Gréta Jónsdóttir, einstaklings-, hjóna- og fjölskylduráðgjafi segir hér frá hvernig ,,hjartanærandi uppeldi“ hjálpaði syni hennar eftir mikla erfiðleika í æsku. Hún segir sögu þeirra gott dæmi um hve auðvelt sé að skemma barn með röngum ákvörðunum án þess að átta sig á því fyrr enn um seinan. Sem betur fer leystust málin eftir að hún lærði þessa einstöku uppeldis meðferð.
Nú fær Gréta orðið:
„Þegar drengurinn var 5 ára gamall fluttum við og skiptum um hverfi. Hann var settur í lítinn einkaskóla vegna þess að ég hafði slæma reynslu af skólakerfinu vegna eldri barna minna. Þegar hann hætti í leikskólanum fóru öll hin börnin, sem hann hafði alltaf verið með, í annan skóla. Ég gerði mér enga grein fyrir því hvað ég var að gera barninu með að taka hann úr örygginu frá öllum vinum hans,draumum og væntingum.Fram að þessum tíma hafði hann verið ósköp eðlilegur, fjörugur, glaður og skemmtilegur drengur. Byrjunin í nýja skólanum gekk mjög vel,en smámsaman varð hann uppreisnargjarn og erfiður, samt vaknaði hann á morgnana, fór í skólann og lærði.
Fleira en flutningurinn angraði barnið á þessum tíma því að það var mikill óstöðugleiki á heimilinu, ósamkomulag hjá okkur foreldrum hans og oft rifist. Hann hafði heldur ekki það öryggi í skólanum sem hann þurfti á að halda, óþolinmæði og kennaraskipti. Hegðunar vandi hans óx eftir því sem árin liðu og þegar hann var 10 til 11 ára var hann kominn í vandamál og afbrot. Það má segja að á þessum árum hafi hann verið meira í aftursætinu á lögreglubíl en að leik, kominn í félagsskap sem fáir foreldrar vilja að börnin þeirra komi nálægt.
Leitaði lengi að uppeldisaðferð sem gæti leyst vandann
• Fyrst var það námskeið í uppeldisaðferð sem nefnd er SOS. Það var gott námskeið en aðferðirnar dugðu ekki á strákinn minn.
• Næst lærði ég í Englandi aðferðina ,,Einn, tveir, þrír töfrar“, hún virkaði fyrir barnið á tímabili eða þangað til að hann var orðinn það sterkur að ég réði ekki við að setja hann inn í herbergi og halda honum þar. Einn, tveir, þrír töfra kerfið byggir á því að þegar á að vara barnið við rangri hegðun er sagt; þetta er einn. Ef barnið heldur áfram sömu hegðun er sagt; þetta er tveir. Ef barnið breytir samt ekki um hegðun er sagt; þetta er þrír og þá veit barnið að það getur ekki gengið lengra og það er sett inn í herbergi. Hegningin felst í því að barnið er látið vera í herberginu jafn margar mínútur og aldur þess segir til um. Til dæmis er tveggja ára inni í herbergi í tvær mínútur, en níu ára inn í níu mínútur. Þessi uppeldisaðferð endaði með því að skólinn heyrði af þessu og kvartaði til Barnaverndar.
• Þá var ég skikkuð á námskeið í þjálfun Foreldrafærni (PMT Parent Management Training). hjá skólaskrifstofu Hafnarfjarðar. Sú aðferð hafði ekkert að segja heldur og ég var alveg ráðþrota. Hegðun drengsins bara versnaði.
• Vegna vandamála drengsins kom að því að við þurftum að leita til BUGL – barna- og unglingageðdeildar. Í tengslum við það fór ég á eitt uppeldisnámskeiðið í viðbót. Það byggir á svipuðum aðferðum og hin námskeiðin sem ég hafði áður farið á og dugði ekkert frekar.
Öll þessi námskeið sem hér hafa verið nefnd horfa á það jákvæða í barninu og að gefa því viðurkenningar, ásamt föstum reglum og föstum ramma. Síðan eru refsingar ef barnið brýtur af sér, þær eru flestar slæmar. T.d. var okkur sagt á einu námskeiðinu að ef barnið gegndi ekki,þá ættum við að taka frá því uppáhalds leikfangið. Það hafði ekki jákvæð áhrif á son minn, sem er frakkur, duglegur og útsjónarsamur, hann bara fann sér annað til að leika sér að og leit ekki við leikfanginu,sem hafði verið í uppáhaldi, þegar komið var með það aftur. Að horfa á það góða var ekki nógu markvisst og viðurkenningarnar voru ekki nægilega nákvæmar til að heilinn tæki mark á þeim og höfðu því lítið að segja.
Kaflaskil og lausn fundin sem skilaði góðum árangri
Í námi mínu í fjölskyldu- og hjónaráðgjöf í Newbold College háskólanum í Englandi fengum við lista yfir bækur sem okkur var ráðlagt að kaupa. Þar rakst ég á bókartitilinn: ,,Umbreyttu erfiðu barni – hjartanærandi uppeldi“ eftir Howard Glasser MA. Ég pantaði bókina og las hana spjaldanna á milli, mér leist svo vel á kenningar hans að ég byrjaði að miðla til foreldra á námskeiðum hjá Miðstöð símenntunar í Hafnarfirði. Í fyrstu notaði ég ekki Hjartanærandi uppeldi að neinu ráði fyrir drenginn minn,því að ég var orðin svo brennd af vonbrigðum vegna árangurslausra uppeldiskenninga fyrri námskeiða.Ég vildi fyrst sjá hvernig aðferðin reyndist öðrum.Þegar ég sá hvað hún virkaði rosalega vel og að erfið börn umbreyttust á nokkrum vikum eða mánuðum, ákvað ég að reyna aðferðina sjálf og árangurinn lét ekki á sér standa. Síðan fór ég svo til Manchester í Englandi og aflaði mér réttinda til að kenna hana hér á landi.
Hjartanærandi uppeldi gjörbreytti lífi okkar
Þegar ég fór svo að nota hjartanærandi uppeldi við minn dreng varð algjör breyting á líðan hans og framkomu. Hann fór að kom inn á skikkanlegum tíma á kvöldin en um langt skeið hafði hann ekki náðst inn fyrr seint og síðar á nóttinni. Auðvitað komu fyrir atvik sem þurfti að vinna úr eins og með aðra unglinga en með þessari aðferð gátum við leyst þau. Í raun var ekkert að þessu barni, en aðstæðurnar sem hann var í heima og í skólanum gerðu hann svona.Þegar börnum líður svona kemst engin skynsemi að, þau bara stjórnast af þeim frumstæðu hvötum að: ,, berjast, flýja eða frjósa“. Börn geta verið í slíku ástandi svo árum skiptir og jafnvel til dauðadags ef ekkert er gert.
Viðurkenningarnar
Í hjartanærandi uppeldi felast ekki yfirborðslegar viðurkenningar eins og gerir í sumum þeirra aðferða sem áður var lýst. Dæmi um ómarkvissa viðurkenningu er: ,,Barnið mitt þú ert svo duglegt“. Duglegt við hvað? Svona ómarkvissar viðurkenningar til barns eru hættulegar, af því að barnið veit ekki fyrir hvað er verið að gefa viðurkenningu?Í hjartanærandi uppeldi verðum við að vera nákvæm og 100% sannleikur að baki viðurkenningunni. Eins og verið sé að lýsa mynd fyrir blindan einstakling. ,,Þú ert svo dugleg/ur að taka diskinn af borðinu og setja í vaskinn, þetta sýnir hve ábyrgur þú ert.“
Reglur verða að vera fáar, þó að auðvitað þurfi mörk og reglur
Reglur eru til að styrkja barnið og byggja upp sjálfsaga og gott sjálfsmat/sjálfsvirðingu. Fyrir barn sem er vant að taka diskinn af borðinu,getur það verið ein regla. Ef barnið er vant að hátta sig sjálft, þá er það önnur regla. Að bursta tennur er þá þriðja reglan. Þannig hafa foreldrar tækifæri til að byggja upp sjálfsmat barnsins og sjálfsaga með því að gefa því viðurkenningar fyrir , t.d.: ,,Frábært hvað þú sýnir mikla ábyrgð að bursta tennurnar og vandar þig“. Þá er barninu sagt að það sé að taka ábyrgð á tönnum sínum. Svo smámsaman þegar öryggi barnsins vex mábæta við reglu í viðbót. Ef barnið er t.d. ekki vant að ganga frá skónum sínum en slysast til að ganga frá þeim óumbeðið, þá er gefin viðurkenning fyrir það og búin til velgengni úr atvikinu. Eftir smá tíma gengur barnið alltaf frá skónum, því að því finnst gaman að fá viðurkenningu og barnið sér að það sem það gerir er metið. Svona er hægt að byggja upp sjálfsmat barns og sjálfsaga. Barnið fer að stjórna hegðun sinni og skapi.
Refsingar
Áður en byrjað er að nota hjartanærandi uppeldi eru reglurnar útskýrðar fyrir barninu. En refsingunum í hjartanærandi uppeldi má líkja við reglur í tölvuleik. Ef barnið tapar í tölvuleik fellur það niður en getur byrjað upp á nýtt strax aftur og haldið áfram. Ef barnið fer ekki eftir reglum í hjartanærandi uppeldi er kannski sagt: ,,Jæja, við byrjum upp á nýtt“ eða ,,núllstilla“. Þá veit barnið að þetta er refsing.Löngunin í það jákvæða verður yfirsterkari og í næsta skipti reynir barnið eins og í tölvuleik að gera betur til að vinna sér inn stig.Áhersla er lögð á að refsingin sé mjög stutt.
Barn sem komið er með mótþróaþrjóskuröskun hoppar ekki hæð sína, þótt hætt sé að skamma það. Dæmi: Ef við ímyndum okkur að einhver hangi í kaðli utan í bjargbrún og það sé hyldýpi fyrir neðan, þá sleppir sá einstaklingur ekki kaðlinum fyrr en hann fær eitthvað nýtt til að halda sér í. Það þarf með orðunum að búa til nýjan kaðal sem heitir velgengni. Það getur tekið tíma að breyta þessu, jafnvel 3 til 6 mánuði en þegar barnið fer að trúa því að sér gangi vel, þá sleppir það mótþróanum og velur velgengnina.
Það er magnað að sjá barn sem hefur verið stjórnlaust, breytast bara af því hvernig foreldrið talar við það. Nú, en þessi börn þurfa kannski meiri refsingu en bara að núllstilla. Þá er að finna einhver verkefni fyrir barnið til að leysa, ef það fersamt ekki eftir reglunum þá þarf í stöku skipti að setja barnið í bann. En þá er það bara í stuttan tíma. Við setjum ekki barn í útivistarbann í heila viku. Barnið finnur bara leið til að fara framhjá því.
Einstaklingsþörfin viðurkennd
Í hjartanærandi uppeldi er horft á þörf einstaklingsins. Það er tekið tillit til þess að sum börn þurfa að krassa og þeim er leyft það innan ákveðinna marka. Mörg börn geta ekki setið með öðrum börnum við borðið og þurfa jafnvel að sitja ein, ef svo er, þá er þeim leyft það. Öðrum börnum gengur kannski vel að læra í hópi, þá er bara settur saman hópur sem það passar í. Skólastofan býður upp á marga möguleika og styrkleiki hvers einstaklings er skoðaður,hvar honum líður vel og hvernig námsgetabarnsins er.Könnun hefur sýntað erfiðustu börnin eru oft með afburða greind. Ástæðan er sú að þau gefast mörg upp strax í byrjum skólagöngu og verða til vandræða af því að þau þurfa aðra nálgun en hefðbundið skólakerfi býður upp á. Þau fara að hreyfa sig, vera á iði, pirra aðra, hafa lélega einbeitingu ofl. Börn sem eru úthverf hafa bara 3-4 mínútur í einbeitingu í einu og þá segir heilinn þeim að hann sé að sofna og nú þurfi þau að hreyfa sig. Þau börn eiga til að valda vandræðum inn í skólastofu af því kennarar hafa ekki vitneskju um þetta.
Einstakt umbunarkerfi
Umbunarkerfið í hjartanærandi uppeldi byggir á því að börnunum er kennd fjármálastjórn. Þeim er kennt að ef að þau vinna verk fá þau strax borgað fyrir það í punktum. Það þarf að vinna fyrir peningum því að hlutirnir kosta, við fáum ekkert frítt og þurfum að kaupa það sem við þörfnumst.Barnið fær borgað í punktum eftir verðmæti þess verks sem það vinnur. Svo getur það jafnvel fengið skipt sumum af þessum punktum yfir í alvöru peninga eftir samkomulagi við foreldra. En á því er haft hámark sem foreldrið setur og barnið fær að vita það í upphafi. Síðan eru ákveðin hlunnindi sem barnið hefur og má gera eins og venja er. En sé farið út fyrir þann rammann má til dæmis segja: ,,ef þú ætlar að kaupa aukinn sjónvarpstíma þá kostar hann ákveðna punkta“. Ef barnið óskar eftir að vera keyrt t.d. til leikfélaga má segja: ,,en það kostar punkta því að bensínið kostar peninga“. Þá ræður barnið hvort það vill eyða punktum í þetta. Þannig er lagður vísir að kennslu í fjármálastjórn. Ég nota Matador peninga, en það má líka búa til seðla með misjafnlega mörgum punktum og setja jafnvel mynd af barninu á seðilinn.Umbun getur falist í því að mamma eða pabbi spili við barnið, eða poppi, eða að barnið fái að taka þátt í að elda, eða að velja það sem haft er í matinn o.s.frv..Umbunarkerfið þarf að vera afar marktækt.
Umbunarkerfi í öðrum uppeldisaðferðum
Byggjast oft á því að gefa stjörnur og safnað er stjörnum í viku, þá fær barnið umbun. Slíkt kerfi gengur ekki með úthverf börn né erfið börn, vegna þess að þau eru svo fljót að gleyma og hafa ekki úthald til að bíða. Þau þurfa að fá umbun á hverjum degi.
Innhverf, miðlæg og úthverf börn
Dr. Arlene Taylor bandarískur heilasérfræðingur sem hélt námskeið hér á landi um starfsemi heilans segir að um 70% barna séu miðlæg. Með öðrum orðum eðlileg og passi inn í þennan kassa sem samfélagið vill að þau passi í. Þau þola ótrúlega hluti og það þarf kannski ekki mikið að skipta sér af þeim, þau eru til friðs og hafa sterkara taugakerfi en hin.
En svo eru 15% barna,,úthverf“ fjörug, hugmyndarík, hvatvís. og passa ekki alveg inn í kassann. Þau eiga erfitt með að sitja kyrr af því að heili þeirra hefur ekki einbeitningu í nema 3 til 4 mínútur í einu. Þau fikta af því að heili þeirra segir ,,ég er að sofna, ég þarft að hreyfa mig“. Það eru börnin sem krassa í námsbækurnar af því að heilinn skipar þeim að gera eitthvað til að sofna ekki. Allt er þetta á móti reglunum bæði heima og í skólakerfinu. Þau geta ekki setið kyrr, eru skömmuð fyrir að krassa í bækurnar og fikta, en kannski getur barnið ekki lært öðruvísi. Oft eru þessi börn listræn og nota því meira hægra heilahvel og verða þá að fá að teikna eða nota liti til að geta lært.
Svo eru 15% barna innhverf. Dr. Arlene talaði um ,,umvefjandi viðurkenningu“ (affirmation) og sagði að heilasérfræðingar hafi fundið það út að heilinn byrji að vinna öðruvísi þegar hann fær markvissar umvefjandi viðurkenningar. Það er leið til að ná til barna og að tala við undirmeðvitund þeirra. Ef að barnið er komið með neikvætt hegðunarmunstur má breyta því með því að nota markvissar umvefjandi viðurkenningar.
Rannsóknir á heilastarfsemi barna
Sérfræðingar í heilastarfsemi hafa í 20 ár rannsakað heilann með skanni sem er kallað ,,petskann“. Þá er settur hjálmur yfir höfuðið og mælt hvenær heilinn kveikir á heilastöðvum. Það er hægt að sjá nákvæmlega hvar virknin í heilanum er. Komið hefur fram að ef talað er neikvætt við barn, þá minnkar virkni heilans og það liggur við að heilinn slökkvi á sér. Þegar barnið er skammað sýnir heilinn varnarviðbrögð sem segja: ,,þetta er ógn, þetta er hætta“ og fer að verja barnið. Við það minnkar virknin í framheilanum sem sér um hugsun, skynsemi og ákvarðanatöku. Heilinn skreppur saman og virknin verður sáralítil. Blóðflæðið fer út í hendur og fætur, hjartað slær hraðar og virkni líffæranna minnkar. Þetta er td talið eitt af orsökum fyrir offitu barna.
Þegar talað er jákvætt við barn með markvissum viðurkenningum lýsir heilinn eins og jólatré. Það fer allt á fullt í að vinna og boðefni heilans aukast,jafnvel þau sem voru farin að minnka eða orðin vöntun á vegna neikvæðu skilaboðanna. Þetta á við alla jafnt unga sem gamla.
Aðferðir hjartanærandi uppeldis hafa þessi jákvæðu áhrif á heilastarfsemina. Það er ekki bara uppeldisaðferð heldur er það meðferð sem virkar bæði fyrir heila barna og fullorðinna.
Að gera velgengni úr óhappi.Viðurkenningarnar verða að vera sannar, annars tekur heilinn ekki mark á þeim, dæmi um það er ef barnið af ógætni hellir niður mjólk á borðið, þá er hægt að segja: ,,ups, náðu í tuskuna í vaskinum, þú ert svo dugleg/ur og ábyrg/ur að þurrka þetta upp“. Þá fær barnið jákvæða hvatningu til að þurrka upp eftir sig. Við verðum alltaf að muna eftir að gefa barninu markvissa viðurkenningu ef það fer eftir tilmælunum.Það þarf að skapa velgengni úr þeim smáatriðum sem gerast. Dæmi, ef barnið er reitt: Ég sé að þú ert ofsalega reiður núna og ert að reyna að ná stjórn á skapi þínu og ert að byrja að nota sjálfstjórnina.
Skólastarf
Howard Glasser kom hingað árið 2001 og var með námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hjartanærandi uppeldi var samið fyrir erfiðustu börnin og unglingana í Barnaverndarkerfinu í Tucson í Arizona í Bandaríkjunum. Þessir unglingar voru margir með greiningar til dæmis ADHD. Fyrir meðferð með hjartanærandi uppeldi, þá brutu 50% þeirra af sér aftur en eftir meðferð var það aðeins 15% og þau brutu aðeins einu sinni af sér og þá eitthvað lítilvægt. Tolson grunnskólinn í Arisona í Bandaríkjunum (Andy Tolson Elementary School) var fyrsti grunnskólinn sem tók upp hjartanærandi uppeldi. Í Tolsonskólanum voru 450 nemendur sem áttu mörg í miklum erfiðleikum og komu úr erfiðum heimilisaðstæðum.En börnin gjörbreyttust eftir að farið var að beita hjartanærandi uppeldi. Skólinn var sá versti af 70 skólum á svæðinu áður en byrjað vara að beita aðferðinni. Eftir að hjartanærandi uppeldi var tekið upp við kennsluna, varð Tolson skólinn besti skólinn á svæðinu og fengu þeir viðurkenningar fyrir afburða árangur. Sérkennsla fór úr 15% niður í 1.6% og einkunnir úr samræmdum prófum sem áður voru þær verstu, urðu afburða einkunnir.Þau börn sem voru í sérkennslu fóru flest í bekk fyrir afburðabörn.
Eru einhverjir skóla hér á landi sem nota hjarnanærandi uppeldi?
Mér er ekki kunnugt um neinn grunnskóla en það eru margir íslenskir kennarar sem eru að nota þessa aðferð með undraverðum árangri í sínum skólastofum. Ég veit um tvo leikskóla sem hafa tileinkað sér hjartanærandi uppeldi annan í Hafnarfirði og hinn í Skerjafirði. Breytingarnar hjá þeim eru undraverðar.
Ég skoðaði nokkra skóla erlendis, þar sem eru bekkjardeildir með 15 til 16 nemendum. Það eru mikið meira en nógu margir nemendur fyrir einn kennara. Ef að kennari ræður ekki við aðstæðurnar fer hann að senda frá sér neikvæð skilaboð án þess að ætla sér það. Börnin nema það. Sé hjartanærandi uppeldi notað ræðst betur við erfiðu börnin og kennarinn þarf ekki að beina mestri athygli að þeim heldur getur hann sinnt öllum og hefur tíma til að gefa viðurkenningar. Hjá þeim skólum sem nota hjartanærandi uppeldi er mjög sjaldgæft að það séu hegðunarerfiðleikar inn í stofunum. Auðvitað eru börnin misjöfn, en það er mjög sjaldgæft að þau sýni hegðunarerfiðleika, námsárangur verður mikið betri og einelti þrífst ekki. Það þarf ekki að senda börn í greiningar fyrir t.d. ADHD þegar hjartanærandi uppeldi er notað í skólum, og lyfjagjöf fyrir ADHD er óþörf.
Foreldrar byrja að nota hjartanærandi uppeldi við nýfædd börn. Af hverju ætli því sé hætt?
Við byrjum að nota hjartanærandi uppeldi við nýfædd börn. Dæmi um það er að: við hælum barninu: þegar það byrjar að brosa,þegar það fer að velta sér, þegar það byrjar að skríða og við klöppum fyrir öðrum þroskaframförum þess. Við höldum þessu áfram þar til að barnið verður sjálfbjarga. En getur einhver svarað því af hverju margir foreldrar hætta eða ósjálfrátt minnka að nota þessa aðferð?
Það rétta er að halda þessari aðferð áfram og kenna barninu strax sjálfstjórn og allt það sem við viljum að börnin öðlist. Við viljum að þau verði heiðarleg, ábyrg, hjálpsöm og gangi vel í lífinu. Það er hægt ef við byrjum nógu snemma. Einnig er líka hægt að snúa við ferli en það er talsvert meiri vinna og krefst sjálfsaga hjá foreldrum.
Ég þurfti óskaplegan sjálfsaga á meðan ég breytti aðferðinni við minn dreng, en það tókst vel.
Oft fer ég tvö skref áfram og eitt afturábak, fell í gryfjuna en þá er bara að byrja aftur. Sem dæmi um það var þegar hann fékk nýtt hjól sem kallað er „krossari“. Hann fór að þrífa hjólið og þegar ég gáði að honum var hann búinn að rífa allt hjólið sundur í fumeindir. Hefði það gerst áður en ég lærði hjartanærandi uppeldið hefði ég sagt: ,,Hvað í ósköpunum ertu búinn að gera? Ertu eitthvað ruglaður? Þú eyðileggur hjólið sem þú varst að fá“ En þarna beit ég í tunguna á mér og sagði: ,,Já þú ert heldur betur hugmyndaríkur og útsjónarsamur,ég er vissum að hjólið verður betra en nýtt þegar þú ert búinn að þessu“. Hann kom hjólinu saman og það voru engin vandamál. Hjólið hafði kostað mikið og ég var með hnút í maganum þar til hann var búinn að setja það í gang aftur.
Að fleiru þarf að gæta í uppeldi og námi barns
• Það á að vera skylda að börn hafi aðgang að vatni í hverri skólastofu . Hvert einast barn verður að hafa vatn. Það getur ekki komist í gegnum eina kennslustund án þess að fá að drekka. Ef þau fá ekki að drekka verða þau óróleg. Líkaminn kallar á vatn en börn gera sér kannski ekki grein fyrir því að það sé þyrst. Ef það hefði vatnsflöskuna á borðinu myndi það ósjálfrátt drekka.
• Á Íslandi eru oft upp í 30 börn í hverri kennslustofu, þar ættu að vera minnst 4-5 blóm. Þ.e. þykkblöðungar t.d. gúmmíplöntur og tannhvöss tengdamamma o.þ.h. (breytir CO2- koltvísýringi í O2-súrefni), friðarlilja, bambus, gular krísur (chrysanthemums) og fleiri (http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_air-filtering_soil_and_plants) . Ef ekki er hægt að opna glugga eða loftræsting er léleg sem orsakar súrefnisskort í kennslustofunni bæta blómin þar um.
• Járnskortur getur haft áhrif á hegðun barna. Það voru gerðar rannsóknir í Mexikó, Frakklandi og Japan um hvort járnskortur hefði áhrif á hegðun barna. Niðurstaðan var sú að börn urðu óróleg og einbeitingarlaus ef þau vantaði járn. Þegar börnunum var gefið járn komust rannsakendur að mjög áhugaverðu atriði; ákveðinn hópur barna þurfti miklu meira ferritin í blóðið en hin. Hópur barna gjörbreyttist þegar þau fengu meira járn en venjulegir næringarstaðlar segja til um.D vítamínskortur, magnesíumskortur, zink skortur, mjólkuróþol, streita, húsamygla og margt fleira getur líka orsakað hreyfióróleika og einbeitingarerfiðleika ásamt fleiri erfiðum einkennum.“
Dr. Arlene Taylorverður með námskeið sem fjallar um starfsemi heilans í Suðurhlíðaskóla dagana 23. – 25. júní 2013. Leiðbeinendanámskeið í Hjartanærandi uppeldi verður í Englandi um miðjan september. Hægt er að fá upplýsingar hjá Grétu. Netfang hennar er: greta@lifogframtid.net Sími: 6152161.
Gréta starfar við einstaklings-, hjóna- og fjölskyldumeðferð, er einnig áfallafræðingur með meðferðir fyrir börn og fullorðna. Hún stendur fyrir námskeiðum í hjartanærandi uppeldi , hvernig læra börnin best og hvað er ofbeldi á barni.
Viðtöl við Grétu Jónsdóttur sem áður hafa birst í Heilsuhringnum má finna á slóðunum:
Börn oft ranglega grein með ADHD?
Meðferðir fyrir börn og fullorðna sem hafa orðið fyrir tilfinningaáföllum og ofbeldi í æsku. http://heilsuhringurinn.is/index.php?option=com_content&view=article&id=763:meefereir-fyrir-boern-og-fullorena-sem-hafa-oreie-fyrir-tilfinningaafoellum-og-ofbeld i-i-aesku&catid=10:greinar-og-vietoel&Itemid=14
Flokkar:Greinar og viðtöl