Máttur fyrirgefningarinnar.

Reiðin er meinsemd sem brýtur niður.
Síðustu ár hafa margir glímt við mikla reiði, sumir í garð þeirra sem þeir telja hafa sökkt landinu okkar í skuldafen og einnig í garð stjórnvalda vegna úrræðaleysis. Svo eru hinir sem gjarnan koma í framhaldi af svona miklu róti, eru í uppgjöri og átökum í einkalífinu.

Þegar við höldum reiðinni og óánægjunni innra með okkur er eins og við höfum boðið tortímanda inn í líf okkar. Að dvelja lengi í slíku hugarástandi brýtur niður heilsu, kraft og lokar fyrir sýn okkar á þá möguleika sem við eigum í öllum aðstæðum lífsins. Þessu ástandi fylgir vanlíðan og ójafnvægi sem leiðir af sér óhamingju og ófullnægju og oft heilsubrest. Í þessari aðstöðu er hægt að nota samlíkinguna við það að bera þungar byrðar á bakinu. Eitt er víst að þeir sem við upplifum sem orsakavalda hafa ekki hugmynd um þessar byrðar okkar.

Í þessum aðstæðum er nauðsynlegt að gefa sér tóm til að setjast niður og skoða hverjar eru raunverulegar tilfinningar okkar og hverjar eru ástæður fyrir því að við getum ekki losað okkur við reiðina. Ef við erum heiðarleg við okkur sjálf finnum við fljótlega hvernig reiðin rænir okkur orku, krafti og gerir líf okkar erfiðara og gleðisnauðara.

Um hvað snýst það að fyrirgefa.
Margir byrja á að bregðast reiðir við þegar minnst er á að fyrirgefa það sem hent hefur eða verið gert á hlut okkar. Telja þeir sig þá vera að samþykkja gjörninginn sem þeir telja rangan. Fyrirgefningin snýst ekki um að samþykkja neitt, heldur losa sig við afleiðingar gjörningsins og sleppa valdi gerandans út úr lífi sínu. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Þarna er gott að staldra við og gera sér grein fyrir að við erum sjálf okkar eigin gæfusmiðir því í öllum aðstæðum eigum við val um hvernig við viljum vinna úr aðstæðum okkar. Ef við leggjum okkur fram um að vera heiðarleg við okkur sjálf, sjáum við að við eigum möguleika á að koma auga á þau tækifæri sem bíða okkar í öllum aðstæðum sem getur fært meiri gleði og hamingju inn í líf okkar.

Á hvern hátt kemur fyrirgefningin inn í slíkar aðstæður?
Góð leið getur verið að nota sköpunarkraft hugans sem er magnaður til að sjá aðstæðurnar myndrænt, m.a. að sjá reiðina og ófullnægjuna sem eitthvað sem við getum losað okkur við með því að sjá fyrir okkur helíum blöðru sem við setjum þetta allt í og þegar við sleppum blöðrunni horfum við á eftir henni þar til hún hverfur út í óendanleikann. Síðan veljum við að fylla rýmið sem við vorum að losa, með kærleika, gleði og ákvörðun um að við höfum verið að taka fyrsta skrefið á nýrri leið, þar sem við ætlum að taka ábyrgð á líðan okkar og lífi og leyfum engum að stjórna því lengur hvernig okkur líður. Þessi æfing er í bókinni „Fyrirgefningin heimsins fremsta lækning“ eftir Gerald G Jampolsky. Ráðlegg ég  ykkur að lesa þá bók því í henni eru mörg góð ráð sem hjálpa og leiðbeina við fyrirgefningaferlið.

Næsta skref gæti verið að ákveða að við ætlum að leggja af stað á leið fyrirgefningar. Fyrirgefningin færir frið og jafnvægi í sál okkar og líf. Gefum okkur allan þann tíma sem við þurfum á þessum vegi og þvingum okkur aldrei. Nauðsynlegt er að vera stöðugt vakandi fyrir sjálfum sér og viðbrögðum sínum í hinum ýmsu aðstæðum og minna sig stöðugt á, á hvaða leið við erum (fyrirgefningaleiðinni). Mörgum reynist erfiðast að ná að fyrirgefa sjálfum sér.

Eitt er víst að fljótlega ef við erum einlæg og heiðarleg við okkur sjálf finnum við fyrir létti. Það ætti það að vera hvatning til að halda áfram. Eftir því sem við getum fyrirgefið fleira og sleppt fleiri hindrunum í lífi okkar eykst frelsistilfinningin innra með okkur og sú tilfinning að líf okkar og hamingja sé í okkar eigin hendi og við farið að koma auga á alla þá möguleika sem lífið bíður okkur upp á.

Leyfið hamingju og gleði að vera förunautar ykkar í lífinu og þið finnið innra með ykkur nýjan kraft sem þið vissuð ekki að þið byggjuð yfir.

Megi fyrirgefningin vera förunautur ykkar um alla framtíð.

Höfundur: Friðbjörg ÓskarsdóttirFlokkar:Hugur og sál

Flokkar/Tögg, , , , , , ,

%d bloggers like this: