Níu persónuleikar – með formgerðaflokkun
Á Íslandi er hafin kennsla í Enneagramm fræðum, einum áhrifaríkustu sjálfsþroska-, samskipta- og samvinnuverkfærum sem notuð eru í heiminum í dag. Þekking á Enneagramm-kerfinu gefur okkur einstakt tækifæri til að skilja hvers vegna við hugsum og hegðum okkur eins og við gerum. t.d. þegar við erum stressuð eða þegar við erum í öruggum aðstæðum, hvernig við höndlum ágreining í vinnu og einkalífi og tímamörk. Hver er það sem hefur stuttan kveikjuþráð? Hvern dreymir um að geta bara legið á sófanum? Hver er fullur af hugmyndum og hver framkvæmir án þess að hugsa?
Enneagramm fræðin eru ein áhrifaríkustu sjálfsþroska-, samskipta- og samvinnuverkfæri sem notuð eru í heiminum í dag. Þekking á Enneagramm-kerfinu gefur okkur einstakt tækifæri til að skilja hvers vegna við hugsum og hegðum okkur eins og við gerum. t.d. þegar við erum stressuð eða þegar við erum í öruggum aðstæðum, hvernig við höndlum ágreining í vinnu og einkalífi og tímamörk. Hver er það sem hefur stuttan kveikjuþráð? Hvern dreymir um að geta bara legið á sófanum? Hver er fullur af hugmyndum og hver framkvæmir án þess að hugsa?
Nafnið Enneagramm er dregið af gríska orðinu ennea, sem þýðir níu og gram, sem þýðir gerð/módel. Það má útleggja á íslensku sem: níu-punkta-módel eða níu persónuleikatýpu-módel.
Enneagramm er nútímaleg aðferð til sjálfsskoðunar og þroska manneskjunnar. Aðferðin er talin af mörgum eiga ævagamlan uppruna og benda á að t.d. sjálft táknið er yfir 2.500 ára gamalt. Vitneskjan um virkni og áhrif táknanna var þekkt sem munnmæli og einungis kennd munkum og innvígðum. Sá fyrsti í hinum vestræna heimi sem kenndi aðferðina til sjálfsþroska var George Gurdjiiff. Hann var af grísk- armenskum uppruna og alinn upp sem rússneskur ríkisborgari, ekki er vitað nákvæmlega hvenær hann fæddist en það mun hafa verið á bilinu 1866 til 1872. Gurdjiiff er talinn hafa fyrstur notað Enneagramm í áttina að þeirri mynd sem það er í dag. Um margra ára skeið ferðaðist Gurdjiiff ásamt fleirum um heiminum og viðaði að sér vitneskju um heimspeki þess tíma. Til lífsspeki hans er rakin kenningin um að líkami, sál og hjarta tengist saman.
Oscar Ichazo fæddur árið1931 í Bólivíu hélt áfram að þróa Enneagramm eins og við þekkjum það í dag. Oscar hafði lært í leynilegum dulspekiskóla sem talið er að hafi verið sami skóli og fyrirrennari hans Gurdjiif nam við. Oscar Ichazo hafði mikinn áhuga á mannshuganum og alheiminum. Hann byrjaði í kring um árið 1950 að lýsa tengingunni á milli Enneagramms og atferlis manna. Hann var áhrifavaldur og frumkvöðull hvatti aðra sérfræðinga í Enneagramm til að kanna hugsanlegt samhengi milli táknanna og hegðunar hinna mismunandi persónugerða. Bæði Gurdjiieff og Oscar höfðu heimspekilega nálgun að Enneagramminu.
Enneagramm var vísindalega rannsakað upp úr árinu 1970 af geðlækninum Claudio Naranjo sem var fæddur 1932 í Chile. Hann þróaði Enneagrammið með vísindalegri nálgun. Claudio beindi sjónum að þróun sjálfsmyndarinnar (egósins). Aðferð hans fólst í því að safna fólki í hópa, sem virtist hafa líka persónugerð og var með áþekkt hugsanaferli og sannfæringar. Með því að leggja mikla vinnu í að tengja saman númerin í Enneagrammi og heimspeki Oscars Ichazo ásamt geðfræðilegri nálgun byrjaði aðferðin að þróast enn frekar að því hvernig við notum það í dag. Claudio byrjaði með vinnubúðir í Enneagrammi og hafði í gegnum það starf mikil áhrif á aðra sérfræðinga í faginu. Það leiddi til þeirra fjölda orða, blæbrigða og lýsinga á atferli og hugsunarhætti manngerðanna.
Hvað er Enneagramm?
Hið hefðbundna Enneagramm er byggt upp af þremur þáttum (elementum) eða táknum sem hafa verið þekkt í yfir 2500 ár og hafa ákveðna merkingu hvert fyrir sig.
HRINGURINN – stendur fyrir einingu þ.e: hið einstaka, hið fullkomna, felur í sér og útilokar. Bindur alla punktana saman.
HEXAGRAM hefur með þróun að gera. Sexkanturinn bindur saman punktana 1, 4, 2, 8, 5 og 7. Hann stendur fyrir hið óendanlega og breytilega.
ÞRÍHYRNINGURINN – stendur fyrir þrjú öfl sem halda hvert öðru í skefjum: skapandi, eyðileggjandi og hlutlaust. Hann bindur saman punktana 3,6 og 9.
Þríhyrningar
Þríhyrningar binda saman týpurnar 9 í 3 undirhópa sem hver hefur 3 týpur. Grunnþríhyrningarnir eru 3 og byggjast á ákveðinni greind (intelligens) og tengjast: eðlishvatagreind líka nefndar kroppstýpur sem eru; 8, 9, og 1 –tilfinningareind – hjartatýpur; 2, 3 og 4 og andleg greind – höfuðtýpur; 5, 6 og 7. .
Í Enneagramkerfinu eru 14 mismunandi þríhyrningar sem hver fyrir sig hefur mismunandi merkingu og þróunarmöguleika á ýmsum sviðum eins og t.d. hvernig við hegðum okkur félagslega og hvernig við leysum úr og höndlum ágreining.
Enneagramm – móelið, vængir og pílur.
Hringurinn sýnir samband punktanna, eða týpanna og sambandið þeirra á milli. Hver punktur er í sambandi við punktana við hliðina og getur verið undir áhrifum þeirra. Þannig getur t.d. týpa 7 verið undir persónuleikaáhrifum frá týpu 6 eða 8 þar sem hún er á milli þeirra. Þessi tenging kallast vængir og er þá talað um 7u með annað hvort 6væng eða 8væng og er þá ráðandi vængur sá sem gefur 7unni persónueinkenni sem geta verið svo sterk að viðkomandi líkist væng týpunni mjög í atferli. Stundum getum við verið undir áhrifum beggja vængjanna en oftast er annar þeirra meira ríkjandi en hinn. Þetta gerir það að verkum að við erum ekki bara ein týpa heldur tengist allur hringurinn á einhvern hátt og orsakar að við erum mismunandi manngerðir þrátt fyrir sameiginlega grunntýpu. Grunntýpan gefur mér að viðbrögð mín, hugsanamynstur og atferli hefur ákveðið mynstur sem liggur í eðli mínu og gerir að mér finnst ýmislegt eðlilegt og sjálfsagt sem öðrum manngerðum finnst ekki .
Enneagrammið gefur líka skýringu á þeim breytingum sem verða á persónuleika og hegðun okkar þegar við annars vegar erum í öruggum aðstæðum og hins vegar þegar við erum stressuð og undir álagi eða tímapressu. Þegar við erum í vinnu eða í sambandi þar sem við finnum fyrir öryggi slökum við betur á og tökum niður vörnina okkar. Pílurnar í hexagoninu sýna okkur hvernig við nálgumst og hvert við „förum“ þegar við erum örugg og þegar við erum stressuð . Þegar ég sem 7a er örugg fer ég á móti oddi næstu pílu sem bendir á minn öryggispunkt sem er punktur 5. En þegar ég er óörugg og stressuð fer ég með pílunni, fylgi línunni og lendi á óöryggispunkti mínum sem er 1. Þar sem ég hef meiri kraft þegar ég er örugg get ég hæglega farið á móti oddinum… get barist gegn straumnum – en þegar ég er stressuð og í ójafnvægi dett ég með pílunni… hef ekki orku og flýt með straumnum.
Pílurnar kallast líka fætur og þar sem ég er týpa 7 hef ég örugga fótinn minn í 5unni og stress fótinn í týpu 1. Fæturnir segja til um viðbragðamynstur mitt í jafnvægi og í ójafnvægi. Þannig tek ég það besta frá 5unni (jafnvægistýpunni) þegar ég finn fyrir jafnvægi og tek svo það versta frá týpu 1 (stresstýpunni) þegar ég fer í ójafnvægi.
Enneagramm sem sjálfsþróunarverkfæri
Fyrir utan ofannefnt eru dýpri módel, undirtýpur og atferlisþrep sem gefa okkur innsýn í á hvaða þrepi atferli okkar liggur. Erum við heilbrigð, óheilbrigð eða mitt á milli (flest okkar eru hér og sveiflast milli þrepa). Það fyrsta sem þarf að gera er að finna sína eigin týpu og getur það tekið mislangan tíma og fer oft eftir týpum. Sumir eru fljótir að átta sig á grunntýpunni sinni því þeir hafa greinileg karaktereinkenni týpunnar og aðrir þurfa lengri tíma þar sem þeir geta verið undir mismunandi áhrifum frá öðrum týpum. Þá er gagnlegt að skoða innbyrðis tengingu við aðrar týpur. Við höfum oft sterka tengingu við 3 týpur og ef stuðningstýpurnar eru sterkar getur verið að einstaklingurinn upplifi að hann tilheyri bæði þessari týpu og annarri. Þetta gerir leitina að „sjálfum mér“ skemmtilega og spennandi.
Enneagrammið skilur sig frá öðrum persónuleika-kerfum að því leyti að könnuðurinn/ sá sem sækir inn á við, þarf sjálfur að finna sína grunnhegðun, hugsun og mynstur. Það er enginn sem getur sagt þér hvort þú ert þessi týpa eða hin – vinnan liggur hjá þér.
Hvernig getur Enneagram coaching/ markþjálfun hjálpað?
Vitneskjan um Enneagrammið gefur markþjálfanum möguleika á að spyrja spurninga sem fara undir yfirborðið á almennum og dagsdaglegum vandamálum og markmiðum. Markþjálfinn hefur tækifæri til að vinna með þriðja og fjórðastigs markþjálfun með því að afhjúpa og fá upp á yfirborðið undirliggjandi ástæður fyrir því að markmiðum er ekki náð, vandamál ekki leyst eða endurtekin „verkefni“ og mynstur setja hindrun á veg könnuðar.
Þar sem Enneagrammið gefur aðgang að og dýpri skilning á hugsana og hegðunarmynstrum hverrar týpu er byrjað á að aðstoða einstaklinginn við að finna sína grunntýpu og aðstoða hana þaðan til að komast upp úr og út úr því boxi sem hún hugsanlega hefur verið föst í.
Markþjálfi sem vinnur með Enneagram-markþjálfun hefur yfir að ráða verkfærum sem hjálpa honum að nálgast könnuðinn frá mörgum mismunandi sjónarhornum. Enneagram-markþjálfi getur spurt hnitmiðaðri og dýpri spurninga sem auka líkur á að ná í kjarna drifkraftsins/ ástríðuna sem verður meðvirkandi þáttur í varanlegum breytingum. Þar sem unnið er með dýpri lög persónuleikans leiðréttum við um leið þá lífssýn sem hefur áhrif á óæskilega hegðun og viðbrögð. Það hefur svo á ný áhrif á merkingu hegðunar og viðbragða og jafnvel að þau missi áhrifamátt sinn og er því ekki vandamál lengur. Þannig skapast líf í jafnvægi, með dýpri meiningu og könnuðurinn getur einbeitt sér að því sem virkilega skiptir máli og sett sér markmið eftir því.
Enneagramm-markþjálfi hefur spurningar sem eiga að auðvelda könnuðinum að koma auga á hvaða týpa hann er og hvernig viðbragðamynstri hann hreyfir sig eftir.
Enneagramm-markþjálfun fyrir stjórnendur og uppbyggingu teymis.
Hvarvetna í heiminum í dag eru stjórnendur og leiðtogar sem nota Enneagram-markþjálfun sér til stuðnings í sjálfsþróun sinni. Leiðtogi sem þekkir sjálfan sig og getur stjórnað viðbrögðum sínum þannig að þau verði honum sjálfum og öðrum til uppbyggingar og framdráttar stendur skrefi framar. Í stjórnun sinni nær hann ekki einungis því besta fram í sjálfum sér heldur sér hann einnig teymi sitt í nýju ljósi. Hann fær betri yfirsýn yfir hvernig hann getur skipað bestu teymin til hinna ýmsu verka. Hann getur sett sjálfan sig og aðra á réttan stað. Hann veit við hverju hann getur búist og hvers hann getur vænst af starfsfólkinu sínu. Hann veit að hann setur ekki týpu 5 (rannsakandann) í gestamóttökuna þar sem týpa 5 er frekar innhverf og lítið fyrir að vera innan um fólk, líkar að vinna verk þar sem hann/hún getur verið ein/n grúskað og viðað að sér upplýsingum. Í þetta starf myndi „Enneagram-stjórnandi“ setja t.d. týpu 2 (hjálparann) sem líkar að aðstoða fólk, er brosandi og elskar að fá viðurkenningu annarra. Með því að þekkja týpurnar er hægt að finna réttan mann á réttan stað – allir eru „heima“ og líður vel sem eykur vinnu-lífs-gleði og afkastagetu og skapar ,,win-win“ stöðu.
Með því að lesa eftirfarandi kynningu á hinum 9 mismunandi Enneagrammtýpum getur þú fengið hugmynd um hvar þú átt heima í Enneagramm hringnum – eða hvar þú átt ekki heima. Þú getur mjög líklega útilokað 6 týpur og svo verið í vafa um 3 týpur. Það er eðlilegt. Sumir finna sína týpu nánast um leið en aðrir nota lengri tíma. Sættu þig við ef þú finnur innri mótþróa gegn því að vera sett/ur í kassa, það er líka eðlilegt. Það eru oft fyrstu viðbrögð fólks áður en það áttar sig á að Enneagramm hjálpar okkur út úr kassanum. Í textanum hér fyrir neðan er fjallað um mismunandi eiginleika fólks/týpa, sem búa í okkur öllum. Hjá hverjum og einum munu sumir eiginleikar vera meira ráðandi en aðrir. Athugið! Engin týpa er betri en önnur þær hafa bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar…
Lýsing á Enneagramm-týpunum:
1) Þessi týpa bregst oft fljótt við af innsæi og býr yfir eðlishvöt sem stýrir mórölskum áttavita okkar. Það er einungis hægt að gera hlutina á einn hátt, einfaldlega á réttan hátt. Annað hvort eru hlutirnir réttir eða rangir, það er ekkert þar á milli. Elskar að fara ofan í smáatriðin, bæði þegar á að útskýra hlutina eða framkvæma. Er stundvís. Líkar ekki að láta segja sér að hann/hún hafi gert vitleysu eða mistekist. Eiga auðvelt með að leiðrétta hjá öðrum. Að hafa stjórn – yfirsýn – er mikilvægt.
2) Þessi týpa bregst oft við með tilfinningu. Er góður hlustandi og hefur alltaf tíma fyrir aðra. Setur eigin þarfir til hliðar til að hjálpa öðrum. Líður ekki vel með að aðrir geri eitthvað fyrir þá. Á erfitt með að segja nei. Það er mjög mikilvægt að eiga vini og kunningja í kringum sig. Getur unnið mikið. Viðurkenning og hrós skiptir miklu máli.
3) Þessi týpa bregst fljótt við með tilfinningu, en er um leið dugleg að setja tilfinningarnar til hliðar og vinna mjög markvisst. Hefur hvata til að vinna af skilvirkni og til að ná árangri. Er góð til að skipuleggja og koma sér að verki. Líkar vel að koma hlutunum í verk og/ eða eiga fallega hluti þannig að aðrir taki eftir þeim. Viðurkenning er mikilvæg.
4) Þessi týpa bregst við með tilfinningu. Ber sig saman við aðra og er þess vegna oft einstök í háttum og klæðaburði. Elskar rómantík, fegurð og nálægð/kraft. Getur vel þolað örlitla dramatík í loftinu og skapar hana oft sjálf. Hefur oft hugmyndaauðgi og listagáfu. Hugsar oft um fortíðina.
5) Hugsar og gruflar mikið. Er oft sérfræðingur á sínu svið. Er oft ein og notar tímann fyrir áhugamál sín. Leita eftir upplýsingum og líkar vel að viða að sér vitneskju. Venjulega ekki veisluglöð, innhverf að eðlisfari og getur átt í erfiðleikum með að vera félagsleg í langan tíma í einu. Er hlutlæg, kurteis og vingjarnleg. Hefur ekki þörf fyrir stöðutákn eða að vera í tísku.
6) Notar mikinn tíma til að hugsa og er mjög greinandi. Líður best með fastar reglur og rútínu í vinnu. Getur verið ábyrðarfull, hlédræg en líka lífleg, hugmyndarík og skemmtileg. Getur haft tilhneigingu til að sjá „drauga“ í hverju horni og „worst-case“ hugsun. Getur átt erfitt með að taka ákvörðun, efinn um á ég, á ég ekki tekur mikið pláss. Er góð í að sjá hlutina frá fleiri en einu sjónarhorni. Áreiðanleiki og traust eru mikilvæg þemu til að hún finni fyrir öryggi.
7) Hugsar og greinir fljótt – hugsar stundum of lítið og getur verið hvatvís, til mikillar gleði fyrir suma en ekki aðra. „Dontworry, behappy“ er hennar mottó. Lífið á að vera skemmtilegt, eru bjartsýnir, orkumiklir einstaklingar sem sjá möguleika í öllu. Hafa kunnáttu um margt og áhuga á mörgu. Oft mjög fjölhæfir.
8) Bregst við með innsæi. Virkar oft sem leiðtogi með sterkan vilja. Segir hlutina hreint út og vill fá hrein og bein svör. Getur haft stuttan þráð og getur reiðst fljótt. Getur verið mjög fyrirferðamikil og elskar að keppa. Þessir einstaklingar geta verið áleitnir í því tilliti að gera hlutina eins og þeir vilja. Líkar að hafa völd, stjórn, hollustu og réttlæti.
9) Bregst við með innsæi. Er þægileg í umgengni og hefur góða nærveru. Talar oft hægt. Er bjartsýn. Sér alltaf það besta í fólki og aðstæðum. Getur stundum fundið á eigin skinni hvernig aðrir hafa það. Getur verið treg, óvirk og átt erfitt með að vita hvað hún sjálf vill. Annarra álit getur haft meira vægi en þeirra eigið.
Þegar þú nú hefur lesið um nokkur persónu (karakter) einkenni týpanna getur þú þér til gamans hugleitt hvers konar störf gætu hentað hverri týpu…
Týpurnar hafa mörg nöfn og því höfum við hér talað um númerin. Hér fyrir neðan eru dæmi um nöfn sem finna má á hverja týpu og má oft lesa úr nafninu sterkustu einkennin:
- 1 Fullkomnunarsinni – Siðbótamaður –Skipuleggjandinn – Dómarinn
- Skynsamur, reglufastur, sjálfsstjórn
- 2 Hjálparinn – Aðstoðarmaður – Gefandinn – Tengslamiðlarinn
- Umhyggjusamur,örlátur, eigingjarn
- 3 Framkvæmari – Reddarinn – Hvatinn – Driffjöðrin
- Aðlögunarhæfur, metnaðarfullur, “snobbaður”
- 4 Rómantíkur – Einstaklingasinni –Dramatíkur – Sérlundi
- Innsæi, fagurfræðilegur, sjálfhverfur
- 5 Athugandi – Rannsakandinn – Sérfræðingurinn – Hugsuðurinn
- Upplýsandi, sjálfstæður, vitur/ endurnýjandi
- 6 Gagnrýnandi – Efasemdamaður – Ábyrgi – Tryggi
- Trygglyndur, áhugasamur, árvökull
- 7 Hugmyndasmiður – Skipuleggjandinn – Dreymandinn – Ævintýramaður
- Bjartsýni, dugnaður, hvatvísi
- 8 Áskorandi – Leiðtoginn – Ögrandi – Framlínumaður
- Sjálfsöryggi,ákveðni, stjórnsemi
- 9 Friðarsinni – Heilarinn – Sáttasemjarinn – Aðlagandi
- Mótækilegur, jákvæður, sáttur
Hvernig get ég byrjað á að finna mína týpu?
Best er að byrja að lesa um týpurnar og taka netpróf inn á síðum sem bjóða upp á próf. Grunnprófin eru oftast ókeypis og má finna t.d. á: http://www.coreprofile.com/ á ensku og dönsku (verður hugsanlega líka á íslensku 2014)
http://www.makani.com/ og http://www.thinkaboutit.dk/
Einnig er hægt er að nota Enneagram- markþjálfi sér til aðstoðar og hafa má samband við Hrefnu Birgittu NLP-Enneagramcoach hjá bruen@bruen.iswww.bruen.is
Höfundurinn: Hrefna Birgitta Bjarnadóttir er alþjóðlega vottaður NLP- Enneagramm kennari HR-Coach, Mannauðs- og starfsþróunarþjálfi. 2013
Flokkar:Greinar og viðtöl