Ungir Íslendingar eiga Norðurlandamet í fjölda rekkjunauta

Tíðni leghálskrabbameins fer ört hækkandi hjá ungum konum, en talið er að HPV-vörtuveirusmit sé alltaf undanfari leghálskrabbameins. HPV-veirur smitast við kynmök, en aukinn áhrifavaldur er rakstur umhverfis kynfæri. Almenn bólusetning fór í biðstöðu við bankahrunið.

„Okkar litla þjóð grípur svo margt með hraði, útbreiðsla verður mikil og lífsstíll breytist hér ört. Þannig voru íslenskar konur með þeim fyrstu í heimi til að fara að reykja í stórum stíl snemma á síðustu öld, eftir því sem við höfum séð með því að fara aftur í tímann,“ segir Laufey Tryggvadóttir, klínískur prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Íslands, um mögulega skýringu á því hvers vegna íslensk ungmenni eiga Norðurlandamet í fjölda rekkjunauta.

Í norrænni könnun sem Laufey sá um fyrir Íslands hönd meðal ungra, íslenskra kvenna um þætti sem tengjast HPV-veirusýkingum árið 2004, komu í ljós örar breytingar á kynhegðun í samanburði við önnur Norðurlönd og að meðalfjöldi rekkjunauta hefur aukist hraðast á Íslandi með hverjum nýjum fæðingarhópi. Fjórðungur kvenna á aldrinum 18 til 45 ára, hvaðanæva af landinu, svaraði könnuninni.

„Uppsafnað nýgengi kynfæravarta hækkaði með hverjum nýjum fæðingarhópi og var orðið 20% fyrir 26 ára aldur hjá íslenskum stúlkum fæddum 1979 til 1986. Kynfæravörtur tengdust sterklega fjölda rekkjunauta og var áhættan tífalt hærri hjá konum með fimmtán rekkjunauta miðað við einn rekkjunaut. Íslenskar stúlkur höfðu því hæst algengi kynfæravörtusmits miðað við Danmörku, Noreg og Svíþjóð, og á Íslandi hefur verið hröðust aukning bæði á smiti og fjölda rekkjunauta,“ segir Laufey sem kallar eftir aukinni kynfræðslu í umsjá fagfólks. „Aðeins þriðjungur kvenna á Norðurlöndum hefur heyrt um HPV-veirusýkingar og lítil vitneskja um hversu hættulegar þær eru.

Okkur sýnist allt að ein af hverjum fimm ungum íslenskum stúlkum vera með kynfæravörtur, og þær eru jafnframt í aukinni hættu á að fá leghálskrabbamein. HPV-vörtuveirur hafa númeraða undirflokka og valda HPV-16 og -18 krabbameini,“ segir Laufey og bætir við að stúlkur virðist því miður ekki hugsa út í fortíð rekkjunautar síns áður en þær sofa hjá honum. „Til dæmis ef stúlka hefur mök við strák sem hefur sofið hjá tuttugu stelpum, þá tengist hún allri kynfæraveirusögu hans. Og ef ein af hans fyrrverandi hjásvæfum er búin að sofa hjá fjölda manna þá berst saga hennar með kynfærum stráksins og líkur á smiti eru verulegar.“

Að sögn Laufeyjar smitast 80 prósent kvenna af HPV-veirum einhvern tímann á lífsleiðinni, en ónæmiskerfið vinnur á flestum þeirra. „HPV-veiran smitast frá manni til manns við kynmök, en við endurtekið smit minnka líkur á að konan vinni bug á veirunni. Auk þess hefur komið í ljós að reykingafólk vinnur síður á henni en aðrir,“ segir Laufey sem vill sjá allar ungar konur, sem byrjaðar eru að stunda kynlíf, mæta í krabbameinsleit.

„Tíðni forstigsbreytinga hefur aukist meðal ungra kvenna og ef ekkert er að gert geta frumubreytingar þróast yfir í leghálskrabbamein, sem er í öðru sæti varðandi nýgengi krabbameina kvenna á heimsvísu og í fimmta sæti varðandi dánartíðni. Þetta er því dauðans alvara og mikið öryggi sem felst í því að láta skoða sig.“ Smitleið HPV-veira er langoftast við kynmök. Þær geta einnig smitast með beinni snertingu ef húð sem snertir kynfæravörtu er með sárum eða sprungum. Kossar geta líka smitað því HPV-vörtur geta brotist út í munni eftir munnmök og þekkt að HPV-vörtuveirur geti orsakað krabbamein í hálsi og munni.

Ragna Leifsdóttir er sérfræðingur í húð- og kynsjúkdómum, ásamt því að sitja í Sóttvarnaráði. Hún segir HPV-veirur þrífast best á kynfærasvæði. „HPV-veirur hafa tilhneigingu til að breyta frumum okkar svo úr verði krabbamein og þótt við höfum mestar áhyggjur af leghálskrabbameini geta karlar fengið krabbamein í getnaðarlim af völdum HPV-veira,“ útskýrir Ragna. Hún segir líkur á vörtusmiti aukast til muna þegar svæði umhverfis kynfæri eru rökuð.

„Við rakstur verður rof í húð sem hleypir inn hættulegum veirum og auðveldar smit milli manna.Við sjáum sjúklinga með ógrynni af vörtum á rakstursvæði því með rakstri hafa vörtur dreifst á stærra svæði. Vörtusmit er algengasti kynsjúkdómur okkar og afar þrálátur,“ segir Ragna sem brýnir fyrir stúlkum sem fengið hafa kynfæravörtur að láta skoða sig á leitarstöð Krabbameinsfélagsins.  „Þótt konur fái ekki köllunarbréf fyrr en tvítugar er oft ástæða til að fara fyrr. Frumubreytingar geta hafist löngu áður og ljóst að tíðni leghálskrabbameins fer hækkandi meðal ungra kvenna. Því er mikilvægt að fara sem allra fyrst hafi þær einhvern tímann fengið kynfæravörtur.“

Greinin er eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttru örlítið stytt en var áður birt í fréttablaðinu 27.4.2010. thordis@frettabladid.isFlokkar:Greinar

Flokkar/Tögg, , , , , ,

%d bloggers like this: