Ekki má stoppa lyfjasendingu til einstaklingsnota frá EES landi

Þannig er mál með vexti að fyrir nokkrum árum þá átti ég við heilsuörðugleika að stríða og hafði gert um nokkuð skeið. Ég hafði á þessum tíma farið á milli helstu sérfræðinga hérlendis og ekki fengið neina greiningu, né bót minna meina. Mig hafði lengi grunað að um væri að ræða skort á ákveðnu hormóni, en hafði fengið blóðprufur gerðar hérlendis sem sýndu ekkert athugavert. Ég var ekki alveg sannfærður um niðurstöður þessara blóðrannsókna vegna þess að ég hafði heyrt að munnvatnsmælingar væru nákvæmari til að greina þetta tiltekna vandamál.

Ég fékk ekki munnvatnsmælingar framkvæmdar hérlendis og sendi því prufur út til Svíþjóðar í greiningu. Stuttu seinna fékk ég niðurstöðurnar til baka og reyndist grunur minn réttur, ég var með skort á ákveðnu hormóni. Ég eyddi svo hálfu ári eftir það í að flakka á milli lækna hérna heima með niðurstöðurnar frá Svíþjóð í þeirri von að fá meðhöndlun, en án alls árangurs.

Eins og gefur að skilja þá varð ég ansi vonsvikinn og fór að kynna mér hvað ég gæti gert í þessu. Þá uppgötvaði ég svolítið merkilegt sem ég veit ekki hversu margir vita raunverulega af. Ég komst nefnilega að því að vegna þess að íslendingar eru meðlimir í EES þá leyfist öllum þeim sem búa innan EES að leita læknis í þeim löndum sem því tilheyra. Ég hélt því til Svíþjóðar (meðlimur í EES) á fund læknis sem ég hafði heyrt góðar sögur af. Hann tók vitanlega mark á niðurstöðum sænsku rannsóknarinnar og setti mig rakleiðis á lyf.

Það sem meira er, að vegna þess að hann er starfandi læknir innan EES þá gat lyfjastofnun ekki meinað mér að flytja þessi lyf inn til landsins til eigin nota, svo framarlega sem ég væri með læknabréf. Ég hef því getað fengið þessi lyf send hingað í gegnum tollinn, án þess að hægt væri að stoppa sendingarnar. Þessi lyf eru annars ófáanleg hér á landi.

Þetta er eitthvað sem ég held að fáir viti af og gæti reynst nauðsynlegt fyrir suma að vita vegna hafta á sumum lyfjum hérlendis.  Vonandi verður þessi vitneskja allavega einhverjum til gagns á leið sinni til betri heilsu.

Höfundur : Haraldur Björn Sverrisson , grein skrifuð árið 2014.Flokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , ,

%d bloggers like this: