Veikindi af völdum fæðuóþols læknað með Veganmataræði og réttri heyfingu

Rætt við Valdemar Gísla Valdemarsson um hve breytt mataræði og rétt hreyfing bætti heilsu hans. Við gefum Valdemar Gísla strax orðið:   Vorið 2016  átti ég í miklum vanda vegna hjartsláttartruflana, streituverkja í maga og höfuðverkjar. Af því leiddi að ég fór í ómskoðun og margar hjartarannsóknir, en engin orsök fannst. Stuttu seinna fékk ég brjálaðan brjóstverk og verk upp í kjálka og fór þá á Hjartagáttina og til hjartalæknis í meiri rannsóknir. Læknarnir fundu ekkert og skrifuðu þetta bara á streitu, því ég hafði verið undir miklu vinnuálagi.

Það var fleira að hjá mér. Fyrir mörgum árum síðan komst ég að því á námskeiði sem ég fór á, að ég væri mikill matar- og sætindafíkill og þyrfti að læra að vinna með það skynsamlega. En sumarið 2016 var ég búinn að missa alla stjórn og borðaði oft beikon í morgunmat, nautasteik í hádeginu og lambakjöt í kvöldmat og eftir því sem maturinn var feitari fannst mér hann betri. Auðvitað endaði þetta óhóf með óskaplegum óþægindum í maga og ég sá að annað hvort yrði ég að fara til læknis og fá einhverjar töflur eða taka örlagaríka ákvörðun um lífsstílsbreytingu. Ég tók seinni kostinn og ákvað að gá hvort grænmetisfæði gæti breytt ástandinu. Því að þrátt fyrir allt hef ég alltaf haft mikinn áhuga á heilbrigðismálum og margt um þau lesið.

Ég var vanur grænmetisfæði því að fyrir mörgum árum eignast ég bókina Heilbrigði og vellíðan eftir dr. Paavo Airola, sem gefin var út árið 1986. Í bókinni er meðal annars fjallað um föstur og þar er líka sagt frá að kjöt meltist mun hægar en grænmeti. Eftir að ég las bókina tók ég alltaf safaföstu einu sinni á ári, eða annaðhvert ár þriggja vikna föstu: Borðaði grænmeti í eina viku, drakk safa t.d. ávaxta- eða grænmetissafa í eina viku og þriðju vikuna borðaði ég grænmeti síðan snéri ég mér aftur að að mínu venjulega mataræði.

Nú gerði ég þetta dálítið öðruvísi því að ég átti erfitt með að neita mér um að vera sífellt að narta í eitthvað. Mér áskotnaðist kaffi sem heitir ,,Slimroast“ sem á að minnka matarlöngun. Einn bolli af þessu kaffi á morgnana virkaði vel og mér veittist létt að hætta nartinu þegar ég byrjaði á grænmetisfæðinu. Að viku liðinni gerði ég mér grein fyrir að líklega þyrfti ég að staldra lengur við á þessu mataræði og hugsaði: Ég fylgi þessu mataræði eina viku í viðbót og tek svo ákvörðun.  Að þessum tveimur vikum liðnum snarbreyttist líðan mín og eftir þrjár vikur gerði ég mér loksins ljóst að árum saman hafði ég borðað fæði sem fór svo illa í mig að það olli eituráhrifum og hafði haft skaðleg áhrif á heilsu mína.

Það kom í ljós að ég var með óþol fyrir ýmsum af fæðutegundum sem höfðu valdið mér: þreytu, verkjum, þembu, andlegri- og líkamlegri vanlíðan. Ég ákvað að hætta á gamla mataræðinu ásamt því að taka út sykur, aspartam og gosdrykki, en leyfa mér einstöku sinnum bjór og rauðvín. Í framhaldi af því breytti ég yfir í ,,Veganmataræði“  og ákvað að sjá til hvernig það reyndist næstu sex mánuði og taka þá ákvörðun um framhaldið.

Það var skrítið að strax á þriðju viku eftir mataræðisbreytinguna byrjaði ég að vakna klukkan 6 á morgnana úthvíldur, leið vel og hugurinn hress. Á meðan ég lá þarna hissa og velti þessu fyrir mér glaðvakandi var eins og líkaminn segði farðu út að hlaupa. Það fannst mér snargalin hugmynd og svo kom hugsunin hvað ætli nágrannarnir haldi ef ég fer út að hlaupa upp úr klukkan 6 að morgni. Ég nennti því heldur alls ekki. Næsti morgunn var eins, ég vaknað klukkan 6 með togstreitu innra með mér um að fara út að hlaupa. Þegar sagan endurtók sig þriðja morguninn og mér fannst líkaminn ennþá segja:  ,,farðu út að hlaupa“ sagði ég við sjálfan mig þetta er nú orðið þreytandi. En gott og vel ef þú vilt fara út að hlaupa farðu þá, þó að ég nenni því ekki. Þar með fór ég á fætur og í hlaupagallann og út að skokka.

Þarna gerðust einkennilegir hlutir því að mér tókst að ýta egóinu til hliðar og lét líkamann ráða ferðinni. Þetta var bara rólegt skokk, stuttur hringur 3 kílómetrar.  Á meðan fór ég að hugsa, en hvað ef ég færi nú að keppast við. Þá áttaði ég mig á að keppni var er ekki í boði. Þetta snérist bara um að koma púlsinum í gang og súrefni í blóðið. Líkaminn var að gera þetta fyrir sig. Uppfrá þessu byrjaði ég að stunda þetta rólega skokk þrisvar til fimm sinnum í viku. Eitt skipti villtist ég upp í Heiðmörk og þegar ég kom til baka var ég búin að hlaupa 14 kílómetra, það hafði engin eftirköst, engin þreyta, engin mæði, engin löngun í sætindi, ég var ekki einu sinn þyrstur en vissi að það var skynsamlegt að drekka vatn. Þegar ég byrjaði að hlaupa má segja að ég hafi ekki verið í neinni æfingu púlsinn var í 98 – 99 áður en hlaupið hófst. Þó að ég hefði oft áður skokkað á eftirmiðdögum með miklum erfiðismunum höfðu engar framfarir orðið.

Ári seinna var púlsinn kominn niður í 78. Hvíldarpúlsinn fór úr 78 í 58. Það var annað sem gerðist ég léttist um 15 kíló og það gerðist á tveimur og hálfum mánuði. Það var ekki af því að ég væri að brenna svo mikilli fitu heldur það að eftir 2 vikur þegar bólgurnar fóru að fjara úr maganum eftir tvær vikur á nýja mataræðinu varð mikil vatnslosun, það fór mikill bjúgur og ístran minnkaði á sama tíma. Það var eins og uppþemban og bólgumyndunin væru uppsafnað vatn. Enda hafði ég óeðlilega oft þvaglát á meðan þetta gekk yfir.

Allt í einu létu framfarir ekki á sér standa og margt breyttist á skömmum tíma. Um 10 heilsufarsatriði skánuðu eða hurfu alveg eftir 3 vikur, t.d. hættu hrotur, bakflæði og magaverkir, þroti og verkir fóru úr öllum liðum og vöðvum. Það  var töluverð breyting því að stirðleiki hafði truflað mig mikið og oft var ég eins og spýtukarl á morgnana. Þegar ég áttaði  mig á hver orsökin var fyrir krankleikum mínum, gerði ég allt sem ég gat til að hreinsa líkamann og fór eftir boðskap dr. Paavo Airola. Hans kenning er að: hreinsa ristilinn og garnirnar, losa um sem mest af óhreinindum sem sest hafa fyrir í líkamanum. Í viðbót við fæðisbreytinguna  (viku tvö og þrjú ) tók ég líka inn svonefnda ristilhvata það eru jurtir frá fyrirtækinu Sunnanvindum í Hveragerði. Samhliða tók ég fyrstu 6 vikurnar líka efni sem heitir Aesyntha sem er lifrarhvati, blóð- og lifrarhreinsandi frá Ryonex. Að auki beitti ég lífsveiflutækni.

Það sem mér fannst merkilegast var að öll andleg líðan varð strax mikið betri. Þess vegna kom mér á óvart þegar ég var búin að vera á veganfæði í kringum 3 mánuði og hættur að borða sykur og feitan mat, að þá varð hugurinn mikið næmari fyrir tilfinningasveiflum.  Á tímabili lenti ég í verulegum ólgusjó tilfinningalega þegar fóru að plaga mig gömul sárindi frá því að ég var barn. Ég leitaði þá til þerapista sem hjálpaði mér en það tók mánuð að vinna sig út úr geðlægðinni. Eftir það hækkaði hamingjukúrfan mikið og ég fann tilfinningu sem ég hafð ekki upplifað mjög lengi, hreina hamingju og vellíðan.  Konan mín talaði um að ég væri orðinn mikið betri í skapinu og glampi kominn í augun.

Hvað er Veganmataræði?

Vegan snýst um að neyta engra dýraafurða aðeins næringu úr plönturíkinu og borða því ekki kjöt, fisk, mjólkurvörur, egg, ost, hunang eða aðrar dýraafurðir. Grundvöllur veganisma er sú siðferðislega afstaða að rangt sé að líta á dýr sem hráefni eða vörur. Þar af leiðandi er einnig algengt að vegan-fólk forðist að nota allar vörur sem eru unnar úr dýrum líkt og leður, ull, silki, sápur úr dýrafitu o.s.frv. og það sama á við um vörur sem prófaðar eru á dýrum. Eftir að ég kynntist siðferðislegri afstöðu veganisma fór ég að horfa á matarhefðir með öðrum augum.

Á hverju nærist þú nú?

Á morgnana fæ ég mér vatnsglas með sítrónusafa, en eftir hlaupin á morgnana fæ ég mér ávaxtasafa með spírólína eða hveitigrasi. Í vinnuna hef ég með mér nesti sem oftast er einhvers konar grænmetissalad sem ég bæti í olíu, fræjum og hnetum. Með þessu er ég gjarnan með falafel bollur (grænmetisbollur). Það er líka hægt að kaupa alls konar veganmat t.d.: Sojakjöt, sojaborgara, soja kjúklinganagga, tófú, baunir og pasta, grænmetis lasanja, súrdeigsbrauð, ávaxtasafa og grænmetissafa. Fyrir álegg nota ég oft hummus eða pestó búið til úr sólþurkuðum tómötum, kryddi og ólífum og fyrir ostinn má nota kasjúhnetur.

Hvað viltu segja að lokum?

Mér finnst mest um vert að koma því til skila hvað mataræði skiptir rosalega miklu máli og hvað matarfíkn er ofboðslega algeng og hvaða skaða hún getur valdið og að það séu til leiðir úr vandanum. Rétt hreyfing er mikilvæg, þá á ég við að það er hættulegt að láta hvetja sig áfram og fara að pressa sig áfram meira en maður ræður við. Það á ekki að keppa við tímann og ekki að rembast, slíkt veldur bara vanlíðan. Mikilvægt er að líkaminn fái að vinna sig út úr hreyfingunni sjálfur.

Netfang hjá Valdemar Gísla er: vgv@simnet.isFlokkar:Næring

Flokkar/Tögg, , , , , , , ,

%d bloggers like this: