UMHVERFI OG SAMFÉLAG

Ævar Jóhannesson fékk heiðursviðurkenningu bæjarstjórnar og umhverfisráðs Kópavogs 2010 fyrir framlag sitt til umhverfis og samfélags.

29314968_1742445199110245_5760880062651957248_n

Ævar Jóhannesson fæddist að Fagranesi í Öxnadal 3. mars 1931 en ólst lengst af upp að Steðja á Þelamörk. Strax sem ungur drengur hafði Ævar mikinn áhuga á margs konar vísindalegu efni. Fyrst um sinn beindist sá áhugi aðallega að jurtum og blómum en um 10 ára aldur sneri hann sér að tæknilegum hlutum s.s. rafmagni, vélum og enn síðar að jarðfræði, stjörnufræði og læknisfræði. Ævar gerðist ungur félagi í Sálarrannsóknarfélagi Íslands og jafnframt í Guðspekifélaginu og gegndi þar formennsku um tíma.

Um þrítugt hóf Ævar að stunda ljósmyndun og stofnaði í félagi við annan mann framköllunarfyrirtækið Geisla árið 1961. Í vinnu sinni hjá Geisla fann Ævar upp nýja aðferð við framköllun litljósmynda en varð að gefa einkaleyfið frá sér vegna þess að hann sá sér ekki fært að greiða fyrir það. Fyrirtækið Kodak fór stuttu seinna að nota slíka aðferð við framköllun.
Ævar hefur mikinn áhuga á eldfjöllum og eldfjallafræði og sem áhugaljósmyndari hefur hann tekið myndir af fjölmörgum eldgosum á Íslandi. Þannig fór hann oft til Surtseyjar og fylgdist með nokkrum Heklugosum, Vestmanneyjagosinu og fleiri eldsumbrotum.

Árið 1974 hóf hann störf hjá Jarðvísindastofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands þar sem hann gat sameinað áhuga sinn á jarðfræði og vísindum og var hann sífellt að smíða ný tæki og tól s.s. íssjána og fleira.

Um langt árabil hefur Ævar skrifað greinar fyrir tímaritið Heilsuhringinn og hafa greinar, sem hann hefur þýtt og skrifað birst í nær öllum blöðum Heilsuhringsins, meðal annarra greinar um kvöldvorrósarolíu og kvikasilfurseitrun í tannfyllingum sem báðar urðu tilefni harðra deilna. Ævar gaf út ævisögu sína árið 2007 og heitir bókin „Sótt á brattann“.

Ævar hefur aflað sér mikillar þekkingar á sviði heildrænna lækninga- og næringarfræði. Veturinn 1988-1989 fór hann að prófa sig áfram með jurtaseyði sem hann hafði fengið upplýsingar um. Hann og kona hans Kristbjörg Þórarinsdóttir söfnuðu sjálf jurtunum en fljótlega gátu þau ekki annað því sjálf og fengu því hjálp frá fjölmörgum við söfnunina.  Í 22 ár hafa hjónin safnað jurtum og útbúið seyði á heimili sínu sem varð hið þekkta lúpínuseyði. Fjöldi þeirra sem fengu hjá þeim seyði var orðinn svo mikill að þau þurftu að sjóða jurtaseyðið tvisvar á dag eða um 110 lítra. Þessu seyði komu þau svo á flöskur sem sjúklingar hafa sótt til þeirra án endurgjalds í öll þessi ár. Með fjöldamörgum dæmisögum hefur verið sýnt fram á ágæti þessa lúpínuseyðis og margir segjast hafa hlotið bata af krabbameini eða öðrum sjúkdómum.

Ævar og fjölskylda hans hefur búið í Kópavogi frá 1962. Með óeigingjörnum störfum sínum hefur Ævar auðgað samfélagið og gefið mörgum einstaklingum styrk og kraft. Hann hefur nýtt náttúru Íslands á sjálfbæran hátt. Hann er frumkvöðull, mikill hugvitsmaður og mannvinur. Störf hans eru aðdáunarverð og hann er fyrirmynd í íslensku samfélagi.Flokkar:Annarra Skrif

Flokkar/Tögg, , , , ,

%d bloggers like this: