,,Andlegviðleitni er svið vitundarinnar“ Deepak Chopra
Við höfum gengið í gegn um mikla streitu á undanförnum árum. Fólk er orðið meðvitaðra um að það er nauðsyn að læra að slaka á, njóta lífsins, vera í núinu. Hraðinn er svo mikill að streitustigið hjá mörgum er mjög hátt. Hugurinn er á fleygiferð og fólk hefur oft litla sem enga stjórn á hugsunum sínum. Það kannast margir við að missa sig í reiði og pirringi yfir einhverju atviki eða manneskju og hugurinn festist í því aftur og aftur. Ég hef sjálf stundað hugleiðslu daglega í 25 ár og gæti ekki hugsað mér að vera án þess. Það eru til ýmsar aðferðir til að draga úr spennunni eins og t.d. göngur út í náttúrunni, líkamsrækt yoga o.fl.
Ef fólk vill ná betri stjórn á huga sínum og tilfinningum þá er hugleiðslan leiðin. Að gefa sjálfum sér tíma á hverjum degi til að setjast niður í 10-20 mín á dag er nauðsynlegt til að ná árangri og við þurfum að gefa okkur þennan tíma til að ná tengslum við okkur sjálf. Það eru margar aðferðir við að hugleiða en fyrsta stigið er alltaf slökun á líkama og huga. Öndunin er lykilatriði. Við öndum oft mjög grunnt þegar við erum spennt og til lengri tíma getur okkur hreinlega vantað súrefni til að næra frumurnar og við finnum strax hvernig við slökum á þegar við drögum djúpt andann nokkrum sinnum.
Það sem gerist við að stunda reglulega hugleiðslu er innri friður, traust á lífinu, alheiminum og mannkyninu. Innra með þér upplifir þú tengingu við alheiminn og hugur þinn verður friðsælli, allt verður svo miklu auðveldara bæði tilfinningalega og líkamlega. Orka þín eykst þú kemur meiru í verk. Það fer svo ótrúlega mikil orka í neikvæðni og pirring og það er oft mikil vanlíðan sem fylgir þessum neikvæðu hugsunum. Margir tengja hugleiðslu við trúarbrögð en það er ekki málið. Auðvitað getur hver og einn valið hvort hann tengir sig við almættið í gegnum hugleiðsluna. Markmiðið er fyrst og fremst að kyrra hugann og koma á jafnvægi.
Það eru til margar aðferðir við að hugleiða. Sumir nota það sem kallað er mantra, það eru oftast eitt til tvö orð eins og OM sem er talið hljóð allra hljóða. Þau eru endurtekin hvað eftir annað. Innhverf íhugun er, t.d. byggð á möntrum. Þessi orð hafa ákveðna tíðni og hafa áhrif á heilan. Svo eru aðrir sem kjósa íhugun eða sjónmyndun. Það er ferðalag í huganum sem getur bæði verið leidd hugleiðsla ( einhver leiðir sjónmyndun ) eða að þú skapar sjálf/ur það sem þú villt sjá fyrir þér. T.d. að sjá þig fyrir þér á fallegum stað, sem er hægt að nota á margan hátt til að styrkja sjálfstraustið, fyrirgefa sjáfum þér eða öðrum. Þú getur undirbúið þig með því að lesa þér til. Það er til mikið af efni um hugleiðslur bæði í bókum og á netinu.
Það er gott að tryggja að þú verðir ekki fyrir ónæði kveikja á kerti setja ljúfa tónlist á og einbeita sér að önduninni þangað til þú finnur að þú slakar á. Það eru til CD diskar með leiddri hugleiðslu og gæti verið got að byrja þar.Við daglega ástundun lærir þú að skapa hugleiðsluna eftir þínum þörfum. Það er líka hægt að hugleiða á orkustöðvarnar með litum og tónum sem er mjög áhrifa ríkt.
Til að ná djúpri hugleiðslu þarft þú að fara fyrst í gegnum slökun. Raunveruleg hugleiðsla er þegar okkur tekst að kyrra hugann það mikið að við tæmum hann og förum á bak við hann. Við fylgjumst hlutlaust með hugsununum koma og fara það þýðir ekki að reyna að ýta hugsunum burt heldur leyfa þeim að koma og fara. Það gerist að eins augnablik í einu að þér tekst að tæma hugann en við ástundun verða þessi augnablik lengri og oftar. Það er eitthvað mjög sérstakt sem gerist. Þú upplifir meiri innri ró hugurinn verður skírari og meira skapandi. Samskipti þín við aðra verða auðveldari. Allt þitt líf verður í meira jafnvægi og þú ræður betur við áreiti.
NAMESTE = LJÓSIÐ INNRA MEÐ MÉR HEIÐRAR LJÓSIÐ ÞITT.
Höfundur: Ingibjörg Friðbergsdóttir
Flokkar:Hugur og sál