Lesblindir misskildir en tæknin getur hjálpað

Rætt við Snævar Ívarsson starfsmann Félags lesblindra

Snævar er fæddur í Reykjavík árið 1961 en uppalinn á  Akureyri. Þegar hann byrjaði í skóla 7 ára gamall kunni hann alla stafina og var mjög spenntur að byrja í skóla. Fyrst var það skemmtilegt en þegar lesfögin komu til sögunnar byrjaði martröðin og vanmátturinn varð algjör því að þekking á lesblindu var þá engin.

Snævar segir: ,,Ég varð fyrir stríðni og man eftir atviki á unglingsaldri þegar verið var ræða og undirbúa skólaferðalag. Ég stóð upp og lagði fram tillögu. Þá stóð annar upp og sagði: ,, Snævar þú skalt nú bara reyna að læra að lesa“. Við það lyppaðist ég niður og lét lítið fyrir mér fara á eftir. Trúlega hef ég verið harðasti dómarinn sjálfur af því að ég átti svo erfitt með lestur“.

Í skólanum fékk ég þau skilaboð að ég væri latur og að það yrði ekkert úr mér. En í sveitinni þar sem ég var á sumrin fékk ég allt önnur skilaboð þar var mér hælt og sagt að ég væri duglegur, klár og gott að hafa mig og að ég væri fljótur að læra. Bóndinn sá eftir mér þegar ég fór á haustin og þar leið mér líka vel.

Snævar heldur áfram: ,, Fimmtán ára á fullnaðarprófi í unglingaskóla féll ég í lesfögunum. En ég var hæstur og tók á móti verðlaunum í teikningu og smíðum. Þennan seinasta vetur í grunnskóla man ég eftir að við teiknuðum þrívídd með sirklum og lærðum rúmfræði sem lá mjög vel fyrir mér. Ég gekk á milli borða til að kenna og hjálpa hinum nemunum.

Ég var í uppáhaldi hjá smíðakennaranum og hann tók loforð af mér að læra húsgagnasmíði. Í þeim tilgangi ætlaði ég að skrá mig í Iðnskóla Akureyrar en til þess að komast þar inn þurfti ég að taka upp það sem ég féll í, í unglingaskólanum. Ég byrjaði í skóla um haustið en gafst upp um veturinn það var niðurlægjandi að vera eftir á í námi og með yngri krökkum.

Það lá beinast við að fara að vinna. Ég byrjaði í bakaríi og bakarinn vildi fá mig sem nema og bauð mér samning. En í vinnuslysi missti ég framan af fingrum á hægrihönd sem varð til þess að ekkert varð úr því. Eftir slysið lagði læknir til að ég fengi mér auðvelda innivinnu sérstaklega meðan ég væri að jafna mig í fingrunum.  Ég tók þetta nærri mér, og þetta truflaði mig við teikningarnar og vinirnir voru komnir lengra í skólanum. Pabbi stakk upp á því að ég færi til Reykjavíkur og fengi mér vinnu. Það varð úr og ég hóf vinnu í Herrahúsinu 17 ára gamall og svo kynnist ég stúlku. Pabba hennar fannst ekki mikið til slíkrar vinnu koma og útvegaði mér betur launaða vinnu.

Rétt rúmlega tvítugur stofnaði ég mitt eigið fyrirtæki sem var myndbandaleiga sem ég rak í 13 ár. Hjá mér var margt ungt fólk í vinnu og fyrirtækið fékk oft bréf og upplýsingar sem ég þurfti að lesa. Vegna minna leserfiðleika lét ég starfsfólkið lesa bréfin upphátt. Þegar það spurði af hverju ég léti lesa upphátt, sagði ég: ,, þetta er áríðandi og ég vil vita að þið hafið lesið þetta“. Þannig komst ég að því hvað stóð í bréfunum. Mörgum árum seinna hitti ég stúlku sem vann hjá mér í myndbandaleigunni. Hún sagði: ,,Nú veit ég af hverju þú lést okkur lesa upphátt fyrir þig“. Þá var hún orðið meðvituð um vandamál sem tengjast lesblindu.

Árið 1992 þegar ég var 31 árs gamall heyrði mamma viðtal í útvarpinu við tvær konur sem sögðu að yfir stæði lestrarátak á vegum menntamálaráðuneytisins. Það var í tíð Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra. Ég fór strax og las fyrir umræddar konur sem sögðu: ,, Það er mjög áberandi hvað þú ert lesblindur“. Tveimur árum seinna árið 1994 var stofnað félagið Dyslexia sem  ég gerðist félagi í. Rekstur félagsins gekk illa af því að fjármagn var takmarkað, þannig að félagið var sameinað Skrifstofu heimila og skóla og þar lognaðist það útaf.

Félag lesblindra var stofnað 26. mars árið 2003

Í byrjun var félagið veikburða vegna fjárskorts og þjónustan lítil. Við vildum auka þjónustuna, kynna málefnið og koma því á framfæri hvernig nútíma tækni getur komið til hjálpar. Með mikilli eljusemi hefur okkur tekist að afla fjár til að geta haldið skrifstofunni opinni. Fjárhagur félagsins byggist á sölu harðfisks,  jólavöru (kortum, merkimiðum, litlum seglum með jólasveinunum) og fræðslumyndböndum. Þyngst hafa vegið styrkir góðviljaðra fyrirtækja og stofnana og aðild okkar að Öryrkjabandalagi Íslands. Svo hefur formaður félagsins árumsaman lagt  félaginu til frítt húsnæði.

Tæknin getur auðveldað líf lesblindra

Félagsmenn geta panta tíma og komið með tölvu og síma og við setjum í þau app og talgervil að kostnaðarlausu og komum fólki á stað með notkun þess. Í framhaldi er hægt að vera í sambandi við félagið til að fá frekari aðstoð. Margir foreldrar koma vegna barnanna sinna og margir krakkar úr menntaskólum kom til okkar. Við setjumst niður með fólki og reynum að greina þarfir þess og segjum frá hinum ýmsu aðferðum sem þekktar eru en mælum ekki með neinni sérstakri því að mjög misjafnt er hvað hentar hverjum og einum. En einu hef ég tekið eftir að er sameiginlegt með okkur lesblindum. Við höfum ekki jafnvægi til að standa á öðrum fæti og beygja hinn fótinn að hné.

Önnur þjónusta sem er í boði

Í nokkur ár höfum við farið með ókeypis fræðsluerindi í skólana, yfirleitt fyrir áttundabekk. (skólinn greiðir ferðakostnað).  Erindin eru fyrir alla ekki bara lesblinda, markmiðið er að allir viti hvað lesblinda er og hvernig hún lýsir sér. Slík fræðsla getur komið öllum vel og komið í veg fyrir stríðni og einelti. Stöku skóli hefur lagt mikla áherslu á þessa fræðslu t.d. fengið fyrst erindi fyrir kennarana, síðan hvern áttundabekk og að lokum fyrir foreldrana. Ég hvet krakkana til að láta ekkert stöðva sig heldur leita sér aðstoðar og leita í það sem þau hafa gaman af að gera.  Því að hefði ég á unglingsárum komist í Iðnskólann hefði ég örugglega farið lengra t.d. í húsgagnahönnum eða arkitektúr.

Ég hef einnig farið með námskeið víðsvegar um landið þar sem eru endurmenntunarstöðvar fyrir fullorðið fólk.

Þegar haldinn var dagur lesblindu fórum við hringinn í kringum landið. Á einum staðnum var kona sem sýndi okkur mikinn áhuga og spurði: ,, Þurfa lesblindir ekki bara að leggja aðeins meira á sig og  æfa sig meira?“. Ég svaraði því til að ég bæði ekki um að okkur væri hlíft, en lesblinda væri líkamlegs eðlis og bað konuna að koma upp á svið og taka litla lesblindu æfingu. Hún samþykkti það. Ég stóð við súlu og teygði höndina hátt upp og studdi fingri á súluna og sagði: ,,Teygðu þig hingað upp“. Konan svaraði: ,, Ég næ ekki svona hátt þú ert mikið hærri en ég“. En ef þú ert dugleg að æfa þig heldurðu þú þá ekki að þú náir upp? Svaði ég. Viðstaddir höfðu gaman af.

Fyrsta baráttumálið okkar var Hljóðbókasafnið

Mér leið alltaf dálítið illa yfir því að fá lánaðar hljóðbækur hjá Blindrabókasafninu vegna þess að mér fannst ég væri að taka frá blindum. En svo tók nýr framkvæmdastjóri við safninu árið 2009 og sá að lesblindir voru stór hluti lánþega og breytti nafninu í Hljóðbókasafn Íslands eins og við vorum búin að leggja áherslu á.  Nú eru lesblindir lánþegar mun fleiri en þeir sem blindir eru. Fái fólk bækur hjá Hljóðbókasafninu er hægt að hlusta á þær með appi í símanum“.

Skrifstofa Félags lesblindra er opin frá kl. 9 til 16.00 daglega.

Ármúli 7 B,  108 Reykjavík,

sími: 534 5348  http://www.fli.is/ , netfang:  fli@fli.is



Flokkar:Greinar

Flokkar/Tögg, , , ,

%d bloggers like this: