Læknaði liðagigt með inntöku þorskalýsis

Árið 2012 skrifaði Ásthildur Þórðardóttir eftrfrandi grein:       Fyrir um það bil 30 árum var ég orðin ansi illa undirlögð af verkjum í liðamótum. Það var orðið sársaukafullt að bera hluti þó léttir væru, og það var erfitt og sárt að aka bíl, vegna þess að bara að stíga á bensín eða bremsu olli verkjum í hnjám.

Ég ákvað því að fara til læknis og láta athuga hvað væri að. Eins og ég reyndar bjóst við, kom í ljós að ég var komin með gigt, svokallaða slitgigt. Læknirinn sagði mér að hann ætlaði að skrifa upp á Aspiríntöflur fyrir mig. Ég mætti taka allt upp í 8 töflur á dag.

Ég spurði hann þá hvort þetta læknaði mig.  ,,Nei“ svaraði hann, en það slær á verkina og einkennin. Ég spurði hann þá hvort hann gæti ekki ráðlagt mér frekar betra matarræði, sem myndi slá á þetta. ,,Nei“ svaraði læknirinn, ég er ekkert í svoleiðis.

Þá varð ég reið og svaraði honum til, að hann mætti eiga sitt Aspirín, ég ætlaði ekki að eyðileggja á mér magann ofan á gigtina.

Ég fór því að leita mér upplýsinga um eitthvað sem gæti hjálpað mér.

Ein samstarfskona mín benti mér þá á blað sem hún var áskrifandi að, og nefnist Heilsuhringurinn. „ Mig minnir að það hafi einmitt einhver læknir verið að skrifa um móður sína og lýsi“, sagði hún.  „Ég skal reyna að finna þetta fyrir þig“.

Og viti menn, næsta dag kom hún með ljósrit úr Heilsuhringnum, þar var greinin ,,Er til örugt læknisráð við liðagigt?“ eftir amerískan lækni að nafni Dale Alexander, sem átti móður sem var komin í kör vegna slitgigtar. Hann hafði ákveðið að leita að og finna út hvort eitthvað gæti hjálpað henni og eftir langa leit komst hann að því að inntaka þorskalýsis gæti lagað liðina. Hann skýrir það þannig að þorskalýsi tekið inn á fastandi maga og ekki borðað neitt í klukkutíma á eftir bætti smurninguna milli liðflatanna. Ef þessi smurning er ekki í lagi myndast núningur milli flatanna sem ertir og veldur sársauka, stirðnun og að lokum bólgum, sem gera liðinn meira eða minna óstarfhæfan eða jafnvel ónýtan.  (Þetta er skrifað eftir minni 30 árum síðar). En það er nokkurn veginn rétt. Móður hans batnaði, og komst á ról aftur. Það var ein viðvörun þó, það myndi taka um 6 mánuði að finna breytingu. Og maður mætti ekki gefast upp.

Ég var ákveðin í að prófa þetta, þó ég hefði aldrei getað tekið lýsi í skólanum, kúgaðist í hvert sinn. En það gekk vel að taka inn lýsið á fastandi maga. Og síðan hef ég tekið þennan eðaldrykk daglega.

Ég hef haldið þessum sjúkdómi niðri núna í 30 ár og held að ég megi segja að þessi ákvörðun mín hafi gefið mér þá bestu gjöf sem ég hef fengið. Því að góð heilsa er eitthvað sem þú villt ekki vera án. Ég hugsa til þess með hryllingi ef ég hefði tekið ráð læknisins og farið út í að bryðja aspirín alla daga.

Það yndislega við þessa sögu er að í umræðunni á netinu um daginn um óhefðbundnar lækningar þar sem ég sagði frá þessari upplifun minni, sá ritstjóri Heilsuhringsins sögu mína og hafði samband og bað mig að segja þessa sögu hér. Sem ég verð nú góðfúslega við, því að ég gleymi þessu aldrei og hef svo oft hugsað með þakklæti til útgefenda Heilsuhringsins og vinkonu minnar fyrir að benda mér á þessa dásamlegu lausn sem bætti svona mikið heilsu mína.

Fólk ætti að skoða þessi skilaboð: Í fyrsta lagi ekki trúa öllu sem læknar segja ykkur, heldur leitið sjálf ef þið eruð ekki ánægð með svörin.

Þorskalýsið hefur virkilega þennan dásamlega lækningamátt, ef við bara gefum því tímann sem þarf til að breyta ástandinu og áhrifin komi fram. Fyrir utan allt hitt: betri húð, sterkari neglur og hár, og alls konar smákvillar víkja.

Ég segi því bara takk fyrir mig aðstandendur Heilsuhringsins.  slóðin á greinina í Heilsuhringnum er:

Er til öruggt læknisráð við liðagigt?

Ásthildur Þórðardóttir netfang: asthildurcesil@gmail.com



Flokkar:Reynslusögur

Flokkar/Tögg, , ,

1 Svar

Trackbacks

  1. Er til öruggt læknisráð við liðagigt? – Heilsuhringurinn
%d bloggers like this: