Ný nálgun í heildrænum lækningum

Nýtt hugtak hefur verið að síast inn í umræðuna og nálgun í heildrænum lækningum erlendis. Þetta kallast á ensku Bioregulatory medicine. Það mætti útleggja eða þýða sem Lífreglunarlækningar. Meðal upphafsmanna þessarar nálgunar eru hjónin Dr. Damir A Shakambet og Tatyana Bosh. Bæði eru þau lærð í læknisfræði og starfa sem slíkir í London en þau nota þó mjög yfirgripsmikla þekkingu á heildrænum aðferðum til að ná árangri frekar en að einblína á hefðbundna aðferðafræði lækna.

Damir er stofnandi Academy for Bioregulatory Medicine og formaður International Society for Bioregulatory Medicine. Hann hefur starfað sem læknir síðan hann útskrifaðist árið 1984 en kynnt sér og lært kínverskar nálastungur, hómópatíu, höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun, BioResonance (lífómun), svo eitthvað sé nefnt. Bæði eiga hjónin það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á lækningum og hvernig greina má sjúkdóma á byrjunarstigi og lækna áður en þeir verða alvarlegir. Þau leggja áherslu á „presomatic syndrome“ (presomatic heilkenni) sem þau telja forstigseinkenni allra sjúkdóma og hvernig takast skal á við slík einkenni til að stöðva ferli sem annars getur reynst hættulegt.

Til grundvallar eru margar kenningar sem komið hafa fram í læknisfræði en þau bæta við frá eigin reynslu ýmsu sem nýtist. Grundvallaratriði er að allir sjúkdómar geta átt sér hugrænar forsendur. Áfall sem er löngu gleymt getur valdið líkamlegum sjúkdómi ef ekki er brugðist rétt við. Áföll eins og dauðsföll einhvers nákomins, skilnaður, atvinnumissir eða bara hlutir eins og einelti geta lagst á sálina og grafið um sig. Margir reyna að gleyma og tíminn hylur sárin en svo kemur að því að viðkomandi stendur frammi fyrir alvarlegum sjúkdómi sem rekja má til áfallsins. Af þessum sökum er Lífreglun gríðarlega yfirgripsmikil nálgun á heilsufari og líðan.

Í formála fyrstu bókar þeirra hjóna um ,,Bioregulatory medicine“ sem fjallar um grundvallaratriði þessar meðferðarfræði segir Tatyana Bosh: Þegar ég útskrifaðist sem læknir og fékk gráðuna MD árið 1985 þá var ég gríðarlega stolt og taldi mig vera orðin sérfræðing í heilsumálum. Ég áttaði mig þó fljótlega á því að læknisfræðinámið kenndi mér harla lítið um heilsu. Námið kenndi mér helling um sjúkdóma og veika líkama en nánast ekkert um Heilsu.

Heilsa er ekki bara það að vera ekki veikur. Góð heilsa fellst í því að vera hress, sofa vel, vakna hress að morgni tilbúinn til að takast á við daginn jákvæður í skapi. Í heilbrigði fellst að vera glaður og jákvæður ekki bara „ekki með sjúkdóm“. Við höfum dálítið týnt þessari tengingu því áreitið í þjóðfélaginu er orðið svo gífurlegt og allir uppteknir við að rífast út í vonlausa ríkisstjórn, verðtrygginguna eða hamast við að finna nýjasta appið.  Stöðugt upptekinn maður er ekki líklegur til að sinna mataræðinu, hreyfingu eða öðru því sem þarf til að viðhalda heilbrigðri sál í heilbrigðum líkama. Það er mikil vinna fólgin í því að viðhalda góðri heilsu. Reiði hefur eitrandi áhrif á huga og líkama sem og aðrar neikvæðar tilfinningar. Það er jafn mikilvægt að vinna með slíkar hugsanir eins og að vinna með líkamann sjálfan.

Þegar sjúklingur kemur til viðtals í fyrsta skipti bíður hans yfirheyrsla um ótrúlegustu hluti. Hann þarf að gera grein fyrir mataræði, hve oft hann fer á klósettið, hvernig hægðirnar eru, hversu mikið hann notar farsíma, hvort hann hafi upplifað áfall á lífsleiðinni, hvort hann noti lyf og hvaða lyf o. s. f.. Allar spurningar miðast að því að komast að hugsanlegum orsökum þess hversvegna viðkomandi er kominn í þá stöðu sem hann er. Hann fær ekki lyf. Það er mikilvægt í þessari þerapíu að gefa ekki lyf nema brýna nauðsyn beri til. Frekar er notast við viðtalstækni, nálastungur, hómópatíu, lífómun eða aðra heildrænar aðferðarfræðigreinar sem reynst hafa vel. Málið er að hugræn áföll, streita og spenna hafa áhrif á hverja einustu frumu líkamans. Þetta finna flestir þegar stressið er orðið mikið að vöðvabólga byrjar að myndast í herðum, maginn herpist, hægðirnar teppast, svefninn truflast og skapið fer í hnút.

Til lengri tíma getur svona ástand leitt til alvarlegri kvilla. Lausnir sem notast er við í almennum lækningum byggjast á því að gefa lyf. Ef blóðþrýstingur hækkar þá er gefið lyf til að lækka blóðþrýsting. Það er jafnvel ekki reynt að grafast fyrir um orsök þess að þrýstingur er of hár. Sama á við um vöðvabólgu.  Í stað þess að ráðast á orsök vandans þá eru gefin lyf sem fela einkennin. Þetta er líka almennt viðhorf hjá almenningi. Fá og taka lyf sem fela einkennin í stað þess að ráðast að rótum vandans. Það að takast á við rangt mataræði, hreyfingarleysi, tilfinningaklemmur eða önnur vandamál er nefnilega vinna sem krefst athygli og stöðugrar sjálfskoðunar. Pillan er einfaldari lausn. Vandamálið við flest lyf er að þeim fylgja aukaverkanir sem þarf jafnvel önnur lyf til að laga og þeim fylgja svo líka aukaverkanir.

Þeir sem vilja axla ábyrgð á eigin heilsu taka málin í sínar hendur og skoða hvað er að fara úrskeiðis, leita ráðgjafar og finna leið til að laga eða lifa við vandann í sem mestum gæðum. Því er ,,Bioregulatory medicine“ eða Lífreglun spennandi nálgun. Mikil áhersla er lögð á ytra umhverfi líkamans. Efnamengun, eiturefni í matvælum, rétt sýrustig, rafmengun, jarðgeislamengun eru hlutir sem skipta miklu máli og er lögð áhersla á að sjúklingur kynni sér sitt nánasta umhverfi. Sjálfsmisþyrmingar sem felast í reykingum, slæmu mataræði, neikvæðum og niðurrífandi hugsunum þarf að skoða og stoppa. Mataræði er skoðað og lögð megin áhersla á ávexti og grænmeti, vatnsdrykkju og inntöku bætiefna. Ef þurfa þykir er mælt með sérstökum matarkúrum eins og til dæmis ,,Gerson‘s diet“ sem er sér hannaður til að takast á við vanvirkni frumna í þeim tilfellum þar sem sjúkdómur er að koma sér fyrir í líkamanum.

Einn mikilvægasti þátturinn í meðferðarferlinu er afeitrun. Flestir kannast við orðið „Detox“ en það er vinsælt hugtak og hægt að fara í detox meðferð eða detoxa á eigin spýtur. Í umhverfi okkar eru mörg þúsund tegundir af efnum sem geta safnast fyrir í líkamanum. Þegar áreitið er mikið og mataræðið þungt þá nær líkaminn ekki að hreinsa sig. Uppsöfnun eiturefna sem hafa komið utanfrá og innanfrá verða vandamál og gera frumum líkamans erfitt fyrir að starfa rétt. Það þarf að hreinsa líkamann og eru margar leiðir færar í þeim efnum. Í kjölfarið er farið á „hreint“ mataræði með miklu vatni. Líkaminn byrjar smátt og smátt að heila sig sjálfur og ótvíræður árangur næst í flestum tilfellum. Samhliða þessu heilunarferli eru meðferðir  eins og nálastungur, nudd, höfuðbeina og spjaldhryggjarjöfnun, hómópatía eða heilun.

Þau hjónin Tatyana Bosh og Damir Sakambeth reka eigin stofu (klínik) í London en samhliða eru þau með skóla, Biomedic Centre, þar sem þau kenna „Bioregulatory Medicine“ Þetta er diploma nám á háskólastigi og kennt í formi fjarkennslu með sjö staðbundnum lotum yfir eitt ár. Staðloturnar eru alltaf um helgar og því auðvelt fyrir vinnandi fólk að stunda þetta nám. Námið er ætlað fólki í heilbrigðisgeiranum og stunda það bæði læknar og hómópatar en einnig fólk með allskonar bakgrunn. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á http://www.biomedic.co.uk/

12.11.2012

Valdemar Gísli Valdemarsson

Höfundur er nemandi í Bioresonance Therapy hjá Biomedic centreFlokkar:Greinar og viðtöl

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d bloggers like this: