Hér birtist grein eftir Benedikt Björnsson sem var greindur með insúlínháða sykursýki árið 1987. Ráð heilbrigðiskerfisins voru að nota sykur í nógu hraðvirku formi til að hækkað blóðsykurinn nógu fljótt ef hann féll of mikið. Það breytti gjarnan andlegri og líkamlegri líðan og jók á fíkn/löngun í eitthvað meira, sem viljastyrkur hans réði ekki við að neita sér um. Ráðgjöf hjá MFM miðstöðinni snéri lífi hans við og ýmislegt breyttist á fáum dögum t.d. helst blóðsykurinn í jafnvægi ef hann fylgir ráðgjöfinni. Andleg- og líkamleg líðan er betri síðan.
Frelsi eða fíkn?
Í dag hef ég sterka tilfinningu fyrir því að allt í mínu lífi til þessa, hafi leitt hvað af öðru og nákvæmlega eftir lögmálinu um samband orsaka og afleiðinga. Aukin þekking, fræðsla, greining og útskýringar á vanda mínum, vekur gjarnan hjá mér mikið þakklæti og létti. Það er til lausn!
Þessar tilfinningar hafa síðan dregið úr áhrifum þunglyndis og þráhyggju, þannig að ég hef eiginlega alveg gleymt að hugleiða sjálfsvíg. Kjánunum í kringum mig hefur líka fækkað stórlega.
Gildi litlu hlutanna og alls þess sem ég hef í dag, hefur aukist og alveg án þess að ég hafi ætlað mér að breyta afstöðu minni. Þessi þróun hefur ekki einungis fært mér sterkari löngun til að bæta mig, heldur einnig getu til að aðhafast eitthvað í málinu. Þetta heitir „ábyrgðartilfinning“, en án þess að ég gerði mér grein fyrir því, lék ég fórnarlambshlutverkið, með miklum ágætum.
Ég áttaði mig á því í 12 spora vinnunni þar sem ég skoðaði hver minn þáttur í því sem aðrir hefðu gert á hluta minn, væri? Minn þáttur var að hafa ekki sett öðrum mörk og þannig samþykkt þeirra framkomu of lengi. Ég hef alltaf verið skelfingu lostinn og óttast algjöra höfnun ef ég stoppaði aðra af og því reynt að segja sem minnst í bili og farið heim til að dvelja þar í minni gremju og fórnarlambshlutverki.
Það fórst með einhverjum hætti fyrir að ég lærði að taka leiðsögn, vinna með ástríður mínar, tilfinningar, styrk og veikleika á ábyrgan hátt. Árið1958 vantaði svo mikla þekkingu á þessu sviði.
Ég var greindur með insúlínháða sykursýki ári 1987 og ADHD árið 2004. Ég upplifi og bregst við aðstæðum líkt og margir einstaklingar með virkni-röskun. Fagaðili orðaði það eitt sinn við mig með eftirfarandi hætti: ,,Viðkomandi einstaklingar hafa ekki líkamlega burði til að upplifa umhverfi sitt, persónur og dauða hluti, á annan hátt en persónulega“. Þetta kannast ég við! – Oft hefur verið sagt við mig á frekar neikvæðum nótum: ,,Þú ert svo viðkvæmur Benni“!
Ég hef lengi metið þetta sem löst og gott dæmi um hve lélegur einstaklingur ég væri. Ég reyndi að fela fyrir öðrum hver ég í raun og veru var, en það varð til þess að óheiðarleiki minn og ótti stigmögnuðust, – reyndar stig af stigi í hálfa öld.
Í dag lít ég á þetta með eftirfarandi hætti:
Meðvirkni og áráttukennd hegðun er líkleg til að þróast með einstaklingum sem ekki fengu þá ást og umhyggju ,,sem þeir þurftu í bernsku“, en í bók sinni Meðvirkni, skilgreinir Pia Melody það sem ofbeldi.
Meðvirkni getur valdið jafnvel verri líðan en líðan hjá þeim sem eru í neyslu. Sem er á margan hátt margslungnari sjúkdómur.
Misnotkun á efnum hefur verið skilgreind sem fíkn, ef neyslan hefur áhrif á það hvernig þú sinnir grunnþörfum þínum og/eða almennt viðurkenndum skyldum þínum og skuldbindingum. Veikir einstaklingar geta ekki séð hvernig þetta á við um þá.
Ég hef misnotað áfengi og tóbak, en var í mikilli afneitun, þangað til ég fann fagaðila á sviði matarfíknar hjá MFM miðstöðinni.
Sem matarfíkill í tugi ára, voru veikindi mín alvarleg og ég ófær um að stjórna eigin lífi og þar á meðal blóðsykrinum.
Slök blóðsykurstjórnun eykur líkur á þunglyndi, en skýr merki um þunglyndi hef ég haft frá 35 ára aldri og mótaðar sjálfsvígshugsanir frá barnæsku, sem svo voru staðfestar 2011 eða 2012. GUÐ var þá farinn að fara í taugarnar á mér og mér þótti ljóst að hann væri haldinn frestunaráráttu, bara rétt eins og ég sjálfur.
Nú veit ég að möguleikarnir eru fleiri! – „ÞAÐ ER TIL LAUSN“, Ég get valið „FRELSIГ, en það er næst-geggjaðasta tilfinning sem ég held að sé til, á eftir fíkninni sjálfri!
Ég var hættur að greina eitthvað eftirsóknarvert í umhverfi mínu, nema að:
Vera helst ekki í samskiptum við aðra.
Takast ekki á hendur frekari skuldbindingar.
Að láta mér nægja það sem ég þegar hafði.
Matarfíkn mína og áráttukennda hegðun, faldi ég m.a. með því að umgangast ekki þá sem líklegir voru til að hafa orð á einhverju í mínu fari sem gæti þurft athugunar við. Hvort heldur sem er, að ég hafi verið í afneitun, ekki tilbúinn eða á annan hátt ófær um að vinna með/úr mínum tilfinningum á ábyrgan hátt, þá fór ekki að hylla undir breytingar fyrr en í maí 2016 eftir að ég tileinkaði mér ráðgjöf MFM miðstöðvarinnar .
Í dag neyti ég lítillar sterkju eða kolvetna, ekki sykurs eða annars sem ég hef óþol fyrir. Aðspurður í eftirliti á Göngudeild sykursjúkra hjá LSH, um það hvernig ég bregðist þá við sykurfalli, gat ég með miklu stolti og ánægju greint frá minni reynslu af því á eftirfarandi máta:
Fyrst er að nefna að ég fæ ekki sykurföll! 7-9-13!
Næst, að síritinn, sem ég er þakklátur fyrir að hafa aðgang að, getur látið mig vita þegar blóðsykurinn fer niður fyrir 6,0mmol/L. Eins get ég látið hann gefa merki ef/þegar blóðsykurinn fellur hraðar en stillanleg og skilgreind mörk.
Þetta tvennt vekur athygli mína nógu snemma til að prótein sem ég þá borða, hefur nægan tíma til að virka til hækkunar á blóðsykrinum áður en hann lækkar of mikið.
Ráðgjöf hjá MFM snéri lífinu mínu við!
Ég man ekki vel hvernig Esther Helga orðaði þetta, en í mínum huga var það eitthvað á þessa vegu: „Alltof mikið mál væri fyrir okkur að leita að þeim fæðutegundum sem þú mögulega hefur óþol fyrir og því best að þú haldir þig við þær fæðutegundir sem ekki er vitað til, innan heilbrigðisgeirans, að einhver hafi óþol fyrir“. Þetta virtist bara nokkuð gáfulegt og einfalt. Ég hirti ekki um að spyrja frekar út í þetta og mætti eftir viku á byrjendanámskeið hjá MFM. Þar fengust svo frekari upplýsingar næstu daga. Það var svo ekki fyrr en eftirá að ég áttaði mig á því að ýmislegt hafði breyst á þessum fáu dögum.
Ég gleymdi alveg að fá mér bita milli mála. Mig langaði aldrei og datt það aldrei í hug. Löngun sem ég hafði ekki ráðið við var horfin. Mér fannst líka að síritinn væri að bila, því hann stóð fastur í 6,5, bæði dag og nótt. Það reyndist nú ekki málið, heldur að ég var einfaldlega ekki að neyta þeirra fæðutegunda sem kveiktu og/eða viðhélt fíkn og löngun. – Ég var orðinn FRJÁlS!
Ýmis form sterkju og kolvetna, sykur og fleira kveikir hjá mér löngun og fíkn í bara eitthvað, eitthvað meira, -sama hvað það er, -bara ef það er ætlað til átu.
Ég upplifi fíkn og að viljastyrkur einfaldlega gufar upp á sama augnabliki og ég borða eitthvað þeirra efna, sem ég hef óþol fyrir. Fíkn getur líka komið til ef ég vinn ekki andlegu heimavinnuna mína, ástunda heiðarleika, rækti samband við stuðningsaðila og sendi inn matarplanið mitt. Löngunin er í mínu tilfelli, fyrirbæri sem ég hef enga stjórn á.
Frá 1987 hefur mér verið ráðlagt að nota sykur í nógu hraðvirku formi til að geta hækkað blóðsykurinn nógu fljótt ef og þegar hann lækkar of mikið. Ég get ekki notast við þá leið, þar sem það breytir gjarnan andlegri og líkamlegri líðan, m.a. fíkn/löngun í eitthvað meira, sem viljastyrkur minn á ekki möguleika á að ráða við.
Minn líkami nær að nýta prótein úr eggjum, kjöti, fiski og ýmsum mjólkurvörum vel innan hálftíma (15-20mín) frá neyslu sem er ekki samhljóða mínum skilningi á upplýsingum frá Landspítalanum. Egg virka nógu hratt fyrir mig ef ég gef þeim tíma til þess. Það má vera að ég hafi alltaf haft þennan möguleika, en ég hef verið ófær um að nýta mér hann.
Ég hef verið veikur ,,matarróni“ lengi, svo ég noti orð ráðgjafa míns. Ég hef verið í daglegri neyslu ýmissa fæðutegunda og íblöndunarefna, frá því í bernsku, sem skrokkurinn hefur ekki þolað. Þessar fæðutegundir valda öfgakenndum og stundum öfugum viðbrögðum líkamans en þær eru gefnar út fyrir valda. Þær valda alltaf breyttri andlegri líðan!
Mér er ofarlega í minni hve hratt og mikið blóðsykurinn gat oft hækkað eftir að ég borðaði t.d. nautakjöt, en sykurinn fór þá gjarnan upp fyrir 20mmol/L. Nú veit ég að það hefur verið vegna þeirra efna sem voru í kjötinu. „Það getur nú ekki staðist Benedikt, þú hlýtur að hafa borðað eitthvað annað líka?“, hefur verið sagt við mig þar sem ég hef leitað ráða varðandi þetta.
Þegar líða tók á bataferlið og fráhaldið frá þeim matartegundum sem ég ekki þoli, fóru MIKLU-hlutirnir að gerast í daglega lífi mínu! – Þeir koma samt ávallt aftan að mér, eins og ,,dagur Drottins, -sem þjófur að nóttu“ (Þess 5.2) og aldrei í beinu samhengi við það sem ég annars var að sperrast við að gera með handafli.
Eftir einkatíma hjá meðferðaraðila mínum í MFM miðstöðinni, þar sem við unnum með möguleg fyrri áföll (trauma), fann ég fyrir alveg nýrri gerð af tilfinningu. Heilbrigðara fólk kallar hana ,,ábyrgðartilfinningu“. Með hana að vopni, lagði ég á ráðin með sykurföllin og viðbrögð við lækkandi blóðsykri, sem ég hef minnst á áður. Ég hef aðgang að þessari tilfinningu á meðan ég sleppi að neyta þess sem ég ekki þoli.
Segja má með réttu að ég noti ,,ábyrgðartilfinningu“ og egg til að forðast sykurföll. Til þessa hefur það verið með góðum árangri.
Höfundur: Benedikt Björnsson skrúðgarðyrkjumeistari.
Árið 1992 birtist grein í Heilsuhringnum eftir Benedikt sem vakti mikla athygli: Er andlegrækt öflugasta forvörn okkar í heilbrigðismálum. Hana má finna hér: https://heilsuhringurinn.is/1992/09/04/er-andleg-raekt-oeflugasta-forvoern-okkar-i-heilbrigeismalum/
Flokkar:Annað, Næring, Reynslusögur