíða, streitu og minnisleysi sem virðist vera sívaxandi vandi í okkar þjóðfélagi. Á móti kemur að kröfur aukast stöðugt um öflugra farsímasamband með tilheyrandi aukningu á örbylgjusendingum. Það er þó bót í máli að til eru í dag ýmsar lausnir fyrir fólk til að verja sig fyrir t.d. örbylgjum og rafsegulsviði.

Þótt ég hafi nú náð betri líðan og nokkrum bata stafar látlaus ógn að heilsu minni þar sem framtíðin felur í sér fleiri og þéttari net farsímasenda sem og næstu kynslóð þeirra, 5G kynslóðina, sem býr yfir styttri og margfalt sterkari geislum. Þetta er í raun alveg ný veröld sem við okkur blasir sem erum með þetta óþol, eitthvað sem margir eiga erfitt með að skilja og sem ég hef líka fullan skilning á.

Það væri óskandi ef yfirvöld fengjust til að endurskoða afstöðu sína um þróun á þessum málefnum og stöðvi uppsetningu 5G þar til fyrir liggja óháðar rannsóknir sem sýna með óyggjandi hætti að engar heilsufarslegar afleiðingar hljótist af þeim, því þær eru ekki endurkræfar líkt og ég hef nú þegar fundið.

Sum ríki hafa sett 5G væðingu á bið þar til niðurstaða liggur fyrir í þessum efnum. Þar er heilsan látin njóta vafans og óskandi að Ísland gerði slíkt hið sama. Til eru rannsóknir sem sýna fram á alvarleikann í málinu eins og fram kemur í skýrslu: ,,The Bionitiative Report“ https://bioinitiative.org/

Ekki virðist vera áhugi fyrir því hér á landi að leyfa heilsu fólks að njóta vafans sem er verulega sorgleg niðurstaða.

Höfundur: Fjóla Malen Sigurðardóttir, atvinnurekandi.

 

 

 



Flokkar:Umhverfið

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d bloggers like this: