,,Ellin eða öldrunin verður ekki umflúin en með bætiefnum er talið að hægja megi á þróuninni.“ Af um 20 kenningum um öldrun er ein sem ber hæst. Nefnilega kenning prófessors Harmans um skaðsemi myndefna frá innri súerfnisöndun í frumunum og hvernig þessi hvarfgjörnu og rafhlöðnu efni gangi í samband við efni í frumuhimnunum, við erfðaefnið í frumunum, við efni í hvatberunum og önnur efni í frymi frumunnar (m.a. hormóna og hvata). Þau valda skemmdum og þá öldrun. Þetta eru afleiðingar bruna eða oxunar súrefnis og næringar og byrjar á unga aldri.
Hvatberarnir í frumunni sjá um orkuvinnsluna en þær skemmdir sem myndefnin (oft kölluð sindurefni) geta valdið hlaðast upp og hefta starfsemi frumnanna. Þá geta skemmdir á erfðaefninu líka leitt til sjúkdóma. Auk þessa myndast ný efni eins og „lipofuscin“ (samanber ellibletti) sem fruman á erfitt með að losna við og hægja á allri starfsemi hennar og geta gert út af við hana. Þetta er nokkuð sem fylgir lífsstarfseminni og verður ekki umflúið.
En Harman taldi að með því að fylla frumurnar af andoxunarefnum sem hvörfuðust strax við myndefnin frá orkuvinnslunni mætti hægja á öldruninni því að andoxunarefnin (sindurvarar) gerðu þessi sindurefni óskaðleg. Harman, efnafræðingur og læknir, kom fram með þessi fræði fyrir réttum 60 árum. Fyrstu áratugina vakti þetta lítinn áhuga en er orðið vinsælt í dag sem „Free radical“-ógnin. Talið var að úr fæðunni væri ekki unnt að fá yfriðnóg af andoxunarefnum, einkum hjá hinum eldri sem borða minna, og því ekki annað vænna en sturta í sig fæðubótarefnum, vilji menn hægja á öldruninni.
Fróðlegt er að skoða hvað Harman sjálfur tók af fæðubótarefnum. Um áttrætt er það haft eftir honum og hefur hann því væntanlega byrjað um fertugt en hefði viljað byrja fyrr eða um 10 ára aldur. Tekið skal fram að öll þessi efni hafa margháttuð önnur verkefni í frumunum en hér voru þau ætluð sem viðbótarandoxunarefni til að hægja á ellinni:
Vít. E 150-300 A.E. (sama og I.U.) daglega og þá væntanlega náttúrulegt eða d-tocoferol. Vit. C 2000 mg, 4 sinnum 500 mg yfir daginn. Efnasmíðað er talið jafngott og náttúrulegt.
Beta-caroten 25000 A.E. (15 mg) annan hvern dag. Efni unnið úr plöntum og breytist í Vít. A í líkamanum. Það hefur engar eiturverkanir og því talið betra og virkara en Vít. A úr dýraríkinu auk þess sem áhrif þessara þriggja ku vera mest sameiginlega.
Coenzym Q-10 10-30 mg, best þrisvar sinnum 10 mg yfir daginn. Þessi hvati myndast í hvatberunum en mjög dregur úr framleiðslu hans með aldrinum. E.t.v. eldumst við þess vegna hraðar er við verðum eldri? Þetta er sterkt andoxunarefni og virkar líkt og vít. E á fituna.
Selen 100 míkrógrömm, tvisvar hálfur skammtur á dag. Þetta steinefni er andoxunarefni og gengur líka í samband við þungmálma sem síðan skolast út með þvagi.
Zink 30 mg, annan hvern dag. Mg 250 mg. Þetta steinefni er virkt í orkuvinnslu frumunnar, fyrir beinmyndun og nauðsynlegt fyrir ónæmiskerfið og myndun dópamíns í heila en virkar líka sem andoxunarefni. Ein tafla á dag af miðlungsstyrk fjölvítamína og steinefna án járns.
Höfundur er efnaverkfræðingur. Greinin er birt hér með leyfi höfundar en var áður birt í Morgunblaðinu
Höfundur: Pálmi Stefánsson
Flokkar:Næring