Eftir 17 ár fannst örsökin.
Í viðtal við Hildi Jóhannsdóttur á RUV, fyrir tveimur árum kom, fram hvernig hún þjáðist í 17 ár af óskaplegum höfuðverkjaköstum sem voru greind sem mígreni. Hildur er fædd árið 1984, búsett í Vestmannaeyjum, gift og tveggja barna móðir. Hún er með BA próf í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri en vinnur við útflutning hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Hildur féllst á að segja lesendum Heilsuhringsins hvernig hún fékk bót á þessum alvarlegu veikindum.
Hér segir Hildur sögu sína:
Allt frá ellefu ára aldri var ég greind með mígreni. Í fyrstu vonuðumst við eftir því að þetta væri svokallað barnamígreni sem myndi eldast af mér, en svo varð ekki raunin. Í mínu tilfelli var það mígreni með áru. Ára þýðir að það komu fyrirboðar mígrenisins yfirleitt svona 15 mínútum áður en kastið hófst. Þessar árur hjá mér voru sjóntruflanir, tímabundin blinda, doði, erfiðleikar með mál og gífurleg birtu og lyktarfælni. Við reyndum allt í bókinni hvað orsök og afleiðingu varðar. Við tókum allt mataræðið og skoðuðum það, sumir geta t.d. ekki borðar lakkrís eða osta og því var alveg þess virði að prufa að taka út hina og þessa þætti til þess að sjá hvort að mígrenið myndi lagast að einhverju leyti. Þó ekki væri nema til þess að fá lengri tíma á milli kasta. Allt undir sólinni var prófað, en ekkert hafði áhrif.
Þetta hindraði mig alltaf að því leyti að þegar kast kom þurfti ég að leggjast fyrir. Það tók ekki langan tíma, kannski svona 10 mínútur þangað til ég var farin að kasta upp. Köstin entust allt frá 2-3 klukkustundum til nokkurra sólarhringa og aldrei hafa lyf virkað fyrir mig. Þannig að það var ekkert til að hjálpa mér í köstunum. Ég man vel eftir því að í eitt skiptið var ég búin að vera svo lengi með kast að það var farið að skoða það gefa mér næringu í æð.
Það að kasta upp í mígreniskasti er ekki á nokkurn hátt líkt því að kasta upp í ælupest. Uppköst við mígreni eru mun verri, þú ert ekki að kasta upp vegna þess að þér er illt í maganum heldur ertu að kasta upp vegna þess að þér er illt í höfðinu. En það er ekki allt slæmt við það að kasta upp við mígreni, það veit ég að allir mígrenisjúklingar þekkja vel. Því að spennulosun fylgir í smá stund eftir uppköstin og yfirleitt er þessi smá stund nóg til þess að maður getur sofnað. Ekkert er eins gott og að geta sofnað þó ekki nema í nokkrar mínútur. Síðan vaknar maður upp við það að þurfa að kasta upp aftur vegna verkja og svona gengur þetta fyrir sig þangað til kastið er yfirstaðið. Þegar þú hefur fengið slæmt kast þá ertu talsverðan tíma að jafna þig. Hjá mér var það þannig að mér fannst ég vera hæg og að heilinn í mér væri með harðsperrur. Þetta er besta leiðin fyrir mig til að lýsa þessu.
Svo einn ósköp tilbreytingarlausan dag árið 2012 var ég heima að græja kvöldmatinn handa fjölskyldunni. Ég var á fullu að elda þegar ég fann fyrir doðatilfinningunni sem sagði mér að nú væri kast á leiðinni. Það þýddi að ég þyrfti að slökkva á öllum eldavélarhellum, hringja í manninn minn svo að hann gæti komið heim og hugsað um börnin, finna svo ælu-dallinn og leggjast fyrir eins fljótt og hægt var. Ég man lítið eftir þetta, en ég hringdi víst í eiginmanninn og sagði honum fréttirnar. Hann spurði hvort að hann hefði tíma til að skjótast í búð og sagði ég það vera í góðu lagi. En eitthvað hefur ekki verið í lagi því að ég hringi aftur stuttu seinna og sagði honum að mér líði mjög illa og að hann ætti að koma heim strax. Þá var ég víst svo þvoglumælt og rugluð að manninum mínum leist ekki á blikuna og flýtti sér heim. Hann kom að mér liggjandi í rúminu þar sem ég kipptist öll til og hann náði engu sambandi við mig og sá að ég átti erfitt með andardrátt.
Hann hringir á neyðarlínuna og innan örfárra mínútna var ég á leið á spítalann í sjúkrabíl. Þegar þangað kom var mér gefið vöðvaslakandi til þess að reyna að vinna á krömpunum og morfín við verkjunum. Ég var tengd við hjartalínurit sem sýndi að hjartað í mér sló ekki eðlilega. Ég lá inni og kastaði upp í hálfan sólarhring og fékk svo að fara heim þegar ég var tilbúin. En vegna þess að hjartalínuritin sýndu eitthvað óeðlilegt var ákveðið að senda mig til Hjartar Kristjánssonar hjartalæknis sem notaði sónar til þess að skoða hjartað mitt. Hann tók eftir litlu gati á milli hjartahólfa.
Það þurfti að skoða betur og fór ég í vélindaómskoðun á Landspítalanum í lok árs 2012. Eftir að Hróðmar Helgason læknir hafði skoðað mig vildi hann fá nánari upplýsingar um stærð gatsins. Þessi rannsókn staðfesti það stórt gat á milli hjartahólfa að því þyrfti að loka með hnappi sem stundum er líkt við regnhlíf. Því er talað um regnhlífaaðgerð.
Ég ætla ekki að fara hér dýpra í tæknilegu atriðin, en ef fólk hefur áhuga á að kynna sér þennan hjartagalla sem er nokkuð algengur þá er hægt að googla „op milli hjartagátta“ eða ASD heart/ VSD heart.
Í febrúar kom kallið í aðgerðina og við hjónum brunum til Reykjavíkur þar sem við dvöldum í nokkra daga fyrir og eftir aðgerð. Aðgerðin gekk eins og í sögu enda er Hróðmar Helgason einn sá færasti í svona aðgerðum. Aðgerðin fer þannig fram að gert er lítið gat í nára hægra megin og stungið inn í bláæð sem þar liggur. Síðan er grannur leggur þræddur til hjartans og opinu lokað. Það þarf ekki neina skurðaðgerð og því inngripið ósköp lítið. Ég var fljót að jafna mig og eftirköstin engin.
Síðan leið og beið, vikur, mánuðir og loks ár og aldrei bólaði á mígreninu. Ég fór úr því að vera með tvö mígreniköst að meðaltali í mánuði í engin köst. Ég hef lagt ælu-dallinn minn á hilluna eins og íþróttamenn leggja skóna sína. Jú vissulega fæ ég stundum höfuðverk en ég kalla það hausverk eins og venjulegt fólk fær, sem sé ekki fólk með mígreni. Áður fyrr virkuðu engin lyf sama í hvernig formi þau voru. En nú er nóg að taka eina íbúfen og panodíl og hausverkurinn hverfur eins og dögg fyrir sólu. Ég get ekki lýst því hversu frelsandi það er að vera ekki á stöðugu varðbergi. Ég er ekki lengur birtufælin eða á nálum ef mikið stress eða álag er á mér. Þetta er ólýsanleg tilfinning og ólýsanlegt frelsi.
Það var viðtal við Hildi í þættinum Mannlegi þátturinn sem má heyra hér: http://www.ruv.is/frett/laeknadist-af-migreni-eftir-hjartaadgerd
Hér er viðtal við Hróðmar Helgason hjartalæknir: http://www.ruv.is/frett/greinileg-tengsl-hjartagalla-og-migrenis
Flokkar:Reynslusögur