Fólk með astma getur bætt lífsgæði sín svo um munar með því að beita sérstakri öndunaraðferð, bæði slegið á einkenni eins og mæði og dregið úr lyfjanotkun.
Þetta eru niðurstöður rannsóknar Monique van Oosten fyrir meistarapróf í lýðheilsuvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Rannsóknin fjallaði um hvíldaröndun hjá astmasjúklingum og áhersla var lögð á lífeðlisfræðileg áhrif öndunaraðferðar á hvíldaröndun og stjórn astmasjúkdómsins. Leiðbeinandi Monique í verkefninu var dr. Marta Guðjónsdóttir lektor við Læknadeild Háskóla Íslands og rannsóknastjóri á Reykjalundi, en á Reykjalundi voru allar lífeðlisfræðilegar mælingar framkvæmdar.
Astmi er þrengsli í öndunarvegi sem stafar af vöðvasamdrætti í berkjum en einnig bólgu, bjúg og slímmyndun vegna næmni fyrir ofnæmisvökum og áreiti af ýmsu tagi. Aðaleinkennin eru andþyngsli, mæði, slím, hósti og korr í öndunarvegi. Þessi einkenni þurfa ekki að vera öll til staðar samtímis. Astmi er því flókinn sjúkdómur og ekki virðist vera hægt að læknast af honum. Sjúkdómurinn getur verið mjög breytilegur og oft á heilbrigðisstarfsfólk og sjúklingurinn sjálfur erfitt með að ná tökum á sjúkdómnum og einkennum hans þrátt fyrir lyfjameðferð og fræðslu. Það er einmitt þessi breytileiki sem getur valdið óþarflega mikilli lyfjanotkun.
Öndunaraðferð eykur stjórn og dregur úr lyfjanotkun
Astmasjúklingar hafa verið duglegir að leita annarra lausna í formi óhefðbundinna meðferða. Öndunaraðferðir eru vinsælar meðal margra,einkum þeirra sem hafa slæma stjórn á önduninni og/eða eru óánægðir með lyfjanotkun sína.1Flestar slíkar aðferðir kenna hvernig má halda stjórn á önduninni, kenna nef- og þindaröndun og slökun. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þessar öndunaraðferðir auka lífsgæði, minnka einkenni og þörf fyrir lyf. Hingað til hefur góður árangur af þessum öndunaraðferðum verið fyrst og fremst skýrður með áhrifum á andlega líðan en ekki verið tengdur önduninni sjálfri.2 Því var þörf á lífeðlisfræðilegri úttekt á áhrifum öndunarmeðferðar og fá þar á meðal svar við því hvort að astmasjúklingar andi jafnvel meira en heilbrigðir
Öndun er háð efnaskiptum
Þegar öndun er metin, er rétt að hafa í huga að hún er mismunandi milli einstaklinga því hún er háð efnaskiptum. Efnaskipti er mismikil hjá misstórum einstaklingum; stór karlmaður er með meiri efnaskipti en lítil kona, og andar því meira. Því er mikilvægt að meta öndun með tilliti til efnaskipta. Rannsóknir hafa sýnt tengsl milli astma og oföndunar, sem leiðir til berkjusamdráttar. Þegar astmasjúklingar fá einkenni hafa þeir tilhneigingu til anda meira eða ofanda til að losna við einkennin. En tengslin milli astma og oföndunar eru á reiki og flókin, vegna þess að það er mismunandi hvernig rannsakendur meta öndun og oföndun. Í þeim rannsóknum sem hvíldaröndun er mæld er nánast hvergi tekið tillit til efnaskipta og því erfitt að bera niðurstöður saman milli einstaklinga og rannsókna.
Öndunaraðferð sem hægir kerfisbundið á önduninni
Íhlutunin í þessa rannsókn, Buteyko aðferðin, er viðurkennd öndunaraðferð3,4 sem hefur verið vísindalega rannsökuð.5,6 Hún sker sig úr að því leyti að hún kennir fólki að hægja kerfisbundið á önduninni og stilla hana af í samræmi viðefnaskiptin.7
Niðurstaðan er sú að þegar fólk náði að koma jafnvægi á milli öndunar og efnaskipta þá jókst stjórnin, og einkenni og lyfjanotkun minnkuðu.
Til þess að nálgast jafnvægi milli öndunar og efnaskipta hefur þessi aðferð kortlagt viljastýrð öndunarstopp, án óþæginda.
Mynd 1. Viljastýrt öndunarstopp er mælt sitjandi (1), eftir létta útöndun (2) og stoppað er (3) þangað til að fyrsta löngun til að vilja anda aftur myndast (4). Mælingin er rétt ef andað er jafn mikið fyrir og eftir mælingu og mælingin er án óþæginda.
Með þessa aðferð, sem er einungis mæling en ekki æfing, er verið að meta árangur aðferðarinnar. Viljastýrt öndunarstopp segir meðal annars til um næmni öndunarstöðva fyrir koltvísýringi. Það er gott að vita það, þar sem magn koltvísýrings stýrir önduninni. Þegar viðhættum að anda þá byrjarkoltvísýringur að safnast upp í líkamanum. Því lengur sem hægt er að stöðva öndun með þessum hætti, því minna næmni fyrir koltvísýringi.8 Það er betra, upp að vissu marki (það er ekki gott að hafa of mikla eða of litla næmni), vegna þess að þá helst öndunin rólegri við áreiti og undir álagi. Það minnkar bæði mæði og líkur á oföndun.
Rannsóknin okkar stóð yfir í fimm ár og voru alls 42 þátttakendur, 22 astmasjúklingar og 20 í heilbrigðum samanburðarhópi. Astmasjúklingarnir voru mældir þrisvar sinnum en heilbrigði samanburðarhópurinn tvisvar sinnum með 6 mánaða millibili. Astmasjúklingunum var kennd öndunaraðferðin eftir fyrstu 6 mánuðina.
Margvíslegur ávinningur
Eftir að hafa að notað aðferðina í hálft ár var astmahópurinn mældur aftur. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að þessi öndunaraðferð hefur mikinn á bata í för með sér, bæði fyrir sjúklinga og í víðari skilningi.
Minni lyfjanotkun
Notkun stuttvirkandi berkjavíkkandi pústa minnkaði um 85% og notkun langvirkandi pústa og sterapústa minnkaði um 50%. Það getur ekki annað en talist verulegur ávinningur, bæði fyrir lífsgæði fólks og út frá hagfræðilegu sjónarhorni.
Að anda minna getur minnkað mæði og aukið stjórn astmasjúkdómsins
Áhrif á lífsgæði fólust einnig í því að einkenni, eins og mæði, minnkuðu marktækt hjá astmahópnum eftir að hann hafði notað öndunaraðferðina. Þetta var mælt með spurningarlista og viljastýrðu öndunarstoppi, og mæðin var metin út frá því. Það kom í ljós að fólk með astma andaði ekki endilega meira í hvíld heldur voru öndunarstöðvar þeirra næmari fyrir áreiti. Ef það reynir á astmasjúklinga, andlega, líkamlega eða frá umhverfinu, þá fara þeir að anda meira en fólk sem er ekki með astma. Næmni öndunarstöðva minnkaði eftir aðferðina, sem leiddi til minni einkenna eins og mæði við ýmiss konar áreiti og stjórn astmasjúkdómsins varð betri.
Astmi er vaxandi vandamál
Astmi er algengasti langvinni lungnasjúkdómurinn hjá börnum og árið 2012 var áætlað að um 10% barna á Íslandi hafi greinst með astma og 5 – 7% fullorðnir. Astmi er vaxandi vandamál í heiminum og þróast hjá sífellt fleirum í alvarlegt ástand og hefur verri lífsgæði í för með sér. Það er áhyggjuefni að þrátt fyrir betri lyf, aukna lyfjanotkun og bætta greiningu hefur bæði alvarleiki og dánartíðni sjúkdómsins aukist á síðast liðnum tveimur áratugum.9 Þörf er á verulegum breytingum á meðferð við astma því annars má áætla að dánartíðni aukist enn frekar næstu 10 ár samkvæmt yfirlýsingum WHO. Þrátt fyrir yfirgnæfandi vísbendingar um hættu á ofnotkun astmalyfja, virðist ávísun á astmalyf vera of mikil og jafnvel óviðeigandi og getur verið orsök hárrar dánartíðni, sérstaklega hjá eldra fólki.10
Þessi rannsókn sýnir jákvæð áhrif Buteyko aðferðarinnar á astmastjórnun, þar sem hún dregur úr bæði einkennum og lyfjanotkun. Rannsóknin er sú fyrsta þar sem hvíldaröndun er mæld með tilliti til efnaskipta í rannsókn á öndunaraðferð og sem skýrir jákvæð áhrif hennar lífeðlisfræðilega . Það er mikilvægt að beina frekari rannsóknum að öndunaraðferðum sem þessum, til að skilja og meðhöndla astmasjúkdóminn á betri máta og til framtíðar.
Monique van Oosten heldur námskeið um þessa aðferð og geta áhugasamir haft samband við hana í síma 8998456 eða í gegnum tölvupóst: monique.v.oosten@gmail.com
Árið 2006 birtist greinin: Asmi og eðlileg öndun eftir Monique van Oosten sjúkraþjálfara og Buteyko-kennara: http://heilsuhringurinn.is/index.php?option=com_content&view=article&id=291:astmi-og-eelileg-oendun&catid=12:meefereir&Itemid=16
Tilvitnanir:
1. Chen W, FitzGerald JM, Rousseau R, Lynd LD, Tan WC, Sadatsafavi M. Complementary and alternative asthma treatments and their association with asthma control: a population-based study. BMJ Open 2013;3.
2. Slader CA, Reddel HK, Spencer LM, et al. Double blind randomised controlled trial of two different breathing techniques in the management of asthma. Thorax 2006;61:651-6.
3. Appendix to Global Initiative for Asthma-GINA. 2016. (Accessed November 19, 2016, at http://ginasthma.org/2016-online-appendix-global-strategy-for-asthma-management-and-prevention/.)
4. The British Thoracic Society Scottish Intercollegiate Guidelines Network. SIGN, 2014. (Accessed November 19, 2016, at http://www.sign.ac.uk.)
5. Bowler SD, Green A, Mitchell CA. Buteyko breathing techniques in asthma: a blinded randomised controlled trial. Med J Aust 1998;169:575-8.
6. Cowie RL, Conley DP, Underwood MF, Reader PG. A randomised controlled trial of the Buteyko technique as an adjunct to conventional management of asthma. Respir Med 2008;102:726-32.
7. Novozhilov A. Living without Asthma. 2 ed: Germany: Mobiwell Verlag; 2003.
8. Nishino T, Sugimori K, Ishikawa T. Changes in the period of no respiratory sensation and total breath-holding time in successive breath-holding trials. Clinical science (London, England : 1979) 1996;91:755-61.
9. WHO/Asthma. 2016. (Accessed November 19, 2016, at http://www.who.int/topics/asthma/en/.)
10. Sadatsafavi M, Tavakoli H, Lynd L, FitzGerald JM. Has Asthma Medication Use Caught Up With the Evidence?: A 12-Year Population-Based Study of Trends. Chest 2017;151:612-8.
Flokkar:Kjörlækningar, Meðferðir