Lausnin – baráttusamtök gegn meðvirkni

Lausnin er hagsmunasamtök sem stofnuð eru með það að markmiði, að auka aðstoð við þá sem eiga við meðvirkni að stríða.  Einstaklinga sem eiga erfitt með samskipti á vinnustað, í námi, almenn samskipti, eiga erfið samskipti við börn og eða maka, nánustu fjölskyldu eða skyldfólk.  Lausnin var stofnuð í febrúar 2009 af þremur ráðgjöfum sem saman höfðu starfað að meðferðarmálum frá árinu 2000 á Teigi, áfengisskori Landspítalans og einnig í Foreldrahúsi/Vímulausri æsku.  Starfsemi Lausnarinnar er byggð á þekkingu og reynslu með megin áherlsu á 12 sporaleið AA, Al-anon og Coda samtakanna.

Lengi hefur hugtakið „meðvirkni“ verið eingöngu tengt við aðstandendur alkóhólista, en staðreyndin er önnur. Meðvirkni er að okkar mati stærsta heilbrigðisvandamál 21. aldarinnar og teljum við hjá Lausninni að meirihluti íslensku þjóðarinnar eigi við meðvirkni að stríða í einhverri mynd.

Meðvirkni mótast alltaf í æsku.  Meðvirkni verður til þegar einstaklingur (barn) býr við langvarandi vanvirkar aðstæður, t.d. býr með meðvirkum einstaklingi, virkum fíkli, langveikum einstaklingi, einstakling með geðraskanir.  Býr við ofbeldi, andlegt eða líkamlegt, býr einungis með öðru foreldri, hefur upplifað einelti í skóla, er með ofvirkni, athyglisbrest, lesblindu, hefur upplifað skilnað eða rótleysi hvað varðar búsetu.  Allt upptalið hér á undan og meira til, skapar vanvirkni í lífi einstaklinga.  Það að búa við vanvirkni breytir einstaklingnum, skerðir eða brýtur niður sjálfsmat og þar af leiðandi fer einstaklingurinn að tileinka sér meðvirkt háttalag við ákveðnar kringumstæður.  Einstaklingurinn fer að haga sér öðruvísi en honum er í raun eðlislægt.

Einkenni meðvirkni eru mörg og ætla ég hér að nefna nokkur.  Eitt helsta einkenni meðvirks einstaklings er brotin sjálfsmynd, og er lágt sjálfstraust undirliggjandi í öllum gjörðum meðvirkils.  Meðvirkur einstaklingur setur aðra, einu yfir eða einu undir, þ.e.a.s. ber óttablandna virðingu fyrir ákveðnum einstaklingum eða lítur niður á, talar illa um, gerir lítið úr örðum, sem sagt telur sig á einhvern hátt vera betri eða verri.  Meðvirkur einstaklingur á erfitt með að standa með sjálfum sér eða valtar yfir aðra.  Meðvirkur einstaklingur getur átt erfitt með að skilgreina tilfinningar sínar og reynist því oft erfitt að setja öðrum mörk.  Einnig getur meðvirkur einstaklingur verið markalaus og þar með gengið inn á mörk annarra, hvort sem um er að ræða tilfinningalega eða hvað varðar nálægð.

Meðvirkur einstaklingur getur verið mjög stjórnsamur en aðrir meðvikir eru mjög eftirgefanlegir, ósjálfstæðir og vilja láta aðra segja sér hvað er rétt, hvað er flott og hvað er gott o.s.frv.  Meðvirkir einstaklingar sinna ekki þörfum sínum og þrám, þeir eiga oft ekki áhugamál fyrir utan fjölskylduna. Þeir aðlaga sig að aðstæðum, reyna að styggja fólk ekki og aðlögunarhæfnin er framúrskarandi.  Meðvirklar eru fram úr hófi trúir öðrum og koma sér illa og seint úr skaðlegum aðstæðum, þeir meta skoðanir og tilfinningar annarra meir en sínar eigin, finnst annað fólk ófært um að sjá um sig sjálft, fara hjá sér við að fá hrós, gjafir eða viðurkenningu og helga sig óeigingjarnt og einarlega velferð annarra.  Hér er aðeins hluti þeirra einkenna, sem lita háttalag meðvirks einstaklings og má finna nánari upplýsingar á vef Coda samtakanna www.coda.is eða á vef Lausnarinnar.

Ef þú telur þig eiga við meðvirkni að stríða, eða ert í vafa þá hafðu endilega samband, það er engu að tapa en að miklu að vinna ef lausnina er að finna hjá okkur.

Kjartan Pálmason
Framkvæmdastjóri Lausnarinnar
www.lausnin.is



Flokkar:Greinar

Flokkar/Tögg, , , ,

%d