Vöðvagigtin, sá duldi fjandi

Við búum í landi öfga, elds og ísa. Sannkölluðum hulduheimi og margir eins og undir álögum.  Enda er ég aðeins hjátrúarfullur, hvernig ætti annað að vera. Vísindin ráða auðvitað miklu um hvernig ég vinn dags daglega sem heimilislæknir, en ekki sem maður. Þar kemur reynslan oft að meira gagni. Og vísindin vita því miður oft svo mikið um lítið. Lífið sjálft er oft stærsti skólinn til að takast á við hið óþekkta, ekkert síður en hið þekkta.

Meirihluti þekkingar minnar á manneskjunni er líklega gegnum vinnuna og það eru því forréttindi að fá að vinna sem læknir, ekki síst sem heimilislæknir. Þessi reynsla gefur mér líka forskot á greiningu og meðferð á algengustu meinunum hjá okkur mönnunum og sem kemur til okkar kasta í heilsugæslunni, m.a. vöðvabólgunni. Hinum dulda djöfli og þeim fjanda sem er undir húði og hári. Gigtin köld og heit til skiptis sem leggst mest á ungar konur í blóma lífsins.

En hver er þessi duldi faraldur sem svo lítið er vitað um og hefur hvorki sporð né hala? Vöðvagigtin/vefjagigtin (fibromyalgia) og vöðvaslénsfárið/síþreytan (chronic fatigue syndrome) sem oft er erfitt að greina á milli. Sjúkdómur sem hefur margar ólíkar myndir þótt ákveðin einkenni séu samnefnarar í heilkennum (syndromi). Sjúkdómur sem er margfalt algengari hjá konum en körlum og allt að þriðjungur kvenna berst við á lífsleiðinni. Sjúkdómur sem læðist aftan að konum í þjóðfélaginu og getur lagt líf þeirra í rúst, jafnvel á nokkrum árum. Endalausir verkir og þrekleysi sem truflar vinnuna, frístundirnar og nætursvefninn góða. Svefninn sem er svo nauðsynlegur til að getað vaknað frískur og endurnærður á morgnana. Sjúkdómur sem endar oft með langvarandi þunglyndi. Þegar spurt er um orsök og afleiðingu, hænuna eða eggið.

Vefjagigt og síþreyta er ein af algengustu ástæðum fyrir örorku kvenna í dag. Sjúkdómur sem mælist ekki í neinum blóðprufum og erfitt er að rannsaka með öllum þeim tækjum og tólum sem vísindin hafa yfir að ráða. Einkennum sem að lokum tengjast saman og eru samansafn verstu einkenna daglegs lífs, svefnleysis, spennu, þreytu, logandi vöðvaverkir, kaldir liðverkir á kvöldin, höfuðverks og þunglyndis. Getur verið að nútímaþjóðfélagið og stressið fari svona illa með konurnar okkar eða spilar eitthvað annað inn í eins og hormónaójafnvægi, D-vítamínskortur, ónógar omega 3 fiskifitusýrur og fiskneysla eða samblanda af þessu öllu. Spyr sá sem ekki veit og reyndar enginn veit.

Álag á nútíma húsmóður er mjög  mikið og skyldi því engan furða að eitthvað gefi sig að lokum. Oft full vinna utan heimilis, máttarstólpi fjölskyldunnar þegar mest á reynir, samviska hennar og ábyrgðamaður. Kynvera sem síðan þarf alltaf að líta svo vel út. Ekki svo að skilja að sumir karlar geta staðið konum sínum jafnfætis í öllu nema útlitinu, en þeir eru því miður í miklum minnihluta.

Kúgun hverskonar og vaxandi ofbeldi er versta myndin sem við sjáum, en miklu meira liggur undir steini sem við sjáum ekki og vitum ekkert um. Eins og t.d. erfið æska og ofbeldi á heimilum sem allt að 2000 börn verða vitni af á hverju ári og við erum reglulega minnt á. Slæm reynsla sem markar lífið fyrir lífstíð. Sjúkdómsmyndirnar verða síðan oft flóknari eftir því sem aldurinn færist yfir. Með minnkaðri getu til að hreyfa sig og aukinn þyngd vandast síðan málin enn frekar og lífsstílssjúkdómarnir, ofþyngd, háar blóðfitur og æðakölkun bætist við heildarmyndina. Smá saman gefur líkaminn sig almennt séð eins og á reyndar á við alla öldrun. Á þetta er líka minnt þegar konur rugla saman vöðvabólgueinkennum og brjóstverk vegna hjartaeinkenna. Hver er annars þessi djöfull sem leggur lífið svona gjörsamlega í rúst? Hvar eru vísindin sem hjálpa okkur svo oft en ekki þegar við eldumst fyrir aldur fram?

Meðferðin byggist mest á að minnka álag í daglega lífinu, minnka stress en auka líkamsþjálfun. Bæta þarf oft svefninn, stundum með lyfjameðferð tímabundið, sérstaklega til að tryggja meiri djúpsvefn, sjálfan hvíldarsvefninn. Að getað vaknað vel hvíldur og endurnærður eru töfraorðin sem allir þrá að upplifa. Sumir vilja jafnvel meina að rót vandans liggi í svefntruflunum fyrst og fremst. Aftur spurningin um hænuna eða eggið. Oft þarf því allsherjar lífsstílsbreytingu með breyttu mataræði. Stundum endurhæfingu með sjúkraþjálfun og sérhæfðri göngudeildarþjónustu.

Starfsendurhæfingarsjóðurinn VIRK býður oft upp á ýmiss úrræði fyrir þá sem eru við það að detta út af vinnumarkaðinum vegna sjúkdómsins. En ekki má gleyma heita vatninu okkar sem bætir alla líðan. Sundlaugar sem fínustu endurhæfingarstofnanir úti í heimi öfunda okkur svo mikið af. Eins útivistarmöguleikunum sem eru óendanlegir og takmarkið er alltaf það sama að ná fullri orku aftur.

Mikilvægt er að allir geri sér fljótt grein fyrir þeim fjanda sem vefjagigtin í raun er og leiti fljótt hjálpar. Lausnirnar eru fyrir hendi, ekki síst hér á landi í hulduheimum, það þarf aðeins að finna þær. Sem betur fer er sjúkdómurinn í byrjun ekki vefrænn heldur sállíkamlegur sem manngerist með tímanum. Félagslegt öryggi og sálræn vellíðan er forsenda fyrir batanum, eins og vöntunin var orsökin í upphafinu, ásamt góðri næringu og hreyfingu. Með því einu verður álögunum létt. Ekkert er ómögulegt í mannheimum og við vitum að það er hægt að reka hinu illu djöfla langt á haf út.

Áður birt á www.eyjan.is 19. feb. 2011 Vilhjálmur Ari Arason læknir.Flokkar:Meðferðir

Flokkar/Tögg, , , , , , , , , , , , ,

%d bloggers like this: